sunnudagur, 6. apríl 2008

Grindaskörð



Það jafnast ekkert við að skella poka á bakið með tjaldi og búnaði og halda til fjalla og njóta hins fullkomna frelsis að ráfa um ósnortnar víðlendur íslenska hálendisins.

Að vetri koma gönguskíðin í stað gönguskónna og á björtum degi eins og hefur verið nú um helgina leita margir göngumenn á Hellisheiðina og njóta þess að vera með sjálfum sér í náttúrunni.
Mörgum finnst hálendið, þar á meðal undirritaður, jafnvel fegurra á fallegum vetrardegi en um sumar.

Það eru allmargar vinsælar skíðagönguleiðir á Hellisheiðinni ein af þeim vinsælli er frá Bláfjallaskálanum og niður í Grindaskörð, en þangað eru tæplega 7 km og litlar hæðarbreytingar. Þessi leið er merkt gönguleið og hluti sumargönguleiðar frá Reykjanestá að Hengli.

Um Grindaskörð lá áður þjóðleið frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Grýtt og seinfarin, en sú stysta og helst farinn á veturna á harðfenni.

Uppruni nafnsins er rakinn til þess að þar hafi verið mikill skógur og Þórir haustmyrkur landnámsmaður í Selvogi hafi lagt veg um skörðin og sett þar raftagrind í eitt skarðið.




Það er auðvellt að fara sporin sem starfsmenn Bláfjallasvæðisins leggja, en eins og færið er nú er auðveltt að fara hvert sem er um alla háheiðina.
Bæti hér við fyrstu færsluna, eftir skemmtilegt innlegg "nafnlaus"
Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m y.s.

Þegar nýji vegurinn var lagður frá Krísuvíkurveginum upp í Bláfjöll opnaðist þetta svæði fyrir marga þar sem vegurinn liggur rétt fyrir norðan skörðin.

Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar ( á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir.

Útsjón frá Bollunum er mikil. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum.

Í sjóndeildarhringnum er byggðin á Reykjanesinu, Hafnarfirði og Kjalarness. Og í fjarsýn blasir Snæfellsnesið með hinn dulúðuga útvörð Snæfellsjökulinn. Hér er margt annað að skoða, t.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur : “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt folk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eru þessi gömlu örnefni og uppruni þeirra.
Okkar landnámsmenn voru sjómenn og komu af hafi og þeir nýttu hafi bæði til ferða og matarfanga.
Mikið af þessum örnefnum bera þessa merki. T.d Hvalhnjúkur sem af hafi séð minnir á hval sem kemur upp til öndunar, hvalhnjúkur er skammt sunnan Grindarskarða. Utan af Faxaflóa séð líkjast Grindarskörðin mjög grindhvalavöðu. Þannig að mér finnst nafngiftin sú sennilegri.
Síðan eru ýmsar nafngiftir sem augljóslega eru tilkomnar frá smalamönnum- Kerlingaskarð-Kerlingagil,Stórkonugjá
Allt nöfn sem eru þarna kringum Grindarskörðin.

Svona til gamans

Nafnlaus sagði...

Og synir mínir tveir röltu Selvogsgötu í dag, úr Selvogi

Guðmundur Rúnar

Nafnlaus sagði...

Góður pistill félagi Guðmundur, mun prenta hann út fyrir karl föður minn sem var áhugamaður um Selvogsgötu hér áður fyrr og bróðir hans, Sigurbjörn Kristinsson, listmálara, sem málaði myndir af vegstæðinu. Kveðjur að austan.

Sverrir Albertsson