þriðjudagur, 8. apríl 2008

Lausn eftirlaunavandans


Hvernig myndir þú taka á eftirlaunavandanum Guðmundur? Þessari spurningu var beint til mín um daginn.

Áður en ég svara þá er nauðsynlegt að draga fram nokkur atriði. Það er áberandi þegar alþingismenn og reyndar nokkrir aðrir opinberir starfsmenn fjalla um laun sín, þá tala þeir ætíð um grunnlaun sín. Þegar þeir ræða launahækkanir taka þeir aftur af móti mið af heildarlaunakostnaðarauka sem samið er um á almennum markaði og bera grunnlaun sín saman við meðallaun á almennum vinnumarkaði .

Á því er verulegur munur. Þegar rætt er um meðallaun er þar innifalið allir bónusar, eða aðrar greiðslur auk meðalyfirvinnu. T.d. eru grunnlaun rafiðnaðarmanna nálægt 230 þús. kr. en meðallaun um 430 þús. kr.

Þegar forsvarsmenn launamanna á almenna markaðnum mæta í Karphúsið og hitta þar fyrir forsvarsmenn fyrirtækjanna er ætíð talað um heildarlaunakostnað. Í stuttu máli þá ganga kaupin á Eyrinni þannig fyrir sig að það verður samkomulag um hvaða svigrúm sé til þess að auka heildarlaunakostnað, og getur t.d. orðið 6%. Það er svo lagt í hendur samningamanna launamanna hvernig eigi að nýta það. Á að nýta það allt til launahækkunar eða að hluta til í annað, eins og t.d. lengra orlof eða hækkun mótframlaga í lífeyris- eða séreignarsjóði, eins og gert hefur verið í undanförnum 3 kjarasamningum.

Niðurstaðan gæti orðið sú að almenn launahækkun verði ákvörðuð 3%. Að auki fari 1% heildarlaunakostnaðarauki í sérstaka hækkun lægstu taxta, 1% í hækkun greiðslna í lífeyriskerfi og 1% í lengingu orlofs og fjölgun veikindadaga.

Þegar samið var um að hækka framlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð úr 6% í 8% og eins þegar samið var um að vinnuveitendur leggðu 2% í séreign, þá var það tekið inn í heildarlaunakostnaðarauka og minnkaði svigrúm til launahækkanna sem því nam.

Þegar þingmenn og nefndir þeirra taka ákvarðanir um launahækkanir sínar þá taka þeir ætíð mið af þeirri prósentutölu sem er heildarlaunakostnaðarauki. Í dæminu hér að ofan hefðu laun þingmanna átt að hækka um 3%, en þeir nota aftur á móti ætíð heildarkostnaðaraukann og hækka laun sín um 6%.

Þrátt fyrir að það blasi við að þeir séu með margskonar risnu og kostnaðargreiðslur sem ekki eru taldar í kjörum þeirra. Þó svo þeir séu í hóp þeirra sem liggja í efri launalögunum, þá nýta þeir launakostnaðarauka sem hlýst af því að hækka lægstu laun sérstaklega til þess að lyfta sínum launum upp.

Einnig er fyrir utan sviga hjá þeim launakostnaðarauki vegna lífeyris- og eftirlauna, veikindadaga og orlofs.

Á þessum forsendum blöskrar manni ætíð þegar þingmenn eru boðaðir í umræðuþætti til þess að fjalla um launakjör annarra. Þeir tala af þvílíkri fákunnáttu að það er ekki boðlegt fyrir launamenn að hlusta á það. Reyndar verður að segjast eins og er það er kostulegt að spjallþáttastýrendur og fréttamenn skuli nánast alltaf leita til þingmanna þegar fjallað er um laun og niðurstöður kjarasamninga. Eins og var ítrekað gert í vetur. Það er ekki heil brú einu einasta atriði sem þeir segja.

Og þá kem ég loks að milljón dollara spurningunni. Það á að setja ákvarðanatöku um laun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna í hendur forseta og framkv.stj. SA og ASÍ og ríkissáttasemjara. Það á að greina heildarlaunakostnað alþingismanna og ráðherra í dag og ákvarða laun þeirra með hliðsjón af því og setja þau í samskonar form og þekkist á vinnumarkaði.
Það myndi líklega þýða að grunnlaun þeirra myndu hækka um 20%, en síðan væri greitt í lífeyrissjóði eins og hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Auk þess ætti að greiða í séreignarsjóð upphæð sem samsvari um 6% af launum þeirra, auk 2% framlags þeirra sjálfra. Þetta væri gert vegna ótryggs atvinnuöryggis og er vel þekkt.

Þá myndi ríkja friður um þessi mál. Einkennilegt og ótrúleg glámskyggni svo ekki sé meira sagt að ráðherrar skuli hafa valið þann kost að standa í styrjöld við þegna landsins vegna þessa máls og uppskera að einungis 25% landsmanna bera traust til þeirra eins og fram hefur komið í viðhorfskönnunum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Það er mjög óþægilegt að lesa gult letur á bláum grunni. Breyting á því væri vel séð.

Kv.
Arnar