laugardagur, 19. apríl 2008

Sársaukamörkum náð

Hann verður soldið langur pistillinn að þessu sinni, sakir þess hve mikið er í húfi þessa dagana.

Nú liggur það fyrir enn einu sinni að verkalýðsforystan verður að hafa frumkvæði til þess að leysa úr efnhagsvanda hins íslenska samfélags. Það hefur reyndar ætíð verið svo ef við lítum yfir farinn veg. Efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins er komin í þrot og hefur leitt yfir íslenskan almenning gríðarlegan vanda. Ástandið í dag minnir nokkrar stöður frá fyrri árum.

Forsætisráðherra nýtir hvert tilefni til þess að hamra á því að þetta sé ekki honum að kenna heldur einhverjum í útlöndum, vegna þess að nú geta ráðherrar ekki kennt einhverjum embættismönnum um ástandið. Þeir þora ekki að skamma Seðlabankastjórnina. Ég spyr enn einu sinni, af hverju er þá ekki sama ástand í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi?

Það liggur fyrir að við munum ná betri tökum á efnahagsóstöðugleikanum innan ESB. Það mun leiða til lægri vaxta og lægra verðs á neysluvörum og við munum búa við sambærilegan stöðugleika og er í nágrannalöndum okkar. Lönd sem sífellt fleiri íslendingar setjast að í og sífellt fleiri sem leita þangað til aukinnar menntunar koma ekki heim. Þetta var svo áberandi í ræðunum sem fluttar voru á ársfundi SA. Það er akkúrat það sem forsvarsmenn atvinnulífsins óttast mest, mannauðseklu. Við byggjum ekki upp framsækin fyrirtæki með aðfluttu lítt menntuðu vinnuafli. Og öll helstu hátæknifyrirtæki okkar hafa nýverið gefið út yfirlýsingar um að þau sjá sína framtíð annarsstaðar en á Íslandi.

Erum við tilbúinn til þess að ganga í gegnum þann táradal sem við blasir ef við ætlum okkur inn í ESB? Það er erfið ákvörðun og ekki síst þar sem það blasir við okkur í verkalýðsforystunni að verða að hafa frumkvæði til þess að stíga fyrstu skrefin. Það mun leiða til minni spennu á vinnumarkaði, minni yfirvinnu og nokkuð tímabundið atvinnuleysi.

En það kostar okkur a.mk. 6% atvinnuleysi á landsvísu ef við ætlum að halda áfram í krónuna. Það þýðir í raun yfir vel yfir 10% atvinnuleysi innan ASÍ, því það bitnar verst á almenna markaðnum. Krónan er að leiða yfir íslenska launamenn yfir 10% kaupmáttarlækkun á næstu 2 – 3 misserum. Þá skiptir litlu þó launin séu hækkuð og verði enn hærri, eins og Hannes aðstoðarframkv.stj. SA lýsti svo skilmerkilega í gær. Efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins eyðileggur þetta allt saman í höndum okkar með stefnu sinni og sársaukamörkum atvinnulífsins er náð.

Stjórn Seðlabankans veit að eina leiðin til þess að ná verðbólgumarkmiðum sínum er að ná niður íbúðarverði, henni er slétt sama hvaða afleiðingar það mun hafa fyrir skuldsettan almenning. Davíð segir að það sé ekki hægt að taka lán erlendis til þess að auka gjaldeyrisforðann, vegna þess að kjörin séu óásættanleg. Þessu skellir hann með sakleysissvip framan í okkur, þó vitanlega blasi það við að ef kjörin væru ásættanleg þá væri ástandið þannig að við þyrftum ekki að taka lán.

Ég spyr, Höfum við yfirhöfuð það traust sem þarf til þess að fá stórt lán. Mér sýnist að efnhagsstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi komið samfélagi okkar í þá stöðu að okkur standa einfaldlega ekki til boða nein erlend lán. Eina leiðin er að fá erlenda auðhringi til þess að koma með fjármagn inn í landið og reisa stóriðjuver. Nema þá að fá erlend hlutabréf lífeyrissjóðanna lánuð til þess að setja í pant fyrir stórum lánum. Er það ásættanleg áhætta fyrir almenning sem á lífeyrissjóðina? Ég sé ekki að sú ákvörðun verði tekin nema samhliða alvöru ákvarðanatöku til langtíma og þá um heildstæða og vitræna stefnu. Ekki flokksgæðingavernd.

Ég minni lesendur mína á þá staðreynd að það voru launamenn sem sömdu um lífeyrissjóðina á sínum tíma. Stjórnmálamenn koma þar hvergi nærri. En þeir hamast reyndar viðað hrósa sér af myndum þeirra.

Íslenskir stjórnmálamenn eru mótaðir í Morfískeppnum og búnir til í dægurkeppni prófkjöranna eftir að hafa starfað við hlið þingmanna í stofnunum flokkanna. Þeir hafa ekki getu og þaðan af síður áræðni til þess að taka svona sársaukafullar ákvarðanir. Þetta sáum við svo vel í síðustu kosningum, þar sem forysta Sjálfstæðisflokksins hjúpaði sjálfa sig með blekkingarskýi glæstrar efnahagstjórnunar byggðri á ofsafenginni skuldsetningu og yfirþennslu í efnahagslífinu. Nú stendur hún nakinn og það blasir við almenning að skýið var þoka yfirlýsinga innistæðulauss sjálfshóls.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til vikið sér undan langtímamarkmiðsetningu stöðugleika og stígandi kaupmáttar, eins og við þekkjum úr nágrannalöndum okkar, með því að ganga ætíð lengra fram í þennslu. Ástæðan virðist sú ein að Flokkurinn óttist að glata þeim völdum sem hann hefur á íslensku þjóðfélagi.

Við blasir áframhald niðurlægingar á efnahagsbraut Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum ætíð stærri framkvæmdir til þess að halda þessu gangandi. T.d. dugði á sínum tíma stækkun Straumsvíkur og Hrauneyjar til þess að kippa þessu í liðinn og svo lítið álver Norðuráls og Blönduvirkjun, og svo bygging Flugstöðvarinnar og Kringlan, og svo Smáralindin, og svo tvöföldun Norðuráls og bygging Sultartangavirkjunar og svo Kárahnjúkarnir og Fjarðaál.

Nú þurfum við byggingu Háskóla Reykjavíkur, Óperuhúss með stóru hóteli, Landspítala, álver í Helguvík ásamt gagnaveri á Reykjanesi með gufualfsvirkjunum á Reykjanesinu og Hellisheiði. Á sama tíma gagnaver í Þorlákshöfn og virkjanir í neðri hluta Þjórsár og álver á Bakka og gufuaflsvirkjanir við Þeistareyki, til þess að ná okkur út þessu. Þá getum við lifað áfram með Flokknum við svipaðar aðstæður fram til 2014.

En hvað þá? Kannski skiptir það ekki miklu því það verður vandamál annarrar kynslóðar og núverandi ráðamenn búnir að gulltryggja sig með glæsilegum og vinalegum kampavínseftirlaunasjóði gulltryggðum með óútfylltu risaávísanhefti á ríkissjóð undirrituðu af þáverandi forsættisráðherra Davíð Oddssyni.

Og ég spái því að Egill Eyjufélagi minn verði fluttur ásamt Kára til Grikklands þegar að þessu kemur. Jafnvel þó flugvöllurinn verði þá farinn úr Vatnsmýrinni.

8 ummæli:

Björgvin Valur sagði...

Ég vil gera byltingu.

En hvað þarf mikið til að víð rísum upp og hendum þessum ónýtu pólitíkusum af okkur?

Nafnlaus sagði...

VG er búinn að segja allt þetta sama í 10 ár. Menn vilja ekki kjósa VG og þess vegna sitja menn uppi með vitleysuna.
Hreinn K

Nafnlaus sagði...

Nokkrar spurningar.
Hversvegna kýs fólk alltaf þetta lið á þing? Er eitthvað betra í boði? Hvar eru allir sem virkilega vilja gera eitthvað í málunum? Hversvegna verðum við að kjósa heilann ónotæfann flokk til að fá einn eða tvo góða stjórnmálamenn inn (sbr Jóhanna Sigurðardóttir)
Hvað getum við, venjulegir íslendingar gert... orðin svona löt og nennum varla upp úr sófanum til að mótmæla almennilega. Æ, það má heldur ekki, það eru skrýlslæti...

Agnes

Nafnlaus sagði...

... hárrétt hjá þér. Ég verð var við það í mínum hring að menn skilja ekkert í aumingjaskapnum. Því miður er það þannig að til hópa eru okkar pólitíkusar um þessar mundir að mjög litlu leiti menn athafna og eins og þú segir, trúir á leiðir útúrsnúninga og orðgagjálfurs. Það er betra að gera bara ekkert en að hætta á að menn geti gert eitthvað sem kostar þá sæta-sætið.

Það hljóta margir kjósendur sem hafa eins og ég verið að velja þetta fólk til valda að vera að hugleiða sinn gang með það hvernig hægt sé að fá betra fólk inn í pólitíkina og skipta út fólki.

Góður pistinn, alveg sammála

Nafnlaus sagði...

Er það virkilega svo, að fjármálaráðgjafar úr kauphöllinni geti pantað aðgang að lífeyrissjóðunum og þá sé hlaupið til í fjármálaráðuneytinu og prentuð ný lög sem að verða svo samþykkt að eigendum forspurðum, þið forustumenn verkalýðs spurðir, einhverjir segja humm og jæja, ef þetta gengur eftir, held ég að rétt sé að heimta lög sem losi menn úr því helsi, sem er skyldu aðild að sjóðum sem við höfum ekkert um að segja.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur pistill þinn er góður og síst of langur. Varðandi það að lífeyrisjóðum sé heimilt að lána hlutabref sín út í skortstöður, get ég ekki annað séð en það gefi sjóðunum meiri ávöxtun á hlutabréfaeign sína, sem hlítur að vera af hinu góða. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki pólitískur flokkur, heldur regnhlífarsamtök um völd og frama, og hefur verið svo í áraraðir, og hefur nýtt afl sitt til að útdeila stöfum og öðrum gæðum til útvaldra, og eins gott að vera þar innanborðs. Seðalabankinn er viðundur, og með hávaxtastefnu sinni hefur hann kynnt á verðbólubálið, auk þess að halda uppi gengi kr, langt umfram raunvirði hennar, og jafnvel með stuðningi ykkar verkalýðsforkólfanna. Auðvitað flytjast hátækniiðnaður og annar samkeppinsiðnaður úr landi er býr við kolranga gengisskránigu.
Það er eins og þér og öðrum verkalýðsleiðtogum sé ekki ljóst að um verulega kjaraskerðinu er að ræða á næstu árum, auk verulegs atvinnuleysi, stundum þarf að horfast í augu við staðreyndir.

Nafnlaus sagði...

Frekar dökk skrif en.. sársaukamörkunum er náð. Og það á eftir að semja við fleiri á vinnumarkaðinum.

Nafnlaus sagði...

Ááá-i!
Einhverjum gæti sviðið pínu undan þessum pistli en mikið rosalega er ég sammála.
Hvað aumingjasnobb er þetta á þjóðinni að kjósa alltaf heiladauða einstaklinga yfir sig? Björgvin spyr hvað þurfi mikið til að við rísum upp. Meðan fólk hefur að borða og getur elt gylliboðin á raðgreiðslum gerir það ekki annað á meðan, því miður.