sunnudagur, 5. desember 2010

Stjórnlagaþing

Nú hafa nýkjörnir þingmenn Stjórnlagaþings komið saman og farið yfir undirbúning þingsins sem hefst um miðjan febrúar. Ljóst er að þingið mun kalla á umtalsverða vinnu og gögn sem þarf að fara yfir eru mikil að vöxtum. Væntingar eru miklar til þingmanna um að þeim takist að skila tímabærri endurskoðun á stjórnarskránni. Sé litið þeirrar umræðu sem fram fór á undirbúningsfundinum virðist vera breið samstaða þingheims um mörg af helstu málum sem fyrir liggja og ástæða til bjartsýni um árangursríkt þing.

Óhætt er að fullyrða að væntingar um drengilega og ígrundaða umræðu á Stjórnlagaþingi eru miklar meðal almennings. Þolinmæði almennings gagnvart átakaræðulist og klækjapólitík er engin í dag. Fólk vill heyra siðmenntað samtal velmeinandi fólks um framfarir og umbætur á umgjörð samfélagsins. Ný stjórnarskrá geti orðið að sáttmála og nýtt upphaf þar sem deilur verða settar til hliðar og þjóðin nái að sameinast að nýju.

Sú nefnd sem Alþingi kaus til að undirbúa stjórnlagaþingið mun leggja fram tillögur auk niðurstöðu nýafstaðins Þjóðfundar. Það eykur líkur á að árangur náist. Alþingi hefur brugðist því fyrirheiti frá 1944 að endurskoða stjórnarskrána í heild. Stjórnmálastéttin því talin óhæf til þess verks. Sú ábyrgð liggur hjá nýjum Stjórnlagaþingmönnum að tillögur að breyttri stjórnarskrá verði þannig að mikill meirihluti þjóðarinnar geti sameinast um þær.

Undanfarna daga hafa margar spurningar borist til hinna nýju þingmanna þar sem fjölmiðlar og hagsmunaaðilar vilja fá já eða nei svör við tilteknum atriðum. Oft eru spurningarnar þannig að það er útilokað að svara með einu orði, en þetta er viðtekin venja hjá fjölmiðlum, búa til hasar og draga fólk í með eða á móti dilka. Það blasir við ef litið er til síðustu ára að sú umræðulist skilar okkur engu, ekkert miðar og deilur vaxa frekar en hjaðna með slíku vinnulagi.

Í samræðu setja menn fram sín sjónarmið og hlusta á rök annarra og vinna að sameiginlegri og skynsamlegri niðurstöðu. Óskandi væri að fjölmiðlar yrðu þátttakendur í þessu starfi frekar en að leggja allt í sölurnar í að búa til fylkingar og etja þeim saman. Fólk vill sjá upplýsta og nærandi umræðu um störf þingsins, eitthvað sem samfélagið þráir eftir hamfarir undanfarinna missera. Þær spurningar sem liggja fyrir Stjórnlagaþingmönnum eru ekki einfaldar og þær krefjast vandaðrar ígrundunar og skoðanaskipta, sú niðurstaða sem þjóðin kallar eftir verður ekki til í hanaslag og keppni í útúrsnúningum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikil vinna þetta stjórnlagaþing greinilega. Hver tekur við af þér hjá RSÍ á meðan þú sinnir þessu verkefni? Ætlar þú að hætta þar eða bara taka tímabundið leyfi? Af þessari lýsingu er augljóst að seta á þessu stjórnlagaþingi er það umfangsmikið verkefni að þú munt ekki geta sinnt öðrum störfum meðfram.

Guðmundur sagði...

Ef þú ert félagsmaður þá veist þú að starfsmenn RSÍ eru 11, auk þess koma hingað inn trúnaðarmenn og stjórnarmenn til tímabundinna starfa, séu tímabundin verkefni mikil eða starfsmaður hverfur til skamms tíma í nám eða önnur störf. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að hin 18 manna miðstjórn sambandsins hafi ekki fullt vald á þessu verkefni og það hefur verið rætt.