sunnudagur, 26. desember 2010

Umhverfi okkar


Skrifstofuglugginn minn snýr að Grafarvoginum, þar er mikið fuglalíf. Vogurinn tæmist á fjöru og upp koma leirur með fullar af æti. Skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins eru við suðurbakka vogsins og hann er nokkuð brattur. Oft uppstreymi sem krummi og mávarnir nýta til þess að svífa fram og tilbaka.

Ef hvessir bregða krummarnir á leik. Það gaman sjá til flugkúnsta þeirra í uppstreyminu. Þeir fljúga oftast tveir og tveir saman. Velta sér og fljúga á hvolfi velta sér og fara kollhnísa. Oft tekur einhver þeirra spýtukubb og þeir slást um að ná honum á fluginu. Mest gaman er að horfa til flugæfinganna þegar einhver þeirra tekur steinvölu flýgur með hana hátt upp og sleppir henni síðan. Þá steypa þeir sér á eftir henni og keppast um hver sé fyrstur á ná völunni. Snillingar í loftfimleikum.

Við blasir botn vogsins þar sem stendur ónýtt Keldnalandið. Besta staðsetning Landspítalans. Vegamót Vesturlands- og Suðurlandsvegar eru við Keldnalandið. Greiðar leiðir til miðborgarinnar og byggðanna sem eru sunnan við höfuðborgina og til Suðurnesja. Stutt til Geldingarnessins þar sem innanlandsflugið og samgöngumiðstöð væru vel staðsett eftir að 30 ára áætlanir um Sundabrautin yrðu að veruleika. Og við myndum minnka umferð um Miklubrautarhnútinn um einn 5000 manna vinnustað.

Tófan er farinn að rápa um húsgarðana hér í austurbænum segja fréttir. Rebbi hefur fengið frið og gengur á lagið. Rjúpu fækkar, skyttur bölva og jólavenjur eru í hættu. Skolli er klókur og duglegur að bjarga sér, fjölgar sér hratt sé til þess svigrúm. Þetta sést vel sé litið eftir mófugli, sem sumstaðar er nánast horfinn.

Þessa þróun hef ég séð í gönguferðum um Hornstrandir. Melrakki hefur áttað sig á að honum er ekki bráður bani búinn nálgist hann manninn. Frekar að nálægðin sé launuð með góðum bita og kátum kveðjum. Nú er svo komið þegar sest er við tjaldskörina að kvöldi við eldamennsku, kemur Rebbi og sníkir bita og fær fagnandi móttökur, en lætur ekki þar við sitja bölvaður. Ganga þarf vel frá vistum að kvöldi inn í tjaldi, annars stelur Skuggabaldur því yfir nóttina. Gaggandi sendir hann tjaldbúum kveðjur úr hlíðinni ofar tjaldstæði.

Ef maðurinn gengur til veiða verður að huga að heildstæðri mynd. Gengur ekki að veiða einn hluta keðjunnar og svo undrast að hlutföll raskist. Dýrbíturinn er mun duglegri en við til veiða. Fjölgar sér og sækir ekki bara í fuglinn tekur einnig eggin. Að því loknu sækir hann til byggða, hann er fallegur, en það er rjúpan líka.

Ég er af þeirri kynslóð íslendinga sem var send í sveit og var norður í Húnaþingi. Þá lauk skólanum í lok apríl og byrjaði aftur í byrjun október. Á sumrin var ég sendur reglulega frá bóndabýlinu upp á hálendið á hestum í hin fjölmörgu vötn sem þar eru og þar veiddum við silung í net. Maður óð út í vötnin alveg upp að öxlum með netin og síðan var beðið og vitjað í þau um miðnætti og svo eldsnemma morguns. Þegar búið var að veiða eins mikið og komst fyrir í töskunum á hestunum fórum við heim aftur.

Það var ólýsanleg upplifun að vera aleinn 30 km. frá næsta sveitabæ, út í miðju heiðarvatni upp á hálendinu. Oft kom þoka á kvöldin þannig að maður sá einungis nokkra metra frá sér. Kyrrðin var algjör utan þess að himbriminn vall með sínu undurfagra hljóm. Oft var það þannig að hann festist í netunum og ég þurfti að eyða löngum tíma til þess að losa hann án þess að skaðast. Minkurinn skaust um í bakkanum og reyndi að stela sér nokkrum fiskum af aflanum og endurnar héldu sér í hæfilegri fjarlægð. Á björtum sumarnóttum lærir maður að meta íslenskt hálendi.

2 ummæli:

Guðrún Ægisdóttir sagði...

Þessu gleymi ég heldur aldrei; Veiðunum í Arnarvatnslæk til dæmis- 11 ára í sveit í Svartárdalnum. Og maður fékk að vera úti alla nóttina. Ég man best kyrrðina. Mig minnir meira að segja að við höfum stundum vaðið út í og bara mokað silungnum upp með höndunum. - Svo bara hvarf sveitadvöl hægt og hljótt úr íslenskum veruleika.

Adalsteinn Agnarsson sagði...

Flottur!