fimmtudagur, 16. desember 2010

Undirbúningur kjarasamninga

Við erum mörg sem finnst lítið hafa miðað frá Hruni, of mikilli orku eytt í átakastjórnmál og koma höggi hver á aðra. Skeytingarleysi hafi verið of áberandi í samfélaginu, of margir hafi látið eins samfélagið sé eitthvert náttúrulögmál, sem renni áfram undir stjórn einhverra annarra. En ábyrgð fylgir öllum þeim sem hafa verið þátttakendur í samfélaginu, en óþolinmæði og skeytingarleysi hefur verið of áberandi, of margir sem fylgdu straumnum umhugsunarlaust.

Við verðum að spyrja okkur sjálf hvernig samfélag viljum við vera? Samfélag sem hefur laskast þarf að endurskoða sig og hefja uppbyggingu með öðrum aðferðum en áður voru notaðar. Skortur á heildarsýn og langtímamarkmið er veikleiki íslendinga. Á meðal rótgróin samfélög hugsa í mannsöldrum, gera íslendingar áætlanir í misserum. Mikið á að fást strax. Til þess að öðlast mikið þarf að leggja mikið á sig. Allt fæst ekki fyrir lítið. Sá sem er of góðu vanur verður oft firringunni að bráð.

Fyrir liggur eitt erfiðasta ár íslendinga, mikill niðurskurður og í undirbúningi eru kjarasamningar fyrir alla launamenn. Ríkisstjórnin hefur ásamt atvinnurekendum lagt til að gerður verði a.m.k 3ja árasamningur. En mörg stéttarfélög hafa hafnað því, en jafnframt bent á að sé litið til heildarhagsmuna samfélagsins er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust ríkja milli aðila. Það traust er ekki til núna og ekki hefur það batnað með tillögum ríkisstjórnar í nýjum fjárlögum.

Þar er ekki staðið við ákvæði sem ríkisstjórnin eru í gildandi samkomulögum um atvinnuleysistryggingasjóð og starfsendurhæfingarsjóð. Gert er ráð fyrir að atvinnutryggingagjald skili 30,6 mia.kr. á næsta ári en að heildarkostnaður atvinnuleysistryggingarsjóðs verði 22,8 mia.kr. Ríkissjóður ætlar semsagt að taka til sín 7,8 mia.kr. úr atvinnuleysistryggingarsjóð í önnur verkefni á næsta ári. Þetta jafngildir því að ríkissjóður hrifsi til sín sem nemur 1% af launasummunni án skilgreiningar.

Í nýju yfirliti frá Hagstofunni yfir laun 7.500 félaga innan ASÍ byggðu á pöruðum launauppgjörum fyrirtækja kom m.a. fram að á þeim samningstíma sem nú er að renna út (sept. 2007 - sept. 2010) hafi laun innan ASÍ hækkað að meðaltali um 18%. Umsamdar lágmarkshækkanir voru tæplega 13%. Laun iðnaðarmanna hækkuðu að meðaltali um 14%. Laun verkafólks hækkað að meðaltali um 23%, þar spila sterkt inn sérstakar hækkanir á lægstu töxtum.

Það eru ekki kjarasamningar sem hafa mest áhrif á raunlaun okkar og kaupmátt, það er gengi krónunnar sem spilar þar mest inn. Á þessu tímabili hefur kaupmáttur félagsmanna ASÍ fallið að meðaltali um 9,7%. Kaupmáttur iðnaðarmanna hefur fallið um 12.8%. Kaupmáttur tæknifólks hefur fallið um 11.4%. Kaupmáttur skrifstofufólks hefur fallið um 9.5%. Kaupmáttur verkafólks hefur fallið um 6.3%.

5 ummæli:

Hallur sagði...

Sæll
Ég geri ráð fyrir að þér sé kunnugt um að tryggingagjald er greitt af atvinnurekendum. Sér merktur skattur.

Guðmundur sagði...

Ég geri ráð fyrir því að þeir sem þekkja til kjaramála átti sig á því að þegar samið er um launatengd gjöld eins og t.d. hækkun á tryggingargjaldi er það á almunnum vinnumarkaði réttilega reiknað sem launakostnaðarauki, sem þýðir að launamenn eru að gefa eftir. Það var gert í þessu tilliti þar sem menn vildu tryggja betur stöðu félaga okkar sem verða atvinnulausir.
Þetta skiptir, eins og ég geri ráð fyrir að menn átti sig á, launamenn á almennum markaði miklu, en skiptir aðra launamenn minna og suma engu, enda búa þeir í bómullarveröld tryggðri af launamönnum á almennum markaði. Það endurspeglast vel í umræðum sumra um þessi gjöld.

Nafnlaus sagði...

Góð grein snýr að kjarnanum, en er ekki eins og skammtímaupphrópanir sem eru allsráðandi, í fjölmiðlum.

Þú segir: "Það eru ekki kjarasamningar sem hafa mest áhrif á raunlaun okkar og kaupmátt, það er gengi krónunnar sem spilar þar mest inn."

Þetta er kjarni málsins.

Í raun er það ekki bara gengið, heldur einnig gjaldmiðilinn, sem aldrei verður nothæfur framar, nema með bakstuðningi Seðlabanka Evrópu, þar til evra verður tekin upp. Þetta eru einfaldar staðreyndir, ef horft er á hagsögu innanlands og erlendis, nema að endurtaka eigi enn ein hagstjórnarmistökin á Íslandi.

Finnar gera marga skynsama hluti.

Þeir lentu í kreppu, gengið féll mikið, en vegna umsóknar og síðar aðildar að ESB og sameiginlegru myntsamstarfi, gátu þeir leiðrétt gengið á skömmum tíma (2 -3 árum), þannig að það var nálægt langtíma jafnvægisgengi.

Þannig leiðréttu þeir kaupmátt með því að leiðrétta gengið, og tryggðu bakstuðning Seðlabanka Evrópu og byggðu um leið upp stöðugt gengi þar til evra var tekin upp.

Þannig fékk Finnland bakstuðning og traust sem bjargaði þeim út úr kreppunni, sem jók erlenda fjárfestingu, erlend lán og aukan atvinnnu.

Hvers vegna heyrist ekkert um áætlanir Íslands í gengismálum í tenglsum við umsókn um aðild á ESB? Það er eins og að þagga eigi þá umræðu niður.

Það ætti að fara sömu leið og í Finnlandi. Styrkja gengið að jafnvægisgengi, sem auka myndi kaupmátt og fá bakstuðning Seðlabanka Evrópu með aðild að ESB og stuðning við krónuna þar til evra verður tekinn upp.

Þetta tæki sama tíma og í Finnland 2-3 ár.

Þetta er einstakt tækifæri sem Ísland getur nýtt og flýtt þar með endurreisn verulega, sem ella verður ekki möguleg. Það er einnig hægt að klúðra þessu tækifæri og stefna á einangrun Íslands.

Hvers vegna heyrist ekkert um þetta í kjarasamningum, sem er í raun stærsta hagsmunamál, launafólks sem atvinnurekenda?

Hallur sagði...

Sæll.
Ef þú ert að vísa til mín með bómullina þá er það á misskilningi byggt hvað mig varðar. Ef þú hefur lesið athugasemd mín við síðasta pistil þinn þá kemur það fram að ég er launa maður og hef verið allt mitt líf, starfævi sem spannar 42 ár. Ég er ekki með heimtufrekju eins og mátt hefur skilja á viðbröggðum þínum við mínum skrifum. Það skal tekið fram að ég hef ekki komið að gerð kjarasamninga en hef reiknað út laun til margra ára, veit nokkurn vegin hvernig launakostnaður fyrirtækja er saman settur. Ég hef hvatt til sameiginlegrar ábyrgðar á samfélaginu öllu. Við verðum aftur á móti að temja okkur hóf bæði í orði og æði.Á minni 42ára starfsævi hef ég þegið atvinnuleysisbætu í 30 daga.
Nú hef ég verið á sömu launum í krónum talið í 3 ár, eða frá hruni auk þess að missa 13 mánuðinn, ég hef vinnu og kemst af. Ég er algjörlega sammála þér um krónuna, ég get ekki boðið mínum börnum og barnabörnum uppá það óréttlæti sem krónan skapar. Molbúa háttur íslensku krónunnar er ekki á vetur setjandi. Það er stæðsta og mikilvægasta kjarabót sem hægt er að berjast fyrir að afnema krónuna og taka upp gjaldmiðil sem heldur verðgildi frá morgni til kvölds.
Fyrir þeirri kröfu skulum við berjast báðir og saman.

Guðmundur sagði...

Sæll #15.34
Þetta er ekki alveg rétt og þar bendi ég á líklega á annan tug pistla hér á þessari síðu um krónuna mesta óvin íslenskra launamanna og heimila. Einnig hafa hagfræðingar ASÍ tekið undir með mér í þessu. En því miður hafa einungis þeir í verkalýðshreyfingunni náð eyrum fréttamanna og spjallþáttastjórnenda sem níða niður önnur verkalýðsfélög með því að shalda þeirri endaleysu fram að það sé við slaka kjarasamninga að sakast þegar umræðan fjallar um slakan kaupmátt og eru með því að lýsa hversu fáróðir þeir eru í reynd um þessi tiltölulega einföldu hagfræðirök.
Góðar kv GG