laugardagur, 29. janúar 2011

Af hverju spyrjum við ekki þjóðina hvað hún vill gera?

Álit Hæstaréttar kallar á margskonar vangaveltur. Sérstök ástæða er að benda á að þetta var ekki dómur, þetta var álit. Er þetta pólitískt álit? Gat Hæstiréttur ekki komist að annarri niðurstöðu og það vissu kærendur sem höfðu það markmið eitt að eyðileggja Stjórnlagaþingið? Á að kjósa aftur? Á Alþingi að slá Stjórnlagaþing af, eða á að leita eftir því að þeir sem þjóðin kaus ljúki því verkefni sem þeir voru kosnir til?

Hvað á að gera við niðurstöðu Stjórnlaganefndar, sem hún mun skila í byrjun næsta mánaðar? Nú hefur formaður Sjálfstæðisflokksins skyndilega lýst því yfir að hann vilji fá þetta álit til umfjöllunar. Það yrði versti kosturinn og öll sú gífurlega vinna sem fram fór á Þjóðfundum og Stjórnlaganefnd hefur unnið úr, myndi daga uppi inni í nefnd þingmanna.

Á þeim sem ætluðu sér að eyðileggja Stjórnlagaþingið og koma í veg fyrir breytingar á Stjórnaskránni að takast ætlunarverk sitt? Hið rétta væri að kjósa aftur nýtt þing. En það hefur verið bent á annan áhugaverðan kost. Það er að fá þá 25 sem þjóðin kaus til þess að vinna frumvarp til breytinga á Stjórnarskránni til þess að ljúka verkinu og leggja það síðan fyrir þjóðina og fá álit hennar.

Við megum ekki gefast upp fyrir afturhaldsöflunum og verðum að berjast áfram fyrir því að hér verði lagður grunnur að byggja réttlátara samfélag. Engin hafði engin rangt við í kosningunum og ekkert svindl var framið. Það hefði þurft einbeittan brotavilja og samstarf margra til þess að það hefði átt sér stað.

Við búum í lýðræðisríki og hér er engin vilji til þess að fremja kosningasvik. Gagnrýna má framkvæmdina, ef álit Hæstaréttar er skoðað má með sömu rökum segja að allar kosningar hér á landi hefðu fallið undir það álit, það hefði verið hægt að svindla ef einbeittur vilji hefði verið til þess.

Það er óásættanlegt að láta niðurstöðu Stjórnalaganefndar í hendur alþingismanna, Stjórnlagaþing sem er ofurselt Alþingi er veikt og tryggja verður að niðurstaða réttkjörins Stjórnlagaþings verði skilað til þjóðarinnar.

Það mætti byrja á því að spyrja þjóðina hvort hún vilji fara þessa leið. Það er auðvelt að gera það rafrænt og tæki ekki langan tíma og kostaði ekki mikið og þá myndu ekki mikil verðmæti fara í súginn, svo maður tali nú ekki um sú mikla undirbúningsvinna sem hefur farið fram.

fimmtudagur, 27. janúar 2011

Ofbeldi LÍÚ mótmælt

Í dag var haldinn fjölmennasti félagsfundur sem haldin hefur verið á því svæði. Sé litið til viðhorfa og fundarsóknar í fundarröð RSÍ undanfarnar vikur, hefur orðið mikil viðhorfsbreyting frá útspili SA/LÍÚ. Samstaða félagsmanna hefur snaraukist. Nánast allir félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins á Norðurlandi vestra mættu fundinn í dag og fullt var út úr dyrum, en nú hafa tæplega 500 félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins sótt félagsfundi undanfarnar tvær vikur. Fundir hafa verið haldnir á 7 stöðum á landinu.

Á fundum hefur verið fjallað þróun viðræðna hefði verið við undirbúning kjarasamninga fram að útspili SA/LÍÚ um að stoppa allar viðræður þar til niðurstaða um kvótamál næst, sem að mati LÍÚ sé ásættanleg.

Í kjölfar þessa hefur til viðbótar fylgt sú hótun af hálfu SA/LÍÚ, að það þýði ekkert að reyna að fá viðtöl um kjarasamninga við þá, ekki verði rætt við einstök félög fyrr en fyrir liggi samræmd heildarstefna. Eða með öðrum orðum fámenn klíka í SA hefur tekið alla launamenn á landinu í gíslingu. Þannig ætla þeir að ná í gegn tryggingu á eign sinni á kvótanum.

Fram að þessu útspili hafði Vilhjálmur Egilsson framkv.stj. SA ítrekað lýst þeirra skoðun, og hér er vitnað orðrétt til endurtekinna ummæla hans. „Koma verði í veg fyrir átök á vinnumarkaði í sameiginlegum viðræðum um launaramma í 3ja ára kjarasamning með stöðugleika að markmiði, ná fram styrkingu krónunnar og möguleika til kaupmáttarauka. Langtímasamningur biði upp á, bæði hvað varðar launahækkanir, ekki síður kaupmáttaraukningu í skjóli stöðugleika, aukinni atvinnu, vaxandi fjölda starfa með meiri verðmætasköpun.

Undanfarin misseri hefði ríkt kyrrstaða, sem er afleiðing af þrefi stjórnmálamanna um alla skapaða hluti. Hagkerfið væri keyrt áfram að einkaneyslu og engin fjárfesting er í gangi. Það gæti ekki leitt til annars en vaxandi erfiðleika. Ef hver hópur færi fram og reyndi að ná til sín því sem frekast kostur væri, gæti slíkt ekki leitt til annars en að þeir sem minnst megi sín og búi við erfiðustu starfsskilyrðin muni sitja eftir.“

Rafiðnaðarmenn höfðu á fjölmennum fundum ekki hafnað því að ræða málin á þessum grunni, en 180° beygja SA/LÍÚ hefur þjappað mönnum saman. Vitað er að tæknifyrirtæki eru ósátt við þessa stefnu SA/LÍÚ, hún gengur þvert á hagsmuni þessara fyrirtækja og starfsmanna þeirra.

SA/LÍÚ hafa sett til hliðar heildarhagsmuni þessa samfélags og eru vísvitandi að þvinga fram svæsin átök á vinnumarkaði, þar sem stéttarfélögin munu krefjast skammtímasamninga, á meðan LÍÚ ætlar að þvinga stjórnvöld til hlýðni við sig eða að skapa pólitíska upplausn og þvinga réttkjörna ríkisstjórn frá.

Fram kom af hálfu fundarmanna að það blasi við öllum hvort sé markmið LÍÚ og þeim takist með því að þvinga ríkisstjórnina frá að ná fram endanlegu markmiði sínu að halda kvótanum í höndum örfárra. Með þessu er verið að valda launamönnum gríðarlegum skaða, kjarasamningar dragast, uppbygging atvinnulífs seinkar og atvinnuleysi vex í stað þess að minnka. Fyrir þessu stendur fámenn klíka sem ætlar sér að verja eigin hagsmuni, þó svo það leiði til þess að fleiri heimili falli í valinn.

Þess er krafist að hart verði brugðist af hálfu Rafiðnaðarsambandsins. Á morgun föstudag 28. janúar mun miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins koma saman ásamt forsvarsmönnum samninganefnda, þar verður fjallað um niðurstöður félagsfunda og afstöðu SA/LÍÚ. Fram kom á fundinum að Rafiðnaðarsambandið ætti að stefna á að sambandið fari fram sem ein heild í kjarasamningum og beiti öllum sínum vopnum til þess að brjóta á bak aftur ofurvald LÍÚ klíkunnar.

miðvikudagur, 26. janúar 2011

Stjórnlagaþingið

Ég varð ekki undrandi þegar ég sá hverjir það voru sem kærðu þingkosningarnar til Stjórnlagaþings og ég er heldur ekki undrandi á niðurstöðu Hæstaréttar. Það liggur fyrir vilji Stjórnlagaþingmanna að breyta því hvernig staðið er að því velja Hæstaréttardómara. Öll vitum við hverjir voru óánægðir með þetta þinghald og höfðu allt á hornum sér hvað það varðar.

Það eru ekki lögin sem fá falleinkunn, það er framkvæmdin. Vitanlega hefði verið hægt að standa betur að kosningunum og ekki síður að hvernig staðið var að kynningu á þeim markmiðum sem sett voru og kynningu á framboðum.

En umræðan á Alþingi einkennist af einhverju öðru og maður er heldur ekki undrandi á því, enn eina ferðina ganga alþingismenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fullkomlega fram af manni. Það samfélag sem þeir hafa búið okkur er fyrir útvalda og þeir verja sín völd með öllum ráðum og vilja ekki breytingar á því.

Af hverju heyrðist ekkert frá þessu liði í haust? Öllum var heimilt að hafa aðstoðarmenn og öllum var heimilt að vera við kosninguna, ekkert bannaði það og sumir nýttu sér það, en samt gefa sumir sér að það hafi verið bannað.

Í dómi Hæstaréttar um leynilegar kosningar kemur fram í rökstuðningi um númeramerkingu seðlanna að kærandi kvaðst vita til þess að í sumum kjördeildum hefðu kjörstjórnir við kosningar skráð nöfn kjósenda á lista jafnóðum og þeir kusu. En aðspurður um frekari skýringar kom fram að hann kvaðst vita til þess að þetta verklag hefði verið viðhaft en hefði ekki upplýsingar um hvaða kjördeildir eða kjörstjórnir væri um að ræða.” Hvers lags vinnubrögð eru þetta hjá Hæstarétti?

Kosningareglurnar eru byggðar á erlendum fyrirmyndum og enginn hefur gert athugasemdir þær. Samskonar kjörklefar eru notaðir í Evrópu og Bandaríkjunum. Klúðrið er ekki í lögunum um stjórnlagaþingið og ekki heldur í kosningareglunum heldur framkvæmdinni.
Nú er spurning hvort Alþingi með sínum venjubundnu upphlaupum og skætingi, klúðri enn einu málinu með því að fara einhverja málamyndaleið.

Ef t.d. alþingismenn ætla sér að endurkjósa þá fulltrúa sem tæplega 90.000 manns kusu, verður andrúmsloftið í kringum Stjórnlagaþingið óbærilegt og andstæðingar hafa haldgóð rök fyrir því að stinga niðurstöðum þingsins um breytingar á núverandi Stjórnarskrá undir stól. Það er einungis ein leið úr þessum vanda, kjósa aftur.

Lýðræðið er dýrt.

þriðjudagur, 25. janúar 2011

Sérhagsmunaklíka tekur íslenska launamenn í gíslingu

Hef verið á 4 fundum í dag og hitta þar um 100 manns og er reyndar að fara á fund stjórnlagaþingmanna seinna í kvöld. Áberandi hefur verið sama hvar ég hef komið, menn eru gjörsamlega gáttaðir á útspili SA/(LÍÚ).

Það sé óskiljanlegt, það eina sem geti skýrt sé að þar ráði för sérhagsmunagæsla. Ég hef heyrt það víða í vetur við störf að undirbúning kjarasamninga að LÍÚ ætli sér að rústa viðræðum, sama hvaða brögðum verði beit.

Koma vinnumarkaði í bál og brand og helst að skapa með því pólitíska upplausn á Alþingi. Hæstiréttur lagði í dag langa lykkju á leið sína til þess að taka þátt í þessu.

Málflutningur Vilhjálms Egilssonar framkv.stj. SA/LÍÚ) og reyndar fleiri staðfestir þetta. Allavega gengur þetta þvert á þau atriði sem Vilhjálmur hefur haft fremst sínum rökstuðning um að hér verði að semja til langs tíma. Skapa stöðugleika, lága verðbólgu og með því viðsnúning í hugarfari.

Það sé eina leiðin til þess að fyrirtæki og almenningur fari að fjárfesta og framkvæma. Hlutabréfamarkaður fari af stað, gengið styrkist og það allt saman leggist á eitt um að skapa styrkingu krónunnar og batnandi kaupmætti.

Í þessu tilfelli er ástæða til þess að benda á málflutning forsvarsmanna Samtaka iðnaðarins. Útspil Vilhjálms framkv.stj . SA/(LÍÚ) og málflutningur hans gengur þvert á það sem forsvarsmenn iðnaðarfyrirtækja, ekki síst sprotafyrirtækja, halda fram.

Ætlar íslensku þjóðfélagi ekki að takast rífa sig frá því ofurvaldi sem valdastéttin hefur tekist að draga til sín og ver með öllum tiltækum brögðum? Hún krefst þess að launamenn eigi að búa við að kjarabarátta þeirra sé reglulega eyðilögð með handstýrðum gjaldmiðli. Sérhagsmunaaðilar berjast gegn því að stjórnarskrá verði endurskoðuð.

Sérhagsmunaklíka beitir iðnfyrirtækjum ofríki. Iðnfyrirtæki að búa til flest störf hér á landi. Greiða best laun, og eru þau einu sem geta skapað hér þau 20 þús. störf sem þarf til hér á landi á næstu 2 árum. Ég hef heyrt í nokkrum forsvarsmönnum iðnfyrirtækja í dag og þeir eru sumir öskuvondir yfir þessu útspili SA/(LÍÚ) og aðrir eru furðu lostnir.

mánudagur, 24. janúar 2011

Allt í hnút í Karphúsinu

Fundur var með samninganefndum ASÍ og SA í dag. Þar var farið yfir stöðuna og hún enn óbreytt. SA setur það fram sem skilyrði að lokið verði umræðum um kvótamál og aðspurðir kom það fram að þeim væri ekki nægjanlegt að viðræður myndu hefjast milli stjórnvalda og SA um þessi mál heldur yrði einnig að liggja fyrir efnisleg niðurstaða. Með öðrum orðum að SA vætlaði sér að taka öll stéttarfélögin í gíslingu, til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu að þeirra mati.

Það má fullyrða með þokkalegum rökum að þetta muni tengjast umræðum um nýtingu orkuauðlinda. Hver verður endurnýjunarréttur og hversu langur verður samningstíminn? Reyndar má ætla að þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að orkuverð muni hækka umtalsvert og líklega fara á svipaðar slóðir og það er í Noregi.

Samninganefnd ASÍ sá sér ekki annan kost en að slíta þessum viðræðum, þolinmæði félagsmanna heimilar ekki að þessar viðræður dragist fyrirsjáanlega í langan tíma. Þetta mun þá leiða til þess að samböndin innan ASÍ munu fara fram á að allar viðræður hefjist strax og stefnt verði að á kjarasamning til skamms tíma og reynt verði að þrýsta á viðræður eftir því sem styrkleiki hópana gefur tilefni til.

Í svörum ríkisstjórnar í dag kom fram að hún ætlaði ekki að leggja fram niðurstöður neysluviðmiðunar strax. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur í viðtölum undanfarið borið þungar sakir á verkalýðsfélögin gagnvart lágmarksbótum í almenna tryggingarkerfinu, það er reyndar Alþingi sem ákvarðar þessar bætur ekki verkalýðsfélögin. Það verður vart hægt að hefja viðræður um grunnlaun án þess að neysluviðmiðin liggi fyrir. Þannig að áframhald viðræðna er í raun í höndum velferðarráðherra.

Þessi staða setur öll mál í ákaflega flókna stöðu. Aukin hætta er á að viðræður þeirra hópa sem verst standa, launalega og atvinnulega, muni dragast verulega og þeir muni dragast aftur úr þeim hópum sem betur standa.

sunnudagur, 23. janúar 2011

Umræðan út á mörkinni

Hef verið á fundaferðalagi þessa viku og hitt tæplega 300 félagsmenn. Fyrir utan undirbúning kjarasamninga, hefur umræða um lífeyrismál verið efst á baugi. Það er reyndar ekki nýtt á fundum innan Rafiðnaðarsambandsins, málefni lífeyrissjóðsins eru ætíð til umræðu á fundum og oftast er einhver af starfsmönnum sjóðsins boðaður á fundina til þess að svara spurningum félagsmanna.

Það kemur mér alltaf jafn þægilega á óvart hversu upplýst umræðan er á félagsfundum, þá á ég við að maður er líklega of litaður af fjölmiðlaumræðunni og netinu. Fundarmenn hafa bent á að sú umræða sem fram fer í spjallþáttum, sé augljóslega vísvitandi og markvisst dregin inn á villigötur þar sem athyglinni sé beint frá hinum raunverulegu meinum samfélagsins.

Tekist hefur að halda athyglinni á lífeyrissjóðunum, og stéttarfélögunum undanfarna mánuði, þar sé að finna hina helstu banditta þessa samfélags sem leiddu það í Hrunið. Aðalleikurunum í Rannsóknarskýrslunni hefur tekist að pumpa þessa umræðu áfram og fengið til þess góða aðstoð frá mönnum sem starfa sem verktakar, ekki félagsmenn í stéttarfélögum. Menn sem reyna allt til þess að greiða sem minnst til samfélagsins, en eru jafnfram með miklar kröfur um samfélagslega aðstoð og jafnvel að tekið sé sparifé launamanna í lífeyrissjóðum og það nýtt til þess að greiða upp skuldir þeirra.

Fjárhagslegt tap í Hruninu var liðlega 15 falt samanlagðar innistæður í lífeyrissjóðunum og 30 sinnum meira en heildartap lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir voru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir tekst Hrunverjum að draga umræðuna í það plan að starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaga séu spilltastir allra. Þar fari glæpamenn sem ganga um með logsuðutæki og handrukki iðgjöld og standi í vegi fyrir hækkun launa.

Starfsmenn lífeyrirssjóða fara eftir settum lögum og starfsemi líferyissjóða, þar á meðal er það skylda þeirra að sjá til þess að skilað sé þessu sparifé launamanna ísjóðina, sem er hluti launa þeirra. Ástæða er að minna á að ef kerfið yrði lagt niður þá myndu allar örkorkubætur og lífeyrisgreiðslur lenda á almenna tryggingarkefinu og það þyrfti að hækka skatta um 12°- 15%.

Stéttarfélög semja ekki við hvert annað um laun. Allir vita að starfsmenn stéttarfélaga eða trúnaðarmenn á vinnustöðum hafa enga hagsmuni af því að halda launum niðri, en samt þrífst umræða byggð á þessum rakalausu fullyrðingum. Örfáir nytsamir sakleysingjar úr verkalýðshreyfingunni taka undir þessa umræðu. Að því virðist til þess eins að ná inn í spjallþættina og fá viðtöl í fjölmiðlum og eru þar nýttir ótæpilega af þeim sem hafa hag af því að halda umræðunni þarna og eru fastir gestir spjallþáttastjórnenda fengnir til þess að níða niður félaga sína úr verkalýðshreyfingunni.

Í þeim dómsdagspám sem birtar hafa verið um lífeyriskerfið, er augljóslega verið að blanda saman tveim ólíkum kerfum annað hvort vegna þekkingarleysis eða vísvitandi, almenna lífeyrissjóða kerfinu og svo hinum ríkistryggða lífeyrissjóði tiltekinna opinberra starfsmanna, þar sem ávöxtun skipti engu máli. Það sem upp á vantar er einfaldlega sótt í ríkissjóð, réttindi aldrei skert og skuldastaða ríkisins við þann sjóð vex með hverju ári. Þar er verið framvísa vandanum á börn okkar. Það er óþolandi að sumir búi við ríkistryggð réttindi á meðan öðrum er gert að standa undir þeim réttindum og á sama tíma að búa við skerðingar í sínum sjóðum.

Ef ávöxtunarkrafa yrði skert, yrði strax að skerða réttindi umtalsvert, eða sækja það sem upp á vantaði í ríkissjóð til þess að standa undir því að tryggja sjóðsfélögum 60% af meðallaunum út lífaldurinn, sem í dag er um 80 ár, þær upphæðir nema hundruðum milljarða króna. Í þessu sambandi yrðu menn að velja á milli hækkunar skatta um 3 – 5% eða hækka iðgjald og samkvæmt nýlegum útreikningum mætta ætla að hækka þyrfti iðgjaldið um 5%, sem þýddi að menn fengu ekki launahækkun á næstunni, hún myndi renna beint í lífeyrissjóðina.

Ef ætlast er til þess að lífeyrissjóðir geti staðið við skuldbindingar sínar og tryggt lífeyri allan lífaldur sjóðsfélaga þá þarf að líta til þriggja ráðandi þátta.

• a) Lífeyrisaldri og örorkubótum, margar þjóðir eru að hækka aldurinn úr 60 - 65 upp í 67 ár til þess að mæta hækkandi meðalaldri, undir háværum mótmælum almennings.

• b) Iðgjaldi, margar þjóðir hafa verið að hækka iðgjald og það er sumstaðar komið í 16 - 18%. Iðgjald hins opinbera í LSR er umtalsvert hærra en í almennu sjóðina auk rausnarlegs framlags. Vilja launamenn láta af hendi þá launahækkun sem í boði er til þess að hækka iðgjaldið?

• c) Ávöxtun sjóðanna. Ef ávöxtunarkrafa er tekinn niður eins og rætt hefur verið um, þá verður að skerða lífeyrisrétt þeirra sem nú eru á bótum umtalsvert strax umtalsvert. Það er að segja í almennu sjóðunum, ekki hins opinbera það er sótt í ríkissjóð.

Það liggur fyrir að ef lífeyrissjóðirnir verða að hafa möguleika til þess að ávaxta hina miklu fjármuni sem þar eru þá verða þeir að geta fjárfest erlendis. Það eru ekki nægilega góðir fjárfestingarkostir fyrir hendi á Íslandi. Auk þess má velta fyrir sér hversu örugg fjárfesting það sé ef nánast allar fjárfestingar séu í bréfum með ábyrgð íslenska ríkisins. Hversu öruggt er það?

Hvað varðar ávöxtunarkröfu og verðtryggingu þá er ætíð valinn óhagstæðustu tímabilin og sakir bornar á lífeyriskerfið. T.d. má benda á að þeir sem fengu lán til þess að kaupa húsnæði á árunum 1993 - 1996 og seldu það á árunum 2006 - 2008 nánast tvöfölduðu eign sína. Benda má önnur tímabil þar sem fólk hagnaðist og svo vitanlega önnur þar sem fólk kom öfugt út. En það í raun kallar á endurskoðun grunnþátta og þar koma menn alltaf að hinum sveiflukennda gjaldmiðli.

Á fundum kom fram að það væri mun betra fyrir launamenn að taka á þessum vanda í þríhliðaviðræðum við stjórnvöld og fyrirtækin og þetta væri eitt af helstu verkefnum komanda kjarasamninga. Sé litið til farins vegar hefði það verið skelfilegt ef stjórnmálamenn hefðu haft greiðan aðgang að þessu mikla sparifé launamanna.

Einnig var bent á hversu misjöfn staða lífeyrisjóðanna væri, það væri l´jost að margir gerðu sér enga grein fyrir því. Ávinnslustuðull er frá því að skila um 56% af meðallaunum í lífeyri upp í um 80%. Ef sjóðirnir yrðu sameinaðir myndi það þýða um 25% skerðingu í lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna.

föstudagur, 21. janúar 2011

Fáránleiki umræðunnar

Í því starfi sem ég er í kemst maður ekki hjá því að verða oft undrandi yfir ummælum þingmanna, og reyndar afstöðu sumra spjallþáttastjórnenda. Þar á ég við að það virðist ekki vefjast fyrir þessu fólki, að setja fram kröfur um að við, sem erum kjörnir til þess að vera í forsvari fyrir tiltekna hópa launamanna, göngum þvert á gegn samþykktum meirihluta félagsmanna.

Við höfum oft heyrt ummæli þingmanna, sem lýsa þeirri afstöðu þegar að er gáð, að þeim komi ekkert við hvert álit fólks sé, og afsakað með því að þeir fari eftir eigin sannfæringu. Öll þekkjum við að stjórnmálamenn eru til viðræðu 2 vikur fyrir kjördag og eru þar með allskonar loforð. Daginn eftir kjördag tekur við tæplega fjögurra ára tímabil þar sem þeir fara eftir eigin sannfæringu.

Það er sjálfu sér ekki nema von eftir það sem hefur komið uppá yfirborðið, að 50% landsmanna vilji taka þátt í kosningum stjórnmálaflokkanna, þar tilbótar ætlar einungis hluti þessa helmings að kjósa gömlu flokkana. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er Sjálfstæðisflokkurinn með stuðning liðlega 20% kjósenda, Samfylking með um 12% stuðning, VG með um 8% og Framsókn með 5%.

Fyrir nokkrum dögum var fjármálaráðherra með fund á Akureyri, þar mættu 6 einstaklingar, ég var þar með fund nokkrum dögum síðar, þar mættu þriðjungur félagsmanna á svæðinu, eða um 50 manns. Ég er þessa vikuna búin að vera með 4 fundi víðsvegar um landið og á það fundi hafa mætt vel á þriðja hundrað félagsmanna.

Þar eru lagðar fyrir félagsmenn spurningar um hvað við í forystunni eigum að gera og hvernig bregðast eigi við hinum ýmsu málum. Vitanlega voru skiptar skoðanir um eitt og annað, en öll umræða var málefnaleg og jákvæð um starfsemi stéttarfélagsins. Ef við förum ekki eftir því, þá fáum við að finna fyrir því.

Það umhverfi sem mætir manni á félagsfundum, er allt annað en sú sem dregin er upp í spjallþáttum og í fjölmiðlum, í umræðum á netinu og svo maður tali nú ekki um ræður stjórnmálamanna, eða aths. dálkana í netheimum. Félagsmenn er vel meðvitaðir um stöðuna og vilja taka á vandamálunum með festu og ábyrgð. Einn svona fundur skilar 10 sinnum fleiri vitrænum skilboðum en koma fram í einu Silfri Egils.

Á skrifstofuna koma daglega liðlega 100 símtöl og um 50 tölvupóstar frá félagsmönnum, auk þess að starfsmenn hitta okkar fólk á kaffistofum og vinnustaðafundum. Þrátt fyrir þetta halda framangreindir einstaklingar því blákalt fram að verkalýðsforkólfar séu einangraðir og þekki ekki vilja félagsmanna. Nokkrir stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur telj sig þekkja það betur en við!!

Ef við tökum nýlegt dæmi; Einn stjórnmálaflokkur og sjálfskipaður hópur fólks hefur barist fyrir því að 20% af skuldum fólks verði fellt niður. Eftir ítarlegar kannanir var kom í ljós að þessi leið væri einungis fær, teknir væru um 200 milljarðar af sparifé launamanna úr lífeyrissjóðum og nýttir til þessara hluta.

Í könnunum sem gerðar voru meðal launamanna, þar á meðal innan þess sambands sem ég stjórna, höfnuðu 83% sjóðsfélaga þessari leið. Ef hún yrði farin myndi þessi hópur stefna stjórnum lífeyrissjóða fyrir dómstóla fyrir brot á ákvæðum stjórnarskrár um eignaupptöku og jafnræðisreglum. Það væri verið að taka fjármuni sem nokkrir ættu og nýta þá til þess að greiða upp skuldir annarra. Í flestum tilfellum væri ekki verið að greiða upp skuldir eigenda þessa sparifjár.

Stjórnmálamenn og ýmsir aðrir fóru mikinn og lýstu vanþóknun sinni á forseta ASÍ, og reyndar hef ég verið nokkrum sinnum nefndur í þessu sambandi, og við sakaðir um að standa gegn hagsmunum fólks í landinu. Með öðrum orðum þess krafist að við gengjum gegn vilja meirihlutans og brytum um leið lög og stjórnarskrárvarinn réttindi.

Þessi umræða varð allsráðandi í spjallþáttum þar sem stjórnendur fóru hamförum í að ata okkur auri og kölluðu til viðtals þá sem vitað var að væru sammála þessari skoðun, til þess að búa til staðfestingu á sínu heimsmíðaða áliti. Aldrei var kallað á fólk frá hinum þögla meirihluta og forsvarsmanna þeirra í viðtöl.

Annað dæmi. Liðlega 92% félagsmanna ASÍ samþykktu að fara í þríhliða samstarf um að koma atvinnulífinu í gang, svokallaðan Stöðugleikasáttmála. Þessi yfirgnæfandi meirihluti samþykkt þessa leið á þeim forsemdum að af tveim mjög slökum kostum væri sú leið illskárri. Hin leiðin myndi leiða til þess að vinnumarkaðurinn yrði samningslaus og sérstakar hækkanir til hinna lægst launuðu myndu ekki skila sér, auk þess myndi ekki skapast möguleiki til þess að koma atvinnulífinu í gang.

Hluti af þessu stóðst en hluti þingmanna og stjórnmálamanna ekki. Ráðherrar sem skrifuðu undir samkomulagið hafna því að þeir hafi svikið launamenn, þeir hafi borið þetta undir þingið og stjórnmálamönnum fannst í fínu lagi brjóta samkomulagið og standa ekki við sinn hluta við launamenn, en kröfðust hins vegar að launamenn bæru sínar byrðar.

Þetta eru dæmigerð vinnubrögð stjórnmálamanna og þarf ekki að færa frekari rök fyrir því hvers vegna fólk fjölmennir á fundi í mínu stéttarfélagi, en mætir ekki á fundi stjórnmálaflokka og vill ekki vera þátttakandi í þeim farsa. Þetta er sambærilegt ef ég skrifaði undir kjarasamning fyrir hönd Rafiðnaðarsambandsins og hann samþykktur, en síðan tækju formenn aðildarfélaga RSÍ sig til og lýstu því yfir að þeim kæmi þessi samningur ekkert við.

Þetta segir okkur í raun allt um vinnubrögð stjórnmálamanna að þeim finnst í fínu lagi að gera samning við launamenn og krefjast þess að þeir standi við sinn hluta, en telja sig ekki þurfa að fara eftir undirrituðum samningum. Þá geti þeir farið eftir eigin sannfæringu (hentugleikum).

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Staða kjarasamninga

Þessa dagana eru fundir innan stéttarfélaganna víða um land þar sem farið er yfir stöðuna við undirbúning kjarasamninga. Á ársfundi ASÍ í haust var samþykkt nær einróma að stefna á samræmda samninga, með því væri best varin staða þeirra sem verst stæðu á vinnumarkaði.

Þar kom fram að þau stéttarfélög sem eru með svokallaða millitekjuhópa, myndu ekki sætta sig við samskonar niðurstöðu og í undanförnum samningum. Það er að fá lítið sem ekkert út úr samningum, allt hefði farið í að hækka lægstu laun. Millistéttirnar væru að fara verst út úr Hruninu, hefðu orðið fyrir mesta kaupmáttarhrapinu, og hækkandi skattar og gjöld væru að lenda á þeim með mestum þunga.

Nú er sú staða að nokkrir vilja fara þá leið að hver hópur fari fram einn og sér og reyni að ná til sín eins miklum kjarabótum sem frekast er kostur. Um þetta er tekist einna harðast innan Starfsgreinasambandsins. Aðrir benda á að sú leið gæti ekki endað öðruvísi en svo að þeir sem minnst megi sín og búi við lakasta atvinnuöryggið muni sitja eftir. Þetta ætti sérstaklega við um svokölluð kvennastörf í heilsugæslunni og þjónustustörfum. Einnig eru taldar líkur á að þessi leið muni verða til þess að gerðir verði skammtímasamningar, sem muni valda vaxandi verðbólgu og auki líkur á áframhaldandi spíral niður á við.

Hinn kosturinn er að halda áfram á þeirri leið sem samþykkt var á ársfundinum og kanna til hlítar hvað langtímasamningur bjóði upp á, bæði hvað varðar launahækkanir, ekki síður kaupmáttaraukningu í skjóli stöðugleika og sú leið opnar fyrir þann möguleika að ná heildstæðu samkomulagi við stjórnvöld, sem margir telja grundvallaratriði hvað varðar tryggingu samninga og eins að ná fram kaupmáttarauka og koma atvinnulífinu í gang.

Þeir sem eru fylgjandi þeirri leið benda á að undanfarin misseri hafi ríkt kyrrstaða, sem er afleiðing af þrefi stjórnmálamanna um alla skapaða hluti og á meðan haldi allir að sér höndum hvað varðar framkvæmdir. Hagkerfið er keyrt áfram af einkaneyslu en engin fjárfesting er í gangi. Ef haldið væri áfram á þeirri braut geti það ekki leitt til annars en vaxandi erfiðleika.

Til þess að greina stöðuna betur þarf að velta fyrir sér hvaða hópar séu varðir í dag? Ef ekki næst samstaða er mestu líkur á að nokkrir hópar dragi til sín það sem til skiptana er og þeir sem minna mega sín sitji eftir. Nokkrir hópar hafa skjól af ónýtri krónu, en það muni verða á kostnað þeirra hópa sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna krónunnar.

Á fundum sem ég hef verið á undanfarna daga víðsvegar um landið og hitt þar á þriðja hundrað rafiðnaðarmanna, hefur komið fram skýr krafa um að ef samið verði tveggja eða þriggja ára verði að vera trúverðug endurskoðun á samningstímanum, sem verði bundin við hvert samband ekki heildina. Auk þess að ríkisvaldið komi með skýrum hætti að þeirri tryggingu.

Helst hefur verið horft til þeirrar leiðar að sérstök krónutöluhækkun komi á lægstu taxta sem leiðir til þess að þeir fengju hlutfallslega meiri launahækkanir en þeir sem hærra eru launaðir.

Við launamönnum blasir sú staða að starfsmenn fyrirtækja eru í samkeppni við bankana um þá lausu peninga sem eru í fyrirtækjunum. Bankarnir nýta sér stöðu sína og hrifsa allt lausafé út úr fyrirtækjunum áður en rætt er við starfsmenn og um laun þeirra. Eigendur fyrirtækjanna eru að greiða sér arð jafnvel þó eiginfjárstaða sé öfug og það sé ólöglegt. Eitt meginverkefnið í yfirstandandi kjarasamningum er að taka á siðferði í atvinnulífinu. Launamenn eru oftast algjörlega hlunnfarnir og fjármagnseigendur sitja að kjötkötlunum.

Fjölmargir halda því fram að það væri ábyrgðarleysi að kanna ekki til hlítar hvað launamönnum standi til boða með samstarfi á vinnumarkaði, ekki sé hægt að hafna einhverju sem ekki væri þekkt. En þolinmæði fólks fer minnkandi og það vill fá sem fyrst niðurstöður í þessar könnunarviðræður.

miðvikudagur, 19. janúar 2011

Kaupmáttur og krónan

Vegna fullyrðinga í aðsendum aths. ætla ég að endurbirta að hluta fyrri pistil um þróun kaupmáttar hér á landi og hver sé ástæða þess að kjarasamningar missa gildi sitt reglulega á Íslandi. Einnig má benda á að síðustu 40 ár hefur Rafiðnaðarsambandið samið um vel ríflega 3.000% launahækkanir, á sama tíma hefur Danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% launahækkanir, en standa samt upp með betri kaupmátt.

Ákveðnir aðilar sem hafa hag af því að geta fært rekstrarkostnað sinn yfir á launamenn, verða ætíð mjög pirraðir þegar bent er á þessar staðreyndir og berjast með öllum brögðum til þess að viðhalda þessari stöðu sinni. Það er mér sérstök ánægja að halda þessu á lofti.

Seðlabankinn kynnti nýlega skýrslu þar sem kemur fram að Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Bankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða. Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi.

Sem dæmi er nefnt að í ágúst síðastliðnum hefði þurft meira en 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Íslenska krónan hafi verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar er nú um 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 81 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf birti einnig í vikunni skýrslu þar sem borinn er saman áhrifum fjármálakreppunnar á kaupmátt launafólks um víða veröld. Í henni er staðfest það sem margoft hefur verið bent á þessari síðu. Krónan er mesti óvinur íslenskra launamana og heimila. Kaupmáttaraukningin sem verkalýðshreyfingunni tókst með kjarasamningum að byggja upp á þessari öld þurrkaðist út í Hruninu.

Ég hef oft í pistlum bent á hversu miklu hærri launahækkanir við höfum orðið að semja um en launþegasamtök í öðrum löndum, en samt hefur ekki tekist að viðhalda kaupmættinum, auk þess sitja íslensk heimili í skuldasúpu og sum eru þegar sokkinn. Innganga Íslands í ESB og upptaka evru er stærsta hagsmunamál launþega og heimila í þessu landi, og eina færa leiðin út úr kollsteypu hagkerfinu.

Aukning á kaupmætti launa á evrópska efnahagssvæðinu (ríkjum raðað eftir aukningu kaupmáttar fyrir tímabilið 2000-09)

Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010. Alþjóðavinnumálastofnunin byggði niðurstöðu sína á launatölum frá Hagstofu Íslands og verðþróun hér á landi.
Elvar Örn Arason er höfundur, hann er menntaður í alþjóðasamskiptum og evrópskum stjórnsýslufræðum. Ekki fengust tölur frá Írlandi


þriðjudagur, 18. janúar 2011

Langtímalausnir í stað "þetta reddast" lausna.

Það er afskaplega erfitt að fóta sig á málflutningi andstæðinga ESB, sem einkennist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum. Þar má t.d. benda á fullyrðingar þeirra um að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast at erlendum fiskiskipum og að við missum yfirráð yfir orkulindum landsins.

Það liggur fyrir að lagaumhverfi varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Evrópusambandið á ekki neinar auðlindir. Svíþjóð selur sína umframleiðslu á raforku til annarra Evrópuríkja. Olíulindir Breta og Dana hafa ekki verið framseldar og verða aldrei. Allt eru þetta fullvalda ríki í samstarfi við önnur lönd. Rétt eins og Ísland er í samvinnu við önnur lönd.

Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétt. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér. Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er eins og fiskveiðistefna Íslands, það er ef um er að ræða sameiginlega stofna, sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal viðkomandi þjóða. Hér má benda á þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þ.e. kolmunna, síld og loðnu og karfann hér suður af landinu. Við erum þessa dagana að gera kröfu nákvæmlega um þetta grundvallaratriði hvað varðar veiðirétt í flökkustofnum makríls.

Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum. Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana. Það gefur okkur möguleika sem við höfum ekki um hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi með aðgengi að markaðinum sem opnast við aðild að ESB.

Ef við stöndum utan ESB blasir við fækkun starfa, eða réttara sagt stöðnum. Hvorki landbúnaður eða sjávarútvegur geta búist við vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Þau 15 þúsund sem þarf að skapa hér á næstu 3 árum verða ekki til í óbreyttu ástandi og sannarlega ekki í landbúnaði og sjávarútvegi.

Því er haldið fram að ef við göngum í ESB taki við austantjaldskjarasamningar og hingað streymi erlent vinnuafl. Öll stéttarfélög á hinum Norðurlandanna hafa hvert um sig sína sérkjarasamninga, sama á við um önnur lönd í Evrópu. Ísland er búið að vera hluti af EES svæðinu í áratugi og þar gildir frjálst flæði vinnuafls, ekkert mun breytast. Menn eru segja að hér taki við Laval-dómurinn, hann gildir ekki hér og hvergi nema í Svíþjóð. Hér á landi gilda lög sem segja að löglega gerðir kjarasamningar ákvarði lágmarkskjör. Það mun ekkert breytast.

Krónan hefur valdið því að kaupmáttur á Íslandi féll mun meir en í öðrum löndum við Hrun gjaldmiðils okkar. Á einni nóttu þurrkaðist út kjarabarátta stéttarfélaganna það sem af var þessari öld. Launamenn vilja fá langtímalausn, í stað þess að þurfa endurtekið að axla kostnað vegna efnahagsmistaka og rekstrarvanda fyrirtækja.

mánudagur, 17. janúar 2011

Forsetinn og Bjartur í Sumarhúsum

Ég verð að viðurkenna mér fullkomlega ómögulegt að skilja Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands. Ég ætla ekki að fjalla um Icesave og athafnir hans í því sambandi, ég hef gert það í öðrum pistlum. En umfjöllun hans í viðtali við forsetann í Wall Street Journal um ESB og gjaldmiðilsmál lýsa fullkominni vanþekkingu og skilningsleysi á nokkrum undirstöðu atriðum í hagsmunamálum launamanna.

Ólafur Ragnar segir að meginástæða þess að Ísland hafi sótt um aðild að ESB hafi verið efasemdir eftir hrun um að Ísland gæti staðið undir eigin gjaldmiðli. Hann bendir á að gengislækkun íslensku krónunnar hafi hinsvegar hjálpað íslenskum útflytjendum mikið í kreppunni en krónan sé enn um þrjátíu prósentum minna virði en árið 2008.

Hér er forseti lýðveldisins í raun að lýsa gleði sinni yfir því að 24 þús. heimili liggja í valnum eftir athafnir útrásarvíkinga sem hann mærði svo og fór fyrir um heimsbyggðina sem þeirra helsta klappstýra.

Kaupmáttur íslenskra launamanna hefur fallið um 15% á meðan hann hefur vaxið um 3 – 15% í nágrannaríkjum okkar. Löndum sem eru inna ESB og eru annað hvort með Evru eða gjaldmiðil sem er fastengdur við Evru.

Í lok viðtalsins er mælir forseti lýðveldisins með Sjálfstæðu fólki, eftir Halldór Laxness. Blaðið segir réttilega að bókin að lýsi lífsbaráttu bænda snemma á 20 öldinni, sem dragi fram lífið í einangruðum örreytiskotum og segir að það geti gefið vísbendingar um hvaðan heimspeki, Mr. Grímsson sé upprunninn.

Bjartur í Sumarhúsum notaði allt sítt líf til þess að verða sjálfstæður. Hann er einþykkur hrotti sem fer illa með alla sína nánustu og hugsar aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín. Hann berst alla ævi við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu en færir fyrir það miklar fórnir og í sögulok hefur hann tapað öllu og er á leið enn lengra inn í heiði, á enn aumara kot.

Fyrirmynd forseta Íslands Bjartur víkur aldrei góðu að nokkrum, segir aldrei neitt fallegt við nokkra sál. Hann leggur aldrei neinum lið. Halldór dregur upp mynd af andstyggilegum manni. Mér leið virkilega illa þegar ég las Sjálfstætt fólk.

Þvílíkur fantur, myndirnar af því hvernig hann fór með konur sínar, eða þá skepnurnar á bænum eins og t.d. kúnna. Allt skal lúta valdaþrá hans. Það er ótrúlegt að heyra menn styðja sjónarmið sínum með því að benda á Bjart í Sumarhúsum, þeir eru annað hvort mjög illa lesnir eða þá sem verður að teljast líklegra, eru afglapar.

föstudagur, 14. janúar 2011

Óvissan á Suðurnesjum

Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar auðlindir (sjálfbærar) hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn og kælir bergið niður.

Stefán Arnórsson jarðfræðingur hefur haldið því fram að orkan sem nú gengur kaupum og sölum sé því miður ekki eins endurnýjanleg og endalaus eins og menn gera ráð fyrir. Hún geti hæglega klárast á um fimmtíu árum ef nýtingaráformin eru ekki endurskoðuð. Því að þær orkulindir endurnýja sig ekki nema á um þúsund árum.

Stefán segir að rannsóknir sýni að það taki nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og hefur komið fram hér á landi. Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna, þegar þeir hafa farið um héruð landsins og lofað stóriðju í hverjum firði, alla vega í hverjum landsfjórðungi, orka landsins væri óþrjótandi.

En aðrir hafa bent á að umræða um Stefán kasti fram upplýsingum sem eru réttar í vissum skilningi, en gjaldfellir allt annað í leiðinni. Miðað við rannsóknir og rauntölum hjá OR er ekkert sem bendir til að jarðhitageymar kólni, svo framarlega að þeir séu virkjaðir rétt og nýta þá reynslu hafa íslendingar öðlast. OR er með allt að 80 ára gamlar tölur því til stuðnings, og þéttari skráningar á nýrri tölum, sbr. Laugardal, Elliðaárdal, Mosfellsdal og Nesjavelli.

Í þessum veitum sést mjög greinilega að ef dælt er of miklu upp úr holunni, þ.e.a.s. þannig að yfirborðið í holunum lækkar mikið, þá kólna svæðin. OR hefur fylgt ákveðið þeirri stefnu að taka ekki meir upp úr hölum en þær þola.

Það sem Stefán bendir hins vegar á er reynsla frá USA og það sem Suðurnesjamenn eru að upplifa sé afleiðing rányrkju. Ekki er fylgst með niðurdrætti í holum, þrýstingi og hitastigi. Ef rýnt er í orð hans, bendir hann vissulega á þetta; að með of mikilli dælingu mun bergið kólna vegna of mikils kalds vatns niður í jarðhitahólfin. Það er staðreynd - sem er margsönnuð hér á landi.

Þetta er í raun það sama og við fjallgöngumenn þekkjum vel og er nýtt í fjallaskálum, með stóran pott með vatni á Sólóeldavélinni, ef maður tekur smávegis úr honum á meðan vatnið sýður og bætir svipað við af köldu vatni, getur maður viðhaldið suðunni með margfalt minni orku en að tæma pottinn í hvert skipti, fylla og sjóða aftur. Hér má benda á að borholur á gatnamótum Laugavegs/Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar sem eru með þeim elstu í vörslu OR, sem eru enn 120 C heitar, eins og þær voru í upphafi.

Það er ekki hægt annað en velta fyrir sér orkupælingunum á Suðurnesjum. Satt að segja sé ég fyrir mér algera skelfingu þar - bæði með Magma og Enron tilburði þeirra, og hvaðan og hvernig HS ætlar að skaffa alla þessa orku þegar jarðfræðingar benda á að allt bendi til þess að svæðið sé nú þegar ofnýtt.

Hér spilar inn sú óvissa um hvort veiturnar á Hellisheiði sem nú að fara að nýta séu tengdar þeim sem þegar eru í notkun. Flestir virðast nokkuð vissir um að þetta séu aðskilin jarðhitasvæði - ef svo er, er mikil orka ónotuð þar. En ef ekki og svæðin eru samtengd, verða menn að hætta strax, annars gerist það sama og í USA og Stefán lýsir í greinum sínum.

Talið er að álbræðslan í Helguvík þurfi um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað, en í upphafi var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkjun hefur sett fram loforð um 60-80 MW.

HS Orka ætlar að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en flest bendir til að svæðið sé nú þegar ofnýtt enda hefur Orkustofnun ekki séð sér fært að veita leyfi fyrir stækkuninni. Þá hyggst HS Orka reisa 50 MW virkjun í Eldvörpum en þau eru hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi. Því er haldið fram að svæðið sé þegar fullnýtt. Um 130 MW eiga síðan að koma frá Krýsuvíkursvæðinu en tvær djúpar holur við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu. Aðrir hlutar svæðisins virðast hafa svipaða eiginleika en þar hefur ekki verið borað sl. 40 ár.

fimmtudagur, 13. janúar 2011

Leikreglur kjarasamninga - Þúsundasti pistillinn

Þetta er pistill nr. 1.000 sem ég hef ritað hér á þessari síðu. Þetta hófst á því að Jón Garðar hafði samband við mig í undirbúning kjarasamninga í nóv. 2007 og bað mig að skrifa pistla á Eyjuna um kjaramál. Ég féllst á að gera það allavega fram yfir kjarasamningana. Þegar þeim var lokið seinni hluta vetrar þá var lestur kominn það hátt að ég hélt áfram. Hef nokkrum sinnum ætlað að hætta og gert hlé á pistlagerð, en alltaf hefur eitthvað rekið mig að lyklaborðinu.

Það er erfitt að lesa nákvæmlega allt úr talningavélum, en virðist vera þannig að síðan hafi um 8 til 10.000 fasta lesendur sem fara a.m.k. einu sinni í viku inn á síðuna. Heimsóknir eru komnar upp undir 600 þús. Um 6.000 aths. hafa verið birtar, en þar til viðbótar eru nokkrar hef ég stöðvað vegna orðlags eða svívirðinga um saklaust fólk út í bæ, auk þess að ég hef fengið fjölda bréfa og eins að fólk hafi stöðvað mig á ferðum mínum um landið og rætt efni pistlanna. Ég hef haldið mig á frekar þröngu sviði og undrast stundum af þeim sökum lestur síðunnar, en gleðst jafnframt yfir henni. Takk fyrir mig.

Oft er þannig til orða tekið að það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast að laun að séu lág. Verkalýðshreyfingin semur ekki við sjálfa sig. Hún semur við samtök atvinnurekenda eða við einstök fyrirtæki. Ég hef aldrei upplifað það að samningamenn verkalýðshreyfingarinnar standi í samningaherbergjum og segi; “Nei nú er nóg komið af launahækkunum. Alls ekki hærri launatilboð takk fyrir.” Ég hef aftur á móti upplifað það við gerð kjarasamninga að samningamenn launamanna rífi hár sitt og skegg og skelli hurðum sakir þess að þeir ná ekki fram þeim launahækkunum sem þeir sækjast eftir.

Samkvæmt landslögum þá er það stjórnarþingmenn á Alþingi sem ákveða bætur í almenna tryggingarkerfinu, ekki verkalýðshreyfingin. Sé litið til ummæla nokkurra ráðherra á undanförnum dögum er eins og þeir hafi ekki áttað sig á þessu.

Alþingi setti á sínum tíma undir forystu hins merka húnverska bónda Páls Péturssonar þáv. Félagsmálaráðherra lög um gerð kjarasamninga, svonefnd Pálslög. Þar segir að það verði ekki farið í verkföll nema um kjaradeilu sé að ræða og það sé búið að vísa henni til sáttasemjara og hann hafi haldið árangurslausar sáttatilraunir.

Þessi lög voru sett af kröfu sjálfstæðismanna þar sem þeim fannst verkalýðsfélögin misnota verkafallsvopnið í pólitískri baráttu. Sjálfsagt höfðu þeir rétt fyrir sér í einhverjum tilfellum, en ástæða til þess að minnast á þetta þegar menn eru áfellast verkalýðsfélögin fyrir að hafa ekki gripið til verkfalla til þess að mótmæla gerðum Alþingis eftir Hrun.

Þegar samningamenn í Karphúsinu telja að ekki verði lengra komist, þá verða þeir samkvæmt lögunum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Það eru svo félagsmennirnir sem taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, það er ekki samninganefndin sem samþykkir samninginn, þaðan af síður formaður viðkomandi stéttarfélags einhendis, eins og ætla má að sumir telji sé litið framkominna frétta.

Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag. Samninganefndarmenn geta þá ekki haldið áfram kröfugerð í Karphúsinu og stéttarfélögin eru þar með bundin friðarskildu til næstu samninga. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

miðvikudagur, 12. janúar 2011

Staða kjarasamninga

Nú fara fram samningafundir á hverjum degi víðsvegar umlandið. Í gangi eru mjög margbreytilegar viðræður milli fjölmargra aðila. Allir kjarasamningar eru lausir og viðræður víða komnar í gang. Vinnuhópar eru að störfum hjá landsamböndum, ASÍ og SA.

Yfir vötnunum svífur þessa dagana sú skoðun að ef ekki tekst að ná samstöðu um sameiginlega samninga í næstu viku muni allir aðilar fara fram hver fyrir sig. Það mun leiða til þess að gerði verði skammtímasamningar fram eftir árinu. Stéttarfélögin hafa bent á að til þess að þau komi að sameiginlegu borði verði að liggja þar tillögur sem vekti áhuga hjá mönnum. ekkert slíkt hafi komið fram, hvorki frá SA eða stjórnvöldum.

Sú skoðun hefur komið fram m.a. hér á þessari síðu, að það sé forgangsverkefni að skapa grundvöll fyrir frekari fjárfestingum og koma atvinnulífinu í gang. Það verði að skapa traust og stöðugleika eigi að fá fyrirtækin og heimilin að ná sem fyrst fyrri styrk og fari að fjárfesta. Þá færu framkvæmdir af stað, þetta er ekki einfalt og ekki gert nema með sameiginlegu átaki allra. Óásættanlegt er að sveitarfélögin væru að velta öllu vanda sínum beint út í verðlagið með niðurskurð þjónustu samfara hækkunar á þjónustugjöldum.

Tekjur samfélagsins verða að vaxa með verðmætaaukningu í atvinnulífinu og auknum útflutning eigi að komast yfir risavaxna skuldabagga íslensks samfélags. Samfélagslegar aðgerðir eins og vegalagning og veggöng skili ekki tekjuauka í formi aukinna útflutningstekna, þó svo þær séu mikilvægar. Með áframhaldandi stefnu (leysi) bendir margt til þess að Ísland muni dragast enn frekar aftur úr nágrannalöndum okkar.

Ef ná á nauðsynlegri viðhorfsbreytingu þarf að gera kjarasamninga til þriggja ára með samræmdri launastefnu. Þannig myndu verða viðhorfsbreyting og skapast ný störf til skemmri og lengri tíma. Með því myndi tekjuflæði heimilanna aukast og ekki síður með færri atvinnulausum einstaklingum. Ef gerðir yrðu skammtímasamningar verður það til þess eins að framlengja núverandi ástandi og myndi leiða til enn frekari niðurskurðar og hækkunar skatta. Atvinna myndi halda áfram að dragast saman og atvinnuleysi aukast enn frekar. Við blasa enn frekari uppsagnir hjá verktakafyrirtækjum og ekkert virðist vera í spilunum um verkefni á næstunni. Þessu verði að snúa við.

Þessi er ekki fær nema ríkisstjórnin komi að málum og það verði tryggt að það standi sem verði í samningum. T.d. mætti setja inn þau ákvæða að samningar verði lausir í vor ef ríkisstjórn hafi ekki afgreitt á Alþingi þau skilyrði sem sett væru. Ekki væri ástæða til bjartsýni með breytingar á verklagi Alþingis, nú væru fjárlög að baki og ætla mætti að þingmenn væru að snúa sér að nýjum verkefnum, en þingmenn halda áfram að verja öllum sínum tíma í innihaldslaust og tilgangslaust þras.

Umsamdar launahækkanir verða að ná til allra og tryggja vaxandi kaupmáttur. Þar mætti spila inn skattabreytingum af hálfu ríkisvaldsins, eða aðgerðum sem leiddu til lækkandi verðlags og lækkunar vaxta.

mánudagur, 10. janúar 2011

Fullveldi

Til þess að skapa störf fyrir vaxandi fólksfjölda hafa ríki myndað efnahagsbandalög og með því skapað sér betri samkeppnisstöðu svo þau geti haldið þeim lífskjörum sem þegnar þeirra krefjast. Þetta á ekki síst við Evrópu með tilliti til hratt vaxandi iðnaðar- og verslunarvelda í Asíu og Suður-Ameríku. Alþjóðavæðing með opnum mörkuðum þar sem fyrirtæki starfa með markaði í mörgum löndum sama á við um birgja, þá verða sífellt fleiri mál fjölþjóðleg og snerta margar þjóðir í senn.

Á þessum markaði starfa þau íslensku fyrirtæki sem hafa skapað flest störf á undanförnum árum og það mun ekki breytast. Sjávarútvegur og landbúnaður mun ekki skap þau 30 þús. störf sem við verðum að skapa hér á landi á næstu árum ef við ætlum að ná atvinnuleysi niður án þess að flytja út fólk í stórum stíl.

Hér er m.a. verið að tala um umhverfismál, vinnumarkaðsmál, þróun fjármálakerfis heimsins, efnahagsmál og varnarmál, svo nokkur dæmi séu nefnd. Þessum málaflokkum fjölgar ár frá ári og ríkin geta ekki leyst sín mál nema í nánu samstarfi. Á þessum augljósu forsendum er harla einkennilegt að nokkrir einstaklingar telji að Ísland geti lifað af þessa þróun eins í hlutverki Bjarts í Sumarhúsum, ein upp á heiðum utan samfélags þjóða. Fullveldi felst í því að móta eigin þróun og hafa áhrif á eigin örlög. Þjóð lætur hluta af eigin fullveldi en fær hlutdeild í fullveldi annarra þjóða á móti.

Ef við viljum vera áfram ein og sér munum við ekki geta búið við frjálst fjármagnsflæði og frjáls gjaldeyrisviðskipti. Það mun hefta þróun atvinnulífsins. Í vaxandi átökum um orku, vatn og hvers konar auðlindir munu styrkleikahlutföllin skipta sköpum. Við erum eina landið í vestanverðri Evrópu sem býr við haftastefnu.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Þetta hefur heppnast mun betur en nokkur gerði ráð fyrir og er Evran orðin ein af megingjaldmiðlum heimsins. Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

sunnudagur, 9. janúar 2011

Lélegur gjaldmiðill = vinnudeilur

Það eru ekki nema 2-3 áratugir síðan eigur íslenskra sparifjáreigenda brunnu upp á verðbólgubáli. Hefur þar lagst á eitt, lélegur gjaldmiðill og sveiflukennd, ómarkviss peningastjórnun, sem er ekki trúverðug, enda erlendir fjárfestar tregir til þátttöku í rekstri á íslandi. Upptaka evru eða tenging krónunnar við Evruna með vikmörkum og baktryggingu Seðlabanka ESB eins og Danir og Færeyingar hafa gert mun gera okkur kleift að ná langþráðum stöðugleika.

Vextir munu lækka verulega mikið ásamt vöruverði. Við þurfum ekki að halda uppi dýrum gjaldeyrisvarasjóði og getum varið verulega meiri fjármunum í velferðarkerfið, eða með öðrum orðum ekki að skera eins mikið niður og áætlanir eru nú um að gera.

Ef tekin er upp evra, munu þeir sem ferðast innan þess stóra svæðis eða eiga þar viðskipti ekki þurfa að bera kostnað vegna gjaldeyrisskipta. 60% erlendra viðskipta okkar fara fram í Evru. Evran mun einnig leiða til þess að erlendir fjárfestar laðast fremur til þátttöku í íslensku atvinnulífi.

Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði í viðtali 2002 að upptaka evrunnar yrði, að hans mati, dauðadómur fyrir Ísland sem íslenska sjálfstæða þjóð. Davíð er enn á sömu skoðun. Í nýju viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að það sem skiptir máli fyrir sjálfstæða þjóð sé eigin gjaldmiðill. Það skiptir Davíð greinilega engu hve illa fljótandi gjaldmiðill hefur leikið launamenn, enda hugsar hann greinilega frekar um hagsmuni vinnuveitenda sinna sem vilja greiða laun í krónum en gera upp við sjálfa sig í Evrum.

Öll þekkjum við mörg dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem ekki telja brýna þörf að nota eigin mynt. Þar má t.d. nefna Lúxemborg með innan við hálfa milljón íbúa, eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og smáríkið Möltu með tæplega 400.000 íbúa. Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, sem fagna frelsi eftir langa ánauð, stefna inn í Evrópusambandið og eru að taka upp Evru, trúlega ekki með nýja áþján í huga. Finnar nota Evru og Danir eru með sinn gjaldmiðil fasttengdan við Evru, þannig mætti lengi telja.

Varla er hægt að líta á leiðtoga ofangreindra þjóða sem eins konar landráðamenn er glati sjálfstæði síns eigin fólks og geri það að þrælum. Íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þrátt yfir að þeir hafi í raun samningsrétt um launakjör sín þá geta stjórnmálamenn og atvinnurekendur leikið kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir, en það var þurrkað út með gengisfalli krónunnar. Þetta hefur gerst reglulega allan lýðveldistímann.

Í könnunum kemur fram að íslenskir launamenn eru harðastir allra Evrópuþjóða í verkföllum og vinnudeilum. Íslenskir launamenn eru ekkert öðruvísi fólk en gengur og gerist annars staðar á Vesturlöndum. Skýringanna er frekar að leita í umhverfinu. Aðstæðurnar eru öðruvísi. Það er nánast ómögulegt að semja um laun þar sem efnahagsumhverfi er óstöðugt og verðbólgan og gengisfall getur eyðilegt allt á svipstundu.

Sífellt þarf að huga að „rauðum strikum" og vera á varðbergi gagnvart dýrtíð og kaupmáttarrýrnun vegna hugsanlegrar gengislækkunar. Ætla má að slíkar aðstæður séu áhrifarík uppskrift að vinnudeilum. Veik króna stuðlar að verkföllum og óstöðugleika á vinnumarkaði. Það er verulegur ávinningur í því að nota mynt sem skipar traustan sess á alþjóðavettvangi, en upp á slíka stöðu býður Evran.

Ofviðrið

Ofviðrið er á fjölum Borgarleikhússins þessa daga. Hér fjallar Shakespeare um útlegð Prosperós, hertoga í Mílano á óbyggðri eyju. Því er haldið fram að hér sé á ferðinni einhvers konar uppgjör höfundar við leikhúsið.

Sýningin er glæsileg. Leikmynd, hljóðmynd, lýsing og búningar, allt þetta gælir við eyru og augu. Þarna eru á ferð fantagóðir leikarar og dansarar. En samt nær þessi sýning ekki að halda athygli manns. Hún er ruglingsleg og þýðing textans er ekki nógu góð.

Ég nýbúinn að sjá Lér í listilega góðri þýðingu Þórarins Eldjárns. Texti hans er lipur, þar fylgdust áhorfendur átakalaust með, þurftu ekki að setja sig í stellingar og venjast textanum eins og oft er þegar Shakespeare er annars vegar. Leikstjóra tekst ekki að vinna úr þessu sýningu sem skilar sér til áhorfenda.

laugardagur, 8. janúar 2011

Skyggnst bakvið verðtrygginguna

Það er skelfilegt að heyra hvernig sumir stjórnmálamenn tala um verðtrygginguna. Þeir eru þar að upplýsa okkur hversu fávísir þeir eru um fjármál og hagkerfið. Það er áhyggjuefni sakir þess að þar fara menn sem eiga að fara fyrir ákvarðanatöku um stjórn þessa lands. Sé litið til þessa málflutnings mætti ætla að fram komi tillaga á Alþingi um að lengja tommustokkinn um 20 cm og þar með hafi náðst 20% lækkun á eldsneytiskostnaði bílaflotans og uppbyggingu vegakerfsins.

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki.

Því er haldið fram að verðtrygging sé einvörðungu til vegna kröfu lífeyrissjóðanna og hún sé ein helsta orsök vandamála heimilanna. Ástæða er að taka það fram að einungis tæplega helmingur fjármuna lífeyrissjóða er á verðtyggingu. Þeir sem vilja muna nokkra áratugi aftur í tímann skilja og muna af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins.

Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána. Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Verðtrygging tryggir sér til þess að sömu verðmætum er skilað og fengnir eru að láni. Ef verðbólga fer upp úr öllu valdi gerir þetta kerfi það mögulegt að dreifa greiðslubyrðinni af ofurvöxtum. Verðtrygging er forsenda þess að hægt var að taka upp langtímalán hér í landi gjaldmiðils sem stjórnmálamenn hafa nýtt til þess að lagfæra slaka efnahagsstjórn. Hún ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi. Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu. Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika. Án hennar var einfaldlega ekki neitt við neitt ráðið. Hún er trygging þess stöðugleika sem þó hefur verið.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Einn meginkostur verðtrygginga er að hún krefst fjármálalæsi og refsar fyrir óstjórn og óvarkárni í fjármálum og neyða menn til að taka afleiðingunum. Þetta eiga ábyrgir menn að vita og sjá fótum sínum forráð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það hefur komið ítrekað fram hér á þessari síðu og færð fyrir því rök að krónan er helsti óvinur íslenskra launamanna, ef gera eigi langtíma kjarasamninga þá verði að vera inn í því plani stefna um breytta peninga- og efnahagsstjórn, sama á við um ef við viljum losna við áhrif verðtryggingar, þá þarf stöðugan gjaldmiðil.

föstudagur, 7. janúar 2011

Áttaviltur velferðarráðherra

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ásamt forsvarsmönnum sveitarfélaga og OR kynnt hverja gjaldskrábreytinguna á fætur annarri. Þessi leið hefur hlotið nafnið „OR leiðin“ meðal samningamanna. „OR leiðinni“ fylgja skýringar á borð við að búið sé að hagræða eins og hægt er, og ekki verði gengið lengra á þeirri braut nema það fara að segja upp starfsfólki. Tekjur vanti til þess að standa undir rekstri og þess vegna sé ekki önnur leið fær en að hækka iðgjöld.

Þessi lýsing á í sjálfu sér ekki síður við um stöðu heimilanna. Þau eru búinn að hagræða sem best þau mega, en samt skortir tekjur til þess að reksturinn gangi upp. Heimilin vilja fara „OR leiðina“ og fá sömu hækkun.

En síðan mætir velferðarráðherra ásamt fleirum í hvert viðtalið á fætur öðru þar sem talað er um að aðilar atvinnulífs verði að taka sig á hvað varðar tekjur heimila svo stytta megi raðir við hjálparstofnanir. Það er ekki nóg að kaupmáttur íslenskra launamanna hafi fallið mest allra í heiminum vegna hruns hinnar geðþekku Krónu, ástmögur tiltekinna ráðamanna ásamt tilteknum hóp fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði.

Þar til viðbótar hefur kaupmáttur heimilanna fallið vegna gjaldskráhækkana Velferðarráðherra og sveitarfélaganna.

Velferðarráðherra hefur ásamt öðrum ráðherrum og forsvarsmönnum sveitarfélaganna verið tíðrætt um að þeir standi vörð um að ekki verði um að ræða uppsagnir hjá opinberum stofnunum. Með þessu er ráðherra og hans menn að senda níðangurslegar kveðju sem til þess hóps sem þegar er búið að segja upp.

Uppistaða þeirra 15 þús. manna sem ganga um atvinnulausir eru innan ASÍ félaga þar á meðal eru um 2000 fyrrv. starfsmenn sveitarfélaga og hins opinbera. T.d um 700 frá Landspítalanum og Reykjavíkurborg er búinn að segja upp liðlega 100 félagsmönnum stéttarfélaga innan ASÍ. Þar til viðbótar fjöldi launamanna sem unnu hjá fyrirtækjum sem voru með verkefni hjá sveitarfélögum og hinu opinbera.

Í huga Velferðarráðherra og sveitarstjórnarmanna virðist þetta fólk ekki telja, hjá þeim gildir einungis varðstaða um fólk í öðrum stéttarfélögum. Sama viðhorf og gildir um lífeyrisréttindi. Í huga Velferðarráðherra og hans skoðanabræðra eru tvær þjóðir í þessu landi.

Það þykir sjálfgefið að tiltekinn hópur fái að njóta gengisfalls krónunnar. Fyrirtæki í sjávarútvegi og áliðnaði raka saman arði og þau velja í skjóli þessa fyrirkomulags hvernig þau verja þessum arði.

Það blasir við að lækkandi kaupmáttur, verðbólga, gengisfall krónunnar, háir vextir, hátt verðlag, hækkanir á gjaldskrám og benzíni lenda jafnt á öllum landsmönnum.

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja hefur batnað umfram önnur, vegna krónunnar, en það hefur einnig leitt til allt að 25% kaupmáttarhruni íslenskra heimila. Með þessu fyrirkomulagi er auðvelt að flytja vandann yfir á launamenn. En síðan situr tiltekinn hópur að kjötkötlunum.

Vitanlega verður að semja um launahækkanir og þær verða að ná til allra, ekki einhverra útvalinna með aðstoð Krónunnar. Útvegsmenn ætla í skjóli þessa ástands nýta sér stöðu sína til þess að taka gjörvallan vinnumarkaðinn í gíslingu þar til þeir ná fram kröfum um að verja sína stöðu. Geðþekk vinnubrögð eða hitt þá heldur.

fimmtudagur, 6. janúar 2011

Jónsmessuorlof



Í framhaldi af pistli mínum um staka frídaga fyrr í vikunni hefur risið upp umræða um þetta mál og þegar rauðir dagar á svörtum lenda inn á öðrum rauðum dögum. Ég hef nokkrum sinnum áður fjallað í pistlum mínum um sambærilegar tillögur eins og hér og t.d. hér

Um þetta hefur verið fjallað í kröfugerðum rafiðnaðarmanna undanfarin tvo áratugi og er þar enn. Þar er lagt til að fimmtudagsfrídagarnir á sumardaginn fyrsta og uppstigningardag verið færðir að helgi í júní sem er næst 17. júní, jafnframt að tekið verði upp frí á aðfangadagsmorgun.

Í allmörgum löndum er fyrir margt löngu búið að flytja alla staka frídaga að helgum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri hér á landi.

Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur vinnudagur á föstudegi er þessum fyrirtækjum ákaflega óhagstæður. Keyra vélar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra þær niður aftur um hádegi. Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.

• 1. 17. lendir á fimmtudag.
• 2. 17. lendir á föstudag, tekur bara uppstigningardag út. Starfsmaður á inni
einn dag
• 3. 17. lendir á laugardag
• 4. 17. lendir á sunnudag
• 5. 17. lendir á mánudag og tekur bara uppstigningardag út. Við inneign starfsmanna bætist annar dagur. Hann á inni 2 daga.
• 6. 17. lendir á þriðjudag.
• 7. 17. lendir á miðvikudag. Hér fer annar inneignardagur starfsmanns þar sem hann fær 3 frídaga plús 17. Hringnum er lokað og starfsmaður á inni 1 dag.

Ef tekið væri inn í dæmið frí á aðfangadögum þá dugar inneign starfsmanns upp í tvo aðfangadaga, en fyrirtækin kæmu út með 2 og hálfan dag í mínus. En á móti má benda á hagræðið, auk þess að 17. júní er 2 daga inn á helgardögum, þannig að það jafnast út. SA hefur bent á nýgerða danska kjarasamninga sem fyrirmynd, þar var samið um frí á aðfangadagsmorgun.

Ef uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti væru fluttir að 17. júní, væri hægt mynda góða helgi fyrir fjölskyldur í lok skólaárs. Það fyrirkomuleg gefur umtalsverðar fjárhæðir inn í hagkerfið með aukinni ferðamennsku.

Sama á við um aðfangadag og staka frídaga mörg fyrirtæki gefa frí eða starfsmenn tilkynna einhverskonar fjarveru. Þar sem þetta er ekki síður hagstætt fyrirkomulag fyrir fyrirtækin er ekki óeðlilegt að leggja til að til þess að jafna upp stöðuna að setja inn í þetta dæmi frí á aðfangadögum.

Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta og samfélaginu öllu.

miðvikudagur, 5. janúar 2011

Auðlinda-karaókí Bjarkar


Tilvera íslensku þjóðarinnar byggist á nánu samneyti við náttúruna og náttúruöflin. Lífsgæði okkar byggjast að stærstum hluta á nýtingu auðlinda lands og sjávar. Umgengni Íslendinga um lífríki lands og sjávar hefur falið í sér mikinn lærdóm um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Íbúar landsins hafa eytt skógum og með ofbeit staðið að eyðingu gróðurs og jarðvegs. Á undanförnum áratugum hefur verið lagt í mikla vinna við að skipuleggja landgræðsla og skógrækt til þess að stöðva eyðinguna og bæta fyrir það sem tapast hefur.

Stórbrotin náttúra Íslands er auðlind sem stendur undir stærstum hluta ferðaþjónustu á Íslandi, en samfélagið þarf að leggja í mikinn kostnað til þess að verja náttúruna fyrir of miklum ágangi, sem getur aftur á móti skert afrakstur af ferðaþjónustu til lengri tíma litið en á móti tryggt að hún verði eftirsóknarverð.

Einnig má vísa til fiskveiða, ofnýtingu stofna og aðferða til stjórnunar veiða, bæði til lands og sjávar. Þung sókn í nytjastofna sjávar hefur verið vandamál. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að tryggja eftir föngum að fiskveiðar séu innan ramma sjálfbærrar nýtingar og þannig tryggt áframhald mögulegra veiða. Þetta hefur verið gert með því að setja kvóta á veiðar með tilvísun í ráðleggingar vísindamanna, sem miða að því að ná góðri nýtingu á stofnum til langs tíma litið.

Náttúruauðlindir eru þjóðareign og þær ber að nýta á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Fjöllin, dalirnir og hafið umhverfis landið, náttúruauðlindirnar eru í þjóðareign. Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og það er skylda hverrar kynslóðar að skila því í sem bestu ástandi til næstu kynslóðar þar sem líffræðilegri fjölbreytni hefur verið viðhaldið.

En á það hefur verið bent með lögfræðilegum rökum að sameign þjóðarinnar jafngildi ekki eignarrétti í lagalegum skilningi. Fiskurinn í sjónum geti verið þjóðareign þar til hann er veiddur. Sama eigi við um vatnsföll, en þjóðin hafi ekki leitt hugann að þessu á meðan vatnsföllin voru nýtt af fyrirtækjum í þjóðareign, en vaknar við vondan draum þegar búið er að selja orkufyrirtækin til einkaaðila. Á nýtingarréttur að vera þjóðareign?

Sala á hlut í einu af stærsta orkufyrirtæki landsins til kanadíska félagsins Magma varðar almenning í landinu, hér er verið að breyta eignarhaldi á nýtingarrétti orkuauðlindar og selja hann til erlends aðila. Leiðir það til þess að það verði breyting á stefnu við ákvörðun á orkuverði til almennings og öryggi í afhendingu orku?

Hingað til hefur allt ferlið verið í höndum fyrirtækja í eigu almennings, orkuverði haldið lágu og ef orkusala hefur skilað arði rennur hann til almennings með einum eða öðrum hætti. Mun þessi ráðstöfun hafa áhrif á nýtingu náttúruauðlindanna? Það er brýnt að almenningur eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum málið, stjórnsýslumeðferð málsins og einstakar ákvarðanatökur þar að lútandi.

Björk býður öllum að syngja á maraþon-karaókí í Norræna húsið sem byrjar á þrettándanum klukkan 15:00 til 24:00 og stendur í þrjá daga. Þar er stefnt að því að syngja orkuauðlindirnar okkar til baka og hvetja alla til þess að taka þátt í undirskriftasöfnun um áskorun til stjórnvalda um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald á orkuauðlindunum sem finna má á vefsíðunni orkuaudlindir.is.

Sjálfsgagnrýni

Hún var umfangsmikil umfjöllunina um viðskiptalífið á Íslandi í góðærinu. Gefin voru út viðskiptablöð og í nánast hverjum fréttatíma var sérþáttur um úrvalsvísitöluna og hvað þetta hét nú allt sem var allt í einu í öllum fréttum dagsins. Þar flugu orð sem margir höfðu aldrei heyrt áður. Viðskipti dagsins í Kauphöllinni voru rædd í fermingarveislum. Gefnar voru út „Ísland er best í heimi“ skýrslur og íslendingar fóru mikinn í verslunarhúsum stórborganna.

Hjarðhegðunin og samfélagsleg klikkun góðærisins kom í veg fyrir heilbrigða gagnrýni. Fýlupokar og neikvæðir öfundarmenn voru afgreiddir með háði og spotti. "Við erum best" yfirlýsingar voru það sem gilti, stjórnmálamenn fóru þar fremstir og mærðu það samfélag sem þeim hefði tekist að búa til með sinni stjórn og stefnu, aðrir áttu að fara í endurmentunarnámskeið og læra upp á nýtt um efnahags- og peningastjórnun. "Íslenska efnahagsundrið"/(hrunið) og aðeins ein leið til Upp." Bankarnir buðu upp á lán og yfirdrætti, ekki bara fyrir nauðsynlegu þaki yfir fjölskylduna og venjulegum bílakosti. Gert var góðlátlegt grín af þeim sem ekki keyptu sér draumahúsið og kláruðu allt strax. Pöntuðu sérhannaðar innréttingar og færustu iðnaðarmennina og endurnýjuðu bílakost heimilisins.

Seinni hluta árs 2007 var tuttugu ára gamalt og vel byggt raðhús í grennd við þar sem ég bý var selt byggingarmeistara. Hann hreinsaði allt úr því nema útveggi og setti inn allt það nýjasta og vinsælasta. Ung hjón keyptu húsið og þegar þau höfðu skoðað það vel ákváðu þau að breyta nokkrum atriðum. Fulltrúar bankans sögðu að það væri mikið betra að gera það frá grunni og hafa það þau vildu. Án þess að búið hefði verið einn dag í nýendurbyggðuhúsinu var pantaður gámur, allt hreinsað aftur út og það endurinnréttað, með nýjum gólf- og loftefnum, hreinlætistækjum, innréttingum og raftækjum.

Þau bjuggu þar í hálft ár ákváðu þá í samráði við bankann að kaupa sér einbýlishús. Húsið var selt öðru ungu pari og það var algjörlega ósátt við húsið og enn var pantaður gámur og allt hreinsað út úr húsinu og það endurinnréttað.

Sé litið til umræðunnar undanfarin 2 ár er ljóst að það hefur gengið hægt að fá þá sem fóru offari til þess að líta í eigin barm, en nú virðist vera að fólk sé farið að greina betur stöðuna. Sjá í gegnum moldryk lýðskrumaranna og stjórnmálamannanna sem fóru fyrir umræðunni í aðdraganda Hrunsins.

Í þeirri samfélagsmynd sem við þurfum að þróa þarf aga, en veita einstaklingum sem mest svigrúm til þroska og athafna á grundvelli leikreglna sem eru sanngjarnar og vel úthugsaðar. Við þurfum því yfirvegaða, fræðandi og raunhæfa umræðu. Skýrasti lærdómurinn sem draga má af Hruninu var skortur á yfirvegaðri og opinni umræðu tengdri sjálfsgagnrýni.

Heimtufrekja og þöggun óþægilegra skoðana er skaðleg, við erum of sjálfhverf og eigum erfitt með að líta í eign barm. Sú hneykslunargirni sem hefur einkennt viðbrögð okkar við ábendingum erlendra aðila í aðdraganda Hrunsins segja allt um þetta. Sama má segja um ábendingar um að of margir hafi látið óskhyggju lýðskrumsins ráða för. Þeir sem bent hafa á annað hafa mátt sitja undir heiftúðlegri gagnrýni.

Fjölbreytileiki, ólík lífssýn og gildismat skapa vissulega ólíkar skoðanir en það er einmitt það sem styrkir samfélög ef þær fá að vera hluti af umræðunni. Stærsta vandamál Íslendinga er án nokkurs vafa yfirþyrmandi skortur á aga, auðmýkt og sjálfsgagnrýni. Afsakanir skortir ekki. Betur og betur er að koma í ljós að við vorum sjálfhverfar smásálir, ófærar um að líta í eigin barm.

þriðjudagur, 4. janúar 2011

Saga húsbyggjanda II

Það er mikið rætt um það þessa dagana í pistlum og greinum að nú sé kominn tími til að íslendingar horfist í augu við sjálfa sig og stöðuna og hætti því að sakast í sífellu á við aðra. Það var ástæða pistilsins í gær, benda á göt í þeim forsendum sem sumir hafa gefið sér í umræðunni, sama á við um pistlana um krónuna. Í framhaldi af aths. og bréfum sem ég hef fengið vegna pistils gærdagsins langar mig til þess að rifja upp næsta kafla húsbyggingasögu okkar hjóna.

Nokkru eftir að ég hóf störf innan verkalýðshreyfingarinnar upp úr árinu 1985 hitti ég forsvarsmenn annarra norrænna rafiðnaðarsambanda. Þar var m.a. rætt um kjarasamninga og fram kom að þeir hefðu samið um 2 – 4% launahækkanir. Við höfðum þá nýlega lokið samningum sem innifólu tæplega 40% launahækkanir og ég greindi þeim frá þessu með miklu stolti. Viðbrögð þeirra komu mér í opna skjöldu, í stað viðurkenningar horfðu þeir sogmæddir á mig og spurðu „Hvað segirðu Guðmundur, voruð þið að semja um 40% launahækkun? Ef svo er þá hljótið þið að glíma við mjög alvarleg efnahags vandamál.“

Við íslendingar glímdum þá við nokkurra tuga prósenta verðbólgu og ég var að glíma við að koma mér upp litlu timburhúsi upp í Grafarvogi með aðstoð vina og vinnufélaga, mest í eigin vinnu eða skiptivinnu. Við hjónin höfðum þá klárað það að mestu að utan en allt ófrágengið að innan, búið að setja upp hluta af eldhúsinnréttingu og skrúfa niður klósettið. Þannig fluttum við inn, borðuðum Ora fiskibollur í öll mál, tókum engin frí, áttum tvo 10 ára bíla, sem ég hélt gangandi með viðgerðum fyrir utan húsið á kvöldin eftir langa vinnudaga. Manni tókst einhvernvegin að skrapa saman fyrir afborgunum af síhækkandi lánum og draga fram lífið með margskonar skuldbreytingum. Þar var fyrst árið 2005 að við kláruðum baðherbergið og þvottahúsið.

Frá stofnun Rafiðnaðarsambandsins höfum við samið um 3.600% launahækkanir, á sama tíma hefur danska sambandið samið um 330% launahækkanir, en þeir standa samt betur en við í kaupmætti. Í sjálfu sér segir þessi setning allt sem segja þarf um efnahagstjórnina hér á landi, en svo furðulegt sem það nú er þá voru sömu stjórnmálamenn endurkosnir til valda, og fréttamenn virðast alls ekki skilja svona augljósar og einfaldar staðreyndir.

Mér er oft hugsað til þess tíma sem ég var að koma út á vinnumarkaðinn um 1970 eftir 6 ára nám, fékk vellaunaða vinnu og var þar að auki í 2 öðrum störfum, hafði mikil laun og vann alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Á þessum tíma voru almennu lífeyrissjóðirnir stofnaðir. Eftir að hafa greitt 10% af háum launum mínum í rúm 10 ár nam innistæða mín árið 1982 um það bil verði eins lambalæris.

Þá sögðu launamenn hingað og ekki lengra, þessa eignaupptöku valdhafanna á sparifé okkar verður að stöðva og það tókst. En núna er í raun sama staða uppi, þessi gerð stjórnmálamanna flutti margskonar tillögur um að ráðstafa þessu sparifé launamanna til þess m.a. að greiða upp skuldir annarra og ýmissa framkvæmda.

Í Birting Voltaires er kenning Altúngu um að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

Rauðir dagar á svörtum

Vegna frétta í gær um frídaga launamanna sem lenda inn á löghelgum dögum, rauðir dagar sem lenda inn á svörtum dögum eins og það er kallað á kjarasamningamáli, og einkennilegra svara starfsmanns ASÍ í fréttum gærkvöldsins, langar mig til þess að minna á nokkur atriði sem komið hafa reglulega fram í kjarasamningum á undanförnum árum og eru einnig inn í kröfugerðum núna.

Það hefur lengi verið baráttumál á að hinir stöku fimmtudagsfrídagar sem eru á vorin væru fluttir að helgum eins og búið er að gera í allmörgum löndum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Einnig má benda á að Drottningin í Englandi á alltaf afmæli á mánudegi, en það er löghelgur frídagur í því landi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri.

Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur frídagur á föstudegi er mjög hagstæður. Það borgar sig ekki að keyra vélarnar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra. þær niður aftur um hádegi.

Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.

Rafiðnaðarmenn hafa verið með þessar kröfur í undanförnum kjarasamningum. Við höfum einnig lagt til að færa mætti þessa daga fram á sumar og taka upp samskonar fyrirkomulag og er í sumum kjarasamninga rafiðnaðarmanna á hinum norðurlandanna, að setja þessa frídaga við þjóðhátíðardag þannig að þá yrði alltaf a.m.k. þriggja daga helgi, en oft 4 daga helgi.

Ef 17. júní væri á fimmtudegi þá væri frí á föstudag líka, ef hann væri á þriðjudegi væri frí á mánudegi og ef hann lenti inn á helgi þá væri frí á mánudag. Ef hann lenti á miðvikudegi þá væri frí fimmtudag og föstudag. Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er bæði fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta.

mánudagur, 3. janúar 2011

Frekjukynslóðin - Húsbyggjandasaga I

Ljóst er að ef koma á málum hér á landi af stað verður að tryggja sparnað. Margir eru þeirrar skoðunar að 100% húnæðislán, burtséð frá því hvort verðmiði viðkomandi húsnæðis hafi verið langt yfir raunvirði, hafi verið eitt af stóru atriðum sem olli þenslunni. Kárahnjúkavirkjun og álverið fyrir austan hafi verið lítill hluti í samanburði við það.

Eins og svo oft þá bera menn í hita umræðunnar oft saman tvo ólíka þætti og reisa síðan mál út frá einhverri niðurstöðu sem í raun er ekki rétt. Oft hefur verið gripið til þess að halda því fram að svo kölluð frekjukynslóð (fólkið sem byggði á árunum 1965 - 1985) hafi nánast fengið íbúðir sínar gefins og á þeim forsendum sé réttlátt að afhenda yngri kynslóðum sínar íbúðir. Ég er líklega af þessari frekjukynslóð. Byggði mína fyrstu íbúð 1971 í blokk efst í Breiðholti, á sama hátt og allir gerðu á þessum tíma og gerðu fram undir 1995. Fengum hana afhenta tilbúna undir tréverk.

Við hjónin máluðum síðan allt og gólfin líka. Fengum gefins gamla hurð hjá einum úr fjölskyldunni sem nýtt var sem útihurð. Með nokkrum spýtum var búið til borð undir eldhúsvask. Fengum gamla eldavél á slikk, en keyptum nýtt klósett og baðkar. Settum tusku í stað baðherbergishurðar. Þannig fluttum við inn og bjuggum þarna í 7 ár. Ekkert orlof var tekið, engar utanlandsferðir, lifðum á Orafiskbollum og leyfðum okkur ekkert. Á þeim tíma keyptum við smá saman það sem upp á vantaði, smíðuðum sjálf innréttingar, eða unnum það í skiptivinnu.

Eina lánið sem við gátum fengum var húsnæðislán, sem dugaði fyrir tæplega helming íbúðarinnar eins og hún var afhent tilbúinn undir tréverk og sameign máluð, en ekki með gólfefnum. Ég vann fyrir hinum helmingnum á kvöldin og um helgar hjá byggingarmeistaranum í heilt ár, eftir að ég hafði lokið fullum vinnudegi hjá mínum aðalvinnuveitanda, auk þess að ég seldi nýlegan Fólksvagn sem ég átti. Með þessum hætti tókst okkur ungum hjónum með tvö lítil börn að fjármagna íbúðina.

Ef við berum þetta saman við það sem tíðkast hefur á undanförnum árum, þá er verð á sambærilegri íbúð í dag um það bil 25 millj. kr. En í dag er allt frágengið. Tilbúið undir tréverk væri verðið í grennd við 15 millj.kr. og þá væri það lán sem við fengum um 7 – 8 millj kr. lán til 15 ára á breytilegum vöxtum. Þetta er ekki hægt að bera saman við greiðslubyrði af 25 millj. kr. láni á 40 árum með verðtryggðu láni.

Sumir halda því beinlýnis fram að við höfum fengið lánin gefins, vitanlega greiddum við af þeim og þau hækkuðu með óðaverðbólgunni sem ríkti, en það má deila um hversu háan hlut af láninu verið endurgreitt,mér sýnist að það hafi verið líklega um 75%. Þannig að það er kannski um fjórðungur af verðmæti íbúðar tilbúinni undir tréverk. Athugið það - ekki fullbúinni.

Annað sem gleymist í þessum samanburði við okkur frekjukynslóðina. Við greiddum í lífeyrissjóði og reyndum að byggja upp annan sparnað. Efnahagsstjórn þessa tíma var svo slöpp að allt sparifé okkar ásamt lífeyrissjóðum nánast gufaði upp, þannig að það sem við hugsanlega fengum niðurfellt af lánum í verðbólgunni samsvaraði því sem við töpuðum í uppgufun eigna okkar í lífeyrissjóðum og bankabókum. Það bitnaði á frekjukynslóðinni í lakari ávinnslu og réttindum. Þannig að fullyrðingar sem fram hafa komið um að frekjukynslóðin hafi eignast sínar íbúðir fyrir ekki neitt, eru úr lausu loft gripnar. Við hjónin töpuðum þannig mun hærri upphæðum af inneignum okkar í sparimerkjum og lífeyrissjóðum en sem nam lækkun á láninu. Þannig að við komum snaröfug út úr því. Þannig við fengum ekki krónu gefna, ekki eina krónu.

Ég er ekki að rifja þetta upp til þess að gera lítið úr vandamálum þeirra sem eru að reyna að koma undir sig fótunum í dag, ég er bara að benda á hvers fjarri öllu lagi er að halda því fram að einhver kynslóð hafi fengið sínar íbúðir gefins og það réttlæti einhverjar inneignir í sparifé eldri kynslóða. Í framhaldi af þessi má svo rifja upp hvernig hlutirnir gengu upp hjá þeim sem stækkuðu við sig á árunum 1985 - 1993. Ég var nefnilega líka einn af þeim.

Alltaf kemur krónan og hvernig stjórnvöld hafa spilað með hana gegn almenning upp í hugann og menn ættu frekar að beina sjónum sínum að krónunni en að bera einhverjar tilbúnar og vafasamar ásakanir á aðrar kynslóðir.