þriðjudagur, 18. janúar 2011

Langtímalausnir í stað "þetta reddast" lausna.

Það er afskaplega erfitt að fóta sig á málflutningi andstæðinga ESB, sem einkennist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum. Þar má t.d. benda á fullyrðingar þeirra um að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast at erlendum fiskiskipum og að við missum yfirráð yfir orkulindum landsins.

Það liggur fyrir að lagaumhverfi varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Evrópusambandið á ekki neinar auðlindir. Svíþjóð selur sína umframleiðslu á raforku til annarra Evrópuríkja. Olíulindir Breta og Dana hafa ekki verið framseldar og verða aldrei. Allt eru þetta fullvalda ríki í samstarfi við önnur lönd. Rétt eins og Ísland er í samvinnu við önnur lönd.

Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétt. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér. Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er eins og fiskveiðistefna Íslands, það er ef um er að ræða sameiginlega stofna, sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal viðkomandi þjóða. Hér má benda á þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þ.e. kolmunna, síld og loðnu og karfann hér suður af landinu. Við erum þessa dagana að gera kröfu nákvæmlega um þetta grundvallaratriði hvað varðar veiðirétt í flökkustofnum makríls.

Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum. Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana. Það gefur okkur möguleika sem við höfum ekki um hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi með aðgengi að markaðinum sem opnast við aðild að ESB.

Ef við stöndum utan ESB blasir við fækkun starfa, eða réttara sagt stöðnum. Hvorki landbúnaður eða sjávarútvegur geta búist við vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Þau 15 þúsund sem þarf að skapa hér á næstu 3 árum verða ekki til í óbreyttu ástandi og sannarlega ekki í landbúnaði og sjávarútvegi.

Því er haldið fram að ef við göngum í ESB taki við austantjaldskjarasamningar og hingað streymi erlent vinnuafl. Öll stéttarfélög á hinum Norðurlandanna hafa hvert um sig sína sérkjarasamninga, sama á við um önnur lönd í Evrópu. Ísland er búið að vera hluti af EES svæðinu í áratugi og þar gildir frjálst flæði vinnuafls, ekkert mun breytast. Menn eru segja að hér taki við Laval-dómurinn, hann gildir ekki hér og hvergi nema í Svíþjóð. Hér á landi gilda lög sem segja að löglega gerðir kjarasamningar ákvarði lágmarkskjör. Það mun ekkert breytast.

Krónan hefur valdið því að kaupmáttur á Íslandi féll mun meir en í öðrum löndum við Hrun gjaldmiðils okkar. Á einni nóttu þurrkaðist út kjarabarátta stéttarfélaganna það sem af var þessari öld. Launamenn vilja fá langtímalausn, í stað þess að þurfa endurtekið að axla kostnað vegna efnahagsmistaka og rekstrarvanda fyrirtækja.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ágætur pistill en hann skilur mig eftir með spurningar í stað svara. Ef Evrópusambandið eða aðildarþjóðir þess öðlast ekki aðgang að fiskimiðunum eða náttúruauðlindunum (annaðhvort skv. lögum eða með því að kaupa sig inn, af hverju ættu þeir þá að taka Ísland inn? Eitthvað hljóta þeir að vilja fá fyrir sinn snúð? Sá sem gengur inn í þetta samfélag þjóðanna hlýtur að þurfa að leggja eitthvað af mörkum til heimilisrekstrarins ef ég má taka þannig til orða? Spyr sá sem ekki veit.

Annars var ég að vona að þú værir að blogga um "lausnir" stjórnvalda og bankanna á skuldavanda heimilanna. Fyrirsögnin hjá þér gat alveg eins gefið það til kynna. :)

kv.
Ómar

Nafnlaus sagði...

Raunsætt mat, en þó ekki öll sagan,
Umfjöllun um samninga við ESB miða að því að ná góðum samningum. Þar er lang stærsta málið nýr gjaldmiðill og tímabundið skjól krónunnar frá aðild, strax við samþykkt slíks samnings, þar sem krónan væri þá varin af Seðlabanka Evrópu þar til Evra væri tekin upp, sennileg innan 1-2 ára frá samþykkt slíks samnings. Önnur stór mál eru sjávarútvegur og landbúnaður.

En það er ekki nægjanlegt að skoða hvað er í ESB pakkanum (leið A) , því það er annar pakki í borðinu sem er EKKI ESB pakkinn (leið B) – Hvað gerist á Íslandi, verði ekki gengið í ESB og tekinn upp evra.

Sú spurning kann að vera miklu mun mikilvægari – þar sem bera þarf þessa tvo valkosti saman til að geta tekið ákvörðun. Þetta er eins og þegar skip (smábátur) verður fyrir áfalli á miðju hafi og leki kemur að skipinu – hvaða möguleikar eru öruggastir og skjótvirkastri og um leið varanlegri lausn. Það eru hugsanlegar tvær leiðir – en til að geta tekið ákvörðun – verða aðilar að vita kosti og galla beggja leiðanna.

Það væri óðs manns æði, í slíkri stöðu að loka hugsanlega á einu björgunarleiðina (aðild og evru) – án þess að upplýsa áhöfn og farþega um að önnur leið væri sennilega stórhættuleg, og kynni að magna alla erfiðleika enn frekar. Á ekki áhöfn og farþegar (og landsmenn allir) kröfu á þá sem bera ábyrgð á að tala fyrir ákveðnum leiðum – að þeir geri skýra grein fyrir þeim hættum sem sem þessum leiðum fylgir. Það eru til afar slæm dæmi af af siglingum sem enduðu með hörmungum, þar sem stjórnendur vissu um hættuna en gerðu ekkert, en völdu stórhættulegar leiðir þó aðrar miklu öruggari leiðir væru fyrir hendi. Slík sögufræg mistök hafa verið gerð í siglingum, með hörmulegum afleiðingum.

Það sem kann að gerast ef Ísland gegnur EKKI í ESB er þetta – leið B.

Ekki verður hægt að byggja upp traust á erl. fjármálamörkuðum, krónan áfram í höftum, fjármagnsflutningar takmarkaðir, landið einangrað, lítil erl. fjárfesting, innlend fyrirtæki gætu hugsanlega ekki fjármagnaði stórar framkvæmdir eða endurfjármögnun nema á háum vöxtum. Þetta drægi verulega úr möguleikum á endurreisn og stuðlaði að auknum líkum á öðru kerfisfalli og hruni. Yrðu gjaldeyrishöft afnumin, væri miklar líkur á miklu falli krónunar, aukinni verðbólgu og hækkun skulda, hugsanlegu áhlaupi á banka og nýju hruni.
Það væru því miklar og auknar líkur á nýju efnahagshruni – hvort sem gjaldeyrishöft yrðu afnumin eða ekki – þar sem gjaldmiðillinn er búinn að miss allt traust og fjármálakerfið hálf lamað vegna mikilla skulda. Þetta er einungis brot af þeim hættum sem augljósar eru ef ESB verður hafnað (leið B).

Björgunarleið Íslands með áframhaldani krónu og utan ESB – er því gríðarlega hættuleg og mun sennilega valda nýju hruni innan fárra ára.

Í þessu ljósi væri æskilegt að kanna til hliðtar, hvaða samningar kunna að vera í boði við ESB. Það er það stórkostlega tækifæri sem Ísland hefur, þar sem allar aðrar björgunarleiðir eru lokaðar. Því eru aðildarviðræur við ESB nú svo mikilvægar fyrir landið.

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt saman hárrétt hjá þér, Guðmundur. ESB mun ekki eignast auðlindir Íslands. En....

....ESB mun ráða því hversu mikið verður veitt á Íslandsmiðum, t.d. hversu mörg tonn, hvaða tegundir, með hvernig veiðarfærum og skipum, hvenær megi veiða og þar fram eftir götunum.
Þetta verður allt ákveðið af skriffinum niður í Brussel.
Við sem þjóð höfum ekki nema eitt atkvæði af mörgum hvað þetta varðar.

Og svo mun aðild Íslands að ESB veita Brussel aðgang og yfirráð yfir feikilega stóru hafsvæðum á norðurslóðum þar sem að eru og verða mikilvægar siglingaleiðir í framtíðinni, miklar olíu- og gaslindir, auk auðugra fiskimiða.

Ísland (og etv. Noregur) er lykillinn að þessum yfirráðum til handa Brusselveldinu, sem að öðrum kosti væru í höndum Íslands (og Noregs) standi þessar þjóðir utan ESB.

Nafnlaus sagði...

"Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétt. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér."

Þú ættir, eins og flestir íslendingar, að við höfum háð 4 svo kölluð þorskastríð, því síðasta lauk 1976. Ef mér skjátlast ekki, þá eru allir andstæðingar íslendinga í þeim "stríðum" nú í ESB.
Getur þú fullyrt, að þessar þjóði telji sig ekki eiga veiðirétt á Íslandsmiðum, þrátt fyrir nokkra ára "hléi" á veiðum?

En hvaðum það: Ganga í EVRUNA og
taka upp ESB!

Nafnlaus sagði...

"Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum"

Danmörk er botnlangi í Þýskalandi og getur ekki mistekist þótt þeir væru með 1.000 Íslenska stjórnmálamenn.

Nafnlaus sagði...

Kvótahopp, hefur þú ekki heyrt minnst á kvótahoppið?

Kvóta verður ekki fyrst um sinn úthlutað beint til erlendra fyrirtækja, kvótinn fer í erlenda nýtingu í gegnum fjárfestingar í Íslenskum sjávarútvegi.

http://www.utanrikisraduneyti.is/media/PDF/kvotahopp_ESB_agust_2008.PDF

Nafnlaus sagði...

"Menn eru segja að hér taki við Laval-dómurinn, hann gildir ekki hér og hvergi nema í Svíþjóð."

Þú vilt meina að hann sé ekki fordæmisgefandi á íslandi eftir inngöngu? hver er munurinn á löggjöf Íslands og Svíþjóðar eftir inngöngu Íslands sem gerir okkur svona spes og frábrugðin öðrum ESB þjóðum?

Guðmundur sagði...

Ég þekki nú vel til í málum atvinnulífs á Norðurlöndunum hafandi verið stjórnarmaður í norræan byggingarsambninu lengi og auk þess formaður í norræna rafiðnaðarsambandinu. Laval dómur hefur einungis áhrif í Svíþjóð hvergi annarsstaðar.
Hér eru lög um íslenska kjarasamninga og þau munu gilda. Sama á við um Danmörk þar gilda þeirra lög um samskipðti á vinnumarkaði. Um þertta hefur ítrekað verið fjallað í íslenskum fjölmiðlum. En það er svo einkennilegt að NEI sinnar vilja ekki heyra rök, þeir halda áfram með sítt innistæðulausa bull til þess eins að geta varið stöðu sína gagnvart íslenskum launamönnum og sérhagsmunum. Maður fær upp í kok þegar maður heyrir og sér málflutning þeirra. Þvílíkt ...........nei ég ætla ekki að segja það.

Unknown sagði...

Ég hef ekki getað fótað mig almennilega í rökstuðningi þeirra sem vilja ganga í ESB heldur. Aðal einkennið er einmitt hræðslan við að ef við göngum ekki inn þá gerist ýmislegt slæmt ... ég bara treysti ekki spámönnum enda hafa þeir nær alltaf rangt fyrir sér þegar upp er staðið.

Ég hef heldur ekki séð næganlega sterkann rökstuðning fyrir því að taka upp evru eða nokkurn annan gjaldmiðil, þar sem það er bara stigsmunur á krónu og evru en ekki eðlismunur. Þetta eru gjaldmiðlar sem gefnir eru út af bankastofnunum í formi lána og eru báðir veikir fyrir sveiflum og hrynja reglulega eins og allir aðrir gjaldmiðlar af þessum meiði. Sérstaklega í umhverfi þar sem þeir eru eina fjármagnið.

Að taka upp evru af því að hún er "stærri" og "stöðugri" er bara enn ein útgáfan af "too big to fail" ruglinu.

Mönnum væri hollt að skoða þrónun kaupmáttar varnings borið saman við þróun kaupmáttar peninga almennt. Oft skoða menn málma í þessu samhengi. Kaupmáttur gulls hefur til að mynda haldist nokkurnveginn í stað í gegnum áratugina á meðan kaupmáttur vinnuframlags hefur hrunið. Þetta á við um öll vestræn ríki en ekki bara Ísland undir krónunni. Minnkandi kaupmáttur er innbyggður í þau peningakerfi sem eru alsráðandi í dag og það er mín skoðun að þau eru úrellt og tíminn kominn á að laga þetta frá grunni.

Ég er ekkert sérstakur andstæðingur ESB en ég myndi hafna aðild vegna þess að ég er ekki til í að ganga í sambandsríki bara af því að er sennilega aðeins skárra.