fimmtudagur, 13. janúar 2011

Leikreglur kjarasamninga - Þúsundasti pistillinn

Þetta er pistill nr. 1.000 sem ég hef ritað hér á þessari síðu. Þetta hófst á því að Jón Garðar hafði samband við mig í undirbúning kjarasamninga í nóv. 2007 og bað mig að skrifa pistla á Eyjuna um kjaramál. Ég féllst á að gera það allavega fram yfir kjarasamningana. Þegar þeim var lokið seinni hluta vetrar þá var lestur kominn það hátt að ég hélt áfram. Hef nokkrum sinnum ætlað að hætta og gert hlé á pistlagerð, en alltaf hefur eitthvað rekið mig að lyklaborðinu.

Það er erfitt að lesa nákvæmlega allt úr talningavélum, en virðist vera þannig að síðan hafi um 8 til 10.000 fasta lesendur sem fara a.m.k. einu sinni í viku inn á síðuna. Heimsóknir eru komnar upp undir 600 þús. Um 6.000 aths. hafa verið birtar, en þar til viðbótar eru nokkrar hef ég stöðvað vegna orðlags eða svívirðinga um saklaust fólk út í bæ, auk þess að ég hef fengið fjölda bréfa og eins að fólk hafi stöðvað mig á ferðum mínum um landið og rætt efni pistlanna. Ég hef haldið mig á frekar þröngu sviði og undrast stundum af þeim sökum lestur síðunnar, en gleðst jafnframt yfir henni. Takk fyrir mig.

Oft er þannig til orða tekið að það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast að laun að séu lág. Verkalýðshreyfingin semur ekki við sjálfa sig. Hún semur við samtök atvinnurekenda eða við einstök fyrirtæki. Ég hef aldrei upplifað það að samningamenn verkalýðshreyfingarinnar standi í samningaherbergjum og segi; “Nei nú er nóg komið af launahækkunum. Alls ekki hærri launatilboð takk fyrir.” Ég hef aftur á móti upplifað það við gerð kjarasamninga að samningamenn launamanna rífi hár sitt og skegg og skelli hurðum sakir þess að þeir ná ekki fram þeim launahækkunum sem þeir sækjast eftir.

Samkvæmt landslögum þá er það stjórnarþingmenn á Alþingi sem ákveða bætur í almenna tryggingarkerfinu, ekki verkalýðshreyfingin. Sé litið til ummæla nokkurra ráðherra á undanförnum dögum er eins og þeir hafi ekki áttað sig á þessu.

Alþingi setti á sínum tíma undir forystu hins merka húnverska bónda Páls Péturssonar þáv. Félagsmálaráðherra lög um gerð kjarasamninga, svonefnd Pálslög. Þar segir að það verði ekki farið í verkföll nema um kjaradeilu sé að ræða og það sé búið að vísa henni til sáttasemjara og hann hafi haldið árangurslausar sáttatilraunir.

Þessi lög voru sett af kröfu sjálfstæðismanna þar sem þeim fannst verkalýðsfélögin misnota verkafallsvopnið í pólitískri baráttu. Sjálfsagt höfðu þeir rétt fyrir sér í einhverjum tilfellum, en ástæða til þess að minnast á þetta þegar menn eru áfellast verkalýðsfélögin fyrir að hafa ekki gripið til verkfalla til þess að mótmæla gerðum Alþingis eftir Hrun.

Þegar samningamenn í Karphúsinu telja að ekki verði lengra komist, þá verða þeir samkvæmt lögunum að bera samningsdrögin undir viðkomandi félagsmenn. Það eru svo félagsmennirnir sem taka ákvörðun um hvort samningsdrögin séu að þeirra mati ásættanleg, það er ekki samninganefndin sem samþykkir samninginn, þaðan af síður formaður viðkomandi stéttarfélags einhendis, eins og ætla má að sumir telji sé litið framkominna frétta.

Ef félagsmenn samþykkja samningin þá er málið dautt, eins og menn segja í dag. Samninganefndarmenn geta þá ekki haldið áfram kröfugerð í Karphúsinu og stéttarfélögin eru þar með bundin friðarskildu til næstu samninga. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir að halda úti einu faglegasta og raunsæjasta blogginu.

Afar fagleg umfjöllun um, efnahagasmál, kjarasamninga, gjaldmiðla, og framtíðarmöguleika Íslands.

Oft er það þannig að litlar þúfur geta velt þungu hlassi.

Þinn vefur er einn besti hagfræðiskóli sem finnst á blogginu.

Þú tekur til umfjöllunar atriði sem "ekki má fjalla um", en slíkt ástand kom Íslandi m.a. í þá stöðu sem það er í dag.

Þöggun á ýmsum atriðum kom þjóðinni í þá stöðu sem hún er í dag.

Enn er þöggun hagsmunahópa í gangi (eitt besta dæmið)sem kemur m.a. fram í þvi að ekki á einu sinni að leyfa þjóðinni að fá að sjá hvað hugsanlega getur komið út úr samningum við ESB og því á að slíta þeim samningum.

Það er svipað og að koma í veg fyrir að skip, bílar eða fólk í háska, fái ekki að sjá hvaða björgunarleiðir eru mögulegar, sem lokar um leið að bestu björgunarleiðirnar, og gerið ástandið margfalt hættulegra.
Þetta er ein af þeim ástæðum hvers vegna hrunið á Íslandi er svo margfalt verra en í nokkru öðru landi.

Með þínu bloggi er brotist út úr þessum ramma. Þannig verða til ómetanlegir molar á þínu bloggi, er varða samfélagslega ábyrgð og leiðir til endurreisnar Íslands á grunni trausts og faglegrar frjálsrar umfjöllunar.

Það er einmitt á þeim grunni sem endurreins Íslands verður tryggð.

Vonandi bloggar þú í mörg ár í viðbót.

Þökk, fyrir að þroska umræðuna og efla þekkingu á mörgum sviðum þjóðlífsins, Íslandi til farsældar.

Nafnlaus sagði...

Þetta hljómar eins og samningaferlið sé mjög lýðræðislegt. En hvernig er innra starf í verkalýðsfélögnum?Hversu margir eru virkir í þeim skilningi að þeir mæti á almenna fundi? Hversu margir koma að mótun kröfugerðar? Hversu margir taka þátt í kosningum? Að öðru. Hvert er mat þitt á stöðunni núna? Mun ríkisvaldið koma inní með afgerandi hætti? Eru atvinnurekendur yfirhöfuð tilbúnir að semja?

Guðmundur sagði...

Hversu margir eru virkir í þeim skilningi að þeir mæti á almenna fundi?

Það er ákaflega misjafnt og útilokað að alhæfa um það. Félagsstarf hjá RSÍ og aðildarfélögum hefur verið virkt, ég veit lítið um það hjá öðrum.

T.d komu um 1.000 félagsmenn á fundi það er sem þegar verið var að fjalla um gerð og framlengingu stöðugleikasáttmála. Auk þess koma um 100 símtöl og um 50 tölvupóstar með fyrirspurnum á dag inn á skrifstofuna.

Mjög margir félagsmanna afla sér í dag þeirra upplýsinga sem þeir þurfa eftir þessum leiðum, það er útilokað að bera núverandi félagsleg samskipti saman við það var fyrir netöld og GSM símaöld.

Ég myndi telja að félagsleg virkni þegar litið er til alls þessa sé í dag í raun mun meiri en hún var áður.

Hversu margir koma að mótun kröfugerðar?
Í aðildarfélögum RSÍ eru um 140 trúnaðarmenn af jafnmörgum vinnustöðum. Auk þess eru í stjórnum aðildarfélaga tæplega 100 manns. Þessir menn eru út á mörkinni og taka niður kröfur félagsmanna.

Einnig koma margar ábendingar um frá vinnustöðum um netið og um GSM símana beint af vinnustað.

Einnig má benda á að RSÍ er með 20 kjarasamninga, sem gerir það að verkum að félagsmen eru nærri „sínum“ samning.

Hversu margir taka þátt í kosningum? Þátttaka í kosningum um afgreiðslu kjarasamninga innan RSÍ hefur verið frá um 50% upp í 90%

Hvert er mat þitt á stöðunni núna? Mun ríkisvaldið koma inní með afgerandi hætti? Eru atvinnurekendur yfirhöfuð tilbúnir að semja?

Það er útilokað að svara þessu núna, en það gæti verið hægt að svara þessu að einhverju leiti eftir viku.

Hjalti Tómasson sagði...

Þakka þér fyrir góða pistla.
Er reyndar nýfarinn að fylgjast með þeim hér en hef haft af þér að segja á öðrum vettvangi.
Það sem þú segir hér er líklega bæði satt og rétt en þó vaknar gömul spurning í huga mínum, spurning sem ég hef þó oft velt fyrir mér.
Ef við gefum okkur að stærstu launþegasamtök landsins hafi innan sinna vébanda um 98,000 félagsmenn eða stærsta hluta vinnuafls á Íslandi, hvernig stendur á því að hún er ekki áhrifameiri en raun ber vitni ?
Atvinnurekendur og fyrirtækjaeigendur virðast eiga mun greiðari aðgang að ráðamönnum og manni virðist sem þeirra hagsmunir oftar en ekki standa ofar í forgangsröðinni þegar kemur að t.d. lagasetningum sem varða alþýðu manna og viðskipti önnur en bein kaup og kjör.
Kannski er þetta dáldið bratt spurt og ef til vill ekki sanngjarnt að krefja þig svara á þessum vettvangi en ég læt þó á það reyna.
Kveðja

Guðmundur sagði...

Áhrif verkalýðshreyfingarinnar eru mun meiri en ráðamenn vilja viðurkenna. Mjög oft er það þannig að þeir fara einfaldlega með rangt mál þegar þeir eru að gera lítið úr samtökum launamanna.

Má t.d. minna á nýlegt dæmi þar sem forsætiráðherra ásamt fjármálaráðherra voru í gamlársþætti stöðvar 2 Kryddsíld og héldu þar blákalt fram að þeir hefði staðið við Stöðugleikasáttmála og það væri rangt sem verkaklýðshreyfing segði. Þrátt fyrir að það liggi fyrir að þeir sviku að verðtrygggja persónuafslátt þrátt fyri að það væri hluti síðasta kjarasamnings og undirritaður af ríkisstjórn. Þeir sviku að lögbinda Starfsendurhæfingarsjóð og sviku að ganga frá málum vegna atvinnuleyistrygginga þrátt fyrir að þau hefðu sjálf undirritað samninga þar um.

Svo maður minnist ekki á svik þeirra við framvæmdir tilþess að koma atvinnulífinu af stað og ekki síður hvað varðar efnahagstjórn.

Þetta komast þeir upp hjá lélegum fréttamönnum sem gagnspyrja ekki.

Hægt er að benda mjög mörg dæmi þar sem fyrrverandi ráðherrar sjálfstæðismanna harðneituðu alltaf að verkalýðshreyfingin hefði lamið í gegn umbætur á aðstöðu launmanna og betri tryggingar almennings.

Þetta lá fyrir í undirrituðum kjarasamningum sem samt neitðu þeir og samt spurðu fréttamenn ekki.

Þetta endurspeglast í því hvernuig samfélag hefur þroast hér þar sem ákveðin valdastétt heldur sínu en almenningur kýs hana aftur og aftur og gerir ekkert til þess að rétta hag sin eins og t.d. í gjaldmiðilssmálum og lætur sig hafa það á láta stjórnmálamenn gjaldfella reglulega laun sín og lætur svo stjórnmálamenn komast upp með kenna slökum kjarasamningum um minnkandi kaupmátt. Sem er hreint út sagt ótrúlegt.

Hjalti Tómasson sagði...

Þá er eftilvill ekki fráleitt að verkalýðshreyfingin kæmi sér upp fréttamiðli þar sem málum sem hana snerta væri fylgt eftir og ráðamenn krafðir svara. Það væri fróðlegt ef verkalýðshreyfingin gerði könnun innan sinna raða hvort vilji væri til að koma t.d. upp sjónvarpsstöð eða dagblaði sem rekin væri grímulaust af verkalýðshreyfingunni þannig að enginn væri í vafa um eignarhald.
Þessi miðill yrði rekin í samkeppni við þá miðla sem fyrir eru og á sama markaði.
Verkalýðshreyfinguna vantar klárlega mótvægi í umfjölluninni.