laugardagur, 8. janúar 2011

Skyggnst bakvið verðtrygginguna

Það er skelfilegt að heyra hvernig sumir stjórnmálamenn tala um verðtrygginguna. Þeir eru þar að upplýsa okkur hversu fávísir þeir eru um fjármál og hagkerfið. Það er áhyggjuefni sakir þess að þar fara menn sem eiga að fara fyrir ákvarðanatöku um stjórn þessa lands. Sé litið til þessa málflutnings mætti ætla að fram komi tillaga á Alþingi um að lengja tommustokkinn um 20 cm og þar með hafi náðst 20% lækkun á eldsneytiskostnaði bílaflotans og uppbyggingu vegakerfsins.

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki.

Því er haldið fram að verðtrygging sé einvörðungu til vegna kröfu lífeyrissjóðanna og hún sé ein helsta orsök vandamála heimilanna. Ástæða er að taka það fram að einungis tæplega helmingur fjármuna lífeyrissjóða er á verðtyggingu. Þeir sem vilja muna nokkra áratugi aftur í tímann skilja og muna af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins.

Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána. Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Verðtrygging tryggir sér til þess að sömu verðmætum er skilað og fengnir eru að láni. Ef verðbólga fer upp úr öllu valdi gerir þetta kerfi það mögulegt að dreifa greiðslubyrðinni af ofurvöxtum. Verðtrygging er forsenda þess að hægt var að taka upp langtímalán hér í landi gjaldmiðils sem stjórnmálamenn hafa nýtt til þess að lagfæra slaka efnahagsstjórn. Hún ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi. Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu. Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika. Án hennar var einfaldlega ekki neitt við neitt ráðið. Hún er trygging þess stöðugleika sem þó hefur verið.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Einn meginkostur verðtrygginga er að hún krefst fjármálalæsi og refsar fyrir óstjórn og óvarkárni í fjármálum og neyða menn til að taka afleiðingunum. Þetta eiga ábyrgir menn að vita og sjá fótum sínum forráð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það hefur komið ítrekað fram hér á þessari síðu og færð fyrir því rök að krónan er helsti óvinur íslenskra launamanna, ef gera eigi langtíma kjarasamninga þá verði að vera inn í því plani stefna um breytta peninga- og efnahagsstjórn, sama á við um ef við viljum losna við áhrif verðtryggingar, þá þarf stöðugan gjaldmiðil.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þó ég kunni ekki þau miklu vísindi, sem að baki vertryggingunni býr, veit ég það þó að grunnhugsunin á bak við hana er að tryggja virði peningalegra eignar og einnig að vísitala (-tölur)þær, sem hún byggir á, mælir breyting á verði vörur og þjónustu (yfirleitt hækkanir)og eru peningalegu eignirnar hækkaðar til samræmis.
Setjum nú svo, að vísitalan væri bara bundin 1 vörutegund/þjónustu, t.d. bensíni.
Þú lánar mér 100 kall.
Bensínið hækkar um 10% vegna verðhækkana á mörkuðu eða aukinnar skattahækkana.
Ég skulda þér þá 110 krónur.
Sem sagt; ég borga 10 krónum meira fyrir bensínið, sem ég kaupi og
borga líka 10 krónurnar, sem þú borgar meira fyrir bensínið.
Hvorugur okkar hafði nokkurn skapaðan hlut um þessa hækkun að segja.

Þetta er sanngirni verðtryggingar.

Unknown sagði...

Sæll Guðmundur.
Þú gerir enn aftur ein grundvallarmistök í sambandi við verðtrygginguna þegar þú segir að hún tryggi að sömu fjármunum sé skilað til baka og fengnir voru að láni. Það er vissulega rétt en á meðan laun eru ekki verðtryggð eru launamenn alltaf að greiða meira til baka en þeir fengu að láni.
Þess vegna er verðtryggingin algerlega siðlaus og verndar fjármagnseigendur á kostnað lántakenda sem í flestum tilfellum eru bara venjulegt launafólk sem þarf að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein,

Kjarni málsins eru þín lokaorð,,

"Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það hefur komið ítrekað fram hér á þessari síðu og færð fyrir því rök að krónan er helsti óvinur íslenskra launamanna, ef gera eigi langtíma kjarasamninga þá verði að vera inn í því plani stefna um breytta peninga- og efnahagsstjórn, sama á við um ef við viljum losna við áhrif verðtryggingar, þá þarf stöðugan gjaldmiðil."

Spurninging sem staðið er frammi fyrir nú, er verður sama ruglið endurtekið enn einu sinni í kjarasamningum sem öðru, eða fær þjóðin loks, von um framtíð með varanlegum stöðugleika og auknum kaupmætti á grunni alvöru gjaldmiðils evru.

Það er verkefnið á næstu misserum, sem er stærsta verkefni þjóðarinnar á nýrri öld.

Nafnlaus sagði...

Húsnæðisbólan sem hækkaði öll verðtryggð lán á Íslandi var einnig í nágrannalöndunum.

Húsnæði hækkaði mikið í Danmörku og Noregi svo einhver lönd séu nefnd.

Þegar alheimsverð hækkar á olíu þá verður það til þess að útsöluverð hækkar um allan heim en ekki bara á Íslandi.

Það sem ég er að segja er að vöru og fasteignaverð hefur hækkað víða erlendis en ekki bara hér.

Mundurinn á okkur og hinum er sá að við tengjum þessar hækkanir beint við lánin til hækkunnar meðan hin löndin gera það ekki.

Það má vel vera að það þurfi að hafa einhverskonar vísitölutengingu við lánin en sá grunnur sem við höfum haft til viðmiðunnar hefur verið kolrangur.

Vísitalan hefur hækkað um tæp 30% frá því í byrjun árs 2008 en á sama tíma hafa laun verið að lækka eða fryst og íbúðarverð að lækka.

Því má líta á að þeir sem hafa átt sína peninga verðtryggða síðastliðin þrjú ár hafi verið að fá stóran hlutann af verðtryggingunni sem raunvexti. Þannig hafa lífeyrissjóðirnir rétt stöðu sína eftir hrunið á kostnað þeirra sem skulda verðtryggð lán.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst merkilegt að hægt sé að skrifa um þessi mál án þess að minnast einu orði á vexti. Venjulega er litið þannig á að vextir eigi að hvetja til sparnaðar en um leið að verka hvetjandi til fjárfestinga. Verðtrygging fjár er auðvitað góð fyrir alla sem eiga fé, hvort sem það er sparifé eða hlutur í sjóði eða réttur til greiðslna í framtíðinni. En laun launafólks eru ekki verðtryggð og bílar eða fasteignir eru ekki verðtryggð.

Nafnlaus sagði...

"...þá þarf stöðugan gjaldmiðil."

Gjaldmiðill er ekki stöðugur í eðli sínu vegna þess að hann endurspeglar stöðu hagkerfisins og þeirra ákvarðana sem teknar eru á þeim grundvelli, ákvarðanataka sem tekin er lang í burtu fyrir annan raunveruleika, heldur en nærsamfélag okkar kallar á, þarf ekki endilega að kalla fram stöðuleika heldur getur kallað fram ýkt viðbrögð og þá stundum einfaldlega meiri óstöðugleika, þetta er kallað á fræðingamáli "boom and burst (Bullandi vinnu eða bullandi atvinnuleysi)" .

Jafnvel ýmsir virtir hagfræðingar hafa talað fyrir því að borgir heims taki upp sinn eigin gjaldmiðil til að endurspegla borgarhagkerfið, það er ljóst að þessi, mjög svo, frjálslega ó-efnislega yfirlýsing um "stöðugan gjaldmiðil" hafi nokkra merkingu enda algjörlega ómögulegt að þreifa á raunverulegum "afleiðingunum" fyrir okkar hagkerfi til lengri tíma litið.

Það sem er aftur á móti er áþreifanlegt er hvernig afkoma okkar hefur breyst frá lýðveldisstofnun og þá kemur í ljós að við eigum okkur fáa jafningja í bættum lífskjörum og þá með okkar gjaldmiðil að vopni.

Ég hef alltaf sagt að ef hagstjórnin er góð spáir engin í verðtryggingu og þá fyrst væri grundvöllur að tengja krónuna við annan gjaldmiðil í líkingu við ERM-II þ.e +-15% vikmörk.

Nafnlaus sagði...

Blessaður Guðmundur
Þessi grein er mjög góð þó ég sé ekki alveg eins samfærður um ágæti verðtryggingar og þú ert.
Verðtrygging er vissulega ákveðin vörn fyrir verðbólguskotum sem hefur leitt til þess að lán hækka og afborganir. Þessi verðbólguskot eru síðan greidd út lánstímann og verða greiðanda ekki eins þungbær og háir vextir. Ég set hins vegar ákveðnar efasemdir um réttmæti verðtryggingar vegna þess að hún er ekki bara að mæla verðbreytingar á ákveðnum vörum og þjónustu. Það eru neysluvenjur og skattapólitík sem geta hækkað eða lækkað þessa vísitölu. Nú um áramótin var afnotagjald af Ríkisútvarpinu tekið úr vísitölunni vegna þess að Útvarsgjald telst beinn skattur. Við þessa breytingu lækkaði vísitalan um 0,4%. Neysluvenjur hafa líka áhrif á vísitöluna sem þýðir að ef vísitölufjölskyldan hefur miklar tekjur vegna hagvaxtar eða annars, þá byrjar hún að kaupa fleiri bíla eða fer oftar til útlanda. Þetta leiðir til þess að vísitalan hækki þó svo bílar eða utanlandsferðir hafi ekki hækkað í verði. þegar neyslan eykst er þessi aukna neysla sett inní vísitöluna og hún hækkar. Samsetning neysluverðsvísutölu árið 1990 er ekki sú sama 2010 sem segir mér að hún er ekki að mæla það sama í báðum tilfellum. Það er s.s. búið að lengja eða stytta tommustokkinn.
Það er enginn að tala um að ekki eigi að borga til baka þau lán sem fólk tekur og ef ekki væri verðtrygging myndu vextir vera í hæstu hæðum en þá væri sá kostnaður mun sýnilegri en í verðtryggingu sem gæti leitt til þess að menn færu ekki eins bratt í ýmsar fjárfestingar.
NB
Það má sennilega búast við að vísitalan lækki á næstu árum vegna þess að neysla hefur minnkað í kreppunni og vörum á þessari vog hefur fækkað.

Nafnlaus sagði...

"Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði "

Ég skil ekki þessa setningu, enda veldur verðtryggingin því að hún étur upp sparnaðinn minn sem ég setti í íbúðina mína rúmlega fyrstu 23 árin í 40 ára láni og ef ég borga öll 40 árin hef ég borgað rúmlega 3x upphaflegu lánsupphæðina. (skv. reiknivél ÍLS)

Guðmundur sagði...

Ef tekið er lán með breytilegum vöxtum í íslensku hagkerfi, þar sem verðbólga sveiflast upp og niður um tugi prósenta, þá sveiflast vextir líka upp og niður. Sama gildir um verðmat.

Ef verðbólgan fer upp fyrir 4% verða afborganir lána á breytilegum vöxtum svo háar fyrri hluta lánstímans að fáir ráða við þær. Svo maður tali nú ekki um þegar verðbólgan er kominn á annan tug prósenta. Þess vegna var tekið upp greiðsludreifingarkerfi eins og verðtryggingakerfið.

Það er einungis ein leið til þess að losna við verðtryggingu, komast með íslenska hagkerfið í umhverfi þar sem verðbólga er lág og stöðugleiki ríki. Það verður aldrei hægt að losna við verðtryggingu meðan við höfum krónuna.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja föstu vextina í stað breytilegu vaxtanna og strika svo út verðtryggingu. Það er að segja greiða einungis hluta afborgunar lánsins. Valið stendur á milli breytilegra vaxta eða fastra vaxta og verðtryggingar.

Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af láninu sjálfu eru 500 þús á ári.

Á breytilegum vöxtum sem hafa verið upp á síðasta ári 20% þá væri vaxtagreiðsla þessa láns 4 millj. kr. fyrsta árið. Það er að viðkomandi þyrfti að greiða af láninu 4.5 millj. kr. fyrsta ári, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin eftir sem áður 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun fyrsta árið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Með þessu er greinilega verið að flytja hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans. Einhver verður að inna af hendi þessa greiðslu.

Svo það sé ljóst vegna margendurtekinna ummæla á aths. síðunum. Þá þekki ég engan hvorki í verkalýðshreyfingunni eða í samtökum atvinnurekenda sem er fylgjandi hárri verðbólgu, sem leiðir til hárra vaxta, sem síðan leiða til greiðsludreifingarkerfis eins og verðtryggingarkerfið er.

Verðtryggingarkerfið var samið af þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannssyni og sett á af Alþingi, til þess að koma á langtímalánum hér á landi óstöðugleikans og hárrar verðbólgu.

Nafnlaus sagði...

Stórskemmtilegt að sjá hversu fáir leggja í verðtryggingarumræðuna þegar hún er sett fram með málefnalegum hætti. Það sama má reyndar segja um ESB umræðuna.
Georg

Guðmundur sagði...

Í mínu starfi þá hef ég setið undir mörgum lærðum fyrirlestrum um verðtryggingu, gjaldmiðilinn, verðbólguna og vextina, allt þetta tengist forsendum kjarasamninga kaupmættinum og stöðugleikanum.

Geipið um verðtrygginguna og að það sé hægt að þurrka hana eina sér út en láta föstu vextina standa. Þetta vekur upp óraunsæjar væntingar og er lýðskrum. Þetta hangir allt saman.

Einungis er ein raunsæ leið út úr þessu öngstræti það er að semja við ESB seðlabankann sem bakhjarl krónunnar. Tengja krónuna við Evruna með vikmörkum, sama og Danir gerðu, eða með öðrum orðum tengja krónuna við Dönsku krónuna, eða þá Færeysku, sem væri kannski sársaukaminnst fyrir suma, sem eru búnir að mála sig út í horn og vita af því og vilja þess vegna stöðva viðræður við ESB o gkomast hjá því að þær fari í þjóðaratkvæðageiðslu.

Nafnlaus sagði...

Komdu sæll Guðmundur,

Ég hef lengi fylgst af áhuga með skrifum þínum á Eyjunni um efnahagsmál, sér í lagi margvíslegum ágætum rökstuðningi þínum fyrir því að leggja af þann ónýta gjaldmiðil sem notast er við á Íslandi og alltof margir vilja halda sem fastast í af einhvers konar rótgróinni og misskilinni sjálfstæðishyggju. Afstaða sumra þeirra gæti helst minnt á þvermóðsku sjálfs Bjarts í Sumarhúsum.

Sumt fólk lætur að vísu aldrei sannfærast, en skrif á borð við þín eru afar mikilvæg og gera sitt gagn - dropinn holar steininn, segir máltækið.
Kv Rafn