sunnudagur, 22. mars 2009

Ábyrgðin

Í umræðum á kaffistofum og heitu pottunum verður fljótt áberandi sjónarmið um þá sem voru hvað harðastir í dómum um lánakerfið og háværastir í flokki mótmælenda fyrr í vetur. Þar væri fólk sem hafði freistast til þess að taka þátt í hrunadansinum um gullkálfinn og kapphlaupinu við að uppskera sinn hluta af góðærinu. Þessir sem gagnrýndu verkalýðsfélögin hvað harðast, m.a. vegna þess að þau settu sig í andstöðu við þær hugmyndir að lífeyrissjóðir (sparifé tiltekins hóps launamanna) væru teknir og nýttir til þess að greiða upp skuldir allra. Þessir sem hefðu farið þráðbeint á hausinn þó svo bankahrunið hefði ekki komið til.

Þeir sem höfðu hvað hæst voru ekki félagsmenn í stéttarfélögum og höfðu lítið eða jafnvel ekkert greitt í almennu lífeyrissjóðina, en veittust hvað harðast að þeim. Þeir sem voru með allt sitt hjá bönkunum. Eignir losaðar og settar í eignastýringu sléttgreiddu Armaniguttana, sem sögðu með hinu þekkta sjálfbyrgingslegu glotti „Við látum peningana vinna fyrir þig.“

Húsnæði stækkað með 100% láni. Húsnæðisverð hækkaði umfram raungildi. Aukið veðrými nýtt til enn frekari lántöku ofaná eldri lán. Nýjir bílar, íburðarmiklar innréttingar, sumarhús og ferðalög. Einkahlutafélög stofnuð og skipt um kennitölur.

Og þingmenn stjórnarmeirihlutans samsömuðu sig við þá, slógu sér á brjóst og sögðu; „Sjáið hvað við höfum gert. Allir hafa það svo gott undir okkar stjórn.“ Og enn fleiri Jöklabréf voru seld, peningar fluttir inn í landið, krónan hækkuð og gefnar út yfirlýsingar um að hér ríkti engin spilling. Ísland væri ríkasta land í heimi og skuldaði ekkert.

Á meðan hinn venjulega fjölskylda byggði sín venjulegu hús og sigldi með ströndum hvað varðar lifnaðarhætti. Hið venjulega fólk á í vandræðum, en þau eru viðráðanleg ef stjórnvöld grípa til ráða um greiðslujöfnun, lækkun vaxta og niðurfellingu verðbóta. En umræðan stöðvast alltaf við sama punkt. Það er ekkert réttlæti fólgið í því að aðstoð við venjulegar fjölskyldur takmarkist sakir þess að dreifa eigi orkunni í að hjálpa öllum. Líka þeim sem höguðu sér með óábyrgum hætti. „Við sættum okkur ekki við að inn í skuldasúpu ríkissjóðs verði skellt niðurfelling skulda allra og okkur gert að greiða hærri skatta um ókomna tíð sakir þess“, er viðkvæðið.

„Þú ert alltaf að blogga Guðmundur og ert alltaf svo vondur,“ sagði einn af ráðherrum fyrrv. ríkisstjórna og forsvarsmaður stærsta flokksins við mig á fundi í vikunni. Já líklega er það rétt, ég allavega heyri vel hvað fólk segir við mig á fundum og í kaffistofum og hef fylgst með þróuninni. Skrifað mýmargar greinar um hvert stefni og setið undir háðsglósum og upphrópunum frjálshyggjumannanna.

Nú þurfum við að sópa upp eftir þá og taka til. Það kostar óvinsælar ákvarðanir. Ákvarðanir sem þeir höfðu ekki dug í sér að taka sjálfir. Frjálshyggjan er fljót að næla sér í bestu bitana og hlaupa svo á brott. Það blasir svo vel við okkur í dag. Það er líklega ástæðan fyrir því að við erum í svona vondu skapi þessa dagana.

Engin ummæli: