Þeir eru nú hreint út sagt ótrúlegir Sjálfstæðismenn. Hörður Torfason þarf nú að senda frá sér yfirlýsingu að marggefnu tilefni þar sem hann þarf að taka fram, að allt starf sitt við mótmælin á Austurvelli í vetur hafi verið ólaunað og sjálfsprottið. „Ég hef staðið fyrir friðsömum mótmælafundum þar síðan 11. október 2008 og geri enn. Tilefnið var og er mannréttindabrot á heilli þjóð. Þessu starfi hef ég sinnt af einlægri sannfæringu og heilindum,“segir Hörður.
„Þau undanfarin tæp 40 ár sem ég hef starfað sem listamaður hér á landi hefur starf mitt beinst að og fjallað um mannréttindi. Og ég fullyrði að sú barátta hefur skilað árangri á mörgum sviðum. Þetta hefur verið algjörlega ólaunað starf sem ég hef fjármagnað sjálfur með tónleikum og plötusölu.
Það er því aumur og dapurlegur áróður sem heyrist víða og jafnvel frá sumum þingmönnum úr ræðustól Alþingis og á bloggsíðum fyrrverandi ráðherra og lærisveina þeirra, að starf mitt sé fjármagnað af pólitískum flokki eða hagsmunasamtökum. Slíkar fullyrðingar eru úr lausu lofti gripnar og helber ósannindi. Þær eru settar fram í lágkúrulegum, pólitískum tilgangi í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga og grafa undan samtakamætti þjóðarinnar. Auk þess skaðar þessi rógburður mig sem einstakling og er þeim sem slíkt stunda til háborinnar skammar.
Hörður tók það fram í byrjun hvers einasta útifunda sinna að hann vildi ekki að fundirnir tengdust við stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtökum. Ég var ræðumaður hjá Herði og hitti hann oft, ræddi fundina og t.d. aðkomu stéttarfélaga og fleira, en hann ítrekaði þetta.
Þrátt fyrir það hafa margir bloggarar, spjallþáttastjórnendur og fleiri verið að saka verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa ekki komið að útifundum Harðar. Hann naut móralsks stuðnings okkar og svo margra alþýðumanna eins og allir vita.
Enn þarf Hörður að árétta að hann sé ekki leiguþý, núna gagnvart stjórnmálaflokki sem kann ekki annað en að stjórna og skipa og engist ráðvilltur sundur og saman og sakar alla um svik og illt innræti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli