laugardagur, 28. mars 2009

Vigdís - með viðbót

Er fyrir austan fjall þessa helgina í stórafmæli bróður míns. Á leið þangað seinni partinn í gær hlustaði ég á Vigdísi Hauksdóttur úthúða samtökum launamanna og starfsmönnum þeirra. Það hefur verið æði mikið um fram og tilbaka ásakanir hjá Vigdísi og maður er dáldið undrandi á hvers vegna fréttamenn hafa látið það ganga án þess að gagnspyrja hana. Fyrst sagðist hún hafa farið fram á launalaust leyfi en svo kom í ljós að hún hafði ekki gert það. Og það virtist ekki vefjast fyrir henna að hafa sagt ósatt.

Ég ætlaði að ekki fjalla frekar um þetta má, en hún gekk svo kyrfilega fram af mér að ég settist við tölvuna. Ég stóð í þeirri trú að málinu hefði verið lokið á fimmtudag. Vigdís fékk ósk sína uppfyllta að fá að hætta strax þar sem hún hefði unnið prófkjör og færi í efsta sæti sem kallaði á allt hennar vinnuframlag. Hún fékk uppsangartíma greiddan, auk þess að henni stóð til boða að fá sitt starf aftur ef hún næði ekki inn á þing. Ekki var á neinu stigi rætt um stjórnmálaskoðanir, enda eru að störfum hjá verkalýðshreyfingunni fólk sem kemur úr öllum kreðsum pólitískra skoðana. Annað er spuni í kosningabaráttu. Þrátt fyrir þetta velur Vigdís að halda áfram að níðast á stéttarfélögum og bætir í í ummælum um Magnús sem þó hefur verið að vinna einn öll lögmannastörfin og hefur haft takmarkaðan frítíma upp á síðkastið.

Hún byrjaði á því að setja það fram í viðtali við DV sama dag og ársfundur ASÍ var haldin ásökunum um að ASÍ væri útbú hjá Samfylkingunni og þess vegna væri ársfundurinn þennan dag og svo þing Samfylkingarinnar í beinu framhaldi og þar kæmu fram ályktanir ASÍ.

Samtök launamanna eru hagsmunasamtök og þau reyna ætíð að hafa áhrif á stefnu allra stjórnmálaflokka. Það er hlutur af hagsmunabaráttunni. Ef stjórnmálaflokkar taka upp stefnu sem samtök launamanna hafa sett fram þá er það sigur. Það er sem betur fer ekki óalgengt að stjórnmálaflokkar sæki í smiðju stéttarfélaganna. Þetta er ástæða þess að settur var á aukaársfundur og dagsettur þegar tveir stærstu flokkarnir eru með þing og kosningabarátta er að hefjast. Stéttarfélögin leggja áherslu á koma sinni stefnu sem mest inn í kosningabaráttuna, þannig hefur það alltaf verið, en það kemur mér allavega á óvart að Vigdís viti þetta ekki og hlýtur að vera launamönnum umhugsunarefni.

Skilja má á ummælum hennar að hún átti sig ekki á að hún var ráðin starf sem þarf að sinna.
Einnig má spyrja Vigdísi ef ASÍ fór svona illa með hana hvers vegna beið hún í hálfan mánuð með að fara í viðtal við DV og velur sama dag og ársfundurinn er settur?

Vigdís sakaði ASÍ í fyrstu um mismunum byggða á að Magnús Norðdal hafi fengið frí til kosningabaráttu en hún ekki. Kosningabaráttan var ekki hafin. Þegar þetta kom fram þá snéri Vigdís við blaðinu og sagði að Magnús hefði getað verið í prófkjörsbaráttu í vinnunni. Einstaklega ómaklegt hjá Vigdísi.

Magnús fékk ekki frí í prófkjörsbaráttu sinni. Hann var í vinnunni vegna þess að hjá ASÍ er fullt starf fyrir tvo lögmenn. Stéttarfélögin sem borga skattinn til ASÍ og þá um leið laun lögmanna ASÍ, sækja til þeirra með mörg vandamál í hverri viku og krefjast úrlausna strax. Það var ekki nema annar lögmanna ASÍ í vinnunni. Hann hét Magnús var á bólakafi við það leysa úr verkefnum og við kröfðumst að Magnús gerði það og hann stóð fyllilega sína plikt, enda er Magnús af öðrum ólöstuðum einn besti lögmaður og úrræðabesti sem við höfum haft. Okkur var slétt sama um einhverja prófkjörsbaráttu.

Hinn lögmaðurinn hefur verið töluvert í fríi þar á meðal í launuðu námsorlofi. Sá lögmaður heitir Vigdís og var ráðinn fyrir 5 mánuðum þegar við misstum skyndilega hinn lögmann okkar yfir í önnur störf.

Vigdísi tókst það sem hún setti sér, ýta til hliðar þeirri umfjöllum sem samtök launamanna vonuðust að ná í fjölmiðlum með niðurstöður ársfundarins, en kom í stað þess sjálfri sér á dagskrá. Nú þekkja allir Vigdísi, en fáir vissu hver hún var áður. Það er svo spurning hvort það sé leiðin að úthúða samtökum launamanna og starfsmönnum þeirra til þess að ná Framsóknarflokknum upp og tryggja Vigdísi þingsæti og komast í fréttaþætti.

En það breytir ekki þeirri staðreynd að við fáum daglega ný vandamál úr samskiptum launamanna og fyrirtækja og verðum að fá þau leyst af lögmönnum okkar og það þarf að gerast jafnharðan og þau berast algjörlega óháð því hvort fólk sé í kosningabaráttu eða upptekið í viðtölum í fjölmiðlum. Mér hefur skilist að Vigdís hafi staðið sitt starf til boða. En það er til nokkuð sem heitir að glata trausti og brjóta brýr að baki sér.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fólk skilur hreinlega ekki hvernig fjölmiðlar hafa látið misnota sig með jafn ómerkilegum hætti og þarna hefur gerst. Satt best að segja finnst manni að eftir frammistöðu sinni í 12 ára slímsetu í bankamálaráðuneytinu, ætti að vera ljóst hvaða stjórnmálamenn ættu mest sök á þeim fjárhagslega kjarnorkuvetri, sem nú hefur skollið á okkur íslendingum og sér ekki fyrir endann á. Sá stjórnmálaflokkur hefði átt að hafa vit á að draga sig algjörlega í hlé, taka ekki þátt í stjórnmálastarfi og bjóða ekki fram.

Nafnlaus sagði...

Hún hefur alls staðar verið til vandræða þessi Vigdís, mákona Guðna Ágústssonar, sem Bjössi Snæ tróð upp á ASÍ þegar hún útskryfaðist úr lögfræði haustið 2008. Nýútskrifaður lögfræðingur. Framsókn má eiga hana, launafólk getur ekki notað hana, ekki á ASÍ og ekki á Alþingi. En ég vil að þú farir í framboð Guðmundur.

Hallur M sagði...

Það eru mér mikil vonbrigði að vandaður maður eins og þú skulir ljúga upp á Vigdísi Hauksdóttur - einstæða móður sem forseti ASÍ braut 4. gr. vinnulöggjafarinnar á í pólitískum tilgangi!

Vigdís Hauksdóttir hefur aldrei sagt að hún hefði óskað eftir launalausu leyfi.

Ástæða þess er einföld.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ - sem hins vegar hefur margoft orðið margsaga í málinu - enda með slæman málastað að verja - gaf Vigdísi aldrei kost á því að óska eftir launalausu leyfi!

Svo einfalt er málið. Ég bauð mig fram gegn Vigdís i fyrsta sætið. Vigdísi var mjög brugðið eftir símtalið við Gylfa þar sem hann gerði henni ljóst að hún yrði að velja milli þess að taka 1. sæti Framsóknarflokksins ef hún hlyti það - eða starfsins hjá ASÍ. Launalaust leyfi kæmi ekki til greina.

Vigdís valdi að taka sætið. Sótti því ekki um launalaust leyfi þar sem Gylfi hafði sett kostina afar skýrt upp við hana.

Vigdísi var aldrei gefinn kostur á því.

Önnur rangfærsla þín - Vigdís hafði ekki frumkvæði að viðtali við DV.

Gylfi veit jafn vel og ég að Vigdís hafði ekki frumkvæði að fréttaflutningi um starfslok hennar hjá ASÍ, eins og Gylfi gefur svo ósmekklega í skyn í yfirlýsingu sinni. Heimild fréttamanns var annars staðar frá - en ljóst að margir voru afar hneykslaðir á afstöðu og afarkostum Gylfa Arnbjörnssonar gagnvart framboði Vigdísar - og að líkindum sumir sem sitja nær Gylfa en Vigdís Hauksdóttir.

Þú ættir að kynna þ.ér málið betur áður en þú ferð að stinga niðuyr penna til að verja óafsakanlega hegðan og vinnulöggjafabrot Gylfa Arnbjörnssonar.

Nafnlaus sagði...

Annað!
Vigdís hefur aldrei sagt að Magnús Norðdahl hafi fengið frí - þcert á mótui að hann hafi verið í vinnunni sinni í prófkjörsbaráttunni! Sem er reyndar rétt!

Guðmundur sagði...

Það er spuni að brotið hafi verið á Vigdísi, ómerkilegur spuni eins og ég rek í pistlinum.

Nafnlaus sagði...

Brottrekstur Vigdísar er til háborinnar skammar fyrir ASÍ og allt það sjálftökulið sem þar hefur hreiðrað um sig hvort heldur sjálftökuliðið heitir Guðmundur eða Gylfi. Þátttaka í stjórnmálabaráttu er hornsteinn lýðræðisins og það er sorglegt þegar samtök á borð við ASÍ eða forseta samtakanna fara að innleiða þá reglu að launafólk skuli rekið um leið og það reynir fyrir sér í pólitík. Grein þín Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsions og pólitíkus úr Sjálfstæðisflokknum er sjálfum þér til háborinnar skammar.

Salvor sagði...

Sæll Guðmundur,
það er mjög undarlegt að þú skulir verja að stéttafélag segi upp starfsmanni sínum vegna stjórnmálaskoðana og stjórnmálaþátttöku. Ég las viðtalið og umfjöllunina í DV auk þess sem ég hef heyrt Vigdísi segja frá hvað gerðist. Það er alveg ljóst að Vigdís fékk þau svör frá yfirmanni sínum á vinnustað að litið væri á að ef hún tæki efsta sæti á lista Framsóknarflokksins þá jafngilti það uppsögn. Þetta voru kaldar kveðjur frá þessu stéttarfélagi og ískaldar þegar haft er í huga að þær komu frá manni sem hafði einmitt sjálfur reynt fyrir sér í stjórnmálum en ekki haft erindi sem erfiði og dregið sig til baka.

Það eru sum störf þess eðlis að ekki er við hæfi að fólk sem er í kosningaslag sé í þannig störfum, þar má t.d. nefna fréttamenn í ríkisfjölmiðlum. En það er ekkert sem bendir til að lögfræðingur hjá stéttafélagi sem biður um launalaust leyfi á meðan hann sinnir stjórnmálum sé að aðhafast eitthvað sem skaðað geti stéttafélagið.

Eftir því sem DV segir þá mun Gylfi hafa fært þá röksemd að Vigdís væri á leið á þing. Ef leikar fara svo að Vigdís nái kjöri sem við náttúrulega vonum þá er það sjálfgefið að hún annað hvort hættir eða fær lengra launalaust leyfi. En það er ekki fast í hendi, það er enginn þingmaður núna fyrir Framsóknarflokkinn í þessu kjördæmi og það er skrýtið að formenn stéttafélaga reki fólk miðað við þeirra spá um hvernig úrslit kosninga muni fara. Það er ekki í samræmi við það sem ég til lýðræðislegar vinnureglur stéttarfélaga og raunar get ég ekki séð annað en hér sé brotið á grundvallarmannréttindum.