miðvikudagur, 25. mars 2009

Eru lýðskrumararnir að hafa það?

Þau eru ámælisverð viðbrögð Geirs, Árna og Ingibjargar Sólrúnu þegar þeim voru borinn þau skilaboð fyrir rúmu ári síðan frá helstu viðskiptabönkum íslendinga, að bankakerfi Íslands stæði á brauðfótum og stefndi ekki bara sjálfu sér í ógöngur, heldur myndi það draga a.m.k. hluta íslensks þjóðfélags með sér í fallinu. Í sjálfu sér eru viðbrögð Seðlabankans og hans aðalstjóra ekki síður alvarleg, t.d. þegar bankinn gaf heimildir til þess að auka við Icesave kerfið og reyndar viðbragðsleysi bankans yfirhöfuð. Þetta fólk er að hverfa úr íslenskum stjórnmálum með sína siði og viðhorf.

Ummæli og viðbrögð þessa forystumanna ásamt meðfylgjandi stjórnmálamönnum þegar Bretar settu á íslenska bankakerfið hryðjuverkalög og erlendir bankar neituðu landinu um lán, verða svo aumkunarverð og já hreinlega ómerkileg lágkúra.

Mannkynssagan segir okkur að menn fá ekki aðgang að nýjum lánum fyrr en þeir eru búnir að annað hvort að gera upp við lánadrottna sína, eða allavega búnir að ná niðurstöðu um hver skuldin sé og semja um málið. Skilaboð erlendra lánadrottna Íslands hafa um allangt skeið verið ákaflega skýr, íslenskir stjórnmálamenn og um leið bankamenn verði að fara að alþjóðalögum og ef þeir geri það fá þeir ekki lán. Sjá viðbrögð Seðlabanka Norðurlandanna, Bretlands, BNA og fleiri vinaþjóða og allra stærstu viðskiptabanka íslenskra fyrirtækja.

Ef haldið er áfram á þeirri braut sem þessir stjórnmálamenn mörkuðu, þá stefnum við hraðbyri í að verða láglaunaþjóð í samkeppni við önnur láglaunalönd um verkefni. Íslensk fyrirtæki sem eitthvað varið er í verða horfin á braut. Hafa menn ekki hlustað á ræður forsvarsmanna Marel, Össur, CCP og annarra verðmætra íslenskra fyrirtækja? Þeir hafa ítrekað sagt að þeir sjái ekki framtíð fyrirtækjanna hér ef ekki verði skipt um gjaldmiðil og gengið í ESB.

Staða orkufyrirtækjanna sem allir héldu að væru svo sterk, er orðin geigvænleg. Þau byggðu sig upp á tiltölulega stuttum lánum sem sett voru í uppbyggingu orkuvera og dreifikerfis. Orkufyrirtækin geta núna ekki endurfjármagnað lán sín, nema þá með lánum á gríðarlega háaum vöxtum og hvert verða þau þá að leita?

Þau hafa einungis eina leið; Afla aukinna tekna á innanlandsmarkaði. Lækka rekstrarkostnað með lægri launum, eins og þau hafa verið að gera undanfarið og hækka gjaldskrár umtalsvert. Hvert verða þau að leita með þá verðhækkun? Á almennan innanlands raforkumarkað, vegna þess að stórkaupendur eru með langtímasamninga. Þetta vita allir en horfa samt framhjá þesari staðreynd.

Við búum ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, okkar alvarlega staða er fólgin í gjaldeyriskreppu. Hún kallar yfir okkur mjög háa vexti. Stjórnvöld settu á verðtryggingu á sínum tíma vegna hinnar sveiflukenndu krónu. Það var eina leiðin til þess að fá fjármuni í langtímalán heimila vegna húsnæðiskaupa. Áður hafði allt fjármagn gufað upp ásamt sparifé landsmanna. Menn geymdu ekki fjármuni í bönkum eða lífeyrissjóðum, þeir voru geymdir í steinsteypu eða sendir erlendis inn á bankareikninga.

Það er engin leið að losna við verðtryggingu nema að skipta um gjaldmiðil. Fyrr fáum við ekki þann stöðugleika sem er grundvöllur að ná niður verðbólgu og vöxtum. Í dag fá fyrirtækin ekki erlent lánsfé og þau eru að gefast upp hvert á fætur öðru. Þrátt fyrir það eru sumir með innistæðulaust yfirboð um að ganga í skrokk á öllum fyrirtækjum landsins og krefjast launahækkana.

Það skiptir íslendinga öllu hvernig stjórnvöldum tekst til á allra næstu mánuðum. Ef illa tekst til þá blasir við langvarandi kreppa, sumir segj a 10 - 15 ár. En ef tekið er af alvöru á vandanum og takist að ná jákvæðum hagvexti á næstu árum þá getum við unnið okkur út úr þessu ástandi á stuttum tíma.

En við getum verið snögg upp á við eftir að alþjóðabankakreppunni lýkur, ef umæðunni er komið á annað og skilmerkilegra stig en hún er í dag. Ef stjórnmálamenn ásamt fjölmiðlum víkja til hliðar boðskap lýðskrumara og greina hismið frá kjarnanum. Á það skorti umtalsvert í dag í umfjöllum fjölmiðla- og stjórnmálamanna um umræður og tillögur á ársfundi ASÍ. T.d. einbeitti RÚV sér að því að gera forsætisráðherra upp skoðanir og flytja fréttir af ræðum sem ekki voru fluttar. Ekki var minnst á þær tillögur sem til umræðu voru á fundinum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

finnst þér ekkert sorglegt að eina lausnin sem stærstu samtök launamanna sjá sé að sækja um í ESB, kannski verður það samþykkt og þá bíðum við í x mörg ár eftir því að fá að taka upp evru.

Nafnlaus sagði...

Ef innganga í ESB snérist um gjaldmiðilinn einan og ekkert annað þá væri þetta hið minnsta mál. Og við líklega löngu gengin í klúbbinn. En þetta snýst bara um miklu meira.

Það er ómerkilegt að kalla aðra lýðskrumara fyrir að vera manni ekki sammála. Skrumið gengur í báðar áttir í þessu máli.

Innganga snýst líka um framsal á valdi, sem kallar á breytingu á stjórnarskrá. Um sérstöðu okkar, fámenni og atvinnuhætti. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn óttist að svo fámenn þjóð "týnist" í hinu stóra Evrópuríki. Hvort sem sá ótti er réttur eða ástæðulaus.

Og það er víst hægt að losna við verðtryggingu án þess að skipta um gjaldmiðil. Reyndar er það verðbólgan sem er óvinurinn, miklu frekar en verðtryggingin. Ólafslög voru sett í göfugum tilgangi á sínum tíma þó löngu sé tímabært að losna við þau.

Svo held ég að það skipti ekki máli þessa dagana hvort við notum rauða seðla eða bláa. Endurfjármögnun orkufyrirtækja myndi alltaf ganga illa. Öll lánastarfsemi er í lamasessi um allan heim. Já alls staðar. Sástu Obama hjá Leno í gær eða fréttirnar af dönsku bönkunum í dag? Evran kemur ekki til Íslands næstu 10 árin og hefði ekki hjálpað okkur neitt í dag. Hún getur heldur aldrei orðið íslensk, ekki frekar en norska olíukrónan.

Nafnlaus sagði...

Bara að benda Nafnlausum nr. 2 að fámenni hefur ekkert með aðild okkar að ESB að gera. Jú við verðum fámennasta þjóðin en þær eru margar í ESB sem er mjög litlar í samhengi þess að það fólksfjöldi þeirra landa sem eru í ESB er í dag um 450 milljónir minnir mig.
Og eins að hér er ekkert sérstakt við atvinnuvegi okkur. Jú fiskveiðar er stærri hluti landsframleiðslu hér en hinar þjóðirnar hafa líka flestar atvinnuvegi sem eru stór hluti þeirra framleiðslu.
Það er talað um að örmynt verði alltaf hávaxta mynt því annars yrði peningaflótti.

Minni líka á að með ákvörðun um inngöngu í ESB og upptöku evru í framhaldi erum við komin með stífan ramma sem við yrðum að halda okkur við. Sem mundi koma einhverjum aga á mál hjá okkur. Við erum búinn að prófa að vera utan ESB og erum búin að ganga í gegnum verðbólgutímabil milli 1970 til 1990. Síðn litla kreppu. Síðan ofur vexti og samt verðbólgu nú síðustu ár. Gervi hágegni á krónunni þar sem að verðmætasköpun okkar var ekki í neinu tengslum við gengi krónunnar sem skapaði gervi kaupmátt sem við tókum að láni. Fullveldisframsalið yrði sennilega ekki meira en það að Brussel tæki þátt í að ákveða heildarafla sem og að framleiðslustyrkir til lanbúnaðar yrðu bannaðir.
Og eins þá yrðu verndartollar bannaðir á matvöru að mestu.

BB sagði...

að setur að mér hroll við tilhugsunina um að Ísland verði utan ESB.

Þetta blessaða jó jó hagkerfi okkar þarf stöðugleika!

Sumir segja að það sé svo gott að hafa krónuna því þá getum við jafnað sveiflurnar...

En hver er fórnarkostnaðurinn... óðaverðbólga og kaupmáttarrýrnun... erfiðleikar fyrir fyrirtæki sem eru háð innflutningi... möguleg gjaldþrot og atvinnuleysi í kjölfarið.... hækkandi vextir og höfuðstóll húsnæðislána...

Við höfum ekki innlent fjármagn til þess að standa undir verðmætasköpun og hagvexti....

Mér þótti athyglivert að heyra vitnað í orð aðalhagfræðings Seðlabankans í Speglinum í gær: þau rök að króna sé svo góð til sveiflujöfnunar halda ekki sýna rannsóknir; hún er beinlýnis valdur í sjáfri sér af sveiflum...

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 2. Aðalmálið snýst um gjaldmiðilinn. Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins var sammála um það eitt að taka upp Evru, þótt hún hefði þríklofnað um aðild að ESB. Reynslan af krónunni til margra ára er mjög slæm. Það eru fáir svo forstokkaðir að halda að hægt sé að ná lágri verðbólgu, lágum vöxtum og stöðugleika með íslensku krónunni. Sterk rök hafa verið færð fyrir að okkar veiki gjaldmiðlill sé sjálfstæð uppspretta að gengissveiflum og miklum verðlagssveiflum. Eftir gjaldþrot krónunnar og bankakerfisins í dag, með gríðarlegum afskriftum helstu viðskiptabanka og lánveitenda okkar erlendis er vonlaust að halda krónunni, nema með verulegum áframhaldandi gjaldeyrishöftum, handstýringu gengis og vaxta, sem er uppáskrift á landflótta fyrirtækjameð mikil alþjóðaviðskipti og efnahagslega einangrun og stöðnun.
Lykilforsenda uppbyggingar efnahagslífs og trúverðugleika er ný mynt og þá líklega Evra. Um það voru meira að segja heitir andsstæðingar ESB í Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins sammála.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 2
Framtíð okkar efnahagsmála snýst einmitt um gjaldmiðilinn. Um það voru t.d. allir í Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins sammála þó þar væru innanborðs harðir andstæðingar ESB.

Reynslan af krónunni til lengri tíma er mjög slæm og Íslendingar hafa náð góðum efnahagslegum árangri þrátt fyrir hana en ekki vegna hennar. Áframhaldandi notkun íslensku krónunnar er ávísun á áframhaldandi gjaldeyrishöft, handstýringu gengis og vaxta og efnahagslega og viðskiptalega einangrun. Ekki er nóg að búið sé að eyðileggja alla viðskiptavild helstu lánardrottna okkar erlendis, þeir munu seint taka áhættu á Íslandi aftur og örugglega ekki ef krónan verður lögeyrir.