mánudagur, 9. mars 2009

Lífeyrissjóðirnir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og í mörgu einkennst af ótrúlegum þekkingarskorti og skilningsleysi, þó svo búið sé að skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Stjórnendur spjallþátta sem vilja láta taka sig alvarlega, skuli athugasemdalaust ítrekað taka greinar með fullyrðingum um að starfsmenn lífeyrissjóða séu gangsterar sem lifi í svínaríi og spili með kerfið. Sáralítið hlutfall sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði.

Uppgjör eins sjóðs hafa verið gagnrýnd, sama gildir um stjórnarlaun þess sjóðs sem eru hærri en hjá öllum hinum eru tekinn og yfirfærð á allt kerfið. Ef viðkomandi hefur eitthvað út á sinn lífeyrissjóð að setja, af hverju snýr þá viðkomandi sér ekki að þeim sjóð, frekar en að alhæfa um alla sjóðina?

Það liggur líka fyrir að makalífeyrir er ákaflega misjafn milli sjóða, sama gildir um ávinnsluhlutfall.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign starfsmannsins, sjóðsfélagans. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Í dag er það svo að þær innistæður sem eru í sjóðunum duga ekki fyrir skuldbindingum og við blasir að lækka verði örorku- og ellilífeyri. Þetta hefur margítrekað komið fram.

Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn lægri í réttu hlutfalli.

Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, sem eru í dag að safna upp sínum lífeyri. Þeir munu skella á lífeyriskerfinu í hratt vaxandi þunga eftir 2014 og með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer fram mikil uppsöfnun í sjóðunum. Eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja stóru árgangar sjóðanna að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.

Stærðfræði sjóðanna byggist í sinni einföldustu mynd á því að sjóðsfélagi greiðir 12% af launum sínum í iðgjald til lífeyrissjóðs í rúm 40 ár. Þá dugar innistæða hans fyrir lífeyri sem er hlutfall af inngreiðslum viðkomandi til sjóðsins til meðalaldurs þjóðarinnar. En lífeyrissjóður lofar í lífeyrisgreiðslum til dauðadags. Almennu lífeyrissjóðirnir eru sameignarsjóðir og geta staðið við þetta loforð vegna þess að jafnmargir falla frá fyrir meðalaldur og þeir sem lifa lengur.

Menn stilla gjarnan upp dæminu þannig að einhver sem hafi greitt í lífeyrissjóð falli frá þá fái erfingjar ekkert og starfsfólk lífeyrisjóðanna steli þeim peningum sem viðkomandi hafi greitt til sjóðsins. Stjórnendur spjallþátta gera engar ath.s við svona málflutning. Viljandi er því sleppt hversu stór hluti innkomu sjóðsins fari í að greiða örorkubætur, það er að segja ef einhver er svo ólánsamur að verða ungur öryrki, en þá fær hann úr lífeyrissjóð þúsundfalt meir úr sjóðnum en hann greiddi inn.

Sama er upp á teningunum ef einhver lifir fram yfir meðaldur, þá fær hann líka mun meir en hann greiddi inn. Hvaðan halda menn að þeir peningar komi? Úr vösum starfsmanna sjóðanna? Hvaðan halda menn að verðtygging lífeyris komi? Af himnum ofan?

Svo eru til menn sem hafa aldrei greitt neitt inn í lífeyrisjóðakerfið en krefjast þess að það byggi upp og reki elliheimili af því það kosti svo lítinn hluta af eignum sjóðanna. Það liggur fyrir að sjóðirnir hafa lánað til uppbyggingar þessum heimilum og eru tilbúnir að lána enn meira, en það stendur upp á ríkið og sveitarfélögin að ganga frá rekstrarsamningum, ekki lífeyrissjóðina.

Einnig eru áberandi nokkrir aðilar sem vilja taka það sparifé sem sjóðsfélagar eiga í lífeyrissjóðunum og nýta það til þess að greiða upp skuldir annarra. Nokkrir þeirra sem hafa haft sig hvað mest í frammi með þetta hafa aldrei greitt krónu í almenna lífeyriskerfið. En þeir vilja sem sagt nýta sparifé annarra til þess að greiða upp sínar skuldir.

Með þessu orðum er ég á engan hátt að gera lítið úr skuldastöðu heimila. Við bíðum eftir að stjórnvöld taki á greiðsluvanda heimilanna. Vandinn liggur hjá bönkunum og íbúðarlánasjóð, ekki lífeyrissjóðunum eða öðrum sparifjáreigendum.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður. þarna erum við á rétri leið í umræðunni. Ég er í Almenna lífeyrissjóðnum og fylgist vel rekstri sjóðsins. Eg held að flestir hinir séu reknir með jafn miklum áhuga, fyrir hagsmunum félagsmanna. Það góða við þann sjóð er að við félagarnir kjósum beint í stjórn.
Ef VR sjóðstjórinn hefur sýnt óráðdeild, þa er það félagsmanna að fetta fingur framan í hann, en ekki alla hina sem hafa lagt sig fram að gæta aðhalds.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa færslu, nú skil ég hvers vegna nauðsynlegt er að greiða forsvarsmönnum lýfeyrissjóða tugi milljóna í laun, jeppa og bensín.

Einnig svarar þetta spurningum um hvort ekki sé rétt að sameina sjóði og spara þar með milljarða í óþarfaflottræfils yfirbyggingarbulli.

Einnig er ég mun nær um tengsl forsvarsmanna sjóðana og fjölskyldna þeirra við bankakerfi og atvinnulíf og ber að þakka það.

bkv
EP

Nafnlaus sagði...

Er ekki ráð að fela norska olíusjóðnum að fjárfesta fyrir okkur þessar krónur. Þar er allt gert fyrir opnum tjöldum og hægt er að fylgjast með öllum fjárfestingu sjóðsins (t.d. skortstöðunni sem tekin var gagnvart krónunni). Þar starfa menn eftir siðareglum og fjárfesta ekki í fyrirtækjum með vafasöm viðskiptatengsl í skattaskjólum eða berstrípa fyrirtækin með skuldum og lánveitingum til eigenda. Þetta myndi allavega spara okkur gríðarlegan rekstrarkostnað.

Svo væri þetta líka í samræmi við nýju norsku-stefnuna í efnahagsmálum Íslands.

Þegar lífeyrissjóðirnir neyðast til að horfa fram í veruleikann og byrja að afskrifa í samræmi hann, þá held ég að það verði erfitt fyrir verkalýðsforustuna að verja núverandi fyrirkomulag. Hún hefur gengið all svakalega á traust-innistæðu sína hjá félagsmönnum. Þegar tapið kemur í ljós verður mælirinn líklega orðinn fullur og ófriður skollinn á.

Guðmundur sagði...

Mikið ósköp er nú lítið varið í nafnlausar færslur.
Allavega ekki þess virði að taka mark á þeim
Einnig er ástæða að taka það fram að það er svo allt annað andrúmsloft sem maður upplifir á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar en kemur fram hjá hinum nafnlausu. Enda er næsta víst að þar fer fólk sem ekki er félagsmenn í verkalýðshreyfingu.

Nafnlaus sagði...

Enn þú talar um það í færslu þinni að sjóðsfélagar ættu að fylgjast með. Hvernig eiga þeir að gera það þegar aðalfundir í sjóðum eru haldnir á vinnutíma. Þannig er það nú í sjóðnum sem við erum í og þú ert þar í varastjórn Kveðja Simmi

Guðmundur sagði...

Allir lífeyrissjóðir eru með mjög góðar heimasíður og flestir gefa út mjög gott kynningarefni. Sama gildir um Landssamband lífeyrissjóða, þar er efni aðgengilegt.

Sá lífeyrissjóður sem þú vísar til Simmi er búinn að vera með nokkra fundi í vetur um sín mál utan vinnutíma og hyggst boða til enn eins seinna í þessum mánuði. Þannig að hún er þreytt þessi klisja.

Á heimasíðunum sést glögglega hversu mikill sá fáranleiki er sem settur var fram í Silfrinu i gær.

Nafnlaus sagði...

Það er nú svo merkilegt að enginn verkalýðsfrömuður
hefur gagnrýnt formann VR. um siðleysi, ofurlaun og önnur þau fríðindi sem hann hefur þegið.

Er þetta samtrygging um að ekki benda á félagana, því þá verður ljósinu varpað á ykkur.

Er það vegna þess eins, að þið eru að viðhala sjálfum ykkur í starfi sem gefur vél í aðra hönd
og búnir að koma ykkur upp " Já hirð ".

Sem segir ykkur hvað fötin ykkar eru falleg en í raun eru þið bara berrasaðir eins og
keisarinn var þegar hann var kominn í nýju fötin.

Svo eru þið að berja ykkur á brjóst um að lífeyrissjóðirnir séu svo sterkir
En samt eru þeir eru að tapa milljörðum út af " þessu liði" svo talið þið um bankakerfið
og stjórnmálamenn að þetta sé allt þeim að kenna
Það er aðeins eitt orð yfir þetta Slímseta.

Nafnlaus sagði...

Þessi klisja er nú ekki þreyttari enn það að síðasti aðalfundur þess sjóðs ver nú Kl 14,00. Sem er mjög furðulegur tími þar sem flestir eru í vinnu á þessum tíma. Og tel að þettað sé vinnutími þinn einsog minn. Kv Simmi

Kristján Þór Finnsson sagði...

Ef ég gagnrýni lífeyrissjóð VR, sem ég er félagi í, er ég þá að gagnrýna kerfið í heild?

Er ég að rugla og taka hluti úr samhengi ef mér ofbýður hvernig VR vinnur?

Ef ég er hissa að það sé ekki búið að sameina fleiri lífeyrissjóði, er ég þá að tala niður kerfið?

Ef þú verð kerfið í heild sinni og hugmyndafræðina sem og útfærsluna, ertu þá að verja VR?

Er séns, að ég geti verið ánægður með hugmyndafræðina, en ekki útfærslu einstakra lífeyrisjóða?

Nafnlaus sagði...

Eftirábesservisserisminn á fullu. Bjarni Ben. sagði í umræðu um endurreisn efnahagslífsins á Alþingi í dag, að brýnasta verkefnið væri að koma efnahagslífinu í gang á ný.
Hvað eru þeir Gísli, Eiríkur og Helgi að meina?
Kv.
Ólafur Sveinsson