miðvikudagur, 18. mars 2009

Hófsamar arð- og launagreiðslur

Hún er einkennileg og reyndar grafalvarleg staðan sem er kominn upp um endurskoðun kjarasamninga. Nú standa yfir viðræður SA, fjármálaráðuneytis og sveitarfélaganna annarsvegar og ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandsins og Sambands starfsmanna fjármálafyrirtækja hins vegar um endurskoðunarákvæði kjarasamninga og hvort hægt sé að ná samkomulagi um framlengingu kjarasamninga út árið 2010.

Eins og fram hefur komið þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins fram álit um að allar forsendur kjarasamninga hefðu brostið, rekstrargrundvallarræfillinn væri fullkomlega horfinn og týndur. Fyrirtækin ásamt sveitarfélögum og hinu opinbera stæðu í uppsögnum og ef launakostaður yrði hækkaður yrði enn fleiri sagt upp. Reyndar liggur fyrir að forsendur endurskoðunar er líka horfnar á hinn bóginn, þ.e. að 3,5% launhækkun dugar ekki til þess að verja kaupmáttinn, 10% væri nær lagi.

Á þessum forsendum náðu þessir aðilar samkomulagi um að hefja viðræður og kanna hvort hægt væri að finna einhverja sameiginlega niðurstöðu. Sérstök ástæða er geta þess að forsvarsmenn SA höfðu þau skilaboð frá útgerð og fiskvinnslu að fiskverð hefði hrunið, sala fallið umtalsvert og mikil birgðasöfnum ætti sér stað nú í greininni, ástandið væri grafalvarlegt. Þetta kæmi ofan á gríðarlega erfiða skuldastöðu.

En þá ákveða eigendur Granda að greiða sér út „hófsaman arð“ svo vitnað sé í ummæli forstjórans. Eigendur Granda hljóta að gera sér grein fyrir að það þýðir að þeir verði að greiða út a.m.k. þær lágmarkshækkanir sem í endurskoðunarákvæðinu stendur strax, ekki bíða með það á meðan viðræður standa yfir. Þetta hafa nokkur fyrirtæki gert, í því sambandi má benda á fréttir undanfarinna mánaða um að það hafa verið gerðir allmargir kjarasamningar.

Allir þessir samningar gilda til ársloka 2010. Upphafslaunahækkanir eru allar á svipuðum nótum eða um 5,5% og hækkun á samningstíma 14% -16%, mismunandi vegna nýrra innröðunar í launaflokka á sumum stöðum. Ef Grandi getur gert greitt út arð, þá getur hann gert samskonar samning.

Menn verða að skoða hlutina í samhengi. Þetta snýst ekki bara um „mjög lítinn og hófsaman arð“, eins og forsvarsmenn Granda orða það eða hófsama launahækkun. Hún er reyndar allnokkur fyrir konur í fiskvinnslu og eru með um 150 þús. kr. í laun á mán. Þetta snýst fyrst og síðast um siðferði og möguleika okkar að ná nauðsynlegri sátt um að standa saman sem þjóð við að komast út úr krísunni. Þetta er hlutur af því uppgjöri sem þarf að fara fram um samstöðu en ekki aukinni misskiptingu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi tillaga stjórnar Granda um arðgreiðslur á sama tíma og ekki er hægt að standa við kjarasamning sýnir okkur hversu siðblindir þessir menn eru. Ef að þeir hafa einhvern tíman þurft að lifa á verkamannalaunum þá eru þeir löngu búnir að gleyma því hvernig það er að lifa á þeim launum. Ég skora á viðkomandi verkalýðsfélög að gefa ekkert eftir og standa fast á því að Grandi greiði umsamdar kjarabætur strax. S F H

Guðmundur sagði...

Það hefur aldrei staðið til að gefa eitt eða neitt eftir. Enda hafa allmörg stéttarfélög gengið til fyrirtækja sem voru með fyrirtækjasamninga og eru aflögufær og sótt að þeim og náð kjarasamningum.

Eftir standa hinir svokölluðu almennu samningar. Það sem vakir fyrir mönnum er að ná samningum við hin fyrirtækin frekar en að láta starfsfólk þar vera samningslaust og freista þess að ná þessum hækkunum frekar en glata þeim.

Það er eins og sumir vilji frekar bera hagsmuni þessa launafólks á bál upplausnar og populisma en ganga til samninga.

Nafnlaus sagði...

Ég hef miklar efasemdir um að staða Granda sé svona sterk. Það hefur heyrst að bókfært verð óveiddra aflaheimilda sé 4000 kr per kíló, sem er algerlega út úr korti. Ef við gefum okkur meðalverð á fismörkuðum 250 kr kg á ársgrundvelli, þá er það 16 falt það verð. Það geta allir séð að það er ekki grundvöllur fyrir neinn að kaupa kvóta á þvílíku verði, þarna er þessi "viðskiptavelvildar froða", eða "virði framtíðartekna" . Eigendur Granda eru að taka út peninga og sækja svo um niðurfellingu á skuldum frá bönkunum