fimmtudagur, 12. mars 2009

Milljarðamærin

Við fórum hjónin í Borgarleikhúsið í gærkvöldi að sjá Milljarðamærina. Óneitanlega er margt í verkinu sem samsamar sig íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Lítill ótilgreindur smábær má muna fífil sinn fegurri, veisluhöldin eru búin og peningarnir á þrotum. Þegar fréttist að Milljarðamærin sé væntanleg aftur heim vaknar hjá íbúunum von um að hún láti eitthvað af auðæfum sínum renna til samfélagsins.

Hún hafði ung hrökklast burt úr bænum með smán sem átti rætur sínar í afneitun æskuástar hennar, en nú eru auðæfi hennar gríðarleg og bæjarbúar hugsa sér gott til glóðarinnar. Hún lofar þeim milljörðum að uppfylltu einu skilyrði að þeir veiti henni réttlæti, en það felur í sér blóðuga fórn. Í fyrstu er tilboðið dæmt siðlaust en peningarnir heilla. Íbúarnir fara smám saman að eyða og spenna líkt og þeir séu íslendingar í góðæri og eigi von á batnandi fjárhag.

Er siðferðið falt fyrir peninga? Það verður óréttlæti að geta ekki haft það gott og sá sjúkdómur nær yfirhöndinni. Já það er margt sem samsamar sig við íslenskan raunveruleika í dag. Tími lýðskrumarans er runninn upp og samfélagið er ranglátt og fjölmiðlarnir taka undir, það selur. Lausnir byggðar á upphrópunum þekkingarleysis. Lýðskrumarinn býðst til þess að taka í burtu kreppuna, myntkörfulánin og verðtrygginuna gegn því einu að öðrum sé fórnað og hann settur til valda.

Það verður freistandi að leiða fórnardýr á altarið sama þótt því fylgi siðferðisspurningar. Lausnir þeirra bíða betri tíma, en á meðan njótum við tilboða lúxusmarkaða. Lýðskrumarinn býður hin algilda sannleika og yfir okkur mun rigna peningum, ást og hamingja.

Engin ummæli: