Var að leita í gögnum vegna undirbúnings við skýrslugerð, rakst þá á þessa grein frá apríl 2006. Stóðst ekki freistinguna að birta hana, svona mitt í kosningaundirbúning fjórflokkanna
Það hljómar örugglega ankannalega í eyrum margra ef sagt er að það sé dökkt framundan. Hér er allt í bullandi uppgangi, nýir bílar streyma til landsins. Aldrei hefur verið byggt eins mikið af íbúðarhúsum og sumarbústöðum. Á þriðja þúsund erlendra verkamanna eru hér að störfum við uppbyggingu á stærstu virkjun landsins og byggingu álvers fyrir austan.
Nú stendur yfir stækkun álversins í Hvalfirði og bygging raforkuvera á Hellisheiði og á Reykjanesi. En það tekur enda, hvað þá? Svar stjórnvalda er; Við byggjum annað álver á Reykjanesi og á Húsavík byggjum fleiri gufuaflsvirkjanir á Reykjanesinu, tvær virkjanir í Þjórsá og gufuaflsvirkjanir fyrir norðan, og svo stækkum við álverið í Straumsvík um helming
Er það lausn á þeim vanda sem við blasir? Það er undirliggjandi óstöðugleiki í efnahagskerfinu og skuldsetning þjóðarinnar er komin yfir hættumörk. Er svigrúm fyrir enn meiri skuldsetningu strax? Verðbólgan stefnir í 5% á þessu ári og talan 8% er mikið nefnd fyrir næsta ár, á meðan kjarasamningar eru byggðir á um 2- 2.5% verðbólgu. Hátæknifyrirtækin eru að flytja erlendis og taka með sér verðmæt störf.
Erlent lánsfé er hvikult og eigendur þess geta afturkallað það ef þeim lýst ekki á blikuna. Hættan á harðri lendingu er mikil, vegna rótgróins hirðuleysi stjórnvalda með sinni “Þetta reddast efnahagsstefnu” þar sem Seðlabankinn er skilinn einn eftir með ábyrgðina. Sveiflugreinar á borð við fjárfestingafyrirtæki og byggingarfyrirtæki hafa verið uppistaðan í uppsveiflunni, þar getur slegið í seglin á stuttum tíma.
Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 56% af landsframleiðslu í árslok 1990 upp í 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og 300% í árslok 2005. Skuldirnar stefna enn hærra, því að hallinn á viðskiptum við útlönd er enn mikill. Hið opinbera hefur stofnað til 6% af skuldunum, bankarnir 83% og aðrir 11%.
Vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum námu 20% af útflutningstekjum 1997, um 50% 2002 og rösklega 70% 2005. Það segir okkur að það er ekki hægt að nota nema tæpan þriðjung af útflutningstekjunum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu; afganginn þarf að taka að láni. Vaxtabyrðin hækkaði úr 8% af útflutningstekjum 2004 í 12% 2005. Byrðin er að þyngjast, því vaxtakjör bankanna eru að versna. Þá skiptir máli hvort lánsfénu hefur verið varið svo vel, að skuldunautarnir geti borið þunga greiðslubyrði.
Í öllum hamaganginum hafa margir orðið hirðulausir. Útistandandi yfirdráttarskuldir fyrirtækja og heimila í lok janúar 2006 námu 184 milljörðum króna. Þessi yfirdráttarlán bera 15% til 21% ársvexti. Þetta eru góðir viðskiptavinir bankana.
Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 borinn uppi af erlendu lánsfé. Þrátt fyrir mikinn innflutning erlends vinnuafls til þess að halda niðri verðbólgunni, hefur hún samt verið langtímum saman verið yfir þolmörkum Seðlabankans og eru þau þó hærri en sársaukamörk kjarasamninganna. Langvinn uppsveifla án verðbólgu er nýjung í íslensku efnahagslífi og hefur slævt áhuga stjórnvalda á frekari umbótum í efnahagsmálum. Enn býst ríkið til að ráðast í risaframkvæmdir fyrir erlent lánsfé til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, þótt áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna.
“Þetta reddast efnahagsstefna” stjórnvalda er fólgin í auknu innstreymi lánsfjár sem á að örva atvinnulífið um stundarsakir. Hvort framkvæmdirnar séu líklegar til að skila viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg til langs tíma litið, virðist skipta litlu. Vaxtagjöld þjóðarinnar umfram vaxtatekjur námu 4% af landsframleiðslu árið 2005. Þessi hluti viðskiptahallans er viðvarandi og vextir vegna erlendra lána er fjármagn sem rennur út úr íslenska hagkerfinu. Slagsíðan mun aukast á næstu árum, með hækkandi vaxtagjöldum þjóðarinnar.
Guðmundur Gunnarsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli