sunnudagur, 12. desember 2010

Lífeyrissjóðirnir

Hún er á afar lágu stigi umræðan um lífeyrissjóðina og starfsmenn þeirra. Þeim er purkunarlaust lýst sem hreinræktuðum og harðsvíruðum glæpamönnum. Lágkúran náði lægstu hæðum í Spaugstofunni í gærkvöldi. Því er blákalt haldið fram að stór þáttur Hrunsins sé vegna þess að starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaganna hafi setið við tölvur sínar og spilað með fjármuni lífeyrissjóðanna. Það hafi verið fjármunir lífeyrisjóðanna sem sköpuðu þensluna.

Á sama tíma ræða sömu menn um þá hundruð milljarða komu hingað til lands í gegnum sem Icesave og þær 7 þúsundir milljarða sem erlendir bankar höfðu lánað hingað og töpuðu. Eða þá mörg þúsund milljarða sem erlendir fjárfestar settu inn á íslenska reikninga sakir þess að vextir voru hærri hér en annarsstaðar.

Staðreyndir er sú að lífeyrissjóðirnir töpuðu minnst allra eða um 8% af nafnvirði eigna sinna og eru þeir einu sem standa í fæturna af fjármálafyrirtækjum landsins. Því hefur verið haldið fram í spjallþáttum og fréttum að lífeyrissjóðirnir stæðu gegn því að heimili í skuldavanda fengju úrlausn sinna mála, þrátt fyrir að það liggi fyrir að lífeyrissjóði er óheimilt samkvæmt lögum að gefa eftir kröfur sem teljast innheimtanlegar.

Það virðist vera að þeir sem hæst hafa um þessi mál séu einstaklingar sem höfðu reist sér innistæðulausar væntingar um að taka mætti sparifé sjóðsfélaga og nýta það til þess að greiða upp skuldir allra. Þegar í ljós kemur að mikill meirihluti sjóðsfélaga hafnar því alfarið, er brugðist við með því að úthúða starfsmönnum lífeyrisjóða og draga sem svörtustu mynd af þeim. Þessi málflutningur er á yfirgengilega lágu plani.

Deilur hafa verið með ríkinu og lífeyrissjóðum um fjármögnun vegaframkvæmda. Formaður samninganefndar ríkisins fór í fjölmiðla með yfirlýsingar um að hann teldi að lífeyrissjóðirnir átti sig ekki á því að vextir væru að lækka og því hefðu þeir átt að ganga að kröfum ríkisins um lægri vexti á lánum til fjármögnunar vegaframkvæmdanna. Enn upplýsa menn okkur um hversu fáfróðir þeir eru og hversu lítið lög landsins skipta. Þó eru hér á ferð alþingismenn og fyrrverandi ráðherra ásamt blaða- og fréttamönnum sem koma frá fréttastofnum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Lífeyrissjóður á ekki eina krónu, hann er sparifé þeirra sem greiða í sjóðinn. Það gilda lög í landinu um skyldusparnað og þetta er oftast eina sparifé þeirra sem hafa greitt í sjóðinn. Það er með hreint út sagt ótrúlegt að fólk sem jafnvel hefur greitt lítið eða ekkert í lífeyrisjóð sé með kröfur um að tekið sé sparifé annarra og það nýtt til þess að greiða upp skuldir einstaklinga sem hafa farið óvarlega og tóku þátt í þennslunni með illa ígrunduðum fjárfestingum. Á meðan umræðan er á þessu stigi miðar okkur ekkert.

Lífeyrssjóðir eru ákaflega misjafnir og sumstaðar er fullkominn andstaða við að sameinast öðrum sjóðum vegna þess að þá þyrfti að skerða réttindi umtalsvert. Hér er ég t.d. að tala um þann sjóð sem ég er í. Á þeim forsendum er ákaflega einkennilegt að heyra menn sem hafa allt á hornum sér gagnvart lífeyrissjóðum tala um að sameina eigi sjóðina í einn sjóð. Sú krafa hlýtur að eiga að koma frá sjóðsfélögum viðkomandi sjóðs, eigi hann að sameinast öðrum.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú verður samt að viðurkenna að tilvísun í flotta bíla undir stjórnendur lífeyrissjóða var gott hjá spaugstofunni.
Það er hvergi skráð í lög okkar sjóða að þeir eigi öll þessi hlunnindi skilið.
Við getum alveg verið með góða stjórnednur án þessa að borga fyrir það fáránlegar upphæðir, sjálfur ertu á skikkanlegum launum svo því ekki þeir.
mbk

Nafnlaus sagði...

Ef að þeir fara svona varlega í fjármunum, hvers vegna fjárfestu peninga okkar í Vestia? Án þess að spyrja kóng né prest? er það ekki samansafn af fyrirtækjum sem eru langt langt frá því að teljast örugg fjárfesting?
Af hverju eru ársreikningar lífeyrissjóða ekki galopnir eigendum þeirra?
Því skyldu stjórnendur þeirra leyfa sér að borga sjálfum sér milljónir í laun og aka um á rándýrum bílum - allt á okkar kostnað'
Getur þú svarað þessum spurningum?

Guðmundur sagði...

Nú veit ég ekki hvernig þetta er hjá öðrum sjóðum en í sá sjóður sem ég er í á ekki neinn bíl. Þessar endalausu alhæfingar eru ansi þreyttar. Laun starfsmanna sjóðsins eru í samræmi við það sem þekkist og voru lækkuð við Hrun.

Unknown sagði...

Óskaplega geta menn verið hér hörundsárir. Sá ekki þennan þátt Spaugstofunnar, en þar hafa menn í áraraðir gert miskunarlaust grín af æði mörgum í samfélaginu. Ekki hefur Forsetinn kveinkað sér og heldur ekki Biskupinn. En þegar kemur að því að horfa með spéspegli á forsvarsmenn lífeyrissjóðanna er farið í fantafýlu og talað um lágkúru !

Talsmenn lífeyrissjóðanna eru ekki miklir bógar ef þeir þola ekki ágjöf Spaugstofunnar. En svo sem ekki í fyrsta sinn sem Guðmundur Gunnarsson hrekkur í fýlugírinn af minnsta tilefni.

Einar Sveinbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, af hverju er ekki byrjað að rannsaka lífeyrissjóðina?
Þá verður að rannsaka!
Þú virðist þekkja vel einn lífeyrissjóð og alhæfa út frá honum.
Af hverju virðist það vera þannig með marga lífeyrissjóði að stjórnendum þeirra er/var heimilt að nota fé þeirra í áhættufjárfestingar (fjárhættuspil) en ekki til að hjálpa sjóðsfélögum?

Nafnlaus sagði...

"Laun starfsmanna eru í samræmi við það sem þekkist..."

Finnst nú ýmislegt þekkt vera mjög rangt...

Veit ekki hvað margir hafa verið teknir fyrir í hinum og þessum þáttum, en það má kannski ekki vera vondur við ykkur. Enda gríðar heilagir.

En hringjum á vælubílinn.

KOMMON

- Að lokum legg ég til að lífeyrissjóðum verði fækkað í 3. 5 í mesta lagi.

Ó.S.

Nafnlaus sagði...

Forstjóra launin í lífeyrissjóðnum Stafir eru 17.236.680 á ári.
Meðallaunakostnaður á hvert stöðugildi kr.8.825.434 þetta gildir fyrir 2009 en hefur verið lækkað eftir því sem Guðmundur segir.

Í góðu samræmi við það sem þekkist og vafalítið hæft fólk.

Guðmundur sagði...

Á fundum í tenglsum við þann sjóð sem ég er í hefur verið farið ítarlega yfir þær fjárfestingar, sem hann hefur verið í.

Á sjóðsfélagafundum er farið ítarlega yfir ársreikninga sjóðsins, launakjör og starfsemina.

Ástæða er að benda á að samningar við fjárfestingafyrirtæki sem sjá um umsjón fjárfesingsjóða eru alltaf veltubundnir, það þýðir að þær tölur sem menn halda fram að muni sparast með því að sameina lífeyrissjóði eru hreinlega kolrangar.

Stjórnendur þeirra lífeyrissjóða sem ég þekki til borgar sjálfum sér ekkert. Það eru stjórnir sjóðanna sem ákvarða launakjör starfsmanna og þau borinn upp á ársfundi.

Ég veit hvaða laun starfsmenn okkar sjóðs eru enda hafa þau verið til umræðu á fundum á vegum sjóðsins, auk þess að það er ekki haldin fundur innan Rafiðnaðarsambandsins án þess að fjallað sé um starfsemi þess lífeyrissjóðs sem flestir rafiðnaðarmenn eru í.

Engin starfsmaður er með milljónir í laun og hefur aldrei verið.

Engin þeirra ekur um á bíl sem sjóðurinn á. Þeir bílar sem starfsmenn okkar sjóðs eiga eru allt venjulegir fjölskyldubílar og þeir eiga þá sjálfir.

Sjóðir hafa verið að sameinast og munu örugglega gera það áfram. Það er rétt að eðlilegast væri að sjóðirnir væru 5 - 8 og það mun vafalaust gerast á næstu árum.

En ég er ekki viss um að það muni gerast eftir einhverri tilskipun utan úr bæ, það eru sjóðsfélagar sem taka þær ákvarðanir, eins og ég er að reyna að benda á.

Það er ljóst að sjóðirnir þurfa að bæta í hvað varðar greiningarvinnu.

Mér finnst það einkennilegt að kalla það vælur að ég skuli leyfa mér að benda á að mér finnist það ósanngjarnt að starfsmenn lífeyrissjóðanna séu kallaðir glæpamenn. Reyndar fullyrða sumir að starfsmenn stéttarfélagana fari með mál lífeyrissjóða, svo er ekki, því fer víðsfjarri.

En það er svo oft að þegar bent er á það ranga í málflutningi sumra að þeir bregðast við með sama hætti og þegar leikföng eru tekin frá óþekkum krökkum.

Þeir starfsmenn lífeyrissjóða sem ég þekki eru allt vandað og gott fólk og mér finnst þessi umræða vera þeim sem hana bera uppi til háborinnar skammar

Sumir eru með innistæðulausar alhæfingar og oftar en ekki eru þær þess eðlis að við blasir að sá sem talar veit sáralítið um starfsemi og uppbyggingu lífeyriskerfisins.

Guðmundur sagði...

Eitt atriði enn, já það fer fram ritskoðun á þessari síðu, það kemur fram á forsíðunni.

Ef menn senda inn aths. sem innifela rógburð og innistæðulausar dylgjur um fólk, þá er það ekki birt.

Ég er ritstjóri þessarar síðu og kæri mig ekki um að menn nýti sér hana til þess að ráðast að saklausu fólki í skjóli nafnleysis.

Guðmundur sagði...

Í þeim lífeyrissjóð sem ég er í þá eru haldnir sjóðsfélagafundir þar sem sjóðsfélagar geta komið og sett fram aths. og eins tekið þátt í kosningum.

Það er ótrúlegt hvað þetta fer í taugarnar á sumum að ég skuli voga mér að benda á þessar staðreyndir og þær endaleysur sem menn vilja halda í.

Það réttlætir ekki að ausa svívirðingum yfir menn og bera á saklaust fólk svívirðilegar ásakanir.

Nafnlaus sagði...

Þinn sjóður leyfir þér og þínum kannski að sjá og skoða ársreikningana - alla?
Það er meir en minn sjóður gerir, þ.e. VR.
Afhverju fæ ég ekki að skoða þá? skýringar fást ekki, bara sagt það hafi ekki tíðkast og allar helstu lykiltölur séu birtar - annað komi mér ekki við. Ekki það nei.
Hjá VR hefur það tíðkast að vinnuveitendur eiga sæti í stjórn sjóðsins - hvers vegna? hvað hafa þeir um peningana okkar að segja?
Af hverju fengu og VILDU lífeyrissjóðir fjárfesta peninga okkar að okkur forspurðum í Vestia?
Þetta er mjög svo vafasöm fjárfesting og FYRIR hverja var hún?
Tók þinn lífeyrissjóður ekki þátt í þeirri "fjárfestingu"? Varla getur þú verið ánægður með það?
Annars er það alveg frábært Guðmundur ef þú ert sáttur og ánægður með þinn sjóð og óskandi að það væru fleiri. Það eru hins vegar langt frá því allir. Leyfist okkur ekki að lýsa yfir óánægju okkar með eigin lífeyrissjóð?

Sigurður Sigurðsson sagði...

Ef að allt er góðu hjá lífeyrissjóðum þá ættu menn ekki að óttast opinbera rannsókn á fjárfestinum þeirra síðastliðin ár.

Bragi Jóhannsson sagði...

Ég trúi því að þetta grín endurspegli almennt viðhorf til lífeyrissjóða í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Sú mynd að þið séuð einráðir um ráðstöfun sjóðanna og getið beitt þeim í eigin þágu virðist ekki fjarri því sem gerðist hér og þar við stjórnun lífeyrissjóða, þó svo það eigi ekki við um nema suma þeirra.

Miðað við alla þá sjóði sem gufuðu nánast upp með öllu og aðrar sem gltruðu niður um þriðjungi af lífeyrisréttindum sinna félagsmanna, þá sé ég ekki lágkúru í því að líkja stjórnarmönnum lífeyrissjóða við glæpamenn.

Úr því að þessi árangur er allt og sumt sem fæst fyrir stærsta hluta af því sem flest okkar leggja fyrir á ævinni, Þá vil ég frekar sjá þá peninga sem ég greiði í lífeyrissjóð fara beint í að greiða upp lífeyrisskuldbindingar í þjóðfélaginu í nútíðinni.

Guðmundur sagði...

Ég skil ekki þennan pirring út af því að ég skrifi pistil þar sem ég segi að mér finnist ásakanir í garð starfsfólks lífeyrissjóða vera komnar of langt þegar allt starfsfólk lífeyrissjóða er sakað um að vera ruddalegir glæpamenn sem starfi vísvitandi gegn hagsmunum sjóðsfélaga.

Ég þekki nokkra af starfsmönnum lífeyrissjóða og alla sem starfa í mínum sjóð og þetta er vel gert og vandað fólk sem reynir að sinna sínum störfum eins vel og það getur.

Ef einhver í rafiðnaðargeiranum hefur eitthvað við okkar sjóð að athuga þá kemur viðkomandi því á framfæri á sjóðsfélagafundum eða með beinum fyrirspurnum til starfsmanna. Stundum í gegnum okkur starfsmenn Rafiðnaðarsambandsins.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta er hjá öðrum sjóðum, en reikna með að menn geti komið sínm aths. á framfæri við starfsmenn viðkomandi sjóðs.

Í a.m.k. einni aths. er því haldið fram að ég sé eitthvað viðriðin ákvarðanir um fjárfestingar lífeyrissjóða, svo er ekki, ég hef aldrei komið að slíkri ákvarðanatöku, reyndar er fjárfestingastefna lífeyrisjóðsins borinn undir ársfund og afgreidd þar og þar hef ég greitt atkvæði eins og aðrir fundarmenn.

Annarsstaðar er enn einu sinni mér gerðar upp skoðanir um að ég sé á móti aðkomu lífeyrissjóða að skuldastöðu heimila, það hef ég aldrei sagt. Ég hef aftur á móti bent á hvaða lög gildi um þessa hluti.

Ég veit að það er einhver hópur manna sem vill láta á það reyna verði teknir fjármunir úr lífeyrissjóðum og þeir nýttir til skuldaniðurfellingar. Ég er ekki í þeim hóp. Ég vill að gengið verði frá málum á þeirri niðurstöðu sem fékkst um daginn, en það á vitanlega að kanna hvort hún sé ekki örugglega lögmæt.

Nafnlaus sagði...

Vill þakka þér Guðmundur fyrir það þor og dug sem þú sýnir með því að ráðast að þessum sora sem umræðan um lífeyriskerfið er orðið.

Það er ótrúlegt hvernig menn endurtaka vitleysurnar aftur og aftur og hlusta ekki á staðreyndir.

Hvernig getur 8% tap af nafnvirði eigna orðið að 33% tapi?