Ljóst er að ef koma á málum hér á landi af stað verður að tryggja sparnað. Margir eru þeirrar skoðunar að 100% húnæðislán, burtséð frá því hvort verðmiði viðkomandi húsnæðis hafi verið langt yfir raunvirði, hafi verið eitt af stóru atriðum sem olli þenslunni. Kárahnjúkavirkjun og álverið fyrir austan hafi verið lítill hluti í samanburði við það.
Eins og svo oft þá bera menn í hita umræðunnar oft saman tvo ólíka þætti og reisa síðan mál út frá einhverri niðurstöðu sem í raun er ekki rétt. Oft hefur verið gripið til þess að halda því fram að svo kölluð frekjukynslóð (fólkið sem byggði á árunum 1965 - 1985) hafi nánast fengið íbúðir sínar gefins og á þeim forsendum sé réttlátt að afhenda yngri kynslóðum sínar íbúðir. Ég er líklega af þessari frekjukynslóð. Byggði mína fyrstu íbúð 1971 í blokk efst í Breiðholti, á sama hátt og allir gerðu á þessum tíma og gerðu fram undir 1995. Fengum hana afhenta tilbúna undir tréverk.
Við hjónin máluðum síðan allt og gólfin líka. Fengum gefins gamla hurð hjá einum úr fjölskyldunni sem nýtt var sem útihurð. Með nokkrum spýtum var búið til borð undir eldhúsvask. Fengum gamla eldavél á slikk, en keyptum nýtt klósett og baðkar. Settum tusku í stað baðherbergishurðar. Þannig fluttum við inn og bjuggum þarna í 7 ár. Ekkert orlof var tekið, engar utanlandsferðir, lifðum á Orafiskbollum og leyfðum okkur ekkert. Á þeim tíma keyptum við smá saman það sem upp á vantaði, smíðuðum sjálf innréttingar, eða unnum það í skiptivinnu.
Eina lánið sem við gátum fengum var húsnæðislán, sem dugaði fyrir tæplega helming íbúðarinnar eins og hún var afhent tilbúinn undir tréverk og sameign máluð, en ekki með gólfefnum. Ég vann fyrir hinum helmingnum á kvöldin og um helgar hjá byggingarmeistaranum í heilt ár, eftir að ég hafði lokið fullum vinnudegi hjá mínum aðalvinnuveitanda, auk þess að ég seldi nýlegan Fólksvagn sem ég átti. Með þessum hætti tókst okkur ungum hjónum með tvö lítil börn að fjármagna íbúðina.
Ef við berum þetta saman við það sem tíðkast hefur á undanförnum árum, þá er verð á sambærilegri íbúð í dag um það bil 25 millj. kr. En í dag er allt frágengið. Tilbúið undir tréverk væri verðið í grennd við 15 millj.kr. og þá væri það lán sem við fengum um 7 – 8 millj kr. lán til 15 ára á breytilegum vöxtum. Þetta er ekki hægt að bera saman við greiðslubyrði af 25 millj. kr. láni á 40 árum með verðtryggðu láni.
Sumir halda því beinlýnis fram að við höfum fengið lánin gefins, vitanlega greiddum við af þeim og þau hækkuðu með óðaverðbólgunni sem ríkti, en það má deila um hversu háan hlut af láninu verið endurgreitt,mér sýnist að það hafi verið líklega um 75%. Þannig að það er kannski um fjórðungur af verðmæti íbúðar tilbúinni undir tréverk. Athugið það - ekki fullbúinni.
Annað sem gleymist í þessum samanburði við okkur frekjukynslóðina. Við greiddum í lífeyrissjóði og reyndum að byggja upp annan sparnað. Efnahagsstjórn þessa tíma var svo slöpp að allt sparifé okkar ásamt lífeyrissjóðum nánast gufaði upp, þannig að það sem við hugsanlega fengum niðurfellt af lánum í verðbólgunni samsvaraði því sem við töpuðum í uppgufun eigna okkar í lífeyrissjóðum og bankabókum. Það bitnaði á frekjukynslóðinni í lakari ávinnslu og réttindum. Þannig að fullyrðingar sem fram hafa komið um að frekjukynslóðin hafi eignast sínar íbúðir fyrir ekki neitt, eru úr lausu loft gripnar. Við hjónin töpuðum þannig mun hærri upphæðum af inneignum okkar í sparimerkjum og lífeyrissjóðum en sem nam lækkun á láninu. Þannig að við komum snaröfug út úr því. Þannig við fengum ekki krónu gefna, ekki eina krónu.
Ég er ekki að rifja þetta upp til þess að gera lítið úr vandamálum þeirra sem eru að reyna að koma undir sig fótunum í dag, ég er bara að benda á hvers fjarri öllu lagi er að halda því fram að einhver kynslóð hafi fengið sínar íbúðir gefins og það réttlæti einhverjar inneignir í sparifé eldri kynslóða. Í framhaldi af þessi má svo rifja upp hvernig hlutirnir gengu upp hjá þeim sem stækkuðu við sig á árunum 1985 - 1993. Ég var nefnilega líka einn af þeim.
Alltaf kemur krónan og hvernig stjórnvöld hafa spilað með hana gegn almenning upp í hugann og menn ættu frekar að beina sjónum sínum að krónunni en að bera einhverjar tilbúnar og vafasamar ásakanir á aðrar kynslóðir.
18 ummæli:
Margt rétt og satt í þessu. Þú gleymir hins vegar að það var þak á lífeyrissjóðsgreiðslum og nánast allt millistéttarfólk og örugglega allir með háar tekjur, greiddu bara brot af því sem nú er greitt í lífeyrissjóði - ef ég man rétt.
Svo má ekki heldur gleyma því að í dag er fólk að borga bæði verðbólgu og vexti á meðan þið vissuð að verðbólgan mundi "gefa" ykkur íbúðina á 10 árum í mesta lagi. Einnig unnu sjaldnast báðir aðilar úti. Ef aðrar kynslóðir stæðu frammi fyrir því að þurfa að flytja inn í hálfklárað og gætu svo dundað sér við verkin sjálf eða fengið hjálp á meðan frúin var heima og sinnti börnum, væri efalaust sá kostur tekinn hjá mörgum. Í dag vinna báðir aðilar úti, jafnvel í tveim störfum hvor og það ÞARF jú "eitthvað" að sinna börnum ekki satt?
En lánið þitt lækkaði. Það gerist ekki í dag.
Mikið lifandis útúrsnúningar birtast alltaf hér í aths.kerfinu.
Fyrstu 5 árin var greitt af daglaunum, eftir það var það nokkuð misjafnt í nokkur ár.
Konan mín vann fulla vinnu sem hjúkrunarkona.
Svo maður geri hlutina einfalda þá er það sem er verið að benda á í pistlinum:
1. Fólki stóð ekki til boða full lán og þau voru með breytilegum vöxtum sem fóru lang uppfyrir greiðlsugetu á tímabilunum.
2. Fólk var ekki að kaupa stórar íbúðir, það réði ekki við það. Það var allt annað upp á teningunum í þennslubólunni og þar sumir keyotu sér íbúðir sem þeir hefðu lent í vandræðum með janfvel þó ekki hefði komið til Hrun. Reyndar sumir af þeim sem hafa haft sem hæst voru komnir í þrot fyrir Hrun.
3. Fólk vann á þessum tíma daga og nætur til þess að komast inn í hálfkláraðar íbúðir, það fékk þær ekki gefins.
4. Þó svo hluti þeirra lána sem fólk fékk lækkaði í verðbólgu, þá var það ekki nema brot af íbúðarverðinu og samsvaraði tapi sma fólks í sparifé og lífeyriseign.
Þetta er allt rétt.
Algjörlega úr lausu lofti gripin sú mýta að einhver fyrri kynslóð hafi fengið íbúðir nánast gefins eða á afslætti.
Skil ekki hvernig fólki dettur slíkt í hug.
Eg hef margoft reynt að benda fólki á þetta - án árangurs.
það þarf að taka allt reikningsdæmið inní. Dæmið er allt öðruvísi uppbyggt en í dag.
Ómar Kristjánsson.
Þetta kannast maður við Guðmundur, þegar ég var að komast á unglingsárin í lok 7. áratugarins fluttum við inn í tilbúið undir tréverk, alveg eins og þú lýsir því, tjöld í dyrum í stað hurða, máluð gólf, bráðabirgðaeldhús úr einhverju afgangs spýtuverki og tjöld í stað skápahurða. Já, og sparnaðurinn fuðraði upp jafnharðan.
Ég held að nafngiftin frekjukynslóð eigi frekar við um það fólk sem hefur undanfarin ár átt alltof greiðan aðgang að +100% lánum og vill nú komast í lífeyrissjóðina til að halda svallinu áfram.
Þórhallur
Tek undir með Þórhalli og þér Guðmundur. Löngu þörf og réttmæt ábending.
Kristinn
Enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá.
Góð og sönn greining á þessari mýtu um hina meintu Frekjukynslóð.
Fólk sem gekk i gegnum þetta tímabil, bjó í hálfköruðuum húsum og vann myrkrana á milli, fór aldrei í orlof og átti eldgamla bíla sem það hélt gangandi með viðgerðum.
Nú vill hinn sannefnda Frekjukynslóð taka sparifé þessa fólks sem allt er geymt í lífeyrissjóðunum og greiða með því skuldir sínar. Þú lýsir svo vel hverjir eru af hinni sönnu Frekjukynslóð.
Dóri
Góð grein, Guðmundur. Ég byrjaði að byggja nokkru á undan þér, eða 1967. Flutti inn í hálfkarað eða varla það þremur árum síðar. Það sem vantar líka er að þá fengu ekki nærri allir húsnæðislán. Það var háð pólitískri fyrirgreiðslu eins og svo margt annað og óflokksbundnir þverhausar fengu því bara þvert nei án skýringa.
Góður pistill og í raun varlega tekið til orða um baslið sem ég sá foreldra mína og vini þeirra ganga í gegnum á þeim tíma sem þú nefnir.
En það er þó annað sem er mikilvægt að skoða, til viðbótar við það sem þú lýstir. Ef reiknaður væri "frekjustuðull" fyrir hverja kynslóð Íslendinga frá lýðveldisstofnun, þá er engin spurning að hann eykst veldisvexti og það á við um allar kynslóðir. Munurinn er kannski sá að byrjunarreitur yngri kynslóðanna er svo hátt á frekjustiginu.
Það breytir ekki þeirri staðreynd Guðmundur að "lánin" hjá "frekjukynslóðinni" lækkuðu með verðbólgunni. Í dag hækka þau bara og hækka. En auðvitað þurfti fólk að leggja mikið á sig.
Annað, varðandi sparifé, "yngri og meiri frekjukynslóðarinnar" er rétt að það komi fram að sú kynslóð hefur verið svikin og sá sparnaður tekinn af þeim eins og svo mörgum öðrum. Aðstæður í þjóðfélaginu er nú með þeim hætti að fólki er beinlínis refsað fyrir að spara, enda er ávöxtun á bankareikningum neikvæð að raunvirði í dag.
Góð grein,
Kjarni málsins kemur fram í þinum orðum,,,,
"Alltaf kemur krónan og hvernig stjórnvöld hafa spilað með hana gegn almenning upp í hugann og menn ættu frekar að beina sjónum sínum að krónunni en að bera einhverjar tilbúnar og vafasamar ásakanir á aðrar kynslóðir."
Þetta er vandinn - svo einfalt er það.
Umræðan snýr oft að því hvoru megin við verðbólguna aðilar voru,, hvort aðilar áttu sparnað eða skuld í,,, verðbólguruglinu og gengisruglinu,,,, og hvor aðilinn hafi komi betur út úr því rugli,,,sem aftur leiðir menn að kjarna málsins,,, handónýtum gjaldmiðili.
Óábyrg hegðum í efnahagsmálum og stjórnmálum, var/er möguleg vegna þess að vandanum er á endanum skellt í gengisfellingu,,, með handstýrðum hætti í fastgengi eða sjálfvirkum hætti þegar krónan er á floti,,, eins og 2008, í algjöru hruni.
Þannig geta óabyrgir aðilar, skellt skuldinni á launafólk og atvinnulíf,,, með gengisfellingum og hrungengi,, nú sem aldrei fyrr.
Þetta verður ekki hægt að leiðrétta fyrr en við upptöku alvörugjaldmiðils, evrunnar og aðild að ESB.
Fram að þeim tíma mun þessi hrunadans ónýts gjaldmiðils fara versnandi, þar sem sömu mistökin eru endurtekin sí og æ, og aðilar hald að þeir séu að gera eitthvað nýtt.
Á sumum stöðum hefur slík hegðun verið skilgreind sem heimska á háu stigi.
Fram að þeim tíma mun þessi galna hegðun halda áfram. Það hefur meira en 100 ára reynsla kennt - þeim sem eitthvað vill sjá og heyra.
# 18:34 Það breytir heldur ekki þeirri staðreynd að sparifé þessara árganga og eignir í lífeyrissjóðum gufuðu upp.
Og heldur ekki þeirri staðreynd að þessar kynslóðir fengu nánast ekkert að láni miðað við það sem seinni kynslóðir hafa fengið að láni
Þannig að það er svo víðs-, víðs-, víðsfjarri að verið sé að ræða um sambærilega hluti.
Góð grein að vanda. Skörp greining á stöðunni. Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, ritar grein í nýjasta hefti Tímarits um viðskipti og efnahagsmál undir fyrirsögninni Hugleiðingar um peningamálastefnu.
Í greininni fullyrðir Gylfi að Seðlabankanum hafi mistekist að viðhalda stöðugleika fjármálakerfisins. Hann leggur til er að húsnæðislánakerfið verði endurskipulagt þannig að vextir Seðlabankans hafi bein áhrif á vexti húsnæðislána. Hann kallar eftir breytingum á skattkerfinu svo það umbuni þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem greiða niður skuldir, en skattleggi þá sem auka skuldir
Hilsen Garðar
Mannlífið er svo stutt að almenníngur hefur ekki efni á því að vera til. Í stað þess að almenningur beini spjótum sínum að þeim sem ullu vandræðum heimilanna, hefur valdhöfum og ræningjum þeirra tekist að á almenning til þess að beina spjótum hver að öðrum í rakalausri og mótsagnarkenndri orðræðu.
Enn einu sinni kemur Guðmundur fram með beitta greiningu á stöðunni, eins og t.d. í lífeyrissjóðaumræðunni og umræðunni um krónuna og stöðu launamanna.
Það er rétt að þeir sem þurftu ekki að borga lánin sín á verðbólgutímum þegar þau voru ekki verðtryggð, þurftu að gjalda fyrir það með því að sparnaðurinn var heldur ekki verðtryggður og gufaði upp, alveg eins og skuldirnar. Þetta kom út á sléttu.
Kröfurnar áður fyrr voru kannski heldur ekki eins miklar og eru í dag. Hugsanlega eru líka komin fyrirbæri eins og IKEA og slíkt, sem var ekki til þegar Guðmundur var að byggja, þá var líklega erfitt að kaupa neysluvarning, út af álögum, sköttum og innflutningshöftum.
það er þess vegna þyngra en tárum taki að hugsa til þess, að verið sé að hækka skatta og gjöld, svo að segja daglega síðustu mánuðina, bara til að almenningur í landinu þurfi að borga skuldir sem það á kannski ekkert í, og ber í raun engin skylda til að borga sbr. tapaðar kröfur bankanna, gjaldþrota fyrirtæki, lélegur ríkisrekstur o.s.frv.
Þarf ekki að skipta um stjórn í landinu? Fá inn fólk sem er tilbúið að taka á vandanum?
hvaða rugl er það, að á sama tíma og t.d. svíar voru að loka þremur sendiráðum, þ.á.m. í Argentínu (stórt land), þá var Össur Skarphéðinsson að bæta við tveimur sendiherrum sem hafa ekkert sendiráð til að vinna í. Það eru sem sagt íslenskirsendiherrar að vinna á Íslandi sem kosta landsmenn líklega um 150 milljónir á ári. Þeir eru engir sendiherrar, af því þeir eru ekki sendir neitt. Þeir eru bara að vinna í utanríkisráðuneytingu, og bíða eftir að verða sendir eitthvað. Var einhver ástæða hjá merinni í utanríkisráðuneytinu að bæta við á garðinn þar fleiri "sendi"herrum?
Tek undir með þér Guðmundur það er ótrúlegt hvernig menn gera allt til þess að komast hjá því að horfast í augu við það sem verið er að fjalla um, eins og t.d. þessi sem er hér næstur fyrir.
Hann fer að fjalla um eitthvert bull um að Ikea hafi ekki verið til og kröfur minni, þvílíkt bull.
Málið snýst ekkert um það. Málið snýst um skuldsetningu í samræmi við greiðslugetu og hvað fólk leggur á sig til þess að standa undir þeirri skuldsetningu sem það er búið að setja sig í.
Frekjukynslóðin í dag er ekki tilbúinn til þess, hún vill að það verði gert með því að taka út fjármuni í lífeyrissjóðum til þess og vandanum vísað á aðra og til framtíðar.
Gleymdu ekki skyldusparnaðinum sem
frekjukynslóðin var nauðbeigð að kaupa
Merkin sem menn dunduðu sér við að
líma inn í bækur um helgar og áttu að hjálpa mönnum við sín fyrstu íbúðarkaup
Man enn hvað mitt merkjasafn dugði skammt þó var ég nokkuð iðin að sleikja merki um helgar
Skrifa ummæli