fimmtudagur, 19. mars 2009

Einstaklingshyggja og verndun sérhagsmuna

Á undanförnum árum hefur félagshyggjan lotið í lægra fyrir einstaklingsfrelsinu. Við vernd sérhagsmuna hefur frelsið hefur snúist upp í andhverfu sína. Efnis- og gróðahyggjan er allsráðandi og fákeppni hefur vaxið og samfara því bilið milli fátækra og ríkra. Forsvarsmenn Granda virða hina vinnandi hönd einskis, en vilja fá arðinn sendan til Chile.

"Úr hverju varð arður Granda til?" er spurning sem maður myndi ætla að fjölmiðlamenn skoðuðu, fyrir liggur að tilvist hans er vafasamur svo ekki sé meira sagt. Nei það gera þeir ekki, þar fara aftur á móti hamförum og tefla fram í hverjum viðtals- og fréttaþættinum lýðskrumurum sem hafa það eitt til málanna að leggja að níða biður samtök launfólks með útúrsnúningum og með því að gera öðru fólki upp skoðanir.

Finnst fréttamönnum það trúverðugt innlegg að sumir forsvarsmenn launamanna séu viljandi að afþakka launahækkanir sem eiga að standa í boði, samkvæmt órökstuddum fullyrðingum lýðskurmaranna? Lýðskrumarnir leggja ekkert til málanna annað en eigin upphafningu og innistæðulaus yfirboð. Hafa fréttamenn ekki fylgst með því sem fram hefur komið?

Vitanlega er það ljóst eftir að endurskoðandi Granda komst að þeirri niðurstöðu að staða fyrirtækisins gæfi tilefni til arðgreiðslna, var það ljóst að Grandi þyrfti ekki á frestun launahækkana að halda og hlýtur að greiða út launahækkunina um næstu mánaðarmót. Um það var rætt við endurskoðun kjarasamninganna? Það var í fréttum. Í stuttu máli ; Einhver fyrirtæki réðu ekki við hækkun launa á meðan önnur gerðu það. Sum þeirra hafa þegar hækkað launin önnur hafa frestaði því fram í júní.

Það er eins og fjölmiðlamenn séu enn í þeirri veröld sem peningar eru allt. Auður samfélagsins er fólgin í fólkinu. Réttlæti og jafnræði. Dýrkun valda og efnishyggju eru fjötrar ekki frelsi. Arður og gengi hlutabréfa hafa blindað og allt sem getur skilað auknum arði er talið réttlætanlegt. Sjónarmiðum launþega og þeirra sem minna mega sín hefur verið vikið til hliðar, gróðafíknin ræður. Mannkostir, mannleg reisn og samskipti hafa gleymst. Gróðafíkn varð hér æðsta takmark og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru voru gerð að mati á kaupgetu.

Gleypigangurinn hefur ráðið ríkjum, hann er boðorð, fyrirheit og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar. Algengt svar helsta forsvarsmanns frjálshyggjunnar á Íslandi þegar hann var spurður á meðan hann sá um mótun efnahagsstefnunnar hér, um hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. "Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum. Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla. Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf".

Talsmenn Frjálshyggjunnar hafa verið kátir á undanförnum árum og talað um að nú séu góðir tímar. „Hverju ætlið þið að breyta, þegar allir hafa það svo gott undir okkar stjórn,“ var helsta kosningafullyrðing þeirra í síðustu kosningum. Nú er hægt er að flytja inn ódýrt vinnuafl og hámarka arðinn með því að notfæra sér neyð bláfátæks fólks frá svæðum þar sem örbirgð ríkir. Með því er hægt að halda aftur af ósanngjörnum launakröfum frekra og ofalinna íslenskra launamanna, sem undir stjórn verkalýðsforkólfa eru að takmarka hugsanlegan arð fjármagnsins.

Undanfarna tvo áratugi hefur það ekki samræmst viðhorfum ríkjandi stjórnvalda að ganga gegn gróðafíkninni. Það hefur gleymst að fjármagnið er einskis virði ef ekki kemur til hin vinnandi hönd sem skapar verðmætaaukningu í framleiðslu fyrirtækjanna. Þegar öllu er á botninn hvolft; þá er lífið umfram allt saltfiskur, eins og Nóbelskáldið sagði.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já það er rétt fyrirtæki verð ekki til afþví bara, þar kemur launfólk við sögu. Hroki hefur verið einkenni þessara manna og er athyglisvert hvað Vilhjálmur Egils segir ekkert um þettað mál. Og mikið er ég ánægður með að þú skildir koma með það fram að atvinnurekendur eigi ekki að sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Nú er tíminn til að taka á þessum málum með lífeyrissjóðinina einsog svo margt annað. Kveðja SImmi

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Guðmundur.

- Jón Guðmundsson