sunnudagur, 22. mars 2009

Gunnlaugur í Silfrinu

Í Silfrinu í dag var áhugavert viðtal við Gunnlaug Jónsson einn helsta forsvarsmann Frjálshyggjumanna á Íslandi. Hann útskýrði fyrir okkur hvernig allt annað hefði brugðist en frjálshyggjan. Ég velti því aftur og aftur fyrir mér hvers vegna hann ásamt öðrum frjálshyggjumönnum tók þá ekki undir með okkur þegar við félagshyggjumenn vorum að gagnrýna hvert stefndi á Íslandi.

T.d. þegar við vorum að benda á vaxandi misskiptingu, einkavæðingu bankanna og skort á eftirliti. Þvert á móti man ég eftir fjölmörgum viðtölum og greinum um hið gagnstæða. Ég man svo vel eftir forsvarsmönnum Félags frjálshyggjumanna ásamt nokkrum úr frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu, þar sem þeir fjölluðu af mikilli ákefð um hversu vel gengi á Íslandi undir þeirra stjórn. Hvernig þeir hefðu unnið umræðuna eins og þeir tóku svo oft til orða.

Hvernig Pétur Blöndal, Sigurður Kári, Birgir Ármannss., Sveinn Andri, Guðlaugur Þór og fleiri fjölluðu um þessi mál. Eða t.d raðgreinar Hannesar Hólmsteins og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem varð í fyrsta sæti prófkjörisns á Suðurlandi, í Fréttablaðinu fyrir síðustu kosningar, þar sem Þorvaldi Gylfasyni og Stefáni Ólafssyni og hagfræðingum ASÍ var úthúðað og öllu snúið á hvolf sem þeir sögðu og höfðu sýnt fram á greinargóðan hátt í greinum og skýrslum.

Allir sem ekki studdu skoðanir þeirra voru afgreiddir með upphrópunum sem eitthvað vinstra lið. Því fylgdi gjarnan lýsingar á hörmungum Sovétsins. Nú sjáum við svo vel hvernig frjálshyggjan hefur samsamað sig við Sovétið. En þá bregður svo við að þau sverja allt af sér og það er ekki stefnan sem hefði brugðist, heldur fólkið.

Það sem Gunnlaugur lýsti útóbíu sinni í Silfrinu í dag, sýndi manni svo vel hversu litlir karlar sumir verða þegar við blasa afleiðingar gjörða þeirra og efnahagsstjórnunarstenunnar sem fylgt hefur verið. Hrunin heimili, 17 þús. manns atvinnulausir og hvert fyrirtækið af öðru hrynur til grunna.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er í 99% tilfella sammála því sem að hér er skrifað, en verð að segja að mér fannst Gunnlaugur standa sig bara vel í Silfrinu, því augljóslega voru bankamenn ekki að gambla með sitt eigið fé og höfðu því minni virðingu fyrir því en annars. Það er fullkomlega valid punktur, hvað sem öðru líður.
mbk, Pétur Henry

Nafnlaus sagði...

Gunnlaugur var að útskýra hrunið út frá austurrísku hagfræðinni - kenningum sem enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur hlustað á til þessa. Hins vegar höfðu frjálshyggjumenn, einkum í Bandaríkjunum, varað við yfirvofandi hruni út frá þessum kenningum. Og nei, þingmenn sjálfstæðisflokksins voru lítið að vara við þessu enda fáir þeirra frjálshyggjumenn og engum fannst vera stemning fyrir að leggja niður seðlabankann. Legg til að þú horfir aftur, fordómalaust, á silfrið og kíkir kannski aðeins á basic-in: http://en.wikipedia.org/wiki/Austrian_School

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, Guðmundur. Það er rétt sem nafnlaus sagði að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur fylgt þeirri stefnu sem ég var að tala um, hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né aðrir. Reyndar má segja þeim til varnar að ekkert hefði trúlega verið á þá hlustað. Fyrir mitt leyti get ég bent á að ég hætti í Sjálfstæðisflokknum fyrir sjö árum og tók þá þátt í að skrifa stefnuskrá Frjálshyggjufélagsins sem lagði til að þessu yrði breytt. Við þóttum alltaf dálítið skrýtin í Frjálshyggjufélaginu að vera að velta svona hlutum fyrir okkur. Þannig að það er kannski ekki skrýtið að fólk hafi forðast að taka undir þetta með okkur, af ótta við að vera talið jafn sérkennilegt og við. Og sennilega hefði fólk ekki komist mikið að í fjölmiðlum með þennan málstað.

Það réttlætir þó ekki þessa miðju-vinsældapólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt, og þennan pilsfaldakapítalisma sem sumir hægri menn illu heilli virðast vera hallir undir. Þeir þurfa að hreinsa sig af slíku.

Gunnlaugur Jónsson

Nafnlaus sagði...

Manni hlýtur að líða eins og guði almáttugum - þ.e. að geta gert hvað sem er, það sem manni sýnist með aðra og engin hefur vald til að skipta sér að. Að geta sóað og gamblað með annarra manna peninga án neinna hafta eða afleiðinga. Fá eftir sem áður sínar millur ósnertar í laun, arð og bónusa - líklega fyrir það eitt að anda.
Bergljót

Guðmundur sagði...

Það er nú svo að þeir sem ég hef talið upp hafa allir gefið sig út fyrir að vera boðberar Frjálshyggjunnar. Óþarfi að telja allar þær ræður og greinar sem það staðfesta.

Og ekki síður þá gestafyrirlesara sem þeir hafa fengið hingað til lands. Einnig má benda á fyrirlestrtarferð Hannesar ma. til Suður Ameríku þar sem hann kynnti íslenska efnahagsundrið og á hvaða forsendum hann gerði það. Þar var það Frjálshyggjan.

Sé litið til þeirra aths. sem hér eru þá er Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega í enn verri málum en ég hélt og var þó nóg af þverstæðukenndum fullyrðingum og upphrópunum fyrir.

Ég sé að við Gunnlaugur höfum verið á leið út úr Sjálfstæðisflokknum á svipuðum tíma og á sömu forsendum, reyndar frá sitthvoru sjónarhorninu.

Ég gat undir engum kringumstæðum sætt mig þá stjórnmálastefnu sem flokkurinn hafði tekið upp og m.a. þeir einstaklingar sem ég tel upp í greininni mættu í fjölmiðla og útskýrðu. Hún var að mínu mati öfgakennd frjálshyggjustefna.

Annars takk fyrir innlitið

Nafnlaus sagði...

Mjög góður punktur hjá þér um hina ömurlegu samfélagsumræðu í Partíinu Ísland fyrir hrun.

Þetta viðtal við Gunnlaug var nokkuð merkilegt og jafnvel skondið. Þar virðist fara frjálshyggjumaður með skoðanir sem voru í gangi og þóttu nokkuð góðar fyrir 1914, í hinni klassísku frjálshyggju. Hann virtist vera að verja hugmyndafræði sem hrundi í Kreppunni miklu.
Egill hefði reyndar matt spyrja hann um hvað frjálshyggjan segir hlutverk ríkisins í eftirlit með bönkum – til hvers að hafa fjármálaeftirlit og –reglur þegar ríkið er hvorki þrautalánaveitandi né með innlánstryggingar?
Gullfóturinn var helsta ástæða Kreppunnar miklu, og upptaka hans voru mikil mistök eftir WWI, hvert svo sem innra virði þess er!
Aðalatriðið er að vegna hugmyndafræði þessarar frjálshyggju sem lýst var í Silfrinu voru í upphafi Kreppunnar miklu bankar látnir fara á hausinn í stórum stíl. Skv. henni átti Ríkið ekki að gera neitt á meðan Kreppan hreinsaði til; léleg fyrirtæki og bankar færu á hausin, laun verkfólks og vöruverð lækkuðu svo eftirspurn ykist og hægt væri að byrja upp á nýtt. Hoover og Mellon fjármálaráðherra voru m.a. með þessar skoðanir.
Vandamálið var eftirspurnin jókst ekki heldur hélt áfram að minnka (spírall atvinnuleysis og eftirspurnarleysis) og stórfyrirtækin sem eftir lifðu, sem voru orðin mun flóknari en áður, þ.s. launakostnaður var minna hlutfall en áður, gátu stjórnað framboðinu með minnkuðum afköstum. Kaupmáttur vinnandi fólks jókst t.d stórlega vegna verðhjöðnunar á meðan stór hluti fólks var atvinnulaust og í algjörri örbirgð. Hrunið bankakerfi lánaði ekki og fjármagn hreyfði sig ekki. Einungis hluti af fólki og fjármagni var í vinnu, nokkuð sem við getum ekki með nokkru móti leyft okkur í dag. Samfélög voru rekin á einungis hluta afkastagetu sinnar. Varla viljum við það?

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus snýr sögu peningamála á haus. Árið 1914 var tekið upp kerfi "Federal reserve" eða Seðlabanka Bandaríkjanna. Þá var farið enn lengra í pilsfaldakapítalisma en áður hafði verið og peningamagnið þanið út á vegum hins opinbera með nákvæmlega því fyrirkomulagi sem ég fjallaði um hjá Agli. Niðurstaðan var svo sú, eins og Hayek og Mises spáðu (sjá t.d. andriki.is á sunnudag: http://www.andriki.is/default.asp?art=22032009) að sú bóla sprakk 1929 nákvæmlega eins og sú sem nú hefur sprungið. Þá gerðist það sama og nú, að frjálshyggjunni var kennt um, þótt varað hefði verið við þessu af frjálshyggjumönnum.

Annað sem hann snýr á haus er að Hoover hafi ekki viljað skipta sér af. Hann setti af stað mikil ríkisafskipti til að "bjarga" atvinnulífinu. Fyrir það var hann gagnrýndur af Roosevelt, sem tók við og gerði svo nákvæmlega það sama og Hoover. Hljómar það ekki kunnuglega? Obama gagnrýndi Bush fyrir ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum og ætlar svo að gera það sama og Bush.

Spírallinn sem hann nafnlaus talar um er einmitt vegna þessarar gírunar sem ég talaði um. Vítahringur minni eftirspurnar, því bólan er að springa. Sumir halda að lausnin sé að blása enn frekar í bóluna, og það hefur verið niðurstaðan síðustu áratugi og valdið þeim vanda sem við erum nú í. Betra er að leyfa litlum bólum að springa jafnóðum en að blása stöðugt meira upp.

Hvað varðar hægri menn sem hafa lofað ástandið, þá vil ég líka benda á að vinstri menn tóku jafn mikinn þátt í því. Enginn talar samt um að hugmyndafræði þeirra sé fallin. Fyrir utan það að maður sem styður ríkisstuðning við banka, getur ekki kallað sig frjálshyggjumann og ég held að margir þeir sem Guðmundur taldi upp myndu alls ekki vilja fá þann stimpil. Sjálfstæðiflokkurinn hefur svarið af sér frjálshyggju á undanförnum árum, enda hefur stefna hans ekki átt mikið skylt við frjálshyggju. Andstæðingar hans hafa hins vegar "sakað" hann um frjálshyggju, því þeir finna að það er veikur punktur; Sjálfstæðiflokkurinn fer í vörn þegar talað er um frjálshyggju, því hann vill höfða til miðjufólks. Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru gjarnan gagnrýndir fyrir að skemma fyrir honum.

Það er ósanngjarnt að mínu mati að skella skuldinni á frjálshyggju, þegar hægt er að rekja að orsök hrunsins sé í ríkisafskiptum í þágu stórfyrirtækja. Frjálshyggja er frjálshyggja og ekki neitt annað.

Svo að lokum: Það er ekkert til sem heitir "öfgakennd frjálshyggjustefna". Frjálshyggjan gengur út á ofbeldisleysi, og það er ekki hægt að ganga út í öfgar í ofbeldisleysi. Frjálshyggjan vill t.d. hvorki skylda fólk til að gera A, né banna því að gera A (nema A feli í sér ofbeldi). Frjálshyggjumaðurinn er í miðjunni, á milli öfgamannanna sem vilja skylda og banna.

Gunnlaugur Jónsson

Nafnlaus sagði...

Snúið upp á haus – já, sure! Heimurinn breytist ekki árið 1914 vegna þess að Seðlabanki Bandaríkjanna var stofnaður. Við vitum öll afhverju hann breytist þá. Og það var ekki upphafið á pilsfaldakapitalisma í neinni mynd.

Peningamagnið var ekki þanið út eftir 1914 – dollarinn var tengdur við gull og alveg til eftir 1970. Það sem gerðist á þessum tíma var að Bandaríkin var að koma fram sem stórveldi með gífurlegan efnahagslegan mátt – var að taka við að Bretlandi. Varla var það gert með sama dollaramagni og áður? Bandaríkin voru orðinn lánveitandi heimsins en samt með einangunarhyggju. Í dag er kannski Kína að koma fram með – en ekkert í liking við það þegar Bandaríkin komu fram. Það hafði verið vandamál t.d. í kringum 1890 fyrir dollarann að vera á gullfæti – bændur kvörtuðu t.d. mjög mikið með Bryant Jennings í broddi fylkingar. Peningamagn hélst engan veginn í hendur við gífurlegan hagvöxt á þessum tíma og dollarinn var alltof hátt skráður. Það sem hjálpaði þá til var að meira gull fannst. Það sem gerðist var að heimurinn breytist upp úr 1920, nútíminn var að koma, framleiðniaukning, bílar, neytendur, raftækjabylting, líkt og netbylting núna o.fl. o.fl. og þá dugði ekki pre-1914 hugmyndafræðin

Það er alveg ný skoðun að Hoover hafi verið með mikil ríkisafskipti til að bjarga atvinnulífinu og að FDR hafi siðan gert nákvæmlega það sama. Hvað sagt var í kosningabaráttunni á þessum tíma skiptir engu máli. Maður veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja til að fjalla um það sem FDR gerði sem Hoover hefði ekki dreymt um að gera. FDR kom með nýja fjármálalöggjöf, og allar framkvæmdirnar TVA o.fl. o.fl. og rof á einangrunarhyggju í Bandaríkjunum. Hoover var ömurlegur forseti og enn lélegri viðskiptaráðherra, hann taldi það vera eina hlutverk ríkisvaldsins að auka hagnað stórfyrirtækja og var fylgjandi verðsamráði þeirra. Hann og Mellon uku mjög alls konar skattaívilnanir stórfyrirtækja og síðan verndartollalögin ein frá 1922 og svo hin frægu Hawley-Smoot 1930. Hoover vildi "less government in business and more business in government". Það og hömlulaus græðgi, sjúkt klíkusamfélag er eitthvað sem við þekkjum mjög vel hér á landi og er orsök hrunsins. Enginn var að gæta hagsmuna ríkisins heldur var ríkið notað í þágu flokksvina og fyrirtækja þeirra. M.a.s. farið í ímyndarherferðir erlendis á þeirra vegum. Bólan fyrir Kreppuna varð til með ótrúlega svipuðum hætti og nú, hlutafé keypt fyrir lánsfé, verðbréfun, oftrú um ótrúlegan framtíðarhagnað fyrirtækja og þar sem hagnast var á þeim sem ekki voru innvígðir. Síðan hrundi spilaborgin og eftirspurn hrundi og Kreppan kom. Þetta hafði ekkert með peningamagn, pilsfaldakapitalsima frá 1914 í boði hins opinbera, eða það A hafi ekki fengið að gera allt sem honum vill án þess að ríkið kæmi nálægt. Og það er hægt að ganga út í öfgar án ofbeldis.

Það er ekki hægt að horfa á heiminn og söguna eins og gamla kyrrstæða ljósmynd – tala nú ekki frá því fyrir 1914 - og segja að þeir sem sjá aðeins meira séu að snúa sögunni á haus.

Eyjólfur Ármannsson