sunnudagur, 29. mars 2009

Siðbót innan lífeyriskerfisins

Gengdarlaus efnishyggja og peningadýrkun leiddi til hömlulausra ofurlauna fámenns hóps. Það leiddi til launaskriðs í fjármálageiranum og þá um leið varð að óhófleg hækkun á launakjörum nokkurra forsvarsmanna lífeyrissjóða. Sama gilti um framboð á glysferðum og skrautsýningum fjármálafyrirtækja, sem fóru fram erlendis eða á árbökkum dýrustu laxveiðiáa landsins. Þeir forsvarsmenn sem hafa verið þátttakendur í Þórðargleði eigenda bankanna hafa skaðað álit lífeyrissjóðanna.

Það er brýn nauðsyn að sú siðbót sem yfir stendur nái til stjórnenda lífeyrissjóða. Launakjör forsvarsmanna lífeyrissjóða eiga að vera í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði. Þjóðin er aftur orðin eigandi bankakerfisins, sem hefur leitt til endurskoðunar á kjörum yfirmanna bankanna. Sjóðsfélagar lífeyrissjóða gera samskonar kröfur.

Umræðan hefur stundum farið úr skorðum og einkennst af upphrópunum reistum á þekkingarleysi á starfsemi lífeyrissjóða. Gagnrýni hefur verið beint gegn stéttarfélögum sjóðsfélaga og þess krafist að þau axli ábyrgð. Samtök atvinnurekanda hafa haldið sér til hlés í þessari umræðu, þó svo samtökin skipi helming stjórnarmanna og hafa sannarlega markandi áhrif á fjárfestingarstefnu og kjör forsvarsmanna almennu lífeyrissjóðanna. Einnig má benda á að umræðan beinist ætíð almennum lífeyrissjóðunum, en ekki þeirra lífeyrissjóða sem banka- og fjármálakerfið hafa rekið. Ef stéttarfélög eiga að axla ábyrgð á innan lífeyriskerfisins, þá þarf ákvarðanataka vitanlega að vera í þeirra höndum. Gera á kröfu um að allir stjórnarmenn lífeyrissjóða séu úr röðum sjóðsfélaga og kjörnir af þeim.

Ég hef að undanförnu setið fjölmenna fundi sjóðsfélaga þess lífeyrissjóðs sem ég greiði í. Þar hafa framangreind mál verið rædd opinskátt, fulltrúar samtaka atvinnurekenda voru ekki á þeim fundum. Auk þess var tekið til umfjöllunar hvort það ætti að vera hlutverk lífeyrisjóða að reka hjúkrunarheimili. Því hefur algjörlega verið hafnað. Þó svo stjórnmálamenn hafi algjörlega brugðist í þessum málaflokki, réttlætir það engan vegin að lífeyrir sjóðsfélaga eða sparifé almennings verði tekið eignarnámi og nýtt til einhverra annarra hluta en að greiða lífeyri og örorkubætur.

Rekstraraðilum hjúkrunarheimila hefur ekki skort aðgang að hagstæðum langtíma lánum frá lífeyrissjóðum til bygginga og stækkunar. Sama gildir um aðgang sjóðsfélaga til lána vegna íbúðarkaupa. Það hefur aftur á móti skort heimildir frá hinu opinbera til stækkunar rekstrareininga og byggingar nýrra. Stjórnmálamenn hafa ekki staðið við kosningaloforð sín um átak í þessum efnum. Töluverð umræða var um það í síðustu kosningabaráttu, þar var einnig gagnrýnt að stjórnmálamenn væru að nýta þá sjóði sem ætlaðir voru til þessa í pólitísk gæluverkefni óskyld þessum málaflokki.

Staða þessara mála er á ábyrgð stjórnmálamanna ekki sparifjáreigenda sem geyma sitt fé í lífeyrissjóðum. Það er ekki og hefur ekki verið tiltökumál fyrir athafnaskáld að stofna félög um að reisa og reka hjúkrunarheimili og fá til þess lánsfjármagn frá lífeyrissjóðum. Um það hafa vitnað þeir sem eru í forsvari fyrir núverandi heimili.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rétt, Guðmundur. Höfuðatriði varðandi sjóðina er að SA komi ekki nálægt stjórnum þeirra. Eins og þú hefur margsagt, þá eiga þeir ekkert með að ráðstafa hluta samningsbundinna launa okkar. Stjórnarseta þeirra hefur oftar en ekki leitt til þess að of mikil áhætta hefur verið tekin hvað hlutafjárkaup varðar. - Varðandi "Góuþrælana" þá virðist það hulið fjölda fólks, að nær 4 krónur af hverjum 10, sem lífeyrissjóðirnir varðveita fyrir sjóðfélaga, eru ávaxtaðar í íbúðarhúsnæði. Annað tveggja með kaupum á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og hinsvegar með sjóðfélagalánum, sem nær alltaf eru notuð til íbúðakaupa. Ef sjóðirnir eiga að fara að fjárfesta beint í húsnæði, þá er áhættudreifingin orðin algjörlega óviðunandi. Svo er annað, sem gleymst hefur í umræðunni. Öllu fólki, sem skilar skattskýrslu, er gert að borga nefskatt í s.k. Framkvæmdasjóð aldraðra. Má ætla, að þetta fé nemi hátt á annan milljarð á ári. Því fer fjarri, að þessum fjármunum hafi verið varið eins og lög um þennan skatt kveða á um; þ.e. til byggingar og reksturs hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða. Hvernig væri nú að Helgi í Góu eyddi einhverju af þessu auglýsingafé, sem hann ver til þess að rægja lífeyrissjóðina, til þess að vekja athygli á þessum lögbrotum ríkisins?

Nafnlaus sagði...

Guðmundur.
Það er nú ekki beint fögur greinin í Mogganum, "Gömlu bankarnir buðu stjórnendum lífeyrissjóðanna ótrúlegan munað"
Þegar svona upplýsingar koma fram í dagsljósið þá er nánast alveg sama hvað menn segja um ágæti sjóðanna.
Sukkið og sérhagsmunirnir eru svo stingandi fyrir launafólk í landinu að traust og trúnaður er fokinn út í hafsauga.

Kveðja

Jóhann F. Kristjánsson

Guðmundur sagði...

Sæll Jóhann
Eitt af því sem ég hef gagnrýnt hvað harðast í umræðum um lífeyrissjóði eru þær alhæfingar sem hafðar eru í frammi.
Eins og kemur fram í pistlinum þá er ég að benda á að það þurfi að taka því þar sem það hveru viðgengist.