Í gær mættu allt að 600 manns á fund þar sem störf í Kanada voru kynnt. Nokkur hópur er farinn til Norðurlandanna og enn fleiri að skoða störf þar. Allir sem ég hef rætt við segjast vilja vera áfram á Íslandi.
En það er ekki bara atvinnuleysið sem fólk segir að sé ástæða fyrir brottför. Margir segjast vera búnir að fá nóg af kerfinu hér og ekki sjá nein merki um iðrun eða vilja til þess að laga það. Íslenskir stjórnmálamenn virðast telja að þeir þurfi einungis að vanda sig dáldið betur í næstu tilraun. Fólk er búið að fá sig fullsatt á þeim rússíbanaferðum sem íslensk efnahagstefna býður reglulega upp á.
Tengdadóttir mín lýsti þessum viðhorfum svona "Við erum búinn að búa erlendis í 7 ár og vera í námi. Mig langar ekki búa þar lengur. Mig langar til þess að búa hér og flutti heim í hittifyrra til þess ala upp börnin mín hér. En það þjóðfélag sem íslenskir stjórnmálamenn hafa búið til á þessum tíma sem við vorum erlendis er þess eðlis að maður er líklega að hrökklast aftur nauðugur viljugur úr landinu."
Forsenda þess að uppbygging geti hafist er að gert sé upp við bankahrunið og forsendur þess greindar. Af hverju gerði ríkisstjórnin ekkert í haust annað en að atast út í vinaþjóðir okkar og saka þær um meinta óvild í okkar garð? Af hverju vildu vinaþjóðir okkar ekkert gera nema að völdin væri tekin af íslenskum stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settur sem kápa á þau? Vinur er sá sem til vamms segir. Í dag blasir við að allt sem þáverandi fjármálaráðherra og forsætiráðherra gerðu var til þess eins að dreifa athygli almennings frá því sem raunverulega hafði gerst.
Á undanförnum árum hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna, Viðskiptaráðs og þeirrar stjórnmálastefnu sem fylgt hefur verið undanfarin áratug bölsótast út í eftirlitsiðnaðinn. Í nýlegu viðtali lýsir Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlits þessari stefnu ágætlega. „Stjórnmálamenn fóru að leita að sökudólgum til að beina athygli og óánægju frá sjálfum sér. Þá var pólitísk stefna að styðja við vöxt og viðgang fjármálageirans. Þegar kerfið var rúmlega sjöföld landsframleiðsla var sett stefna á um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð.”
Af hverju hringdu íslensk stjórnvöld ekki strax í Efnahagsbrotadeild og fengu hana til þess að kafa í málin? Af hverju var einungis einn drengur ofan af Akranesi fenginn til þess að setjast hér við skrifborð seint og um síðir? Það átti að duga, en svo kallar Egill Helga á þekktan afbrotafræðing og hún flettir ofan öllu bixinu í einu frábæru viðtali. Á meðan fyrrv. ráðherrar bæta einungis um betur með því að segja að það hafi verið fólkið sem hafi brugðist ekki stefnan og flokkurinn. Það á að halda áfram og verja valdastöðurnar og koma í veg fyrir að sett verði stjórnlagaþing.
Viðskiptalífið er spillt, þar hafa menn farið sem einskis svífast til þess að hagnast. Þekkt er viðhorf þeirra um að græða svo mikið að hægt sé að fara á eftirlaun fyrir fertugt. Þessu er blákalt haldið fram þó það blasi við að einhverjir verði að borga fyrir þann brúsa. Þessi menn mergsjúga fyrirtækin með því að splundra þeim upp, spila síðan á markað með uppsprengdum hlutabréfum og flytja fjármuni úr þeim í skattaskjól. Eftir standa fyrirtækin með uppdráttarsýki og riða til falls hvert á fætur öðru og þá um leið atvinnutækifærin.
Eigendur bankanna hafa með velþóknun þeirra sem hafa stjórnað efnahagslífinu boðið fram margskonar fjárfestinga- og sparnaðarleiðir. „Seldu eignir þínar og láttu okkur fá peningana. Við munum síðan lána þér fyrir draumahúsinu og bílnum og við látum peningana vinna fyrir þig og greiða allt niður.“ Eða; „Hættu að greiða í almennu lífeyrissjóðina og greiddu í okkar sjóði.“ Nú er að koma í ljós að allt var þetta blekkingarleikur.
Lífeyrissparnaður geymdur í bönkunum og hlutabréfum þeirra er að stórum hluta glataður, á meðan um 10% fjármuna geymdum í almennu lífeyrissjóðunum er glataður. Margir hafa bent á norska olíusjóðinn þegar þeir hafa sent íslensku sjóðunum kaldar kveðjur, nú er komið fram að hann tapaði 25%.
Almenningur og stjórnendur fjárfestinga almennu lífeyrissjóðanna fjárfestu í góðri trú, en á bak við glæst leiktjöldum voru einstaklingar og unnu markvisst að fjármagnsflutningum úr landi. "Það er ríkið sem hefur brugðist" sagði Páll Skúlason heimspekingur réttilega um síðustu áramót. "Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ var ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu."
Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans. Það er ekki nema rúmt ár síðan forsvarsmenn Viðskiptaráðs hrósuðu sér yfir því að stjórnvöld hefðu farið eftir 90% af því sem ráðið hefði lagt til.
Það er ekki nema rúmt ár síðan ráðherrar og stjórnarmenn í Seðlabankanum fóru um heiminn og lýstu fjálglega íslenska efnahagsundrinu og hvöttu um leið almenning og lífeyrisjóðina til þess að taka þátt í dansinum á enn trylltari hátt.
Athafnir íslenskra stjórnmálamanna og forsvarsmanna í viðskiptalífi eru ástæða þess hvernig komið er fyrir atvinnuástandi. En ekki síður þeim neikvæðu viðhorfum sem fólk hefur í dag gagnvart íslensku þjóðlífi og framtíðarhorfum.
Athafnir íslenskra stjórnmálamanna og forsvarsmanna í viðskiptalífi eru ástæða þess hvernig komið er fyrir atvinnuástandi. En ekki síður þeim neikvæðu viðhorfum sem fólk hefur í dag gagnvart íslensku þjóðlífi og framtíðarhorfum.
4 ummæli:
Sæll Guðmundur.
Ég er nýkominn heim eftir 10 ára nám erlendis. Þjóðfélagið sem ég upplifi núna er ónýtt. Það er ekkert eftir af því Íslandi sem ég yfirgaf og saknaði meðan ég bjó erlendis. Ekki einu sinni Reykjavík var látin í friði, heldur standa húsgrunnar, hálfbyggð hús og einhver turnskrýmsl um allt í einhverri nýrri borg sem ég kannast ekkert við.
Mér líður illa hérna, og mig langar ekkert til að búa hérna. Ég hef því ákveðið að flytja úr landi aftur. Það var reyndar sjálfgefið, því hér reyndist enga vinnu að hafa í ofanálag.
Ég er ekki viss um að ég komi nokkurn tíma heim aftur nema sem gestur.
Vel mælt að vanda!
Í raun held ég að fólk sé að biðja um gamla þjóðfélagið aftur með bændum og trillukörlum. Þegar krakkar voru úti að leika í brennó og yfir.
Sjálfsþurftarbúskap með sjónvarpleysi á fimmtudögum og í júlí. dæs, þetta voru dagar,maður minn,og þetta er það umhverfi sem börnin okkar vilja koma heim í til þess að ala upp barnabörnin okkar.
Svo var Viðskiptaráð að funda og endurtók gömlu tuggurnar; einkavæða heiðbrigðisþjónustu, einkavæða auðlindir, selja allt sem við eigum þó eftir. Siðblindan er svo algjör að það er ekki lengur neitt orð í tungumálinu, sem nær yfir þetta fólk, ef fólk skyldi kalla.
Skrifa ummæli