fimmtudagur, 12. júní 2008

Fjármálasnillingar á ofurlaunum

Ég hef nokkrum sinnum velt upp hrifsun ákveðinna stjórenda á arði áður en hann kemur til skiptingar hjá hluthöfum. Þessri menn eru að greiða sjálfum sér laun sem eru frá um 200 föld árslaun verkamanna eins og stjórnendur Kaupþings eru að greiða sér. Það tók stjórnanda Kaupþings frá áramótum til 10. marz á þessu ári að vinna sér inn ævitekjur verkamanns. Stjórnendur Glitnis greiða sér 150 föld meðallaun verkamanna, en síðan er fall Landsbankinn greiðir „einungis“ 40 föld. Margir hljóta að velta fyrir sér með tilliti til frétta undanfarinna hversu miklir „fjármálasnillingar“ séu þarna á ferð. Fá þeir launalækkun nú eða verður þeim gert að endurgreiða til hluthafa.

Skýring á þessari hrifsun er fjarlægð eigenda. Stærsti hluti hlutabréfa í skráðum hlutafélögum er ekki í eigu einstaklinga heldur ýmissa fjárfestingafélaga og lífeyrissjóða. Mótsögnin er að forsendur þeirra fjármuna sem þessir "snillingar" eru að spila með, koma frá sjóðum sem stéttarfélögin hafa byggt upp til þess að tryggja afkomu launamanna lendi þeir í örorkuslysum eða þegar þeir fara á ellilífeyri. Bankamennirnir eru með í vinnu ráðgjafa sem ráðleggja fólki að ganga úr stéttarfélögum og færa alla launareikninga, og bankarreikninga yfir til bankanna.

Sá skaði sem þessir "snillingar" hafa valdið íslensku fjármálalífi er gífurlegur. Blindaðir í skammtímagróða hafa þeir vaðið inn á íbúðamarkaðinn í skjóli misvitra stjórnmálamanna sem fengu að njóta veizluhaldanna í glæstum „viðskiptaferðum“ og nýttu sér falsrökin í kosningabaráttu um að þessi „uppgangur“ væri byggður á grunni sem þeir hefðu skapað.

Þegar umræðan berst að launakjörum almennra launamanna er ætíð vísað til samfélagslegrar ábyrgðar, verðbólgu og óstöðugleika í efnahagslífinu. Verkalýðshreyfingunni beri að sýna samfélagslega ábyrgð í kjarasamningum. Launamenn axli ábyrgð. Þegar kemur að launakjörum æðstu stjórnenda og valdhafa ríkja önnur viðmið. Það er mikil undirliggjandi reiði í íslensku samfélagi í dag.

Launamenn eru ófúsari til þess að ganga í gegnum lægðir, en áður. Tryggð sem áður ríkti milli fyrirtækja og starfsmanna er fokinn fyrir löngu með hagræðingum og fyrirvaralausum uppsögnum. Þegar „fjármálasnillingarnir höfðu lokið við að búta niður fyrirtækin og hrifsa til sín varasjóðina til nota í áhættufjárfestingum, skildu þeir fyrirtækin eftir algjörlega bjargarlaus og óvarin fyrir sveiflum.

Nú er svo komið fyrir allmörgum heimilum fyrir tilstilli háttalags banka með því að halda að fólki ótakmörkuðum lánum, yfirdrætti og raðgreiðslum, að það stjórnar sínu lífi ekki lengur. Það á altt sitt undir bönkunum. Hvað gerist í haust þegar 5 ára samningar um 4.15% vexti renna út og bankarnir hafa það í hendi sér hvaða vexti þeir gera fólki að greiða. Afborganir af íbúðuðum munu hækka jafnvel tvöfaldast hjá fólki sem þegar er í botni með greiðslubyrði sína.

Þetta fólk vildi trúa málflutning þeirra stjórnmálamanna sem hafa farið með stjórn efnahagsmála um að hér ríkti stöðugleiki og endalaus uppgangur. Það voru bara leiktjöld sem stillt var upp í aðdraganda kosninga og eru að falla þessa dagana. Verðbólgan var mun meiri og króna er kolvitlausu gengi.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott, rétt, takk, Guðmundur.
Ánægjulegt væri ef samherjar þínir í pólitík töluðu á sama ceg. Hvers vegna þegja þingmenn Samfylkingarinnar um þessar staðreyndir? Hvers vegna tala þeir máli "fjármálasnillinganna"? Hvers vegnaverja þeir hagsmuni auðmanna?
Hvers vegna samþykkja þeir að alþýðan borgi brúsann og taki á sig byrðarnar sem þessir menn hafa lagt á þjóðina?
Hvers vegna?

Nafnlaus sagði...

Það er því að Samfylkingin sér um sína. Mikið af menntaelítunni sem Samfylkingin sækir fylgi sitt til, er fólk sem er í lykilstöðum í þjóðfélaginu og oft á ofurlaunum. Samfylkingin, sem er orðin stærsta vinnumiðlun landsins, hefur verið að koma mikið af þessu fólki í góðar stöður. Samfylkingin vill ekki styggja þetta fólk.

Það er gott að tímarnir eru að breytast. Fyrir nokkrum misserum var litið upp til þessa ofurlaunfólks eins það væri hálf-guðir og því borin mikil virðing fyrir því. Á þessum tíma var auðshyggja mikið í tísku og hver sá sem hallmælti svona háum launum var stimplaður sem öfundsjúkur looser.

Nafnlaus sagði...

komu bankarnir ekki inn 2004 á íbúðarmarkað? Sem gerir endurskoðun árið 2009?

Unknown sagði...

Rétt hjá þér Guðmundur. Enn er ekki komin tími að þeir sem eru félagar í lífeyrissjóðnum kjósi stjórn og þar séu bara þeir sem greiða í sjóðina, enn ekki vinnuveitendur? Og svo að lífeyrissjóðir hafi aðalfundi á þeim tíma sem félagsmenn geti sótt fundi, enn ekki á vinnutíma sjóðsfélaga? Það er ekki til að auka tengsl sjóðsfélaga við stjórn sjóðana. Það að vinnuveitendur séu í stjórn sjóðana er bara hættulegt og úrelt. Tel að það flokkist undir fé án hirðis einsog Pétur Blöndal myndi segja í öðrum málum. Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Sammála þessu með laun "snillinganna".

En Guðmundur, varst þú ekki einn aðalmaðurinn í síðustu samningagerð þar sem akkúrat var samið um raunlækkun á kjörum?
Er ekki ábyrgð ykkar forsvarsfólks félaga vinnandi fólks mikil?
Mér finnst þið ekki hafa staðið undir henni við síðustu samninga.
Nýjasta afurðin í samningum kallast "baksýnisspegill". Bráðsniðugt tæki sem gefur vinnuveitendum kost á flottri afsökun fyrir að þurfa ekki að láta laun halda í við verðbólgu.

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þér um þessa fjármálasnillinga okkar.
En undarleg eru þessi nafnlausu komment hérna, sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt saman Samfylkingunni að kenna!

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, ætlar (hefðir) þú að banna bönkum að koma inn á íbúðamarkaðinn? Hvernig þá og með hvaða rökum? Bankarnir komu inn á markaðinn 2004 þannig að það er fyrst í ágúst 2009 sem vextir koma til endurskoðunnar. Það er ekki banakum að kenna að fólkið tók lán hjá þeim.

Það er hins vegar rétt þetta með launakjörin, þau eru of góð (en góð þurfa þau að vera).

Nafnlaus sagði...

Góð grein hjá þér Guðmundur.

Annars eru undarleg þessi nafnlausu komment hérna. Er þetta allt saman frá sömu IP-tölunni Guðmundur? Hef á tilfinningunni að þetta sé unglingur að tröllast*.

Wikipedia um *internettröll:
"An Internet troll, or simply troll in Internet slang, is someone who posts controversial and usually irrelevant or off-topic messages in an online community, such as an online discussion forum or chat room, with the intention of baiting other users into an emotional response or to generally disrupt normal on-topic discussion."