þriðjudagur, 24. júní 2008

Þetta verður að stöðva

Skelfing eru sumir pirraðir yfir því að verið sé að fjalla um “óheppileg” mál. Sem tilteknir ráðherrar hafa kalla “dónaleg” og aðrir ráðherrar “offramboð á skoðunum”

Við eigum að meðtaka mótmælalaust þann boðskap sem tilreiddur er fyrir landsmenn í sjónvarpstöð allra landsmanna og prentfjölmiðlum. Og öllu draslinu er stjórnað af mönnum sem koma úr sama stjórnmálaflokki. Endurtekið heyrir maður sögur frá starfsmönnum um fréttir sem lenda undir stólnum því þær séu óheppilegar tilteknum skoðunum. Ítrekað hefur komið fram að á ritstjórnum stóru fjölmiðlana liggi með fréttir sem bútaðar eru niður og valdir kaflar birtir.

Þið hafið sér þorskinn sem liggur í straumnum og móttekur það sem að honum berst, japlar athugasemdalaust og horfir brostnum augum út í tómið. Ef almennur borgari vill bregða út af þessu hátterni þá er hann að “hrauna yfir fréttamenn.” Svo ég vitni til ummæli eins úr þeirra röðum, í einum þeirra pósta sem ég hef fengið með skömmum um hátterni mitt á þessari bloggsíðu. “Þú ert bara í pólistísku brambolti til það sinna þínum rassi.”

Í sama þætti var í gærkvöldi svo fyrirsjáanleg tilgangslaus og svo óendanlega innihaldslaus umræða um stöðu efnahagsmála í gærkvöldi. "Hjálpi okkur, aumingjans mennirnir", var amma vön að segja þegar hún heyrði einhverja rakalausa dellu hjá stjórnmálamönnunum.

Afsakið augnablik; en hér dettur fréttamaður í sömu gryfju og ég hef verið að gagnrýna, það er að skella fram fullyrðingu til þess eins að losna undan að svara óþægilegri spurningu og fá menn til fara í hina þekktu leið bandarískra repúblikana og margir þingmenn Flokksins hafa tileinkað sér; “Látið helvítin eyða tíma sínum í að afneita.”

Nú er svo komið að það eru jaðarmiðlar eins og tilteknar bloggsíður, sem koma fram með ítarlegri og betur framsetta gagnrýni á samfélagið en hinir dauðhreinsuðu fjölmiðlar. Gott dæmi er að ASÍ heldur úti öflugri Neytendavakt, ekki fjölmiðlar. Meira að segja Dr. Gunni slær út stærstu fjölmiðlana með lítilli netsíðu.

Eða þá mál SÁÁ um fullyrðingar um tiltekna þingmenn í tilteknum flokki sem afgreiddu málið í samræmi við eigin hagsmuni. Eða þá gagnrýni hagfræðinga ASÍ á efnahagsstefnuna á undanförnum árum. Allt, hvert einasta atriði; sem þar hefur verið sett fram hefur reynst rétt. Ekki eitt einasta atriði í mótmælum stjórnarþingmanna hefur staðist, ekkert.

Sjáið þið til lesendur góðir, á næstu misserum mun eiga sér stað niðurskurður á fjölmiðlum, þar er ég að vitna til orða Ara Edwald í tengslum við afskráningu 365. Það stendur til er verið að tala um að leggja niður 24 stundir og sameina prentsmiðjur Mogga og Fréttablaðsins. Þá verðum við kominn á sama stað og við vorum fyrir nokkru þegar Mogginn var einn. Þegar útgáfa Fréttablaðsins hófst, átti að stöðva hana með Fjölmiðlalögunum sakir þess hversu óþægilegt það var að geta ekki stjórnað umræðunni. En þegar það tókst ekki, þá var farinn önnur leið og hún er að takast og ekki má rannsaka hana.

Það eru blikur á lofti stóru fjölmiðlanna. En svo er ekki fyrir jaðarmiðla. Hið sértæka er miklu áhugaverðara, á meðan fjalla stóru breiðu miðlarnir um allt og ekkert og sleppa því sem er óheppilegt fyrir kjörkassana. Eins og einn ráðherra hrópaði taugaveiklaður úr ræðustól Alþingis og veifaði Fréttablaðinu; “Þetta varð næstum til þess að við töpuðum síðustu kosningum.”

Og forsvarsmenn Flokksins ásamt útvöldum fréttamönnum stynja undan offramboði af óheppilegum skoðunum á bloggsíðunum. Skyldi ekki vera hægt að sótthreinsa síðurnar? Hmm þetta gengur ekki.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir athyglisverðan pistil. Í umræðu að undanförnu hefur ítrekað komið fram að bankarnir séu að fella gengi krónunnar til að sýna fram á betri rekstur í uppgjörum. Ögmundur Jónasson og Vilhjálmur Bjarnason létu báðir að þessu liggja í sjónvarpinu í gær.
Blöðin fjalla ekkert um þetta og furðu vekur hversu lítið fjallað er um algjört hrun íslensku krónunnar.
Hvað veldur?
Getur verið að þetta sé vegna þess að sömu mennirnir eiga bankana og "frjálsu fjölmiðlana"?
Kveðja
Karl Gunnarsson

Nafnlaus sagði...

Réði ég fjölmiðli - og vildi ég koma í veg fyrir gagnrýni á verk mín - þá myndi ég lyfta þar til metorða fólki sem ekki hefði neitt til þess unnið. Sæmilega slöku fagfólki og húsbóndahollu.

Fólki sem þyrfti að minnast þess á hverjum degi hver kom því óverðskuldað í feitt embætti.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

"Endurtekið heyrir maður sögur frá starfsmönnum um fréttir sem lenda undir stólnum því þær séu óheppilegar tilteknum skoðunum. Ítrekað hefur komið fram að á ritstjórnum stóru fjölmiðlana liggi með fréttir sem bútaðar eru niður og valdir kaflar birtir."

Þetta verðurðu að skýra betur, með dæmum takk, því þetta er ekki neinu samræmi við reynslu mína á Fréttablaðinu undanfarin fjögur ár.

Með kveðju
Bergsteinn Sigurðsson

Nafnlaus sagði...

Ég held, Bergsteinn, að hér sé ekki nokkur frétt undir stólnum.
Fréttin er út um allt, svífandi eins og vofa yfir okkur öllum. Og við þegjum eins og Guðhræddir forfeður okkar... af því að stóru fjölmiðlarnir þegja. Þannig verður ímyndaður veruleiki okkar örlítið fallegri en hann í raun er.
Amma sagði að þetta héti að stinga hausnum í sandinn. Og þannig stöndum við, íslenskur almúgi, með hausinn á kafi, og ef einhver gáfaður maður með skoðun segir eitthvað sem meikar raunverulega sens.. þá hvíslum við í mesta lagi ofaní hálsmálið í veikri von um að það heyrist ekki og höldum áfram að bera reiðina og í hljóði... eins og forfeður okkar hafa alltaf gert.
Síðan mætum við þungbúin á kjörstað í grárri rigningunni, kjósum Flokkinn og höldum heim á leið. Bölvandi.

Guðmundur Andri Skúlason.

Nafnlaus sagði...

Fréttablaðið? Nei hættu nú alveg!
KG

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með kollega mínum Bergsteini og trúi því ekki að á ritstjórnum blaða liggi lengur greinar sem ekki fáist birtar út af pólitísku innihaldi.
Ég hef skrifað að staðaldri í Fréttablaðið frá fyrsta útkomudegi þess og eina umsögnin sem ég hef fengið um hinn pólitíska þátt í mínum skrifum er þessi frá öðrum ritstjóra Fréttablaðsins: "Mér þætti ekki verra þótt pólitíkin væri ennþá meira áberandi í þínum skrifum!" Svo að á þeim bæ, Fréttablaðinu er ritfrelsið í lagi. Blogg og veraldarvefur hafa enda gert það óframkvæmanlegt að bæla niður pólitískar hugmyndir amk. hérna á vesturlöndum.

Nafnlaus sagði...

Ef til vill á Guðmundur við einhverja aðra en hina voðalegu Baugsmiðla.