laugardagur, 7. júní 2008

Hraðlest til lægstu kjara

“Þeir erlendu innflytjendur sem hér hafa sest að myndu samt margir velja að vera um kyrrt á atvinnuleysisbótum sem eru oft á tíðum mun hærri en laun verkamanna í þeirra heimalöndum,” sagði Guðjón Arnar formaður Frjálslynda flokksins auk þess sagði hann. “Þessi þróun sem ég vara sérstaklega við gæti mjög líklega orðið við harða lendingu efnahags- og fjármála ef atvinnuleysi fær að vaxa við núverandi aðstæður.”

Málflutningur Frjálslyndaflokksins gagnvart erlendu fólki er einstaklega ósmekklegur og ómerkilegur hræðsluáróður. Hvað skyldu margir íslendingar hafa farið erlendis og verið þar á atvinnuleysisbótum? Þeir skipta þúsundum. Viðhorf Frjálslyndaflokksins og reyndar hluta Sjálfstæðisflokksins ber í sér að vilja fá allt frá Evrópu, en gefa ekkert. Þau viðhorf eru studd með málflutning á borð við þennan.

Þetta eru dæmigerð frjálshyggju viðhorf. Ísland er aðili að Evrópska efnhagssvæðinu og á því byggist útrás og uppgangur íslenskra fyrirtækja. Á þessu svæði gilda samsvarandi reglur um frjálsa för launamanna og fyrirtækja. Þessar reglur eru grundvöllur uppbyggingar í Evrópu til þess að fjölga atvinnutækifærum og gera svæðið samkeppnishæft við önnur svæði í heiminum. Ef það hefði ekki verið gert þá hefði stefnt í að evrópskir launamenn og evrópsk fyrirtæki yrðu að leita til Asíu og Afríku eftir störfum og verkefnum.

Þegar erlendir launamenn koma hingað til starfa gerum við þær kröfur að komið sé fram við þá á sama hátt og aðra. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum á undanförnum 4 árum þá höfum við starfsmenn stéttarfélaganna þurft að leggja í hörku slagsmál við óprúttna náunga sem vilja nýta sér bága stöðu hinna erlendu launamanna.

Sömu kröfur gera íslendingar sem fara til starfa í öðrum löndum. Undirstaða í umönnun, fiskvinnslu og framkvæmdum í verktöku hérlendis eru erlendir launamenn. Margir þeirra fara langt frá heimhögum og fjölskyldu, sumir una hag sínum vel hér og vilja setjast hér að. Sama gildir um marga íslendinga sem hafa farið erlendis til náms og/eða starfa.

Nú hlýtur maður að spyrja;

Vill Guðjón og skoðanabræður hans að íslendingar sem fara erlendis til starfa búi við skert kjör og réttindi vegna þess að þeir séu íslendingar?

Vill Guðjón og skoðanabræður hans að við í verkalýðshreyfingunni sjáum til þess að erlendir launamenn sem hingað komi búi við skert launakjör?

Vill Guðjón að fyrirtæki sem nýta sér erlenda launamenn búi við betri samkeppnistöðu en fyrirtæki sem nota íslenska launamenn?

Ef farið væri að sjónarmiðum Guðjóns og skoðanabræðra hans færi vinnumarkaður í Evrópu með hraðlest til lægstu kjara á svæðinu.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Geturðu skýrt hvað þú átt við með "útrás og uppgangur íslenskra fyrirtækja". Ég sé ekkiert nema plat og misskiptingu. Ég er að borga af íbúð og sé ekki hvernig ég get haldið henni. Ég sé menn ferðast í þotum. Ég hefði gjarnan vilja sleppa Evrópska Efnahagssvæðinu.

Nafnlaus sagði...

Í þessum pistli er hvert orð öðru sannara. Vel gert Guðmundur!

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr. Það er makalaust hvað "frjálslyndir" fá mikla gagnrýnislausa athygli fjölmiða með sinn vægast sagt ósmekklega málflutning sem einkennist af hræðsluáróðri, vanþekkingu, fordómum og þröngsýni.
Takk fyrir góðan pistil.

Guðmundur sagði...

Sæll nafnlaus
Í dag vinna um 250 þús. manns hjá fyrirtækjum í eigu íslendinga í Evrópu. Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki eru að skipta yfir í Evru. Ef við værum innan ESB þá væru vextir af íbúðinni þinni líklega um það bil helmingi lægri. Matvöruverð um 30% lægra. Ásamt stöðugleiki í efnhagsmálum.

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð! Frjálslyndi flokkurinn(af hverju er íslensk flokkanöfn alltaf öfugnefni?) er orðið hræðslubandalag sem höfðar til lægstu hvata mannlegs eðlis eins og öfundar, vantrausts og sérhyglni. Málstaður Frjálslyndra er orðræða rógs sem grefur undan samfélaginu, því hún gefur til kynna að það séu tveir hópar sem búa á Íslandi þ.e. Íslendingar og aðrir. Orðræða frjálslyndra er því stórhættuleg, sagan sannar það.

Kveðja
Magnús

Magnús Þór sagði...

Maður hristir nú bara hausinn yfir þessu rugli.

Þú túlkar orð Guðjóns Arnars eins og fjandinn túlkar biblíuna.

Nafnlaus sagði...

Þér ferst - varst þú ekki dæmdur fyrir meiðyrði gagnvart pólskri konu?

Þetta eru annars verulega ómerkilegir útúrsnúningar hjá þér á gagnmerkri ræðu Guðjóns Arnars.

Sigurjón Þórðarson

Nafnlaus sagði...

Sæll Sigurjón.

Hvernig er hægt að túlka orð Guðjóns öðru vísi en þetta ?

“Þeir erlendu innflytjendur sem hér hafa sest að myndu samt margir velja að vera um kyrrt á atvinnuleysisbótum sem eru oft á tíðum mun hærri en laun verkamanna í þeirra heimalöndum,” ... “Þessi þróun sem ég vara sérstaklega við gæti mjög líklega orðið við harða lendingu efnahags- og fjármála ef atvinnuleysi fær að vaxa við núverandi aðstæður.”

Það er eitt mjög mikilvægt í hræðsluáróðri Guðjóns sem gleymist að minnast á: Erlendu verkamennirnir þurfa að sjá fyrir sjálfum sér áður en þeir senda pening til ættmenna. M.ö.o. þeir munu ekki stoppa hérna lengi á atvinnuleysisbótum, því af þeim er varla hægt að lifa, og forgangur margra þeirra er að senda hluta launa sinna til heimahaganna.
Þar með er þetta orðinn hræðsluáróður, því það munu sárafáir láta bjóða sér að lifa á atvinnuleysisbótunum, og því munu þeir rjúka í nýtt gullæði einhversstaðar annars staðar (t.d. að elta Bechtel og Alcoa til Grænlands?)

Örn