sunnudagur, 1. júní 2008

Símhleranir

Ég hef nokkrum sinnum komið að því hversu fullviss hópur tiltekinna hægri manna er um að hann hafi rétt fyrir sér og talar niður til allra annara og kallar þá vinstra liðið. Engin skilgreind pólitísk mörk eru önnur en eitthvað sem þeir nefna frelsi til athafna. Menn sem hafa fylgt Sjálfstæðiflokknum voru hiklaust settir í vinstra liðið, ef þeir voru ekki sannfærðir um hina óheftu frjálshyggju.

En þessir hinir sömu eru þeir hörðustu í því að skerða frelsi annarra. Þar má t.d. nefna fjölmiðlafurnvarpið þar sem átti að hefta tjáningafrelsi og svo viðbrögð þeirra þegar forsetinn hlustaði á rödd þjóðarinnar og vildi fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjölmiðill þeirra var um langt árabil sá eini á markaðinum og þar viðgekkst að velja fréttir fyrir landsmenn. En þegar annar fjölmiðill kom fram átti að stöðva þá útgáfu. Ráðherrar stóðu í pontu Alþingis og veifuðu örvæntingarfullir Fréttablaðinu og hrópuðu „Þetta verður að stöðva, þessi málflutningur var næstum því búinn að fella okkur í síðustu kosningum!!“

Eins má nefna viðhorf þeirra til útvarpsþátta sem fjölluðu um þjóðfélagsleg mál og drógu oftar en ekki gagnrýnisverða þætti fram í daglsjósið. Fram komu skoðanir um að „Hjóðviljann“ yrði að stoppa og fleira í þeim dúr.

Einnig má benda á ummæli þessara manna, eins og þá breytum við bara stjórnarskránni ef hún passar ekki við það sem við viljum. Eða það sé offramboð af óþægilegum skoðunum. Eða gagnrýni á eftirlaunafrumvarpið sé einelti. Eða sú staðreynd að allt að þriðjungur frumvarpa þessara manna standast ekki stjórnarskrá eða gildandi landslög.

Þessa dagana er komin fram staðfesting á að þeim sem höfðu ætíð rétt fyrir sér og jafnari en aðrir íslendingar, létu umhugsunarlaust hlera síma hjá mönnum sem voru með „óheppilegar“ þjóðfélagslegar skoðanir. Mér finnst ekki hægt að komast neðar en það að vilja hlera einkasamtöl. Af hverju vilja ráðherrar ekki biðjast afsökunar? Er eitthvað í gangi sem ekki er komið upp á yfirborðið?

Engin ummæli: