Á undanförnum vikum hafa ráðherrar reglulega sent frá sér yfirlýsingar um að botninum sé náð. Þar á milli hafa komið fram greiningarmenn frá aðilum vinnumarkaðs og spáð að botninum verði náð seinni hluta þessa árs, og uppganga úr táradalnum hefjist í byrjun næsta árs og standi fram á árið 2010.
OECD birtir spá í fyrradag sem er í samræmi við spár aðila vinnumarkaðs. Þá segja ráðherrar að þetta komi þeim á óvart. Þar staðfestist enn einu sinni hvers vegna niðursveiflan hér er mun dýpri en í öðrum löndum. Ráðherrar eru úti að aka, lifa í sýndarveröld sem þeir haga skapað sér. Það er búið að vara þá við í 4 ár, en þeir hafa allan þann tíma sagt að við séum best og allt í fínu lagi.
Það var búið að benda þeim á að gengið væri rangt skráð og þær yfirlýsingar sem þeir gáfu út um stöðu efnahagslífsins hefðu verið rangar. Þeim var bent á að það þyrfti að undirbúa efnhagslífið undir harða lendingu en þá urðu þeir pirraðir og sögðu að menn ættu ekki að vera að reyna að þyrla upp ryki til þess að eyðileggja góðan árangur þeirra.
Við blasir sú staðreynd að við höfum búið við efnhagsstjórn sem hefur leitt yfir okkur mun meiri sveiflur en ástæða var á. Auk þess skelfir það að forsætisráðherra er margbúinn að lýsa því yfir á undanförnum vikum að hann ætli sér að halda áfram á þessari leið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli