mánudagur, 16. júní 2008

Atvinnuleysi er grafalvarlegt mál

Hlustaði á umræður tveggja manna undir stjórn hins þriðja, sem er vinsæll þáttagerðarmaður. Þeir ræddu um atvinnuástandið á föstudaginn í síðdegisútvarpinu á Rás 2 og veltu fyrir sér tillögum aðila vinnumarkaðs um vinnuaflsfrekar framkvæmdir. Umræður þeirra snérust um hvort lagt væri til að fá fólk til þess að setjast niður og prjóna stórar peysur eða parkera vinnuvélum og fá launamönnum í stað þess skóflur og því fylgdu nokkrir aulabrandarar um störf og stöðu fólks á bygginga- og verktakamarkaði.

Þarna voru að tala saman 3 opinberir starfsmenn, sem gerðu grín að stöðu þeirra sem horfast í augu við það þessa dagana að missa jafnvel vinnuna á næstunni. Eins og landsmönnum er kunnugt um, kannski fyrir utan þessa 3, að það liggja fyrir spár um 6 – 8% atvinnuleysi þegar líður á þetta ár. Það muni bitna á almennum vinnumarkaði ekki hinum opinbera, og mun í raun þýða um 15% atvinnuleysi í vissum geirum á almennum vinnumarkaði.

Það er ótti í starfsfólki á þessum markaði og skildi ekki nokkurn undra. Fyrirtækin fá ekki rekstrarlán frá bönkunum og það hefur fljótvirk keðjuáhrif.

Forsvarsmenn aðila vinnumarkaðs hafa bent á að nú ætti hið opinbera og sveitarfélögin að setja fjármuni í viðhald opinberrabygginga, enda sé ekki vanþörf á í mörgum tilfellum. En það er nú svo að alloft hafa stjórnmálamenn nýtt sér þessa stöðu til þess að skella sér í einhverjar vegaframkvæmdir í heimakjördæmum ef tækifæri skapast til þess að fá aukaaur til framkæmda. Þannig framkvæmdir framkalla fá störf, mun færri en sömu upphæðir myndu skapa í viðhaldi byggingu eða nýbygginga. Þetta vita allir á hinum almenna vinnumarkaði og skilja vel, en það virðist vefjast fyrir þessum tilteknu opinberu starfsmönnum.

Verð að viðurkenna að ég hef ekki smekk fyrir svona bröndurum þar sem gantast er með lífsviðurværi annarra í skjóli þess að viðkomandi þykist öruggur. Þetta gæti kannski gengið upp í Svalbarða og Spaugstofunni, en ekki hjá Útvarpi allra landsmanna í fréttaskýringaþætti sem vill láta taka sig alvarlega. Þá á ég vitanlega sérstaklega við þáttagerðamanninn. Hinir geta vitanlega haldið sig við sína venjubundnu aulabrandara á kostnað annarra.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Aukið atvinnuleysi er merki um hjöðnun og lok þennsluástands. Semsagt, gott mál.