mánudagur, 2. júní 2008

Segðu mér hverjir vinir þínir eru

Einhvern veginn finnst manni að það hafi ekki getað farið öðruvísi en fylgi Sjálfstæðisflokksins myndi hrapa. Valdatakan í borginni í vetur var stærsti afleikur sem leikinn hefur verið í pólitík alla vega upp á síðkastið. Einnig voru viðbrögð flokksins þegar hann missti völdin yfir til Tjarnarkvartetsins röng. En á landsvísu er það gjaldþrot efnahagstefnu flokksins og tilraunir til þess að viðhalda henni áfram.

Sú sjálfumgleði og sjálfbirgingsháttur sem hefur einkennt málflutning málssvara flokksins er þreytandi. Opinská umræða á bloggsíðum hefur flett ofan af þeim innihaldslausu klisjum sem málsvarar flokksins klifa á og hafa vikið sér undan að útskýra og bera fram frambærileg rök.

En heiti boltinn liggur hjá Ingibjörgu, t.d. mun það örugglega hafa mikil áhrif á þróun mála hjá henni hvort Samfylkingin muni láta Sjálfstæðisflokkinn komast upp með að framkvæma einhvern ómerkilegan kattarþvott á eftirlaunafrumvarpinu. Ekki síður hvort henni takist að koma umræðunni um langtímalausn efnhagsmála á dagskrá þar á meðal ESB umræðuna.

Geir hefur gefið út þá yfirlýsingu nokkrum sinnum á undanförnum 4 vikum að botninum sé náð í efnhagslægðinni, það væri óskandi að svo væri, en við höfum sífellt sokkið dýpra. En flest vitum við að þetta er óskhyggja og í raun yfirlýsing um getuleysi Sjálfstæðismanna að horfast í augu við eigin gerðir og rangfærslur undanfarinna ára. Næsti vetur mun að öllum líkindum verða mörgum erfiður, ekki bara forystu Sjálfstæðisflokksins, heldur mörgum heimilum sem munu upplifa afleiðingar ábyrgðarlausrar þráhyggju.

Segðu mér hverjir vinir þínir eru þá veit ég hvern mann þú hefur að geyma. Það er svo stutt síðan að forysta Sjálfstæðisflokksins lýsti yfir afdráttarlausum stuðning við Bush og stefnu hans. Efnahagstefna Bush gengisins náði hingað með þeim afleiðingum sem við erum að upplifa. Þessa dagana eru margir af næstu samstarfsmönnum Bush að upplýsa okkur um hvern mann hann hafði að geyma og á hverju stefna hans var uppbyggð. Næsta vetur mun líklega fara fram uppgjör við þá stefnu í BNA.

Engin ummæli: