laugardagur, 21. júní 2008

Tjaldbúðalíf

Er einn þeirra sem hef allt frá því að vera unglingur haft mikla unun af því að fara út í náttúruna með tjald, svefnpoka og nesti. Sef oftast um það bil um 30 nætur í tjaldi/fellihýsi á hverju sumri. Græjurnar orðið umfangsmeiri með árunum. Skipti frá Tjaldborgartjaldi yfir í tjald vagn fyrir um það bil 14 árum og svo yfir í fellihýsi fyrir 6 árum. Lagfæringar á undirvagni gera það að verkum að hin gríðarleg bylting og þægindi fylgja manni til fjalla.

En þær græjur komast ekki með í gönguferðirnar. Það jafnast fátt við að setja pokann á bakið fara í góða sokka og skó labba eitthvað, bara eitthvað og skoða. Skiptir ekki hvort það sé steinn, blóm, fjall eða vatn. Átta mig ekki á húsvögnunum, svo heftandi hvert maður kemst og hvenær hægt að er fara um, en það skiptir ekki máli. Reyndar ömurlegt að vera nánast ekinn niður af torfæruhjólum og ekki síður hin mikla hljóðmengun sem þeim fylgir.

Öll börnin mín ólust við þetta „ástand“ og hafa viðhaldið því með sínum mökum og börnum. Það sem gerir Ísland sérstakt er að það er hægt að fara um stór svæði án þess að vera innan umfangsmikil mannvirki. Það er grunnur þeirrar náttúrverndarstefnu sem maður aðhyllist. Við byggjum ekki upp landið án þess að virkja og skapa fleiri störf fyrir vaxandi mannfjölda. En við getum auðveldlega ákveðið að láta ákveðin svæði vera ósnert en halda áfram þar sem búið er að raska.

Snjóalög valda því að enn ekki er búið að opna leiðir um Torfajökulssvæðið. Svo ég ligg nú efst í Þjórsárdalnum með Hekluna og Búrfellið við fortjaldið. Fjallabakið er enn ósnert og í því liggja gríðarleg verðmæti. En þar eru líka gríðarlega miklar orkulindir, en það væru skelfileg mistök ef við tækjum við að virkja þær. Átta mig ekki á hverju það breytir að reysa fleiri virkjanir í Þjórsá á svæði sem búið er að snúa við með túnum og öðrum mannvirkjum.

Fátt jafnast við samveruna með góðum vinum á kvöldin fyrir framan tjöldin við grillin við krufningu á mannlífinu í gegnum rauðglóandi birtuna frá rauðvíninu. Nú er skoðun Eyjunnar möguleg í gegnum „punginn“ og taka veðurhæðina í bloggheimum.

Engin ummæli: