föstudagur, 13. júní 2008

Meira um ofurlaun

Það er fínt að hafa opið fyrir athugsemdir við pistlana. Oft koma fram góðir punktar sem manni hafa yfirsést og bæta innlegg pistilsins. En stundum koma líka athugasemdir sem maður áttar sig ekki á. Þær hafa í raun ekkert með innlegg pistilsins að gera.

Ágæt dæmi þar um eru athugasemdir sem komu við pistilinn um ofurlaun. Þar er ég að gera athugasemdir við að ákveðnir stjórnendur nýta sér aðstöðu sína til þess að hrifsa til sín umtalsverðan hluta af arði áður en hann kemur til skila til þeirra sem eiga í raun fjármagnið sem verið er að spila með. En það er eins einhverjir vilji taka á sig skömmina og rembast við að afsaka sig með því koma einhverri sök á Samfylkinguna og eitthvert vinstra lið (hvað sem það nú er) með því þeir séu að hygla sjálfum sér og vinum sínum. Ef svo er þá er það vitanlega ekki í lagi, en það afsakar ekkert þetta athæfi forstjóranna og er í raun ekkert annað en þessi margumtalaða smjörklípa. Í þessu sambandi má benda á að ég er búinn að skrifa ótalda pistla þar sem ég hef gagnrýnt sjálftöku stjórnmálamanna.

Einnig hef ég séð í sambandi við þessa gagnrýni aðdróttanir um að laun verkalýðsforkólfana séu engu betri. Það er í sjálfu sér það sama ef þau eru ekki lagi þá er það vitanlega gagnrýnisvert en hefur ekkert með réttmæti ofurlauna forstjóranna að gera. Reyndar má benda þeim hinum sömu að upplýsingar um laun flestra helstu verkalýðsforkólfa þessa lands eru í Tekjublaðinu umtalaða, sem frjálshyggjumenn vilja banna. Laun þeirra eru í grend við þingfararkaup, en þeir hafa aftur á móti ekki samskonar lífeyrisréttindi og önnur gæði sem þingmenn hafa tekið sér og samsvara allt að 40% tekjuauka.

En talandi um ofurlaun þá vil ég endilega benda öllum á nýútkomna bók um sem fjallar meðal annars um þessi mál og fór beint í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson yfir ævisögur/handbækur - fjórða sæti á aðallistanum... Það er bókin um karlinn, Warren Buffett, sem er allt öðruvísi en aðrir kapítalistar (sérstaklega á Íslandi)

Lesið þessa bók... hún er æðisleg...Hér eru smá brot úr henni :

Fégræðgi forstjóra og hjarðeðli
Í bréfi sínu til hluthafa árið 2001 skrifaði Buffett: „Ég og Charlie fyllumst viðbjóði á því ástandi sem viðgengist hefur undanfarin ár. Á sama tíma og hluthafar hafa tapað milljörðum hafa forstjórar, framkvæmdastjórar og aðrir háttsettir einstaklingar sem fóstruðu þessar hörmungar, gengið frá borði með fúlgur fjár. Reyndar hefur það oftsinnis gerst að hinir sömu hvöttu aðra til að fjárfesta í fyrirtækjum sínum á meðan þeir seldu sín eigin bréf og beittu jafnvel klækjum til að fela slóðina. Þeir líta á hluthafa sem ginningarfífl en ekki félaga ... Það virðist enginn skortur á slíkri svívirðu innan bandarísks viðskiptaheims."(24)

Bókhaldshneyksli undanfarinna ára hafa hringt viðvörunarbjöllum víðsvegar um Bandaríkin og reyndar um allan heim. Sérstaklega hjá þeim sem höfðu lagt fé í söfnunarreikninga eða lífeyrisreikninga innan fyrirtækja. Hluthafar hófu upp raust sína og spurðu spurninga þess eðlis hvort fyrirtæki þeirra stæðu vörð um hagsmuni eigendanna og væri stjórnað með heiðarleik og gagnsæi að leiðarljósi. Í kjölfarið komu alvarlegir misbrestir kerfisins í ljós. Forstjórar og aðrir stjórnendur fá ofurhá laun en nota á sama tíma peninga fyrirtækjanna í einkaþotur og oflátungslegar veislur. Undirmenn þeirra gerast ennfremur sekir um að kvitta upp á allar ákvarðanir sem stjórnendur þeirra taka, hversu ógáfulegar sem þær kunna að vera. Það virðist sem enginn forstjóri geti staðist freistingu hins ofurljúfa lífs sem hinir forstjórarnir njóta. Þetta er hjarðhegðun í sinni verstu mynd.

Buffett telur lítið hafa áunnist til að koma í veg fyrir þessa hegðun. Í bréfi sínu til hluthafa tveimur árum síðar tekur hann ærlega á því sem hann kallar „græðgifaraldurinn." Hann skrifar: „Óhóflegar þóknanir stjórnenda hafa stigmagnast undanfarinn áratug í formi launauppbóta sem hinir allra, allra gráðugustu fengu. Um þessi „heiðurssæti" var gífurleg samkeppni svo þetta hátterni var skjótt hermt eftir á öðrum stöðum.

Kaupréttarsamningar
Til viðbótar þessum ofurlaunum er æðstu stjórnendum kauphallarfyrirtækja venjulega úthlutað kaupréttum að hlutabréfum á ákveðnu gengi. Oft eru kaupréttirnir tengdir ákveðinni lágmarksframmistöðu fyrirtækisins – en sjaldnast frammistöðu stjórnandans sjálfs.

Þetta stríðir algerlega gegn hugsjónum Buffetts. Þegar kaupréttarsamningar eru veittir í allar áttir leiðir það til þess að stjórnendum sem reynast undir meðallagi góðir er gert jafnhátt undir höfði og þeim sem reynast með afbrigðum vel. Samkvæmt Buffett borgar maður ekki varamanni á bekk jafn vel og markakónginum.

Jafnvel þótt litið sé á kaupréttarsamninga sem réttmætan hlut í úthlutun þóknunar til stjórnenda hvetur Buffett til þess að gefa því gætur hvernig þeir eru settir fram í ársreikningum hlutafélaga. Hann telur að líta beri á þá sem útgjöld svo áhrif þeirra á hagnað fyrirtækisins séu augljós. Þetta viðhorf virðist óumdeilanlegt, en því miður lítur fjöldi fyrirtækja málið ekki sömu augum.

Buffett telur þetta viðhorf endurspegla almenna viðurkenningu á ofurlaunum. Í bréfi til hluthafa Berkshire árið 2003 skrifar hann: „Þegar forstjórar koma fram fyrir launanefndir mun önnur hlið samningaborðsins – hlið forstjóranna – hafa mun meira vægi í tengslum við það hvernig samningar nást. Forstjórinn mun alltaf sjá gífurlega stóran mun á því að fá kauprétt fyrir 100.000 hluti eða 500.000. Fyrir launanefndina er munurinn ekki svo stórvægilegur, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, eins og reyndin hefur verið hjá mörgum fyrirtækjum, að munurinn hefur engin áhrif á bókfærðan hagnað. Undir slíkum kringumstæðum munu fjármunirnir fá yfirbragð leikpeninga."(26)

Engin ummæli: