laugardagur, 28. júní 2008

Sérhyggja


Undanfarinn misseri hefur borið á hratt vaxandi áherslu íslenskra ráðamanna að kynna Ísland og skapa góða ímynd. Forseti lýðveldsins ásamt ráðherrum leggja meiri áherslu á ferðalög til að kynna sig en sinna verkefnum hér heima. Lögð er sérstök áhersla á hreina náttúru, hreina orku og hreint land. Það skiptir öllu að ímynd landsins sé góð algjörlega óháð því hvort einhver rök séu fyrir því eða ekki.

Hvert er stefnt og hverra hagsmuna er verið að gæta? T.d. hika kjörnir fulltrúar okkar ekki við að hnika til staðreyndum um hvernig þróunin hafi verið við þróun nýtingar heita vatnsins. Fyrirtæki í eigu almennings eru notuð til þess að skapa arð fyrir einstaklinga, en um leið er farið um veröldina og skrifað undir viljayfirlýsingar í nafni fyrirtækja í eigu almennings. Ef eitthvað skyggir á þessa ímyndarvinnu þá á að þegja yfir því. Fólk í útlöndum gæti farið að trúa málflutning Bjarkar og skoðanabræðra hennar, eins og Erna upplýsingafulltrúi Alcoa orðar það í grein sinni í Morgunblaðinu.

Reyndar er orðið ljóst að almenning er farið að blöskra. Fylgið hrapar í skoðanakönnunum og meiri hluti þjóðarinnar vill skýrari stefnu samfara hreinni nýtingu náttúruauðlinda landsins. Þessu var lofað fyrir síðustu kosningar en hefur ekki verið efnt. Skammtímalausnir ráða ríkjum, nauðhyggja. Nýfjrálshyggjustefnan hefur keyrt okkur upp að vegg. Hin sérstæða íslenska stefna, sem átti að vera svo stórkostleg, er hrunin. Hún hefur leitt yfir okkur stórkostlegar efnhagslegar þrengingar og það mun taka þjóðina mörg ár ef ekki áratugi að vinna sig út þeir skuldum sem þessi stefna hefur leitt yfir okkur.

Hún er svo óendanlega mikil mótsögnin í stefnu íslensku nýfrjálshyggjunnar þar sem postular hennar þrífast ekki án þess að sitja við stjórnvölinn og koma sér fyrir í öruggum ríkissætum með góðu aðgengi að ríkissjóð. Einkavæðingu til valinna vina. Mótsögnin birtist í einbeittri baráttu þeirra í að halda í það stjórnskipulag sem hér ríkti á síðustu öld og halda Íslandi utan þátttöku í ESB og samstarfi við nágrannalönd. Á sama tíma eru fluttar ræður á erlendum ráðstefnum um hið gagnstæða. Komið er í veg fyrir efnahagslegt sjálfstæðis með því að viðhalda oki ónýts gjaldmiðils.

Til þess að tryggja fjölgun atvinnutækifæra er ljóst að við þurfum að virkja, en þjóðin vill vera þátttakandi í þeirri ákvarðanatöku. Það er hægt að skapa mörg tækifæri með náttúrunni, en til þess þarf margfalt betra skipulag þjóðgarða. Þar duga ekki yfirlýsingar á opinberum vettvangi, þegar þeim fylgja engar framkvæmdir með friðun svæða á borð við Fjallabak, betra aðgegni, merktum leiðum og úthýsingu vélknúinna farartækja.

Engin ummæli: