laugardagur, 16. ágúst 2008

Allir svo vondir við Hönnu Birnu

Það gengur vitanlega ekki hvað allir eru vondir við borgarstjórnaflokk Sjálfstæðisflokksins og Valhöll. Björn Ingi var svo vondur við þau að þau sendu sms til hinna borgarstjórnarflokkanna um að þau væru til í að henda Binga fyrir borð og líka Villa. Bingi varð þá bara enn ósvífnari og fór yfir til hinna. Þetta var náttúrulega ósvífni af Binga. Og Haukur Leósson hann sveik þau líka.

Og svo tók nú ekki betra við, þau sem voru svo góð við Ólaf. Þau fóru til hans og sögðust vera tilbúin til þess að henda öllum sínum kosningaloforðum og skrifa upp hans loforð og gera hann að borgastjóra bara ef hann vildi vera með þeim. Hvað átti aumingjans Óli að gera, hann hefði vitanlega svikið sína kjósendur og stuðningsmenn ef hann hafnaði þessu boði.

En svo varð Óli svo gasalega ósanngjarn við Hönnu Birnu og Valhöll að ætlast til þess að þau stæðu við loforð sín. Svo maður tali nú ekki um kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem sögðust ekki lengur styðja Hönnu Birnu. Það er vitanlega allt Óla að kenna hvernig fór.

Kjörþokki borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er svipaður og gömlu gönguskórnir mínir. Enda er ég löngu hættur að nota þá, eða svona álíka langt síðan og ég gekk úr Flokknum. Það gekk svo sem ekki andskotalaust og fá að gera það, endaði eftir langt strögl með stórfurðulegu bréfi frá Kjartani þáverandi framkvæmdastjóra Valhallar.

Og nú er Óli svo ósanngjarn að upplýsa okkur um hvernig sé að starfa með Hönnu Birnu og hennar liði og hver hafi í raun og veru keypt húsin dýru á Laugavegi og það hafi verið gert eftir tilskipun frá Valhöll.

Og Hanna Birna vill efla ófriðinn hún hefur gengið fram hjá íslensku fyrirtæki og samið við erlent byggingarfyrirtæki og með því er hún að bæta við atvinnuleysi byggingarmanna líklega um svona 100. Í fréttum í gær var farið gaumgæfilega yfir hvað valdi útlendingahatri og hvernig það magnast upp. Hanna Birna hellir benzíni á þann eld. Hvernig haldið þið að íslendingar muni taka því næsta vetur að mæla göturnar á meðan Hanna Birna skaffar erlendum mönnum atvinnu. Það er svo spurning hverjum það verður að kenna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef til eru klækjastjórnmál þá er þessi pistill klækjarasismi af ómerkilegustu gerð.

Nafnlaus sagði...

sé ekki hvort skiptir máli að útlenskt fyrirtæki vinni fyrir borgina eða íslenskt fyrirtæki fá verkið og hafi eintóma útlendinga í vinnu.