sunnudagur, 24. ágúst 2008

Spillingalausir stjórnmálamenn?

Fór í grillveizlu hjá dóttur minni í gær og við gengum síðan út á Miklatúnið og hlustuðum á seinni hluta tónleikanna. Heyrðum reyndar þá alla sakir þess hversu stutt frá hún býr. Hitti marga og pistlarnir á þessu bloggi ræddir meðal annars. Spurður um hvað ég ætti við með því að Hanna Birna hefði misstigið sig strax í upphafi.

Sé litið yfir borgarstjórnarpólitíkina það sem af er þessi kjörtímabili þá er það ljóst í mínum huga að Hanna Birna átti að gera eitthvað strax til þess að sýna að hún vildi setja þá stjórnarhætti sem hafa verið viðhafðir aftur fyrir sig og skera á milli. Það hefði hún gert ef hún hefði staðið að því að skipa mann með rekstrareynslu og tæknilega þekkingu í stjórnarformennsku OR. Það gerði hún ekki og stóð að því að við skipun í þetta viðamikla starf var haldið áfram á hinni pólitísku klækja- og glundroðabraut.

Morgunlaðið svarar fyrir borgarstjórnarflokk Hönnu Birnu í fyrradag með venjubundnu pólitísku viðhorfum íslenskra stjórnmálamanna. Hinir flokkar skipuðu líka vanhæft fólk, þess vegna er ekki hægt að gagnrýna þessa skipan, segir Morgunblaðið. Eru þetta einhver rök, eða innlegg í umræðuna?!! Nei, því fer fjarri. Með þessu er í raun verið að segja að nefndir sem stjórnmálamenn skipa skipta hæfileikar engu. Það eru leikreglur hinnar pólitísku refskákar sem skipta öllu.

Við okkur blasir daglega spilling íslenskra stjórnmálamanna. Og Morgunblaðið ver hana. Þar má t.d. benda á þögn hans um veiðiferð heilbrigðisráðherra og félaga hans úr stjórn OR. Á sama tíma og verið var að undirbúa stórkoslega eignatilfærslu frá fyrirtæki í eigu almennings til handhafa veiðileyfanna. Fram kom að hluti þessa miklu fjármuna ættu að lenda í vösum valinna góðvina í pólitíkinni.

Það má benda á margt fleira í þessum dúr. Hvers vegna ekki var fjallað um það þegar þáverandi forsætisráðherra hélt því fram að sama fyrirtæki hefði borið á hann mikla fjármuni, árslaun 150 verkamanna. Í öllum nágrannalöndum okkar hefði þetta verið stórmál og þess krafist að tekið væri á því.

En þetta rúmast í íslenskri pólitík og Morgunblaðið þegir. Blaðið hefur í marga áratugi stjórnað því hvaða mál eru sett á dagskrá og hver sitja föst í skúffum ritstjóranna, eins svo glögglega hefur komið fram undanfarið. Það urðu því ekki margir undrandi þegar ráðandi stjórnmálamenn misstu stjórn á sér þegar skyndilega kom fram á sjónarsviðið nýr fjölmiðill sem borinn var í öll hús og þeir stjórnuðu ekki hvað var birt í þessum fjölmiðli.

Þá var rokið til og átti að setja lög. „Þetta verður að stöðva“ hrópuðu þeir í ræðustól Alþingis og veifuðu Fréttablaðinu framan í íslenska þjóð. „Hvar erum við eiginlega stödd“ spurði almenningur. Forsetinn áttaði sig og setti málið í farveg þjóðaratkvæðagreiðslu, en það þorðu stjórnmálamenn Flokksins ekki. Og Morgunblaðið ásamt Valhöll fór hamförum í að níða niður forseta landsins! Flokkurinn vildi breyta stjórnarskránni svo koma mætti í veg fyrir að forsetinn gæti leikið þennan leik. Það var gengið svo langt að þriðjungur áskrifenda sögðu Morgunblaðinu upp. Og það hefur reyndar ekki náð sama flugi aftur.

Og íslenskir valdamenn gefa það reglulega út að á Íslandi sé minnsta spilling í heimi og settu sértæk eftirlaunalög sjálfum sér til handa. Fréttina um spillingalaust Ísland birtir Morgunblaðið.

Er það svo?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þeir eiga víst líka í einhverjum erfiðleikum með svona stjórnarhætti niður í Afríku.

Því miður ...

Nafnlaus sagði...

Er farið að skiljast að munurinn á herstjórn Valhallarliðsins og herforingjastjórnar i Pakistan er enginn?

Nafnlaus sagði...

-Er farið að skiljast að munurinn á herstjórn Valhallarliðsins og herforingjastjórnar i Pakistan er enginn?-

Eru menn alveg geðveikir í hausnum? Kannski best að flytja til Pakistan víst þetta er svona hörmulegt hérna.

Nafnlaus sagði...

Ranghugmynd íslendinga um að hér sé ekki mikil pólitísk spilling er eitt helsta meinið.

Og stóra bomban fellur þegar þing kemur saman í byrjun septemer. Þegar formaður Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands, Ingibjörg S. Gísladóttir, leggur fram frumvarp um áframhaldandi forréttindi sjálfrar sín og Geirs H. Haarde í lífeyrismálum.

Rómverji