Það hefur komið fram hjá hagfræðingum ASÍ á miðstjórnarfundum og starfsnefndarfundum undanfarið, að ekki séu neinar forsendur til þess að verðbólgan sé að verða búin. Veiking krónunnar og hátt vaxtastig er farið að skapa það ástand að verðbólgan nærist af sjálfri sér. Þetta er bein afleiðing aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa margoft komið fram og haft í frammi þær fullyrðingar að botni efnahagsvandans sé náð. Þetta sagði forsætisráðherra í apríl og hefur hann síðan ásamt sínu fólki endurtekið þetta reglulega, auk þess að hann sjái ýmis merki um hraða kælingu framundan og að toppi verðbólgunnar (botninum) sé náð. Í lok hverrar yfirlýsingar um þetta ástand hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar lýst yfir sigri. Þeim hafi tekist að gera ekki neitt og sparað með því ríkissjóð stórar fúlgur.
Á sama tíma hafa fyrirtækin verið að verzlast upp og vitanlega fylgja heimilin í kjölfarið. Hagfræðingar ASÍ og SA ásamt öðrum markverðum hagfræðingum hafa varað við því undafarin 3 ár að þetta ástand gæti skapast og við því þyrfti ríkisstjórnin að bregðast. En hún hefur ekkert gert, fór inn í niðursveifluna með allt niðrum sig. Alltof lítinn gjaldeyrissvarasjóð, búinn að lækka skatta um of í trausti þess að við myndum búa við sömu spennu um aldur og ævi.
Undanfarna daga er eins og ráðherrarnir séu loks að vakna upp af svefni sínum. Hvert fyrirtækið af öðru segir upp fjölda manns og við blasir neyðarástand hjá mörgum þeirra. Hún hefur byggt allt sitt á þeim hagfræðingum og efnahagsráðgjöfum sem byggja sínar spár á pólitískri óskhyggju. Þeir hafa svo ásamt talsmönnum Flokksins farið í fjölmiðla og ekki haft annað til málanna að leggja en að gera lítið úr þeim sem hafa bent á að veruleikinn sé annar en þeir vildu að almenningur tryði.
„Það er engin kreppa“ segir utanríkisráðherra og Halldór teiknaði viðeigandi mynd í 24-stundir í dag. Starfandi forsætisráherra ásamt borgarstjóra fengu í gær aðra frá Halldóri. Þar er gerviveröld stjórnmálamenna lýst mjög vel.
Aðilar vinnumarkaðs tóku ábyrg skref síðasta vetur við gerð kjarasamninga og fór þess á leit við ríkisstjórnina að hún gripi til aðgerða og undirbyggi efnahagslífið undir niðursveilfuna. Ríkisstjórnin gerði ekkert, utan þess að taka fram nokkur kosningaloforð og efna þau, reyndar munu þau sem að launamönnum snúa koma til framkvæmda í lok kjörtímabilsins. Hefði hún t.d. fylgt ráðum hagfræðinga aðila vinnumarkaðs, þá hefði hún getað tryggt stöðu krónunnar með viðunandi hætti. En ríkisstjórnin missti af vagninum og líkurnar fara minnkandi þessi stjórn hangi út kjörtímabilið. Vinnubrögð og viðbrögð stjórnmálamanna undanfarið hafa verið með þeim hætti að reiðin fer hratt vaxandi meðal almennings.
Framundan er erfiðasti vetur sem fyrirtæki og launamenn hafa horfst í augu við. Það sem hefur bjargað opinberum atvinnuleysistölum hingað til eru þau sérkenni íslensks vinnumarkaðar að þar hefur allt að 10% verið ungt fólk sem kemur úr skólum og fer út á vinnumarkað þegar mikið er að gera. Í haust hvarf þetta fólk af vinnumarkað og er komið í skólana, núna eru þeir yfirfullir.
Sama á við um fullorðið fólk, það er velþekkt séreinkenni íslensks vinnumarkaðar hversu lengi fullorðið fólk er á honum. En það fólk dregur sig í hlé þegar atvinna minnkar. Einnig hafa horfið af íslenskum vinnumarkaði nokkur þúsund erlendir launamenn og fleiri eru á förum. Allt þetta fólk fór af vinnumarkaðnum án uppsagna. 1.400 hafa misst vinnuna vegna hópuppsagna. Ætla má að verið sé að tala um eitthvað á annan tug þúsunda starfa sem hafa horfið af vinnumarkaðnum á þessu ári. Við vorum með spennu það vissum við og hún myndi hverfa, við erum í dag með um 4% atvinnuleysi. Við vitum um nokkur hundruð sem ekki eru komin fram á skrám vegna þess að því var sagt upp í sumar og er enn á uppsagnarfresti.
Það er málið snýst um fyrst og síðast er fólkið sem er í raun grunnuppistaðan og staðan er núna sú að hver einasti sem eftir er telur beint inn á atvinnuleysiskrár. Fyrirtæki hafa verið að draga það að segja upp þessu fólki í von um að úr rætist, en vaxandi fjöldi þeirra hefur ekki lengur bolmagn til þess að halda áfram óbreyttri starfsemi vegna skorts á rekstrarfé á eðlilegum vöxtum, en stíflurnar eru að bresta. Það er fyrst nú sem það er að renna upp fyrir ráðherrum að ástandið sé líklega ekki gott og þeir þurfa að stíga út úr hótelherbergjum lúxushótelanna, sleppa dagpeningunum og halda heim til starfa.
Þetta er eitt af þeim grundvallaratriðum sem hagdeildir aðilavinnumarkaðsins hafa síðustu tvö ár margítrekað reynt að koma forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar í skilning um. En við höfum þurft að sitja og sötra kaffið á meðan ráðherrar hafa horft á okkur að því virðist í fullkomnu áhugaleysi og ekki síður skilnings- og ráðaleysi, á meðan hagfræðingar okkar hafa útskýrt hvert stefni.
Hagfræðingar aðila vinnumarkaðs hafa réttilega bent á að ríkisstjórninni hafi með efnahagsstefnu sinni tekist að skapa það ástand að verðbólgan nærist á sjálfri sér og þennst út. Í þessu sambandi má benda á hlutverk Netheima, sem í hratt vaxandi mæli eru að taka við hlutverki ráðandi fjölmiðla, sem áður stjórnuðu umræðunni í samræmi við stefnu ráðandi afla í þjófélaginu. Ráðherrar geta ekki lengur skotið sér á bak við útúrsnúningaumræður eins og t.d. fjármálaráðherra og menntamálaráðherra eru að reyna þessa dagana.
Og topphljómsveit Íslands Sigurós samdi viðeigandi lag fyrir ráðamenn; „Inn í mér syngur vitleysingur“
3 ummæli:
Að "verzlast upp" er frábært orðasamband sem ég hef ekki séð áður.
Hin illu áhrif Verzlunarskólans gamla býst ég við.
Er í raun og veru nokkur sem getur sagt til um þróun efnahagsmála á næstu mánuðum ? Bretar eru að búast við verri kreppu og efnahagsástandi en þeir hafa upplifað síðustu 60 árin... Verðum við svo fjarri þeim ? Hvaða áhrif mun þetta hafa á þau fyrirtæki sem Íslendingar eiga í Bretlandi..? Það eru margar spurningarnar sem brenna...
ASÍ og verkalýðsforustan hefur verzlast upp, gjörsamlega hand ónýtt og bitlaust verkfæri
Skrifa ummæli