sunnudagur, 10. ágúst 2008

Fiskidagar

Atvinna konunnar leiddi til þess að við fórum á fiskidaga á Dalvík í fyrsta skipti. Komum á fimmtudagsmorgun, en þá voru flest tjaldsvæðin orðin þétt skipuð og við settum upp vagninn okkar í garðinum hjá samstarfsfólki okkar, sómahjónunum glerlistafólkinu Bjössa og Siggu. Þar voru fyrir nokkrir vagnar úr fjölskyldu þeirra. Þetta leiddi til þess að við kynntumst vel hvernig þetta gekk fyrir sig hjá heimamönnum.

Það liggur mikil vinna og skipulag á bak fiskidögum. Enda er að mörgu að hyggja þegar tekið er á móti 20 þús. manns í 1500 manna byggðarlagi. En allt er þaulhugsað, og mikið lagt upp úr að stofnar fiskisúpunum séu velgerðir. Á föstudeginum smakkaði ég á fjölmörgum súpum, hver fjölskylda hafði sinn súpustofn og einkenni.

Það er mjög gaman að sjá hvað heimamenn leggja mikið upp úr að skreyta hús sín og garða og það voru forréttindi að vera undir leiðsögn heimamanna sem leiddi einnig til þess að við lentum inn í eldhúsum þar einvörðungu voru heimamenn. Í einu þeirra fékk ég eina af bestu súpum sem ég hef fengið og kalla nú ekki allt ömmu mína í þeim efnum, eins og ég kom að í Flateyjarpistlinum. Mikið eftirbragð samofið karrí og engifer dró fram munnvatnið og braðlaukarnir skemmtu sér konunglega.

Í fjölmörgum görðum var boðið upp á tónlist. Allar götur og garðar voru fullar af fólki. Friðrik Ómar var í einum garðanna, harmónikkur þandar og í gítararnir slegnir. Sumstaðar var sungið margraddað og farið í gegnum mestu perlur íslenskra sönglaga. Þórir Baldursson þeysti á Hammondinum í garði fjölskyldu sinnar af sinni glimrandi snilld og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að syngja með mági hans rokkgoði Íslands Rúnari.

Á laugardeginum var allt hafnarsvæðið undirlagt af eldhúsum sem slegið var upp og þar framreiddir margslungnir fiskiréttir. Mér var sagt að frystihúsin gæfu 28 tonn af fiski allt hanterað og afgreitt tilbúið fyrir listakokkana. Brekkusöngur á laugardagskvöld og glæsileg flugeldasýning. Fiskidagarnir einkenndust af góðum og friðsamlegum samskiptum fólks, dáldið mikið annað en helgarkvöld í höfuðborginni.

Engin ummæli: