miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Í Langholtskirkju




Það er klárt mál að það hlýtur að vera allt önnur upplifun að vera sem foreldri á tónleikum og horfa á barn sitt ná miklum árangri. Árangur á sviði tónlistar krefst mikillar ögunnar og endalausrar vinnu. Það varð snemma ljóst að Björk hafði mikla tónlistarhæfileika. Hún var ekki há í loftinu þegar hún klifraði upp á píanóbekkinn hjá ömmu sinni og sló þar laglínuna í vinsælu lagi sem hún hafði heyrt nokkru áður í útvarpinu. Áreynslulaust söng hún öll lög sem hún heyrði í útvarpinu. Oft fengu þeir sem sátu í sætinu fyrir aftan okkur sértónleika þegar við vorum á leið í bæinn á leið 14 Vogar-Torg, þar sem hún stóð í sætinu við hlið mér og renndi yfir vinsælustu lögin. Live flutningur slær iPodum við og leysir þá einangrun sem hver og einn býr sér í dag.

Strax um 5 ára aldur var hún kominn í tónlistarskólann og var þar til 18 ára aldurs. Lærði á nokkur hljóðfæri auk þess að taka langt nám í tónlistarfræði og söng. Alltaf var tími til þess að fara í þessa tíma þó svo MH kallaði á sinn tíma og þátttaka í mörgum hljómsveitum. Það var mikill sprettur að koma þessu öllu saman á unglingsárunum, man eftir henni koma á fullu heim með tusku sem hún hafði keypt og renndi henni í gegnum saumavélina og var þotinn út klukkustund síðar í nýjum kjól á tónleika sem hún hélt ásamt félögum sínum. Eða þegar hún kom inn og bað mig um að lána sér einhverja af ensku bókunum mínum, tók tíundu hverja línu frá bls. 50 og notaði það sem texta í nýtt lag sem hún var að semja. Orðin skiptu engu sagði hún þá, það voru hljóðin og laglínan.

Datt þetta í hug í fermingarkirkjunni minni í gærkvöldi hlustandi á textana núna, sem samdir eru af henni eða Sjón. Nú skipta þeir máli með margslungnum boðskap. En laglínan er enn flóknari og ekki á færi hvers sem er að syngja lögin hennar. Enda reyna sum lögin gífurlega á raddböndin. Wonderbrass-stelpurnar eru gríðarlega samæfðar og flottar. Var með þeim á Hróarskeldu í rigningunni í fyrra og þær æfðu á hverjum degi, orðnar ein af betri brassböndum sem við eigum. Sama má segja um Scola Cantorum, flutningur þeirra er hrífandi og agaður. Jónas Sen hefur verið verkstjórinn á heimstúrnum og skilar sínu á frábæran og smekkvísan hátt sama við hvaða tónborð hann sest.

Þegar Mark Bell leikur á tölvubúnaðinn koma oft fram ummæli sem gagnrýnandi viðhafði um eina af af fyrstu plötum Bjarkar. „Já þetta eru nú bara tölvurnar.“ Það hrökk út úr Björk þegar hún sá þetta; "Þessi maður reiknar greinilega með að rithöfundar séu búnir að vera, þar sem búið er að finna upp Word forritið." Þetta kom reyndar einnig upp í hugan við lestur umfjöllunar um þátt aðstoðarmanna í tónlist Bjarkar.

Hér sit ég við tölvu, kann að mestu fingrasetninguna og er með prentarann tengdan. En er klár á að ég gæti ekki rennt upp verki t.d. í samjöfnuði við Moby Dick. Nei alls staðar eru það hæfileikarnir og svo nám, endalaus agi og þjálfun sem ráða því hvað verkfærin gera hvort sem það er nú röddin, hljóðfærin eða tölvurnar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var framúrskarandi vel heppnað í gær í Langholtskirkjunni. Fegurðin ríkti í handabandi við gleðina. Hógvær glæsileiki, sem fer svo vel þeim sem bera fram það besta, einkenndi stundina. Björk er óvenjuleg og frábær listakona. Alveg stórkostleg.

Nafnlaus sagði...

Samgleðst þér að eiga svo hæfileikaríka dóttur.
Gaman að sjá stoltan föður skrifa um dóttur sína.
Minnir okkur á hvað það er sem skiptir máli í þessu lífi.

Nafnlaus sagði...

Frábært, takk.

Oddur Ólafsson sagði...

Guð blessi móðurina sem ól hana!
....og pabbann að sjálfsögðu.