þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Stökkva yfir lækinn - þegar við komum að honum


Á leið úr Grunnavík í Unaðssdal á Snæfjallaströnd

Heildarskuldir heimilanna hafa vaxið mikið á þessu ári vegna gengisfalls krónunnar. Hlutfall gengisbundinna lána vex og er að nálgast fjórðung af skuldum. Heildarskuldir hafa vaxið um 35% það sem af árinu. Hækkandi höfuðstóll leiðir til hækkandi afborgana. Hlutfall afborganna hækkar ennfrekar á grundvelli minnkandi kaupmáttar.

Í eðlilegu ástandi myndi það leiða til þess að heimilin minnkuðu við sig í húsnæði og selja a.m.k. annan bílinn. En það er ekki hægt, vegna þess að skuldsettu heimilin eiga ekkert í heimilisbílunum og oft lítið í húsnæði heimilissins. Auk þess er lítill markaður fyrir fasteignaviðskipti og þaðan af síður bílaviðskipti

Við erum í pattstöðu, ekki bara heimilin heldur ekki síður ríkisstjórnin. Ef hún vill koma til bjargar heimilunum og fyrirtækjunum verður að lækka vexti. En það mun leiða til þess að líkurnar á að þeir sem eiga krónubréfin selji þau og fall krónunnar verður enn meira, og Seðlabankinn segir nei. Sökudólginn er að finna í kolvitlausri efnahagsstefnu sem núverandi stjórnarmenn Seðlabankans sköpuðu þegar þegar þeir leiddu ríkisstjórnina.

Í nóvember næstkomandi losna kjarasamningar margra stórfyrirtækja, eins og t.d. álveranna og orkuveitnanna. Í apríl opnast svo þeir kjarasamningar sem gerðir voru síðasta vor. Hvað er til ráða, velta menn fyrir sér þessa dagana. Björn Bjarnason stakk upp á því að við færum þá leið sem Valgerður þáverandi ráðherra Framsóknar benti á fyrir tveim árum. Það er að taka einhliða upp Evru. Flestir héldu að Björn væri einungis að kasta einhverju fram til þess að dreifa umræðunni enn eina ferðina. Hann hafði jú bent á dollar nokkru áður og samflokksmenn hans sitt og hvað á pund, norska krónu og svissneska franka.

Sífellt fleirum er að verða ljóst að tillaga Björns er leið hans til þess að komast niður úr þeim trjám sem hann og flokkssystkyni hans eru föst upp í og viðurkenna að krónan sé búinn að vera og sú peningastefna sem hefur verið fylgt. "Skera sjálfan sig niður úr snörunni", heitir það á Karphúsmáli. Útför krónunnar var auglýst þegar útrásin var heimiluð og skuldsetningin hófst. Þetta gerðist á árunum 2002 til 2005. Á þeim tíma styrktist gengisvísitalan úr 145 í 100 og okkur var talið í trú um að allt væri í himnalagi og sussað á þá sem bentu á veilurnar. En síðan 2005 hefur gengisvísitalan verið í frjálsu falli og er í 155. Þeir veikleikar í íslensku hagkerfi sem danir höfðu bent á komu fram. Og mitt í þeim táradal skellur á okkur alþjóðleg fjármálakreppa. Sama hversu oft ráðherrarnir okkar tönglast á því, þá er það ekki nema þriðjungur af þeim vanda sem við búum við hér á þessu landi, hitt er heimatilbúið.

Það blasir við öllum að eitthvað verður að gera, nánast allir eru búnir að hafna því ástandi sem núverandi peningastjórn hefur komið okkur í. Kostnaður okkar við að halda í krónuna er orðin gríðarlegur. Ef skapa á nægilega öflugan gjaldeyrissvarasjóð þá kostar það tuga milljarða vaxtakostnað á ári, sem velt verður yfir almenning með beinum og óbeinum hætti, segir forsætisráðherra. En hann sleppir ætíð að minnast á þann ofboðslega kostnað sem lendir á heimilunum með því að halda í krónuna. Þátttökugjöld í ESB eru smáaurar samanborið við þann kostnað.

Hættan við tillögur Valgerðar/Björns er sú sem komið hefur fram í ummælum forsætisráðherra. Þar hefur komið fram að ef bankarnir og fyrirtækin sem hafa verið í útrásinni flytji sig yfir í Evru, þá sé skuldastaðan orðin viðunandi og kominn staða til þess að viðhalda krónunni. Staðreyndin er sú að þá munu tvær þjóðir búa hér á landi, önnur býr við ögun Evrunnar og stöðugleika. Svo hinn hlutinn sem verður að búa við krónuna og eignaupptöku sem reglulega fylgir slakri efnahagsstjórn með rússibanaferðum til þess að lagfæra mistök efnahagsstjórninni.

Við getum ekki stokkið yfir lækinn áður er komið að honum. Ríkisstjórnin lítur skelfilega út þar sem hún stendur á miðju túnni og hoppar í sífellu yfir einskisverðan útúrsnúning sinn víðsfjarri læknum. Og trúverðugleiki íslensks efnhagslífs fellur við hvert hopp. Það þarf að hefja undirbúning tiltekt og ögunn efnahagslífsins. Fyrsta skref er að ákveða hvert við ætlum og finna lækinn. Ferðaáætlun verða stjórnvöld að semja í samvinnu við aðila vinnumarkaðs, og það verður að gerast nú á haustmánuðum. Ef það tekst ekki þá er hætt við að vandinn vaxi hratt, MJÖG hratt. Og næstu tvö ár verði mörgum óbærileg.

Hingað til hafa stjórnvöld ekki viljað hafa samráð við nokkurn, haldið 3 fundi frá áramótum með aðilum vinnumarkaðs þar sem ekkert kom fram. Á því verður að vera bragarbót, skelfilegt var að heyra hin hrokafullu ummæli fjármálaráðherra; "Ef þið komið með tillögur sem eru okkur þóknanlegar skulum við athuga þær, annars erum við ekki til viðtals!!"

8 ummæli:

Jónas Tryggvi sagði...

Frábær pistill, skyldulesning fyrir alla þá sem telja mann vera einhvern jólasvein þegar maður talar um mikilvægi þess að ganga í Evrópusambandið. Þar kemur evran, og lækkun vöruverðs - einmitt sú kjarabót sem Íslensk heimili þurfa á að halda núna.

Nafnlaus sagði...

Takk Guðmundur fyrir afar áhugaverðan pistil.
K.E.

Nafnlaus sagði...

Fjármálaráðherrann á nóga peninga. Hann er hátekjumaður á launum hjá okkur. Og seldi hann svo ekki stofnhlut fyrir 50 milljónir í Sparisjóði Hafnarfjarðar í fyrra eða hitteðfyrra?

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Guðmundur eins og svo oft áður.

Hins vegar geri ég eina athugasemd við myndina hjá þér! Grunnuvík er ekki til - heldur heitir hún Grunnavík.

Nafnlaus sagði...

Þetta er alveg snilldar pistill hjá þér Guðmundur.
Hvers virði er hús/bill/sumarhús ef það er enginn markaður fyrir það? Hvernig eiga skuldsett heimili og fyrirtæki að selja eignir sínar ef það er enginn markaður fyrir neinar eignir? Forsætisráðherra hvatti fólk til að fara sér hægt í íbúðakaupum í ár. Gerði hann sér grein fyrir því að hann var að frysta markaðinn.

Um daginn var ég við skólasetningu hjá 9 ára dóttur minni. við búum í hverfi 108. Það vakti athygli mína að það var enginn nýr nemandi í 1-4 bekk. Undanfarinn ár hafa verið um það bil 10% nemendum nýir í hverjum árgangi. Það er ljóst að það er frost á fasteignamarkaði. Þessi mikilvægasta eign fjölskyldna í landinu er næstum óseljanleg.

Nafnlaus sagði...

Er ekki sama hvað við óskum okkur að hér verði gert eitthvað að viti ?
Stjórnar herrarnir , með sjálfstæðisflokkinnn fremstan í flokki, skulu sjá til þess að okkur verði ekki að ósk okkar !
Hvar er allt fólkið í þessum sjálfstæðisflokki, sem okkur hefur verið sagt að sé svo klárt í peningamálum, og að fólk úr öðrum flokkum hafi ekkert vit á þessum málum ?
Er það enn þá upp í tréinu og bíður þess að því verði hjálpað niður ?

Nafnlaus sagði...

Efnahagsvandamál íslendinga heitir: Sjálfstæðisflokkurinn. Ummæli fjármálaráðherra sem Guðmundur vitnar í í lok greinar sinnar lýsir vel þessum vanda.

Nú láta forystumenn ríkistjónrnarinnar eins og þetta séu tímabundir erfiðleikar og við megum ekki tengja þessa erfiðleika sem nú dynja á okkur við evru umræðu og ESB aðild. En eins og Friðrik Jónsson eyjabloggari dregur fram í viðtali við Þórð Magnússon, nuverandi forstjóra Eyr investment frá 1998, þá höfum við átt í viðvarandi vandamálum með gjaldmiðil okkar sem verður að leysa. Annars verða þessar eilífu kollsteypur með verðbólgu og þrengingum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Hvenær er tími aðgerða eða hvenær segir verkalýðhreyfingin og samtök atvinnurekenda hingað og ekki lengra!

Nafnlaus sagði...

Getur verkalýðshreyfingin ekki varist með því að leita eftir samningum um laun í evrum og hafnað krónunni?