sunnudagur, 15. mars 2009

Niðurstaða prófkjara

Það er áberandi í skoðanakönnunum hversu stór hluti þjóðarinnar vill ekki svara eða taka afstöðu til þess sem er í boði. Þetta kemur einnig fram í þátttöku prófkjöranna. Einungis nokkur þúsund taka þátt. Niðurstaðan lá eiginlega fyrir áður prófkjörin voru haldin, harður kjarni tók þátt og staðan nánast óbreytt. Það er t.d. engin endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og lítil hjá Samfylkingunni.

Þeir sem eru að koma inn koma úr uppeldistöðvum flokkanna, eru aðstoðarmenn fyrri ráðherra eða þingmanna, þannig að það er í raun engin breyting. Það er líka einkennilegt að horfa upp hversu virkir þátttakendur fréttamenn eru í þessu leikriti, lítið þið t.d. á fréttir Sjónvarpsins í gærkvöldi.

Framundan ætti að vera endurreisn og uppbygging í íslensku samfélagi. Það er verkefni stjórnmálamanna að koma hér á pólitískum stöðugleika og upplýsa almenning á mannamáli um stöðu mála og hvers sé að vænta á næstu árum. Lífskjör eru að dragast hratt saman og atvinnulífið veikist og aðilar vinnumarkaðs hamast við í tilraunum við að ná sambandi við stjórnvöld. Ég er ekki að sjá sama fólk á Alþingi byggja upp öflugt efnahagslíf og traust lífskjör. Það eru svo margir sem muna vel ummæli þeirra fyrir hrun, eða þá í síðustu kosningabaráttu.

Af hverju birta fréttamenn ekki það fylgi sem flokkarnir hafa í raun og veru og hversu fáir það eru sem eru að velja inn á lista flokkanna. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eru ekki með 29% fylgi, það er í raun einungis um 16 – 17% af kjósendum. Eru það ekki ca. 15 þúsund af 70 þúsund sem eru að taka þátt í prófkjörunm í Reykjavík?

Þetta fólk hefur dregið mánuðum saman að taka á þeim mikla vanda sem við blasir og afla heildaryfirsýnar yfir stöðuna eftir bankahrunið. Það var þetta fólk sem eyðileggði lýðræðið og tók upp ráðherraræðið. Uppgjör er forsenda þess að uppbygging geti hafist. Sama fólkið eykur ekki ábyrgð og skyldur í viðskiptalífinu og eftirlitsstofnunum samfélagsins. Þetta fólk hefur t.d. ekki getað haldið uppi rökrænni umræðu um stefnuna í efnahags- og peningamálum, upptöku evru og umsókn á aðild að ESB.

Það eru þessir stjórnmálamenn sem brugðust almenning í að fjalla um málin af trúverðugleika, og nú eru sömu menn búnir að stilla sér upp í framboði með þeim reglum sem þeir settu sjálfir, rúnir öllu trausti. Reglum sem tryggja stöðu þeirra, og valda því að fáir gefa kost á sér utan þeirra sem eru í valdakerfi flokkanna. Ég hef áður spáð því hér á þessari síðu að næsta kjörtímabil verði stutt. Mjög stutt, mesta lagi eitt ár. Niðurstaða prófkjaranna styður þá spá ennfrekar. Næsta haust mun búsáhaldabúggíið fara í aftur í gang, það er að segja ef staðan verði þá ekki eins og lýst var í Spaugstofunni í gærkvöldi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Þessi mýta um að óvenjufáir taki afstöðu til flokka í könnunum nú, er bara ekki alveg rétt.

Það að í kring um 70-80 prósent svarenda - eða þeirra sem náð er í, svari og taki afstöðu til einhverja þeirra flokka sem í boði eru, er ekki bara viðunandi, heldur frekar hátt hlutfall.

Síðan spyrðu af hverju við birtum ekki "rauntölur" þ.e. fylgi flokka með tilliti teknu til þeirra sem kjósa ekki, skila auðu, eru óákveðnir, etc. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi yrðu slíkar tölur ekki samanburðarhæfar við annað sem hefur verið birt og gæfu því skakka mynd miðað við það sem fólk þekkir nú.

Í öðru lagi er nú kaldur veruleikinn sá að þeir sem kjósa ekki, skila auðu eða skila ógildum seðli, skipta ekki máli við úthlutun þingsæta. Þó svo það væri bara einn í hverju kjördæmi sem myndi kjósa, þá þyrfti að úthluta þingsætum í samræmi við það eina gilda atkvæði.

Það sem verið er að sýna er hvernig alþingi myndi líta út, væri gengið til kosninga nú. Síðan er sérstaklega tiltekið ef óákveðnir eru margir, eða þeir sem kjósa ekki, því það eru vissulega vísbendingar. Þessi hópur hefur bara minnkað mikið frá óánægjarbylgunni í upphafi árs.