fimmtudagur, 19. júní 2008

Botninum er náð?

Forsætisráðherra hefur ásamt sínu fólki haldið því fram nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum að „Botninum sé náð“. Hann ásamt samráðherrum brugðust illa við dökkum spám OECD og aðila vinnumarkaðs og sögðu að þær kæmu þeim á óvart. Margir veltu því fyrir sér hvort ráðherrar væru með þessum yfirlýsingum að staðfesta það sem margir höfðu haldið fram að þeir hefðu ekki gert sér nokkurra grein fyrir hvernig efnahagsástandið væri. Lifðu ennþá í þeirri draumveröld sem þeir hafa haldið að okkur og kynntu í litprentuðum bæklingum í kosningabaráttunni í fyrra.

Ráðherrar hafa nokkrum sinnum sagt að í gangi sé samráð við aðila vinnumarkaðs. Það er ekki rétt, ekkert samráð er í gangi. Hagfræðingar atvinnulífs hafa í allan vetur spáð því að botninum verði fyrst náð næsta vetur. "Úrræðaleysi ríkisstjórnar er algjört" segja hagfræðingar aðila vinnumarkaðs, eftir að hafa mætt á 2 fundi með ríkisstjórn frá áramótum.

Greiningaraðilar efnahagslífs segja að sá litli bati sem var komin af stað hafi hrokkið tilbaka og við sokkið enn dýpra vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnar. Ráðherra settu enn nipur er þeir fóru að hrósa sér fyrir sigra sakir þess að þeim hefði tekist að draga lántökur. Ríkisstjórnin hefur valið langdýrustu leiðina. Leið sem bitnar á harðast fyrirtækjum, atvinnuástandi og heimilunum.

Ráðherrar verða með degi hverjum úrillari og hreyta ónotum í þá sem vilja ræða þessi mál. „Við þurfum enga hvatningu“. „Dónaskapur“ að vera með athugasemdir um efnhagsástandið segja ráðherrar. „Eftiráspekingar“ heyrist úr Svörtu loftum frá höfundum hinna miklu efnahagsmistaka sem við erum að upplifa þessa dagana.

Það blasir við að sú glæsta mynd sem „efnhagspekingarnir“ og ráðherrarnir héldu að okkur var falsmynd. Þeir hrósuðu sér að hafa skapað eitthvað sérstakt og rituðu raðgreinar um það í blöðum og snéru útúr athugasemdum hagfræðinga atvinnulífsins og prófessora Háskólans. Enn einu sinni er komið í ljós að þær athugasemdir sem hagdeildir aðila vinnumarkaðs settu fram við málflutning stjórnvalda voru réttar.

Margir héldu því fram að hluti af efnahagsmistökunum hafi verið skattalækkanirnar, sem hafi aukið ennfrekar á þennsluna. Á það var bent að ríkið hefði í raun ekki haft efni á þessu. Skattalækkanir hafi verið gerðar í skjóli gríðarlegs innflutnings á fjármagni vegna mikilla framkvæmda fyrir austan og sölu á eigum ríkisins. Þegar um hægðist myndi koma fram að tekjur ríkissins myndu ekki duga fyrir rekstri þess þjóðfélags sem við viljum búa okkur. Það myndi kalla á óvinsælar skattahækkanir. Nú er einnig komið fram að þessar athugasemdir voru réttar sé litið til nýrra upplýsinga frá Viðskiptaráði um gríðarlega þennslu hins opinbera.

„Efnhagsspekingarnir“ eru komnir með íslenska efnahagskerfið á nákvæmlega sama stað og það er statt í BNA. Þegar íslensku repúblikanarnir hrökklast frá verður íslenska samfélagið komið alllangt frá hinu norræna samfélagi. Við taka demókratarnir og hefja uppbyggingu, á meðan agnúast repúblikanar út í skatta og eyðslu hins opinbera. Á grunni þess komast repúblikanarnir aftur til valda og taka við góðu búi og selja allt sem hönd á festir og lækka skatta, sem bitnar á þeim sem minna mega sín en eykur eignastöðu þeirra sem best hafa það.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil. En ein spurning: Hvernig getur þú sagt til um það hvaða samfélag það er sem "við" viljum búa okkur?
Skynjar þú "þjóðarviljann" eða telur þú þig þess umkominn að ákveða hann?

Björn Jónasson sagði...

Þá eiga "demókratar" að ganga úr stjórn með "repúblikönum", þannig að hægt sé að hefja uppbyggingu strax. Af hverju er Samfylkingin orðin "repúblikanaflokkur"?
Þórður

Guðmundur sagði...

Það sem ég á við með því hvað við viljum eru kosningaloforð flokkanna.

Hjá Sjálfstæðisflokknum voru mjög áberandi loforð um hina norrænu þjóðfélagsgerð, sama er upp á teningunum hjá Samfylkingunni. En þegar kosninganóttin er liðin virðist þetta ætíð gleymast hjá Sjálfstæðisflokknum.

Kosningaloforðin standa ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft viðamestu ráðuneytin hvað varðar efnhagsstjórnina undanfarinn áratug og við sjáum svo glögglega í dag eins og komið hefur fram undanfarið og ég rek í pistlinum, að við höfum stefnt í þveröfuga átt.

Nafnlaus sagði...

Það er allaveganna nokkuð augljóst að hægri menn, hvort sem er í BNA eða hér á landi vita ekkert um stjórn efnahagsmála. Hins vegar er of mikill sósíalismi og haftastefna á mörgum sviðum hér á landi.
Málið er kannski að það er nauðsynlegt fyrir framþróun íslensks samfélags að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Það er ljóst að það er stór meirihluti á miðjunni sem t.d. vill ganga í ESB. Vandamálið er að það er hægri íhaldsarmur í Sjálfstæðisflokknum sem er á móti ESB og fleiri algjörum þjóðþrifamálum. Þessi armur er orðinn dragbítur á framþróun íslensks samfélags og þess vegna þarf að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn til að gera hann valdalausan.

IG