föstudagur, 27. júní 2008

Karlrembur

Hlustaði á viðtal þáttargerðarmanns á Rás 2 við konu sem hringdi inn til þess að fá miða á tónleika. Hún byrjaði samtalið á þeim orðum að karlmenn ættu að skammast sín, nú væru stelpurnar að komnar í öruggt umspil á EM og stefndu á að fara þangað milliliðalaust. Þær væru komnar í 17 sæti á heimslista. Ef karlalandslið okkar væru á þessum stað stæði ekki steinn yfir steini á pöbbum þessa lands. Í öllum útvarps- og spjallþáttum fjölmiðla ásamt kaffistofum vinnustaða væri allt undirlagt í umræðu um velgengni okkar.

Þetta er hárrétt hjá konunni og það mættu ekki nema 4.200 manns á völlinn til þess að sjá stelpurnar taka Grikkland í bakaríið 7 – 0. Þessa dagana er verið að spila auglýsingar frá kortafyrirtæki þar sem konur eru niðurlægðar á allan hugsanlegan hátt. Aðferð auglýsingfyrirtækja er algeng, konur kynntar sem heilalausar og viljalausar verur og karlinn segir henni fyrir verkum. Harla einkennilegt því á undanförnum árum hafa landsmenn ítrekað vilja sinn til þess að komast upp úr þessu fari, en á meðan viðhalda almannatengslafyrirtækin þessu viðhorfi af alefli.

Karlrembingurinn var allsráðandi hér á árum áður. Ofarlega er sagan úr Hrútafirði þar sem húsbóndinn á heimilinu lá rúmfastur í einhverri pest og sendi konuna með bréfsnifsi yfir ísilagðan fjörðinn til kaupfélagsstjórans á Borðeyri. Konan rétti kaupfélagsstjóranum miðann með úttektarbeiðni bóndans; „Ég kemst ekki sjálfur til þín til þess að slá úr nokkrum staupum með þér núna, svo ég sendi konuna og ég bið þig náðarsamlegast að láta hana hafa einn pott af brennivíni og smávegis af tóbaki. En þar sem ísinn á firðinum er svo ótraustur sendi ég ekki peninga með konunni og vænti þess að þú skrifir þetta hjá mér.“

Annað dæmi frá sömu slóðum er af lögreglumanni frá þorpi norðar sem þekktur var að leitast eftir því að koma lögum yfir okkur landsmenn og leitaði jafnvel alla leið suður á Holtavörðuheiði þar sem hann lá í felum bak hóla og hankaði sunnanmenn þegar þeir létu sjálfrennireiðar sínar renna glatt niður heiðina. Í þorpinu bjó gömul kona sem fór ætíð tvisvar í viku og alltaf á sama tíma á bifreið sinni 500 m. spottann út í kaupfélag til þess að ná sér í tvo potta af mjólk og annað til heimilishaldsins.

Ef hinn samviskusami lögreglumaður var á vakt og ekki suður á heiðum, þá fór hann af stöðinni skömmu áður en konan fór í þessa föstu innkaupatúra og faldi sig bakvið næsta húshorn við kaupfélagið og þegar konan ók hjá kveikti hann á blikkandi ljósunum og ók á eftir henni með æpandi sírenuna á inn á kaupfélagshlaðið þar sem hann tók hana fasta og sektaði fyrir að aka um án þess að festa bílbeltin. Einhverra hluta vegna tókst þessi uppeldisaðferð lögreglumannsins ekki betur en svo að honum tókst að ná af gömlu konunni allnokkrum 5 þúsund köllum.

Um leið og ég óska lesendum góðrar helgar þá finnst mér að við karlmenn og ekki síst þeir sem starfa í kynningarbransanum ættum að hugsa okkar gang. En tek mörgum sinnum ofan fyrir stelpunum okkar og óska þeim innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þessi góði árangur kvennalandsliðsins vera settur hér í frekar neikvætt samhengi.

Margrét Lára hefur hlotið verðskuldað æðstu viðurkenningu íþróttahreyfingarinnar en hún er íþróttamaður ársins sem íþróttafréttamenn velja.

Það tekur ákveðinn tíma að vinna upp áhuga áhorfenda og ef það hafa komið 4200 manns á leik síðdegis á fimmtud.þá er það ekki alslæmt.
Ekki veit ég hvert kynjahlutfallið var á áhorfendabekkjunum en það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu fyrir kynsystur leikmanna að styðja betur við bakið á þeim ef að það á að setja upp rembugleraugu í umfjöllun um góðan leik landsliðsins.

Kvennaknattspyrnunni hefur farið gífurlega fram og það er mjög góður fótbolti leikinn af bestu liðum 1. deildar.

KSÍ hefur staðið vel mjög að málum og mættu ýmis önnur sérsambönd taka KSÍ til fyrirmyndar en KSÍ hefur vissulega rýmri fjárráð en önnur.

Áfram Ísland.

Nafnlaus sagði...

Ég, verandi kona, þakka innilega fyrir þennan fína pistil. Ekki síst í ljósi þess að þú talar sérstaklega um "bransann" sem þú ert í. Held nefnilega að ef hugarfarsbreyting verður innan ykkar raða náum við að breyta hugarfari fólks yfir línuna

Guðmundur sagði...

Það er svo óendanlega einkennilegt hvernig sumar athugasemdanna eru. Ekki er minnst einu orði í pistlinum í þá veru að stúlkurnar standi sig ekki og þaðan af síður neikvætt um KSÍ. Það er verið að draga fram að íslenskt karlasamfélag myndi láta öðruvísi ef um karlalið væri um að ræða. Þá hefðu líklega komið fleiri en 4.200 á umræddan leik.
Síðan eru tekin dæmi um afkáraleika þessa karlaviðhorfa. En þessu er karlinn ekki sammála, líklega vegna þess að hann er karl, hver veit

Nafnlaus sagði...

Varst þú á leiknum?

Nafnlaus sagði...

Hvar koma almannatengslafyrirtæki inn í þessa mynd? Ég skil ekki samhengið. Eða ertu bara búinn að lesa jonas.is of oft undanfarið - hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að allt óréttlæti heimsins er almannatenglum að kenna. En ég átta mig bara ekki á samhenginu hjá þér.
F.

Nafnlaus sagði...

Varðandi tuðrusparkið ...

Ég hef ákveðinn grun um að í hjarta sínu hafi karlmenn almennt séð einfaldlega minni áhuga á að horfa á konur sparka tuðrum, en að horfa á aðra karlmenn gera hið sama.

Þetta kann að eiga sér þá skýringu að með því að horfa á tuðrusparkið og setja sig inn í þá baráttu sem í því felst eru þeir, með óbeinum hætti, að svala ákveðnum frumþörfum karlmennskunnar - að finna sig í einhverjum hópi, og berjast með honum gegn öðrum hópum. Karlar hins vegar geta ekki fundið til þessarar sömu samkenndar með kvenmönnum.

Nú kann vel að vera að þetta sé bölvað rugl í mér - en mér finnst pælingin engu að síður áhugaverð.

Einhver skýring hlýtur síðan að vera á því, hví karlmenn eru að jafnaði öllu áhugasamari um tuðruspark og þess háttar en konur.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur hvað er að ef ekkert er að?

KSÍ er að gera góða hluti og fjölmiðlarnir líka skilst mér og landsliðið er í góðum málum, vinnur og vinnur og besti leikmaðurinn er íþróttamaður ársins.

Það sem betur fer svo að það eru ekki einungis karlmenn í okkar ágæta samfélagi og hvað þá að það séu einhverjir karlar í almannatengslafyrirtækjum sem vilja ekki landleikir séu vel sóttir.

Ég vona að sjálfsgagnrýni karla í Samfylkingunni undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar sé ekki orðin svo algjör að almennt sé álitið að aðsókn á kvennalandsleik sé merki um einhverja rembu og sé þar að auki sett í samhengi við einhverjar þjóðsögur sem hafa átt að gerast út á landi fyrir einhverjum áratugum síðan.

Að lokum er þess að geta að aðsókn á landsleiki karla snýst ekki einungis um að fólk vilji sjá okkar dáðadrengi spila heldur eru knattspyrnuáhugmenn að sækjast í að sjá heimsfræga íþróttamenn s.s. þegar spænska landsliðið og það franska mætir til leiks. Það er miklu meiri aðsókn og áhugi þegar frægu leikmennirnir mæta en þegar minni spámenn etja kappi við landsliðið okkar á Laugardalsvellinum.

Nafnlaus sagði...

Það hefur í upphaf líklega verið karlmanna siður að sparka á milli sín höðum fallinna fjandmanna - en konurnar mátt gera að búkunum og steikja þá til átu.Þær hafa því í upphafi verið utangarðs í íþróttinni og er það gleðileg þróun í sögu mannkyns að þær fá nú loksins að vera með.

Nafnlaus sagði...

Af hverju eru frægu leikmennirnir allir karlmenn, Sigurjón?

Þinn málflutningur varpar bara ljósi á hversu alþjóðleg þessi skipting er.

Nafnlaus sagði...

Er það karlremba að hafa ekki áhuga á kvennafótbolta? Hverslags fábjána dettur svona þvæla í hug? Fólk hefur bara ekki áhuga á hinu og þessu einfaldlega af því að það hefur ekki áhuga á því. Óþarfi að gera sig að algjöru fífli með því að velta um hverjum steini í þjóðfélagsgerðinni til að finna út hvers vegna, hvað þá að graut saman við það einhverjum ævafornum bröndurum eða kjaftasögum um löggu útá landi, hvað þá almannatengslum kortafyrirtækja.

Annars mætti spyrja bloggara hvers vegna hann kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað þegar auglýsingarnar með heimsku, feitu köllunum koma í sjónvarpið, er hann bara svona selective í gagnrýni eða svona hrikalega vitlaus?

Nafnlaus sagði...

Varst þú einn af þeim 4200 sem mættu á völlinn?