þriðjudagur, 10. júní 2008

Krónan dýr

Þessa dagana er ríkisstjórnin að leita eftir 500 milljarða láni til þess að styrkja stöðu krónunnar, þetta kemur til viðbótar 200 milljörðum sem við eigum í gjaldeyrisvarasjóði, sem tekið var lán fyrir í fyrra. Á það hefur verið bent að þetta dugi vart og 1.000 milljarðar sé hið minnsta sem til þurfti til þess að koma í veg fyrir sveiflur krónunnar. Vextir af þessum miklu lánum er gríðarlegir og verið er að botnskuldsetja ríkissjóð vegna þessa. Þá er ekki upp talinn allur sá kostnaður sem heimilin og fyrirtækin bera.

Margir hafa bent á að aðskilja þurfi innlenda starfsemi bankanna frá hinum erlendu áhættufjárfestingum. Staðan í dag gerir þetta ekki framkvæmanlegt og vextir þeirra lána sem bankarnir eru með byggjast á núverandi starfsemi og myndu verða töluvert hærri ef þessi breyting yrði gerð.

Það kostar okkur líklega um 500 milljarða að halda í krónuna. Þetta ástand er tilkomið vegna fyrirhyggju- og andvaraleysis þeirra sem hafa haft með efnahagsstjórnina að gera á undanförnum árum og hefur sett okkur í sjálfheldu. Fyrirtækin í landinu fá ekki lán og reksturinn er að stöðvast. „Það er svo sem nóg að gera, en ég fæ ekki borgað“, er algengt viðkvæði meðal verktaka í dag.

Það er akkúrat núna sem ríkisstjórnin á að koma fram og styrkja atvinnulífið. Hún á að styrkja íbúðarlánasjóð og gera honum kleift að koma til hjálpar heimilum sem eru að missa húnæði sitt. Setja á í gang opinberar framkvæmdir, þá helst mannfrekar framkvæmdir, ekki bara verkefni fyrir nokkrar jarðvinnuvélar.

Fella á niður söluskatt á viðgerðum húsa þá sérstaklega þeim sem hafa skaddast í jarðskálftum undanfarið. Það myndi kippa upp á yfirborðið mikilli starfsemi úr neðanjarðarhagkerfinu og skila tekjum. Alkunna er að margar opinberar byggingar hafa ekki fengið nægilegt viðhald og nú er lag að setja þau verkefni í gang.

5 ummæli:

Oddur Ólafsson sagði...

Góður pistill eins og venjulega hjá þér.

Geir og Davíð jörðuðu krónuna. Verst hvað jarðarförin verður langdregin og dýr.

Björn Jónasson sagði...

Ég er ekki sammála þér um krónuna. Ég held að hún sé að vísu vandamál, en hún er skárra vandamál en atvinnuleysi. Ef við höfum ekki krónu, þá jöfnum við sveiflur með atvinnuleysi.
Hitt sem þú leggur til er ekki bara hárrétt, það myndi forða yfirvofandi stórslysi.
Þórður

Nafnlaus sagði...

Alveg einstaklega hæpin hagfræði þetta. Það atvinnuleysi sem er handan við hornið, er krónunni að kenna. Vegna þess að við notum krónur þá þarf ríkisvaldið að nota það fjármagn, sem ella hefði farið í framkvæmdir innanlands og hefði viðhaldið atvinnu, til að styrkja krónuna. Þórður: króna = atvinnuleysi!! evra = eðlileg hagstjórn.

Nafnlaus sagði...

Því miður virðist vera einhver misskilningur í pistlinum. Það liggur beint við að svo framarlega sem aðgerðin heppnast og gjaldeyrisvarasjóðurinn er ekki nýttur, að þá eru keypt skuldabréf í evrum þannig að kostnaðurinn er lítill sem enginn. Evrunnar sitja ekki vaxtalausar inni í kústaskáp Seðlabankans. Svo gleymir þú hversu kostnaðarsöm gengisveikingin er fyrir heimilin í landinu(ef Seðlabankinn gerir ekki neitt má búast við hruni í krónunni). Að taka upp evru er langur ferill sem tekur 10-20 ár þannig að ekki er það lausnin í augnablikinu. Að lýsa yfir aðild að Evrópusambandinu og í kjölfarið upptöku evru þarf alls ekki að þýða að krónan styrkist eða festist í sessi - sérstaklega þegar við erum langt frá því sem getur talist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þetta minnir hryggilega á talsmáta Framsóknarmanna sem vilja halda vitleysunni áfram - ál áfram ekkert stopp - og þar með stuðla áfram að óstöðugleika í krónu og hagkerfi.

Nafnlaus sagði...

Nú þegar lánsfjárkrísan hefur skrúfað fyrir aðgegni að erlendu lánsfé, þá mun íslenska þjóðabúið þurfa gjaldeyri til að halda upp lífskjörum. Þannig að framsóknarmennirnir hafa rétt fyrir sér ekkert stopp á iðnvæðinguna. Annað er rakinn leið til verri lífskjara, Kárahnjúkar einir og sér bjuggu ekki til bólu undanfarina ára, það var bankakkerfið sem á heiðurinn af því. Það er útflutningur, frá meðal annars Reyðarfirði, sem munu halda krónunni á flot. Til að viðhalda atvinnu þá þurfum við meiri erlenda fjárfestingu í iðnaði, "eitthvað annað" er einfaldlega ekki í boði.

Kveðja
Magnús