miðvikudagur, 4. júní 2008

Myllusteinsmálefnasamningur

Hefði verið betra að sleppa málefnasamningnum, hann var gerður í miklu flýti og var hraðsoðinn, segir borgarstjóri á borgarstjórnarfundi í gær. Enn ein staðfestingin á þeim flumbrubrögðum sem notuð voru við valdatökuna, þar sem hefnigirnin blindaði.

Vitanlega gátu Vilhjálmur og Kjartan ekki staðið að valdatöku í borginni án þess að hafa málefnasamning, vegna fyrri málflutnings Sjálfstæðismanna sem höfðu út í hið óendanlega klifað á því að það væri óásættanleg að valdataka Tjarnarkvartettsins hefði farið fram í málefnasamningsleysi. Það voru reyndar ekki mjög margir sem skyldu hvert Sjálfstæðismenn voru að fara í þeim efnum, þetta var ein af órökstuddum klisjum úr verksmiðjunni í Valhöll.

En nú er komið í ljós að þeir höfðu gert málefnasamning, bara einhvern, skipti engu þó tekin væri kosningaloforðalisti Ólafs og skipt um haus á honum og hann skýrður málefnasamningur. Nú segir Ólafur að kosningaloforðalisti sinn (málefnasamningur Sjálfsæðisflokksins) sé orðin myllusteinn meirihlutans.

Hvar ætlar þessi farsi að enda? Látum verkin tala segir borgarstjóri. Þau gera það svo sannarlega og atkvæðin fjúka burtu.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Hvar sagði Ólafur F. þetta? Hefur farið framhjá mér ...