miðvikudagur, 11. júní 2008

Pant vera Evrópusinni

Það er spaugilegt, en reyndar sorglegt, að lesa sumar greinar fótgönguliða Valhallar. Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður og fyrrv. aðstoðarmaður forsætisráðherra er einn þeirra. Í síðustu kosningabaráttu skrifaði hún nokkrar kostulegar greinar þar sem hún hélt því fram að við sem hefðum bent á að misskipting væri að aukast í íslensku samfélagi færum villu vegar og beindi ýmsum ómerkilegum aðdróttunum að þeim háskólaprófessorum sem höfðu sýnt fram á hvert ameríkanasering ríkisstjórnarinnar var að leiða okkur. Mál sitt studdi hún með dæmum þar staðreyndum var snúið á haus.

Í dag hefur sannarlega komið fram að ábendingar um að skattar voru auknir á þeim sem minnst mega sín um 7% og aðvaranir um efnhagstefnuna voru réttar, sem segir okkur að greinar Ragnheiðar voru kosningaáróður. Öll sú mikla velmegun sem hún og skoðanabræður hennar héldu fram að ríkti hér á landi var fölsuð með röngu gengi og mikilli skuldsetningu. Öll þekkjum við að það hefur verið í gildi bann meðal sjálfstæðismanna um að ræða ekki Evrópumál og borið fyrir sig ýmsar upphrópanir eins og "Horngrítis kjaftæði" sem Árni Johnsen hreytti í okkur, "Offramboð af Evrópuskoðunum" frá ráðherrum. Því hafa fylgt órökstuddar fullyrðingar þar sem staðreyndum er snúið á haus að venju eins og þeir vilja auka atvinnuleysi, þeir ætla að afsala fullveldi þjóðarinnar hafa þeir hrópað að fólki sem hafa haldi uppi Evrópuumræðu.

Nú er svo komið að meirihluti þjóðarinnar er búinn að átta sig á innihaldsleysi skeytanna frá upphrópunarmönnunum og vill ekki lengur búa í því efnahagsumhverfi sem okkur hefur verið búið. Á hverjum degi fáum við staðfestingu á því að það efnahagsástand sem við búum við í dag er orsök rangra ákvarðanna þeirra sem við völdin hafa verið. Þar má m.a. benda á umfjöllun í Viðskiptablaðinu 10. júní, sama blaði og grein Ragnheiðar er.

Íslendingar sætta sig ekki lengur við rússibanaferðir krónunnar. Þeir sætta sig ekki lengur við þá misskiptingu sem stjórnvöld hafa staðið að. Þegar þetta blasir við koma þeir sem hafa reynt að koma í veg fyrir Evrópuumræðu fram úr skúmaskotunum eins og t.d. Ragnheiður segir í Viðskiptablaðinu; "Ég hef alltaf verið svo mikill Evrópussinni. Við höfum alltaf viljað ræða Evrópumál, en bara ekki í upphrópunarstíl"!!

Ekki vex trúverðugleiki þingmannsins.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta fólk er hlægilegt. Hvaða erindi eiga svona ruglukollar í pólitík?

Nafnlaus sagði...

Það er samt ekki alveg laust við að ákveðin nostalgía felist í því að verð á vörum breytist að lágmarki einu sinni í viku - það minnir mann á gömlu dagana. :oD

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Ég þakka þér fyrir að lesa greinarstúf minn í Viðskiptablaðinu í gær og fyrir að verja dýrmætum tíma þínum í að tjá þig um hana á bloggsíðu þinni. Það er augljóst af lestri þess pistils að við deilum ekki sömu skoðunum varðandi Evrópumálin og geri ég engar athugasemdir við það. Öllum er frjálst að hafa sínar skoðanir og tjá þær. Eða það hélt ég.

Ég ræði í grein minni um upphrópanir og skotgrafir og reyndar hvet okkur öll til þess að koma okkur upp úr þeim og ræða þessi mikilvægu mál efnislega frá öllum hliðum þeirra. Þess vegna þykir mér miður að þú skulir engu að síður falla í þá gömlu gryfju. Skoðanir mínar fá ekki háa einkunn hjá þér þar sem ég á samkvæmt þinni skilgreiningu að vera „fótgönguliði úr Valhöll“ og þar af leiðandi er ég væntanlega ófær um að mynda mér mínar eigin skoðanir. Ég myndi kalla þetta upphrópun úr skotgröf.

Einnig segir þú í pistli þínum: „Öll þekkjum við að það hefur verið í gildi bann meðal sjálfstæðismanna um að ræða ekki Evrópumál“ og setur það fram sem viðtekna staðreynd. Ég leyfi mér að mótmæla þeirri „staðreynd“ þar sem ég veit betur og hef tekið þátt í skoðanaskiptum um Evrópumál innan Sjálfstæðisflokksins um langa hríð. Ég hef reyndar ekki séð þig við þau tækifæri.

Ég ætlast ekki til þess að þú verðir mér sammála í þessu máli frekar en öðrum. Ég ætla þó að gerast svo frek að ætlast til þess af þér að þú sýnir mér þá virðingu að hafa rétt eftir mér í stað þess að afbaka orð mín og setja innan gæsalappa eins og um beina tilvitnun í mig væri að ræða, eins og þú gerir í lok pistils þíns.

Ég ítreka þær vonir mínar um að umræðan um Evrópumál og stjórnmál almennt megi verða efnislegri og málefnalegri í framtíðinni.

Með vinsemd og virðingu,
Ragnheiður Elín Árnadóttir

Nafnlaus sagði...

Flest það sem hefur gert fyrirtækjunum kleyft, að fara í bága við afkomu starfsmanna er frekar til komið VEGNA EES aðildar en að við stæðum utan við það skítabix allt saman.

,,Frjáls flutningur......." er ein aðalástæðan fyrir einmitt því sem þú telur til hnjóðs okkar kerfi í nútímanum.

Rússíbanaferðin væri ekki slík, hefði verið mögulegt, að halda reiður á skuldabréfaútgáfu og lántöku erlendis hjá bönkum og sjóðum, hverjir síðar setja allar byrgðarnar á herðar brauðstritara sem eru ða koma sér þaki yfir höfuðið á sinni fjölskyldu.

Ykkur í Verkalýðsarmi okkar kæra Flokks (vona að þú sért enn skrifaður í Flokkinn minn elskaða til að berjast þar fyrir hag allra landsmanna jafnt) ættuð að sameinast okkur kvótaandstæðingum og andstæðingum Verðtryggingar sem tryggir sumt (forréttindi sumra) en ekki allt (laun og lífskjör)

Það er alger nauðsyn, að þeir sem yfirgáfu okkur á ögurstundu (Frjálslyndir margir hverjir og aðrir sem fóru í fýlu) komið aftur og náið vopnum ykkar til að breyta því sem komið hefur fyrir hjá okkur, að ofurfrjálshyggja og trú á að útlendir aðilar, bjargi okkur. (Matrósastrákarnir og löffagengin líta til USA sumir aðrir til ESB)

Pant vera þjóðernissinnaður íhaldsmaður

Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson