laugardagur, 31. maí 2008

Skrípaleikurinn afstaðinn

Jæja þá er hinn árlegi skrípaleikur afstaðinn. Það tókst að ljúka þingstörfum á tilsettum tíma!!?? Að venju var mörgum málum stungið ófrágengnum oní skúffuna aftur. Iðnaðarmanni yrði aldrei hleypt í 4 mánaða orlof frá ófrágengnum verkum. Ég er formaður stéttarfélags og það yrði aldrei liðið að ég færi ásamt starfsfólki okkar í 4 mánaða sumarfrí og frá óleystum málum og það á fullum launum.

Það sem eftir veturinn stendur er þingfesting á því að setja kosningasmala á launaskrá. Að venju á fölskum forsendum. Því var haldið fram við setningu laga að ráðning 35 kosningasmala myndi kosta 90 millj.kr. en allir vissu að það myndi kosta um hálfan milljarð þegar allt væri talið. Sem er ekkert annað en viðbót við hin hundruðin af milljónum sem þingmenn hafa skákað til starfsemi sinna stjórnmálaflokka á undanförnum árum.

Kerfiskarli frjálshyggjunnar Birgi Ármannssyni tókst það sem Valhöll hafði innprentað í minniskort hans, að halda frumvarpi Valgerðar um eftirlaunaósómann óræddu undir stól sínum. „Auðvitað er það rétt“ hreytti hann með sínum venjubundna oflætishætti ergilegur í okkur almúgann. Ráðherrar sögðust ætla að vinna að því í sumar að finna leið til þess að koma í veg fyrir að þeir gætu verið á eftirlaunum samfara því að vera á launum hjá sama vinnuveitanda. Öll vitum við að málið snýst ekki um það. Þegar við bentum á það byrsti forsætisráðherra sig og sagði að það væri ósmekklegt einelti að vilja í sífellu tönglast á þessu smámáli. Og ráðherrar lýstu því yfir að það væri offramboð af óþægilegum skoðunum í þjóðfélaginu.

Málið snýst um að þeir hafa úthlutað sér tífaldan ávinnsluhraða á við aðra landsmenn. Mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð hinna útvöldu er um 100% á meðan það er 8% hjá okkur hinum. Auk þess að það skiptir það engu hvort lífeyrissjóður hinna útvöldu eigi fyrir útgjöldum, þar þarf aldrei að skerða ellilífeyri. Fjármálaráðherra skrifar á gamlársdag ávísun upp á nokkra milljarða og leggur í lífeyrissjóð sinn og hinna útvöldu. Á sama tíma er búið að skerða ellilífeyri í lífeyrissjóðum ófaglærðra um 20%.

Efnahagsstefnan Sjálfstæðisflokksins sprakk framan í andlit landsmanna eins og óþægilegir hagfræðingar höfðu spáð undanfarin 4 ár og misskipting jókst ennfrekar með eignatilfærslu frá þeim sem minna mega sín. Forsætisráðherra lýsti því yfir að hann ætlaði að halda áfram á þeirri braut og hélt 37% fylgi sínu, enda eru þar samankomnir þeir sem fá reglulegan skattaafslátt á meðan skattarnir eru hækkaðir á hinum 63% hlutanum. Og forseti Alþingis fór til Kaupmannahafnar og hélt ræðu um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að halda í venjur 18. aldar stjórnarhátta, þó svo það kostaði gjaldþrot fjölmargra íslenskra heimila.

Aðilar vinnumarkaðs reyndu ítrekað að fá fundi með ráðherrum og benda þeim á að það gengi ekki lengur að leiðrétta kúrs krónunnar með því að gjaldfella laun og skella á atvinnuleysi í byggingariðnaði. Og fyrirtækin sögðu að það gengi ekki lengur að vera með krónu þegar svo væri komið að yfir 50% veltunnar væri erlendis. En ráðherrar voru á ferðalögum og ræddu vandamálin í Kína og Afríku. Aðspurðir lýstu þeir því yfir að fullt samráð væri haft við forystu verkalýðshreyfingarinnar. Ég er í henni og veit að það er ekki rétt. Það er búið að halda 2 fundi frá áramótum.Þar kom ekkert fram af hálfu ráðherra, nákvæmlega ekkert.

Og þingmenn eru komnir í fjögurra mánaða sumarfrí á fullum launum, efnhagslífið riðar, við fjölmörgum heimilum blasir gjaldþrot og verðbógan á uppleið. Forsætisráðherra sótti um aðstoð til ESB, en sagði okkur almúganum um leið að ESB væri frat. Og frændur okkar á hinum norðurlöndunum sem eru i ESB samþykktu að koma í veg fyrir að við þyrftum að segja okkur til sveitar.

Þetta er Ísland í dag og sumarið er komið og sólin skín á skuldirnar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þeir eru fáir sem tala jafnskýrt og Guðmundur Gunnarsson. Frábær pistill.

Guðmundur er líka einn fárra sem - enn sem komið er - hefur séð í gegnum plastaðgerðina sem Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde ætla að fá formenn hinna flokkanna til þess að samþykkja á eftirlaunalögunum frá árinu 2003.

Það á að endurtaka eftirlaunaósómann, en til þess þarf mikla heimsku og ógurlega sérgæsku.

Krafan almennings er sú að þingmenn og ráðherrar uni við sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn. Síðan verði stefnt að því að lífeyrisréttindi þeirra sem vinna á almennum markaði verði hin sömu og þeirra sem vinna hjá hinum opinbera.

Burt með spillingu og sérgæsku þingmanna! Niður með forréttindahyggju!

Jafnrétti!

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Sæll nafni
Ég hef í tvö eða þrjú skipti bloggað um þessa vitleysu; þetta gengdarlausa forheimskulega kapphlaup þingheims við að komast úr vinnunni. Þetta verklag (ef kalla má það því virðulega nafni) er út í hött. Hlaupið er frá hlutunum, veigamikil mál afgreidd eins og Kók og Prins yfir afgreiðsluborð í sjoppu, annað alls ekki afgreitt. Vakað er fram á nætur - (en það gengur þingheimur fram við að banna öðrum stéttum) og þruglað fyrir hálftómum þingsal. Þetta er allt fyrir neðan allar hellur. Og þessu VERÐUR að breyta!