föstudagur, 15. ágúst 2008

Trúverðugleiki á núlli

Það er rétt sem Hanna Birna segir við verðum að hafa starfshæfa stjórn í borginni. Hún segir að þetta hafi verið eini kosturinn. Það má vel vera, en málið snýst í raun ekki um það. Málið snýst um endalausa klæki og hnífasett í baki manna sem koma frá borgarstjórnarulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Af hverju er okkur ekki sagt rétt frá, það erum við sem þetta fólk vinnur fyrir. Við erum ekki fífl eins og Hanna Birna og hennar fólk virðist halda að við séum. Af hverju kemur fram í hverju viðtalinu á fætur öðru að það sem sagt var í næsta viðtali fyrir framan var ekki rétt. Hvers vegna eigum við þá að trúa því sem er verið að segja okkur núna? Og spunakarlar Valhallar fara nú hamförum í réttlætingunni og snúa hlutunum að venju á haus.

Það var blind hefnigirni gagnvart Birni Inga og Framsóknarflokknum sem leiddi sjálfstæðismenn inn á þá braut að skrifa upp á kosningaloforð Ólafs og kynna það sem málefnasamning. Vilhjálmur og Kjartan þekktu Ólaf mjög vel. Ég var með þeim öllum í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna 1994 – 1998 og þeir hafa síðan þá starfað með Ólafi. Þeir vissu afskaplega vel að hverju þeir gengu og hvernig þeir áttu að halda á sínum spilum til þess að fá Ólaf til þess að koma í samstarf. Það voru þeir sem keyptu húsin á Laugaveginum. Það er ákaflega ódrengilegt hvernig þeir skella öllum skuldum á Ólaf og hamast við að hreinsa sig.

Í máli Hönnu Birnu og Óskars í kvöldfréttum í gær komu þau ítrekað inn á nauðsyn þess að bæta atvinnuástandið í Reykjavík. Það eru einnig helstu rökin sem flokksformenn og Alfreð sjálfur halda fram. Nú bíðum við eftir því að fá skýringar hvers vegna Hanna Birna og hennar meirihluti er þessa dagana að ganga framhjá íslensku fyrirtæki til samninga upp á 1.2 milljarða við erlent byggingarfyrirtæki um byggingu Sæmundarskóla. Það liggur fyrir að frágangur á útboðsgögnum var þannig að það virðist hafa verið stefnt að þessari niðurstöðu.

Trúverðugleiki sjálfstæðismanna er á núlli. Hefnigirni, baktjaldamakk og klækir er þeirra daglega braut og hnífaparasettin munduð eins og hefur kom fram hjá þeim sem reynt hafa að starfa með þeim. Fær Óskar einhverja feita stjórnarformennsku að launum, eða ætti ég kannski frekar að spyrja hvaða feita stjórnarformennsku fær hann? Þar skipta laun og risnur ekki máli, en þegar kemur að atvinnuöryggi og launum hins almenna borgara þá er dyrunum lokað.

Það kemur borgarstjórnarmönnum ekki við, það er einhver embættismaður út í bæ sem sér um það, eru svör borgarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins þegar þeir eru inntir eftir svörum um þessi mál.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verður ekki hætt við að semja við útlenda fyrirtækið um byggingu skólans?
Óskar hefur mótmælt þeim samningi af nokkurri hörku.
Fær hann það ekki í gegn?
Það bókstaflega hlýtur að vera.

Jón Ólafur sagði...

Samkvæmt vef Reykjavíkurborgar þá er búið að ganga að tilboði útlenda verktakans. Þannig að Óskar getur ekki breytt því

Nafnlaus sagði...

Hæfileikaleysi borgarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins er slík að þar ber hvergi skugga á