föstudagur, 8. ágúst 2008

Úrræðaleysi ríkisstjórnar

Það stefnir í að aðilar vinnumarkaðs verði enn eina ferðina að taka frumkvæði hvað varðar efnahagsstjórn. Stjórnmálamenn hafa ekki dug og margir hverjir ekki getu til þess að takast á við hinn alvarlega vanda sem við blasir. Almenningur hefur beðið eftir því að stjórnarþingmenn taki á vandanum allt frá því í febrúar, en þá stigu launamenn fram af ábyrgð og ríkisstjórnin var þvinguð til þess að standa við nokkur af kosningaloforðum sínum.

Þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra um að hann ætli að taka upp viðræður við aðila vinnumarkaðs, hafa verið haldnir 3 fundir, en þar hefur ekkert gerst og við blasir fullkomið úrræðaleysi stjórnvalda. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins kasta fram í fjölmiðlum reyksprengjum í formi upphrópanna til þess að komast hjá málefnanlegri umræðu. Þeir vilja einn daginn taka upp dollar, annan daginn vilja þeir halda í krónuna, þriðja daginn vilja þeir taka evru upp einhliða upp og þannig má lengi telja.

Við blasir fullkomið getuleysi og einbeittur vilji til þess að viðhalda úreltri efnahagsstjórn, sem á engan hátt hentar nútíma atvinnulífi. Segjast hafna valdaafsali og vilja viðhalda því svigrúm sem sjálfstæð mynt gefur þeim. Svigrúm til þess að lagfæra mistök í efnhagsstjórninni með því að fella gengið um 30% eins gert hefur verið, lækka laun og auka atvinnuleysið. Aðilar vinnumarkaðs benda aftur á móti á að viðhorfi stjórnarþingmanna sé svipað og vilja sigla yfir Kyrrahafið á korktappa. Gengisvísitalan var fyrir 3 árum um 150, fór í fyrra í 100 og hefur svo hrapað í 170. Þessar sveiflur valda atvinnulífinu gífurlegum erfiðleikum og almenning óbærilegum skaða. Fólk og fyrirtæki vilja losna við þessar rússibanaferðir, sem eru skipulagðar af efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Að undanförnu hefur kaupmátturinn lækkað hratt, mismunandi þó milli stétta og við blasir mjög erfiður vetur þar sem allir kjarasamningar verða lausir. Nokkrir hópar hafa einungis fengið umsamdar lágmarkslaunahækkanir frá því í janúar 2007, eða um 5.5% á meðan verðbólgan hefur étið af okkur um 15%. Það segir að sumir hafa orðið fyrir 10% kaupmáttartapi auk hækkana á lánum. Eins og komið hefur fram í fréttum undanfarið hafa sumir að auki orðið að afsala sér umsömdum launahækkunum. Þetta segir okkur að hópar í verzlun og þjónustu auk í byggingageiranum hafa orðið fyrir allt að 25% kaupmáttartapi á undanförnum 18 mánuðum.

Gjaldþrot blasir við vaxandi fjölda heimila og ríkisstjórnin gerir ekkert, utan þess að stjórnarliðar mæta í fjölmiðla með sínar innihaldslausu og hrokafullu upphrópanir. Við þurfum sameiginlegt átak til þess að taka til í efnahagslífi. Við þurfum að leggja upp langtíma plön. Með þessu myndi skapast tiltrú á íslenskt efnhagslíf. Stefnuleysi, úræðaleysi, upphrópanir um dollar í dag, franka á mörgun, norska krónu, einhliða upptöku evru hefur ásamt alvarlegum mistökum í efnahagsstjórninni valdið íslenskum almenning óbætanlegum skaða.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aðstoðarmenn, fjármál flokkanna (fjármögnun flokkseigenda), aðstaða þingmanna, eftirlaunaforréttindi ...

Þetta eru áhugamál þingmanna og ráðherra.

Firringin mun verða lýðum ljós þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leggur fram nýtt forréttindafrumvarp um sín eigin eftirlaun.

Jafnrétti að hætti Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur, takk fyrir skemmtilega pistla.
Er ekki komin tími til að forsvarsmenn verkalýðsfélaga tilkynni allsherjar vinnustöðvun í landinu þar til að ríkisstjórnin víkur. Þetta er alveg galið fólk GHH og ISG sem skynjar ekkert! Ekkert hvað er í gangi í þjóðfélaginu. Ég er með fólk í vinnu og þeirra launahækkanir frá því í ársbyrjun eru gufaðar upp í "skítalykt"
Það virðist ekki hægt að koma því inn í hausinn á Geir H(eld ég geri ekki neitt) að þetta ástand er glórulaust og aðgerðarleysið hjá þessari aumu ríkisstjórn gagnvart íbúum landsins ótrúlegt.

Skorrdal sagði...

Eina "valdaafsalið" sem stjórnmálamenn óttast, eru eigin völd - hefur ekkert með þjóðina að gera, enda skiptum við þetta fólk litlu sem engu máli, nema þegar þeir þurfa að nauðga okkur á kjörstað, til að samþykkja það arð- og valdarán sem fer fram í þingsölum landsins.

Því miður, kæri Guðmundur, þá virðist verkalýðshreyfingin vera hálf geld síðustu árin. Ég efast um að okkur takist að fá samstöðu hjá fólkinu. Það hefur enginn efni á vinnustöðvun - svo skuldsett eru heimilin, að íbúarnir eru ekkert annað en leiguliðar, sem þurfa að þræla myrkanna á milli. Og eftir margra áratuga baráttu verkalýðshreyfingarinnar, geta stórfyrirtæki gengið framhjá öllum samningum, í krafti stærðar sinnar; nú er 45 klst. vinnuvika hin nýja dagskipun og eftirlit með starfsfólki ekkert ósvipuð og Orwell boðaði. Á meðan hafa verkalýðsforingjar fitnað, en fólkið á gólfinu lepur dauðan úr skel.