fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Tvær þjóðir

Hef svo sem heyrt margar sögur um háttalag yfirstéttarinnar, veiðiferðir í boði fyrirtækja, fjárfestingarfyrirtækja, banka og fleiri. Þessi umræða með Guðlaug, Villa og Björn Inga kemur ekki á óvart. Af þessum sökum kímir maður alltaf þegar þessir hinir sömu setja upp vandlætingarsvip yfir hegðum Kremlverja og hælast svo um gæði og vandaða lifnaðarhætti hinna öfgafullu hægri manna. Það er nákvæmlega engin munur á þessu liði. Það nýtir öll tækifæri til þess að maka krókinn og draga til sín gæði, skattfríðindi, eftirlaun starfsbyrjunabónus og starfslokabónus.

Það sem kemur ælubragðinu upp í hálsinn nokkrum sinnum á ári er þegar við hittum þetta lið og ætlum að fara að ræða úrbætur á launakjörum almennra starfsmanna. Þá er settur þetta lið upp sérstakan ábyrgðarsvip og horfir í augu okkar fulltrúa lýðsins og segja; „Heyrðu nú Guðmundur, þú hlýtur að átta þig á því að nú verðum við að sýna ábyrgð og getum ekki farið að raska stöðugleikanum. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar.“

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þeir fari beint í laxveiðar Gulli og hans aðstoðarfólk þegar hann er búinn að hafna launakröfum ljósmæðra, hjúkrunarkvenna og sjúkraliða, eða lætur hann líða tvo til þrjá daga áður en lagt er í hann? Eða þá borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem nota Orkuveituna sem veizluföng fyrir sjálfa sig. Semja við sjálfa sig um margföld laun almennra starfsmanna fyrir það eitt að sitja á stjórnarfundum. Ekki dettur nokkrum manni í hug að þeir hafi þar nokkuð til málanna að leggja. Orkuveitan er eins og þeir hafa sjálfir margoft sagt, hátæknifyrirtæki byggt á mikilli reynslu og tækniþekkingu starfsmanna. Litlir sætir strákar sem ná inn í prófkjörum með aðstoð íþróttaklúbba nýstignir í skóla hafa ekkert í þá umræða að gera. Enda snúa þeir sér að kynningarveizlum í Arabíu, undirskriftum viljayfirlýsinga og veiðitúrum.

Maður sem ég hef ástæðu til þess að trúa sagði mér að aðferð þessara gutta til þess að velja besta borðvínið með steikinni í veizlunum sem þeir halda á kostnað almennra launamanna sé sú að fá þjóninn til þess að koma með 5 flöskur af dýrasta víninu sem til er á staðnum. Þetta eru vín sem kosta 15 – 25 þús. kr. flaskan. Þeir láta stilla þeim á borð, standa upp og fara að hverju horni og hrista svo borðið rösklega. Sú flaska sem brotnar síðast er sko borðvínið sem þeir ælta að drekka það kvöldið. Takk fyrir okkur skúringakonur og konurnar í uppvaskinu. Hrópa þeir svo hlægjandi. Pöntum svo 15 þús. kr. vindla á eftir með kaffinu og 50 þús. kr. koníakinu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

„Við svínin vinnum með heilanum. Öll skipulagning og rekstur búskaparins hvílir á herðum okkar. Dag og nótt vökum við yfir velferð ykkar. Það er ykkar vegna að við drekkum mjólkina og étum eplin."

Rómverji